Hjúkrun er þungamiðjan
í þjónustu okkar við íbúa

Á hjúkrunarheimilum okkar er lagt upp úr faglegri og persónulegri heilbrigðisþjónustu og umönnun.

Við leggjum áherslu á stuðning og samvinnu við aðstandendur. Kynntu þér helstu þjónustu sem íbúar fá hér fyrir neðan.

Heilbrigðisþjónusta

Á heimilunum er hjúkrunarfræðingur á vakt allan sólarhringinn ásamt sjúkraliðum og öðru starfsfólki sem veita hjúkrun og umönnun eftir þörfum hvers og eins.

Læknar eru með reglulega viðveru á heimilum okkar og bakvaktir þess á milli. Læknar ákveða lyfjagjöf og aðra meðferð í samráði við íbúa, aðstandendur og aðra sérfræðinga. Læknir hvers heimilis sér um að panta rannsóknir og vísa á sérfræðilækna.

Sálgæsla

Þjónusta djákna á Sóltúni og Sólvangi er öllum opin og veitt óháð trúar- og lífsskoðunum fólks. Hún nýtist sérstaklega þeim sem eru að glíma við erfiðar tilfinningar sem tengjast veikindum og áföllum. Hægt er að fá viðtal við djákna eftir þörfum.

Sjúkra- og iðjuþjálfun

Á heimilunum starfa sjúkra- og iðjuþjálfar sem ásamt aðstoðarfólki veita þjónustuna. Sjúkra- og iðjuþjálfun fer fram þar sem hentar hverju sinni, bæði í sérstakri aðstöðu og inni á einingunum sjálfum.

Þverfaglegt teymi okkar metur þarfir íbúa fyrir þjálfun, endurhæfingu og hjálpartæki. Markmiðið með bæði sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun er að viðhalda færni, stuðla að vellíðan og létta daglegt líf.

Félagsstarf

Heimili okkar bjóða upp á fjölbreytt félagsstarf fyrir íbúa, bæði inni á deildum og í samkomusölum. Við nýtum þessar stundir til að viðhalda félagslegri virkni íbúa og gera þeim kleift að mynda ný tengsl.

Hvort heimili um sig er með dagskrá og koma stærri viðburðir fram í viðburðadagatali Sóltúns og Sólvangs. Aðstandendur eru velkomnir á þessa viðburði.

Frekari upplýsingar fyrir íbúa

Að sækja um

Það getur verið krefjandi að sækja um hjúkrunarrými. Hér getur þú lesið nánar um ferlið og við hverju má búast eftir að búið er að sækja um færni- og heilsumat.

SkoðaOpnast í nýjum glugga

Að flytja og aðlagast

Það er margt sem þarf að huga að við flutning á hjúkrunarheimili. Við höfum tekið saman helstu upplýsingar sem gott er að hafa við höndina við flutninga og aðlögun.

SkoðaOpnast í nýjum glugga

Spurt og svarað

Kostnaður íbúa við dvöl á Sóltúni og Sólvangi er sá sami og á öðrum heimilum.

Lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun til íbúa falla niður eftir að íbúi flytur inn á hjúkrunarheimili. Eftir það fær íbúi greitt ráðstöfunarfé eða tekur þátt í dvalarkostnaði. Fyrirkomulagið fer eftir tekjum sem íbúi fær, t.d. frá lífeyrissjóði.

TryggingastofnunOpnast í nýjum glugga veitir nánari upplýsingar um dvalarkostnað vegna hjúkrunarrýma.

Í stuttu máli er eftirfarandi innifalið:

- Íbúð á heimilinu
- Regluleg þrif og viðhald húsnæðis
- Almennur þvottur á fatnaði
- Máltíðir samkvæmt matseðli
- Hjúkrun og dagleg umönnun
- Hjúkrunarvörur
- Læknishjálp og lyf
- Sjúkraþjálfun
- Iðjuþjálfun
- Félagsstarf og hreyfihópar
- Sálgæsla

Eftirfarandi er ekki innifalið í dvalargjaldi:

- Þjónusta hárgreiðslustofu
- Þjónusta fótaaðgerðastofu
- Tannlæknaþjónusta
- Viðburðir utanhúss
- Húsgögn, rúmföt, ísskápur og leirtau
- Sjónvarp og önnur tæki í íbúð
- Áskriftir að sjónvarpi og neti
- Snyrtivörur
- Máltíðir fyrir gesti
- Fatahreinsun
- Fjármálaþjónusta


Nánari sundurliðun er að finna í handbókum Sóltúns og Sólvangs.

Já, en þá greiða íbúar eða aðstandendur fyrir þjónustuna. Lyf sem aðrir læknar vísa á geta haft áhrif á þá meðferð sem er ákveðin af lækni heimilisins og því vörum við við því að nota þau án samráðs.

Íbúar og aðstandendur þeirra bera ábyrgð á tannheilsu. Tannlæknaþjónusta er að fullu niðurgreidd fyrir 67 ára og eldri. Við hvetjum aðstandendur til að aðstoða íbúa við tannlæknisheimsóknir.

Íbúar og aðstandendur bera ábyrgð á áhöldum og snyrtivörum. Sápa inni á herbergjum er innifalin. Á heimilum okkar er einnig hárgreiðslustofa og fótaaðgerðastofa sem stendur íbúum til boða gegn gjaldi og við hvetjum fólk til að nýta.

Heimilin annast reglulegan þvott á einkafatnaði íbúa, án ábyrgðar. Fatnaður sem þarf að handþvo eða senda í hreinsun er á ábyrgð íbúa og aðstandenda.

Sjúkra- og iðjuþjálfar meta þörf íbúa fyrir hjálpartæki. Íbúar eiga rétt á styrkjum frá Sjúkratryggingum Íslands vegna vissra hjálpartækja.

Eftirfarandi hjálpartæki eru innifalin í dvalargjaldi:

- Loftdýnur
- Stoðtæki
- Súrefnissíur

Hreinlæti íbúða er sameiginleg ábyrgð starfsfólks, íbúa og aðstandenda. Almenn þrif á gólfum, baðherbergjum og flötum fara fram reglulega. Rusl í eldhússkápum, uppvask og afþurrkun af persónulegum munum er á ábyrgð íbúa og aðstandenda.

Starfsfólk Sóltúns og Sólvangs fer reglulega í styttri gönguferðir með íbúum í nágrenni heimilisins.
Við gerum ráð fyrir því að aðstandendur fari með íbúum út fyrir heimilið að sækja þjónustu eða viðburði. Mikilvægt er að láta vaktina í viðkomandi einingu vita af því fyrirfram.

Sjónvarp með RÚV og útvarp er í öllum sameiginlegum setustofum. Þráðlaust gestanet er í húsunum.

Ef íbúi vill vera með eigið sjónvarp í sinni íbúð er aðstandendum frjálst að setja slíkt upp. Ethernet- eða loftnetstengill er í hverri íbúð.

Íbúar og aðstandendur geta nýtt nettengla í veggjum þar sem þeir eru fyrir hendi en þurfa sjálfir að greiða fyrir áskriftir að sjónvarpi, heimasíma eða neti, og sjá um uppsetningar á búnaði. Enginn tæknisérfræðingur starfar á heimilunum.

Nánari upplýsingar um tæknimál er að finna í handbókum Sóltúns og Sólvangs.

Ef aðrar spurningar vakna, sendu okkur þá línu og við svörum þér við fyrsta tækifæri.

Hafa sambandOpnast í nýjum glugga