Að flytja og aðlagast
Að flytja á hjúkrunarheimili er stór breyting á lífi íbúa og aðstandenda
Ýmsar tilfinningar geta gert vart við sig við flutning á hjúkrunarheimili, allt frá því að finna fyrir létti yfir í að upplifa óvissu. Mikilvægt er að íbúinn, aðstandendur og starfsfólk vinni saman að því að aðlögun takist vel og að íbúinn upplifi öryggi og vellíðan.
Við komu á hjúkrunarheimilið tekur hjúkrunarfræðingur á móti íbúanum. Fljótlega eftir flutning er haldinn fundur með íbúa og aðstandendum þar sem farið er yfir gang mála og næstu skref ákveðin með hag íbúans að leiðarljósi.
Meðferðaróskir
Þegar heilsunni hrakar er hollt að hugleiða eigið viðhorf gagnvart frekari heilsufarsbreytingum. Meðferðaróskir eru skráðar í sjúkraskrá og fagfólk hjúkrunarheimilisins vinnur út frá þeim.
Ef óskir íbúans liggja ekki fyrir við flutning ákveður læknir eða hjúkrunarfræðingur meðferðarform byggt á faglegum grunni, að höfðu samráði við íbúa og/eða aðstandendur.
Æviágrip
Við flutning eru nýir íbúar beðnir um að fylla út æviágrip. Æviágripið er mikilvægt verkfæri fyrir starfsfólk við að veita íbúum persónulega þjónustu og eiga samtöl við íbúa sem snúa að því sem íbúinn þekkir og hefur áhuga á.
Inntökufundur
Fljótlega eftir flutning boðar hjúkrunarfræðingur íbúa og aðstandendur á fund. Þar er farið yfir gang mála, rætt um meðferðaróskir, undirrituð skjöl afhent frá aðstandendum (æviágrip, umsókn um hár- og fótaaðgerðarþjónustu og heimild til upplýsingaöflunar), farið yfir handbókina og fleira.
Heimsóknir
Aðstandendur eru alltaf velkomnir í heimsókn, enda er mikilvægt fyrir fjölskyldur að hlúa að tengslum sínum.
Skipulögð dagskrá fer almennt fram fyrri hluta dags á virkum dögum og er því meira um heimsóknir utan þess tíma.
Heimilin eru opin kl. 7:00 – 20.00 alla daga. Utan þess tíma geta aðstandendur hringt dyrabjöllu eða komist inn með aðgangslyklum sem hægt er að fá hjá hjúkrunarfræðingum.
Aðstandendum er velkomið að koma með veitingar og njóta inni hjá íbúa eða í sameiginlegu setustofunni.
Frekari upplýsingar fyrir íbúa
Þjónusta við íbúa
Við leggjum áherslu á stuðning og samvinnu við aðstandendur. Kynntu þér helstu þjónustu sem íbúar fá hér.
Að sækja um pláss
Öll viljum við búa á eigin heimili eins lengi og hægt er. Þegar sú þjónusta sem er í boði dugir ekki til og aðstæður þannig að fólk sér ekki fram á að geta búið heima, þarf að sækja um pláss á hjúkrunarheimili.
Handbók Sóltúns
Í handbók Sóltúns eru ítarlegar upplýsingar um þjónustu, skipulag og aðbúnað fyrir íbúa og aðstandendur.
Handbók Sólvangs
Í handbók Sólvangs eru ítarlegar upplýsingar um þjónustu, skipulag og aðbúnað fyrir íbúa og aðstandendur.