Píanókonsert
Nína Margrét Grímsdóttir, einn fremsti klassíski píanóleikari landsins, flytur píanókonsert eftir Mozart ásamt Hjalta Þór Davíðssyni.
Á tónleikunum verður fluttur píanókonsert eftir W.A. Mozart í A-dúr K488 í þremur köflum. Nína Margrét Grímsdóttir leikur einleikspartinn ásamt Hjalta Þór Davíðssyni sem leikur hljómsveitarpartinn með henni á annað píanó. Nína Margrét flytur þennan píanókonsert með Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna undir stjórn Oliver Kentish í Seltjarnarneskirkju 12. okt. nk. en hún hefur áður komið fram með hljómsveitinni 2016 þegar hún lék Mozart konsert í C-dúr K467 við mjög góðar undirtektir.
Nína Margrét Grímsdóttir er í fremstu röð klassískra píanóleikara landsins. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, LGSM prófi frá Guildhall School of Music and Drama, meistaraprófi frá City University í London, Professional Studies Diploma frá Mannes College of Music í New York og doktorsprófi í píanóleik frá City University of New York. Hún hefur komið fram á Íslandi, Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína sem einleikari með hljómsveitum og í kammertónlist. Hún hefur hljóðritað fimm geisladiska fyrir Naxos, BIS, Acte Préalable og Skref sem allir hafa hlotið frábæra dóma í Gramophone Awards Issue, BBC Music Magazine, Glasgow Herald, Crescendo-Magazine, Xi ́an Evening News og High Fidelity.