Hvað er svona merkilegt við það að vera hinsegin? Fræðsla um hinseginleikann fyrir eldra fólk í endurhæfingu

Sóltún Heilsusetur býður eldra fólki upp á metnaðarfulla 4-6 vikna endurhæfingardvöl, með það að markmiði að bæta lífsgæði þeirra eftir að heim er komið.

Markmið iðjuþjálfunar í endurhæfingu aldraðra

Áhersla iðjuþjálfunar snýr að því sem skiptir einstaklinginn máli, og í endurhæfingu aldraðra er mikilvægt að styðja við sjálfsmynd, lífsgæði og sjálfstæða búsetu. Markmið iðjuþjálfunar í endurhæfingunni á Heilsusetrinu er að styðja dvalargesti við að endurheimta, viðhalda eða bæta færni sína til að taka þátt í daglegu lífi. Sérstök áhersla er lögð á að einstaklingurinn geti búið heima hjá sér við sem mest sjálfstæði og öryggi en einnig að hann geti tekið virkan þátt í samfélaginu. Unnið er að þessu með hópþjálfun og einstaklingsstuðningi en einnig með fræðslu.

Fræðsla um hinseginleikann

Í dvölinni fá dvalargestir Heilsusetursins fjölbreytta fræðslu sem styður við ofangreind markmið, t.d. fræðslu um smáhjálpartæki, byltuvarnir, svefn, næringu og hreyfingu - en einnig um hinseginleikann. Aðstoðarkvár iðjuþjálfa annast hinsegin fræðsluna með stuðningi frá iðjuþjálfa. Kveikjan að þeirri fræðslu var sú að dvalargestir spurðu aðstoðarkvár reglulega spurninga sem snéru að kynvitund hennar. Það leiddi af sér samtöl um hinsegin málefni og í kjölfarið þróaðist hugmyndin að formlegri fræðslu. Hún byggir bæði á reynslu hennar úr jafningjafræðslu Hafnarfjarðar og á persónulegri innsýn sem hinsegin einstaklingur.

Í fræðslunni er m.a. farið yfir hugtök á borð við kvár, kynvitund, trans, intersex og kyntjáningu. Við sýnum því skilning að mörg þessara orða og orðfæra eru ný og geta verið erfið að tileinka sér - sérstaklega þegar þau eru ekki í daglegri notkun.

Þetta á ekki síst við hjá þeim kynslóðum fólks sem dvelja á Heilsusetrinu og ólust upp á tímum þar sem oft var gerður lítill greinarmunur  á fjölbreytileika hinsegin fólks. Það var gjarnan allt sett undir sama hatt og álitið skrýtið og jafnvel afbrigðilegt.

Þrátt fyrir breytta tíma og að meirihluti þessa aldurshóps sé orðinn opnari fyrir fjölbreytileikanum, þá verða sum feimin í samskiptum við hinsegin fólk. Mörg vita ekki hvernig eigi að ávarpa viðkomandi né hvaða spurninga sé viðeigandi að spyrja án þess að vera dónaleg. Oft er góður vilji að baki en vegna óöryggis getur þeim þótt samskiptin óþægileg.  Við ræðum um mikilvægi þess að sýna virðingu og að það megi gera mistök svo lengi sem umburðarlyndi og vilji til uppfræðslu eru til staðar.

Jákvæðar móttökur

Dvalargestir Heilsusetursins hafa tekið fræðslunni fagnandi, enda styður hún vel við markmið þeirra um að efla sjálfstæði og þátttöku í samfélaginu. Fræðslan er sett upp sem samtal fremur en hefðbundinn fyrirlestur, þar sem rými er fyrir spurningar og vangaveltur.

Umsjónarfólki fræðslunnar er ljóst að flestir eru áhugasamir um umfjöllunarefnið sjálft en hún er einnig vettvangur til þess að spyrja aðstoðarkvár hvernig hún skilgreinir sig. Þá er þetta einnig tækifæri fyrir dvalargesti til að deila sinni reynslu. Staðreyndin er auðvitað sú að hinseginleikinn hefur alltaf verið til, hvort sem rætt var um hann eða ekki, og oft ber fólk með sér reynslu sem það hefur ekki fengið tækifæri til að ræða.

Fólk getur einnig verið feimið að spyrja hver munurinn sé á mismunandi skilgreiningum undir hinsegin regnhlífinni. Það vill ekki segja eitthvað rangt og finnst gott að fá þennan örugga vettvang til að ræða málin. Mikilvægast af öllu er síðan að komast að því hver þessi kvár eru. Þegar bæði konur og kvárar voru hvött til að leggja niður störf fyrir Kvennafrídaginn 2023 höfðu mörg ekki heyrt minnst á orðið. Ef þú lesandi góður ert einnig að velta sömu spurningu fyrir þér, þá eru kvárar hópur fólks sem skilgreinir kyn sitt á fjölbreyttan hátt, t.d. 1) ekki sem karl né konu, 2) sem blöndu af karli og konu, eða 3) utan þeirra kynja.

Víðtæk áhrif fræðslunnar

En á svona fræðsla erindi við þennan hóp? Stutta svarið er já.

