Mannauðsstefna

Sóltún leitast við að hafa á að skipa starfsfólki sem býr yfir bestu þekkingu og færni til starfa á sínu sviði á hverjum tíma. Starfsfólkið skal búa yfir eiginleikum til að skapa umhyggjusamt, gefandi og uppbyggjandi andrúmsloft. Með því tekst að tryggja íbúum Sóltúns besta mögulega þjónustu.

Í því skyni verður vandað til ráðningar starfsfólks með ofangreint í huga, með ráðningarsamtölum, umsögnum og athugun á menntunar- og starfsferli ásamt samskiptahæfni.

Við ráðningu verður lögð áhersla á aðlögun starfsmanna með sérstöku aðlögunarferli, þar sem leitast verður við að stilla saman strengi þá sem heimilið stendur fyrir og framlag hins nýja starfsmanns til þjónustunnar.

Hugmyndafræði, markmiðum og leiðum til að ná þeim er síðan fylgt eftir með reglubundnum starfsmannasamtölum. Starfsmaður og yfirmaður hans fara saman yfir alla þá þætti sem máli skipta til að árangri verði náð í þjónustunni við íbúa heimilisins og þátt hlutaðeigandi starfsmanns í því.

Þannig er um að ræða forvarnastarf, þar sem leitast er við með skipulögðum hætti að sjá vandamálin fyrir og gera umbætur áður en þau hafa áhrif á starfsemina. Ennfremur verður lögð áhersla á að starfsmenn fái reglubundið mat á eigin frammistöðu þar sem áhersla er lögð á styrkleika þeirra í starfi og hvernig þeir fái notið sín, og á uppbyggilegan hátt skoðaðir veikleikar í starfi sem taka þarf á og byggja upp.

Starfsmannahandbók með lykilupplýsingum er aðgengileg á hverri hjúkrunarstöð og á innri vefsíðu.

Helsti auður Sóltúns er mannauðurinn.

Lykilatriði er að starfsfólki líði vel í starfi, fái tækifæri til njóta sín og leggja sitt að mörkum til þróunar þjónustunnar; meginatriði er því að stöðugleiki sé í starfsmannahaldi og að vel sé tekið á móti nýliðum. Starfslýsingar liggja fyrir um öll störf í Sóltúni, ásamt aðlögunarferli.

Fyrstu kynni sem starfsmaður fær af vinnustað skiptir miklu máli, bæði fyrir starfsmanninn og félagið. Báðir aðilar hafa ákveðnar væntingar til samstarfsins sem nauðsynlegt er að samræma. Þess vegna er mikilvægt að aðlögun starfsmanns heppnist vel.

Það er mikilvægt að þeir sem eru ráðnir til starfa í Sóltún þekki skráð og óskráð lög þess.

Kynningardagskrá og starfsaðlögunarferli liggur því fyrir þegar nýliði hefur störf. Henni ber að fylgja eftir með því að einn starfsmaður (eins konar leiðbeinandi) taki að sér að koma nýliðanum inn í starfið. Mikilvægt er að sá sem tekur að sér aðlögunarhlutverkið sé góð fyrirmynd og hafi náð góðri færni í starfi.

Markmiðið er að nýliðar fái markvissa og árangursríka aðlögun.

Með því er hægt að tryggja eftirfarandi atriði:

  • Auðvelda þeim að tileinka sér færni í umönnun íbúa Sóltúns.
  • Tryggja að þau fái tækifæri til að nýta sér sem best þekkingu sína og hæfni.
  • Stytta þann tíma sem þarf til að ná færni og öryggi í starfi.
  • Starfsmaður tileinki sér skráðar og óskráðar reglur Sóltúns.
  • Stuðla að starfsánægju.