Mannauðsstefna

Mannauðs- og mannréttindastefna Sóltúns

Markmið mannauðs- og mannréttindastefnu Sóltúns er að laða að, ráða og halda í hæft, áhugasamt og traust starfsfólk og efla það í faglegum og persónulegum vexti. Mannauður Sóltúns er verðmætasta auðlind fyrirtækisins og skiptir sköpum þegar kemur að velgengni og árangri. Við leggjum áherslu á að skapa eftirsóknarvert og nærandi starfsumhverfi sem einkennist af jákvæðum samskiptum, sterkri liðsheild, samvinnu, framþróun, umhyggju, virðingu og vellíðan og einsetjum okkur að veita persónulega og framúrskarandi þjónustu.

Nærandi samfélag

Við leggjum okkur fram við að skapa eftirsóknarvert og nærandi starfsumhverfi með jákvæðri vinnustaðamenningu sem styður við heilsu, vellíðan, ánægju og öryggi starfsfólks. Við leggjum áherslu á góða samvinnu allra sviða og störfum sem ein liðsheild.

 

Ráðningar og móttaka nýs starfsfólks

Okkar stefna er að hafa ávallt yfir að skipa hæfu, áhugasömu og traustu starfsfólki með fjölbreyttan bakgrunn. Við leitumst við að ráða hæfasta umsækjandann með tilliti til þekkingar, færni og reynslu. Við viljum vera aðlaðandi vinnustaður og einsetjum okkur að taka vel á móti nýju starfsfólki. Til að tryggja gagnsæi og jafnræði, eru öll störf stjórnenda og sérfræðinga auglýst.

 

Samskipti og upplýsingagjöf

Við leggjum okkur fram við að eiga í jákvæðum, hvetjandi og opnum samskiptum með umhyggju, virðingu, vellíðan og traust að leiðarljósi. Við leitumst við að deila þekkingu og miðla upplýsingum og leggjum áherslu á markvissa upplýsingagjöf og skýrar boðleiðir. Við veitum uppbyggilega endurgjöf, stundum virka hlustun, einblínum á styrkleika og leggjum áherslu á að stjórnendur gangi fram með góðu fordæmi.

 

Fræðsla og þróun

Við hvetjum starfsfólk til þess að afla sér nýrrar þekkingar og færni og sækja sér endurmenntun svo það geti hámarkað árangur og vellíðan í starfi. Við bjóðum upp á fjölbreytta fræðslu og regluleg námskeið til að starfsfólk fái tækifæri til að efla persónulega og faglega færni.

Heilsa, vellíðan og öryggi

Markmið okkar er að skapa jákvætt og heilbrigt starfsumhverfi þar sem starfsfólk er öruggt og líður vel. Við hugum að vellíðan og velsæld starfsfólks og leggjum áherslu á að starfsfólk hlúi að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu með heilsutengdum forvörnum, stuðningi, öryggi og vinnuvernd.

 

Jafnrétti og fjölbreytileiki

Hjá Sóltúni starfar fjölbreyttur hópur fólks og leggjum við áherslu á jafnrétti, fjölbreytileika, inngildingu og mannréttindi. Allt starfsfólk á rétt á að komið sé fram við það af virðingu og vinnum við markvisst gegn hver kyns mismunum. Við einsetjum okkur að tryggja jafna möguleika og jöfn laun fyrir sambærileg störf.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og hvers kyns ofbeldi (EKKO) er ekki liðið á Sóltúni undir neinum kringumstæðum og eru allar ábendingar um slíkt teknar alvarlega. Nánari upplýsingar er að finna í EKKO viðbragðsáætlun Sóltúns.

 

Jafnvægi milli einkalífs og vinnu

Við leitumst við að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs með því að gefa starfsfólki kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri hagræðingu á vinnutíma þar sem því verður við komið.