Hugmyndafræði Sóltúns

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði hjúkrunar hefur umhyggju fyrir einstaklingnum í fyrirrúmi, þar sem sjálfræði hans er virt í allri umönnun.

Heimilisandi og virðing fyrir einkalífi hvers skjólstæðings er ráðandi um leið og öryggiskennd sem hlýst af sambýli og sólarhringshjúkrunarþjónustu er náð á heimilunum. Athafnir daglegs lífs eru viðfangsefnið í hverju sambýli með áherslu á þátttöku íbúa og aðstandenda þeirra eftir getu, óskum og vilja hvers og eins. 

Markmið heimila Sóltúns er að hjúkrun og önnur þjónusta sé veitt á faglegan og ábyrgan hátt. Heilsufarsmat þarf að vera heildrænt, hjúkrunaráætlun skráð og háð stöðugri endurskoðun með það að markmiði að auka og viðhalda sjálfsbjargargetu íbúa og getu hans til að laga sig að breyttum aðstæðum. Öryggi íbúa og vellíðan er í fyrirrúmi ásamt því að viðhalda sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þrátt fyrir hrakandi heilsufar og færnitap. Hjúkrun byggist á hjúkrunarfræðilegum kenningum, reynsluþekkingu og þeim ramma sem innri og ytri aðstæður setja heimilinu. 

Kennismiðir Sóltúnsmódelsins

Hugmyndafræði Sóltúns er byggð á kenningum hjúkrunarfræðinganna Florence Nightingale, Dorothea Orem, sister Callista Roy og hjúkrunarheimspekingnum Merry Scheel.

  • Florence Nightingale móðir hjúkrunarfræðinnar lagði áherslu á góðan aðbúnað, hreinlæti, ferskt loft og umhyggju svo fátt eitt sé nefnt. Florence lagði áherslu á hjúkrun sem ferli og mikilvægi samfellu í hjúkrunarþjónustu, ásamt skráningu til að tryggja heildræna þjónustu.
  • Dorothea Orem fræðimaður í hjúkrunarfræði þróaði „Hjálp til sjálfhjálpar“ hjúkrunarkenninguna sem er mikilvæg í hjúkrun aldraðra íbúa hjúkrunarheimila sem allir hafa orðið fyrir miklu færnistapi. Þar sem geta til sjálfshjálpar, hversu smá sem hún er, örvar og stuðlar að viðhaldi á reisn og sjálfsvirðingu manneskjunnar.
  • Sister Callista Roy þróaði „Adaptation model of nursing“ þar sem horft er á einstaklinginn/persónuna, heilbrigði, umhverfi og hjúkrun sem órjúfanlega heild í hjúkrunarferlinu. Og hvernig einstaklingurinn notar aðlögunarhæfni (coping skills) til að takast á við streituvalda. Kenningar hennar eru mikilvægar til að aðstoða íbúa hjúkrunarheimila við að takast á við missi sem fylgir flutningi á hjúkrunarheimili vegna aðstæðna eins og heilsufarsmissi. 
  • Merry Schell hefur m.a. gefið út bókina „Den Interaktionelle sygeplejepraksis“. Kenningar hennar notast við náttúruvísindin til að greina orsakir fyrirbæra, hugvísindin til að skilja fyrirbærin og krítísk vísindi til að takast á við þau og koma á stað breytingum til betri árangurs.
  • Jafnframt styðst heimilið við kenningu Tom Kitwood sem sérstaklega er miðuð að þörfum fólks með heilabilun. Það sem er einstakt við hugmyndafræði og vinnu Kitwood er að hjá honum er einstaklingurinn með sjúkdóminn miðpunktur allrar umræðu og umönnunar. Hann nálgast efnið á þverfaglegan hátt. Umönnunin er persónumiðuð og áherslan er lögð á manneskjuna á bak við sjúkdóminn (Personhood and experience model). Að auki  er stuðst við lífsneistakenningu Jane Verity (Coping and sparkle of life) og gleðina í daglega lífinu.