Kostir þess að bjóða upp á fræðsluna eru ýmsir, bæði fyrir dvalargesti Heilsusetursins og starfsfólk en einnig fyrir samfélagið í heild sinni. Hér skal tæpt á nokkrum:

1. Fyrir hinsegin dvalargesti:

●        Fræðslan sendir skýr skilaboð um að hinsegin fólk er velkomið og því fagnað.

●        Hún stuðlar að aukinni félagslegri þátttöku innan hópsins.

●        Hún styrkir tengsl hinsegin dvalargesti með því að sýna þeim að þeir eru ekki einir. Við það opnast möguleikar á tengslamyndun og stuðningi frá öðrum sem deila svipaðri reynslu.

●        Margt hinsegin eldra fólk hefur lifað meirihluta lífs síns í felum eða upplifað útskúfun. Fræðslan gefur skilaboð um að það hafi rétt á að vera nákvæmlega eins og það er og getur þannig aukið lífsgæði þess.

●        Ef einstaklingurinn hefur aldrei haft tækifæri til að tala um sína kynhneigð, kyntjáningu o.fl., getur svona fræðsla verið öruggt fyrsta skref. Hún sýnir að einstaklingurinn er ekki einn.

●        Fræðslan er valdeflandi fyrir hinsegin dvalargesti á margan hátt, m.a. með því að sýna þeim að þeir eru metnir að verðleikum og hún gerir þeim kleift að sjá fyrir sér framtíð þar sem þeir geta verið þeir sjálfir, í nýjum aðstæðum og með nýju fólki.

2. Fyrir starfsfólk og aðra dvalargesti:

●        Fræðslan eykur þekkingu og stuðlar að opnari og jákvæðari samskiptum og umræðum, ekki bara um hinsegin málefni heldur einnig fjölbreytileika og ólíka lífsreynslu. Þetta auðveldar að mynda traust og nánd í endurhæfingunni og stuðlar að betri andlegri líðan og félagslegri þátttöku.

●        Hún stuðlar að öruggu og virðingarríku samfélagi innan vinnustaðarins.

●        Hún dregur úr fordómum og misskilningi sem kunna að hafa fylgt uppeldis- og menningaráhrifum fyrri tíma. Fræðslan hjálpar fólki að sjá eigin hugsanir í nýju ljósi, við lærum jú og þroskumst alla ævi. Þrátt fyrir að fólk hafi alist upp við ákveðnar hugmyndir, þá getur fræðslan gefið tækifæri til að skoða þær og jafnvel finna fyrir létti við að losa sig við fordóma.

●        Margir eldri borgarar þekkja annað hinsegin fólk og eiga hinsegin ættingja en finna fyrir fordómum í garð þeirra, sérstaklega frá sinni eigin kynslóð. Fræðslan gefur þeim stuðning og sendir skilaboð um að þeir geti verið stoltir af sínu fólki.

●        Yngri kynslóðir eru almennt með betra aðgengi að hinsegin fræðslu og hinsegin málefnum. Þær eru því líklegri til að tala meira um hinseginleikann og vera opnari fyrir honum. Með aukinni þekkingu og skilningi verður eldra fólk öruggara með að tala um hinseginleikann við börn, barnabörn og aðra ættingja og vini sem ýtir undir frekari tengslamyndun.

3. Fyrir samfélagið í heild sinni

●       Fræðslan styður við mannréttindi og undirstrikar að fagmennska í heilbrigðisþjónustu verði að fela í sér virðingu fyrir fjölbreytileika. Öll eiga rétt á því að vera séð, virt og fá þjónustu sem mætir þeim eins og þau eru.

●       Hún vinnur gegn þöggun og eykur sýnileika hinsegin fólks, sem dregur úr fordómum og misskilningi.

●       Hún dregur úr jaðarsetningu og skapar tækifæri til samstöðu. Hún hvetur eldri borgara, sem sjálf hafa upplifað mismunun, til að sýna stuðning við aðra jaðarhópa - sem styrkir bæði þau sjálf og samfélagið í heild.

●       Þekking og virðing fyrir fjölbreytileika hefur bein áhrif á lýðheilsu, sér í lagi geðheilbrigði. Þegar samfélagið sendir skýr skilaboð um að öll séu velkomin, minnkar hættan á félagslegri einangrun, þunglyndi og sjálfsskaða meðal hinsegin fólks.

Með því að efla þekkingu og virðingu fyrir hinseginleikanum sköpum við samfélag þar sem öll geta lifað við öryggi og reisn. Þessi breyting byrjar með hverjum og einum. Það þarf nefnilega ekki alltaf stórar byltingar til að breyta heiminum. Hvert og eitt okkar hefur vald til þess með litlum skrefum.

Eldri borgarar eru þar engin undantekning. Með því að tala opinskátt og miðla þekkingu sinni áfram til ættingja, vina og nágranna geta þau sannanlega haft jákvæð áhrif á samfélagið. Með opnari umræðu verður hinseginleikinn sjálfsagðari og hluti af daglegum veruleika. Því þegar allt kemur til alls, hvað er svona merkilegt við það að vera hinsegin?

 

Thelma Hafþórsdóttir Byrd, sérfræðingur í vinnuvernd og iðjuþjálfi

Svenný Kristinsdóttir, aðstoðarkvár iðjuþjálfa

Höfundar vinna báðir á Sóltúni Heilsusetri