Áramótakveðja forstjóra

30.12.2022 08:44

Árið 2022 var einstaklega annasamt með mörgum áskorunum sem starfsfólk hjúkrunarheimila leysti með framúrskarandi hætti með góðri hjálp íbúa, aðstandenda og annarra eins og sjá má þegar við lítum til baka.

 

Á báðum heimilum, Sólvangi í Hafnarfirði og Sóltúni í Reykjavík, lagðist Omicron afbrigðið þungt á starfsfólkið í upphafi árs þar sem meirihluti starfsmanna, eins og þjóðarinnar, fékk Covid. Á Sólvangi í Hafnarfirði smitaðist fyrsti íbúinn frá upphafi heimsfaraldurs í febrúar 2022, sem er fádæma árangur í sóttvörnum enda lögðust allir á eitt að halda vánni úti. Sem betur fer lagðist pestin ekki þungt á flesta íbúana okkar. Með sterkum sóttvörnum náðist að dreifa úr smitum starfsmanna sem gerði það að verkum að ávallt náðist að halda uppi grunnþjónustu og tryggja öryggi íbúa.

  

Árið einkenndist af miklum breytingum og nýsköpun á Sólvangi í þágu aldraðra. 11 ný hjúkrunarrými voru opnuð á annarri hæðinni í endurgerðri eldri byggingu, deild sem heitir Langeyri og þá fjölgaði hjúkrunarrýmum úr 60 í 71. Á Sóltúni eru 92 hjúkrunarrými til samanburðar.

  

Haustið 2022 opnaði ný endurhæfing fyrir aldraða sem kallast Sóltún Heilsusetur sem er nýtt þjónustuúrræði fyrir skjólstæðinga heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu. Úrræðið sem rúmar 39 manns hverju sinni er rekið í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands og markmiðið er að styrkja aldraða markvisst andlega og líkamlega og draga úr hættu á slysum og veikindum vegna hrumleika. Við bindum mjög miklar vonir um árangur þeirra sem nýta sér úrræðið og fögnum því að hið opinbera lagðist í þá vegferð að fjárfesta í forvörnum sem dregur úr eftirspurn eftir dýrari þjónustuúrræðum en einnig bætir lífsgæði og vonandi lengir líf þeirra sem hennar njóta.

 

Heimaþjónustan okkar, Sóltún Heima, veitti framúrskarandi þjónustu til skjólstæðinga í sjálfstæðri búsetu en einnig inn á hjúkrunarheimili. Þetta er gríðarlega mikilvæg þjónusta fyrir fjölskyldur aldraðra þar sem við höfum getað létt undir með umönnun þeirra og stuðlað að auknum lífsgæðum og lengri búsetu heima.

 

Þjónustu- og starfsánægjukannanir sem gerðar hafa verið á árinu sýna að íbúar og aðstandendur eru ánægðir með þjónustuna sem er veitt og starfsfólk er stolt af því að starfa fyrir félögin. Það er ákaflega mikilvægt að fólkinu okkar, starfsfólki og íbúum, líði vel hjá okkur og orðsporið framúrskarandi.

 

Í nóvember urðu tímamótabreytingar innan félaganna þegar stofnandi Sóltúns hjúkrunarheimilis, Anna Birna Jensdóttir, steig til hliðar og ný yfirstjórn tók við Sóltúns félögunum. Anna Birna byggði upp framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og hefur ávallt verið leiðandi í öldrunarþjónustu. Hún heldur áfram forystunni með stjórnarformennsku í Sóltúns félögunum en nýir stjórnendur hafa tekið við daglegum stjórnartaumum. Við sjáum mörg tækifæri við þessar breytingar í rekstri og þjónustu við skjólstæðinga okkar sem munu koma betur í ljós á næstu misserum.

 

Miklar áskoranir eru framundan í öldrunarþjónustu þar sem fjölgun þjónustuúrræða er nauðsynleg til að koma til móts við fjölbreyttari þarfir kynslóðanna sem eru að fara á eftirlaunaaldur á náinni framtíð. Hækkun meðalaldurs þjóðarinnar mun þýða aukin útgjöld til heilbrigðismála nema við förum að horfa á hlutina með öðrum augum og hugsum í nýjum lausnum þar sem fleiri þjónustuaðilar en Ríkið og sveitarfélög koma að borðinu fyrir öll þjónustustig fyrir aldraða. Við munum leggja okkar af mörkum til að byggja upp ný þjónustuúrræði sem þjóna þessum tilgangi.

 

Ég vil þakka samstarfsfólki sérstaklega fyrir ósérhlífni, jákvæðni, dugnað, vönduð vinnubrögð og hollustu á krefjandi ári. Hver og einn einasti starfsmaður er gríðarlega mikilvægur hlekkur í starfseminni. Ég vil einnig þakka íbúum og aðstandendum fyrir afar ánægjuleg samskipti á árinu, frábært samstarf við Hafnarfjarðarbæ, eiganda fasteignarinnar á Sólvangi, og hið opinbera, saman hefur okkur tekist að byggja upp frábæra þjónustu og starfsemi á tveimur starfsstöðum, í Hafnarfirði og Sóltúni, Reykjavík.

 

Við erum ein stór fjölskylda sem leggjumst á eitt að hlúa að skjólstæðingum okkar og veita vandaða heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða. Saman erum við betri.

 

Með þakklæti fyrir árið sem er að líða og megi 2023 færa okkur frið og farsæld.

Halla Thoroddsen

Forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu og dótturfélaga

 

til baka