Upplýsingar vegna afléttinga sóttvarnaráðstafana

25.02.2022 12:36

Kæru aðstandendur

Það er ánægjulegt að hugsa til þess að við getum farið að hlakka til komandi tíma. Íbúar og aðstandendur þeirra hafa sýnt mikið æðruleysi og þolinmæði á þessum tveimur árum sem COVID-19 hefur litað tilveru okkar og starfsmenn hafa staðið hér eins og klettar og eiga hrós skilið fyrir allt sitt framlag í oft á tíðum mjög krefjandi aðstæðum.

Tekið hefur gildi reglugerð þar sem búið er að afnema allar sóttvarnarráðstafanir í samfélaginu. Þó reglugerðin hafi verið afnumin er þó alveg ljóst að við þurfum að fara varlega áfram þar sem ekki hefur myndast „hjarðónæmi“ hér innan Sóltúns á meðal starfsmanna og íbúa. Markmið okkar er ávallt að tryggja öryggi íbúanna og því er nauðsynlegt að lágmarka áhættuna á því að missa of marga starfsmenn frá vinnu í einu vegna veikinda. Einnig er mikilvægt að reyna að vernda íbúanna fyrir smiti eins og hægt er þar sem um viðkvæman hóp er að ræða. Því verður farið skynsamlega í afléttingar hér á Sóltúni í takt við leiðbeiningar sem samráðshópur um starfsemi hjúkrunarheimila og almannavarnir munu setja fram. Við munum upplýsa nánar um næstu skref hér á Sóltúni á mánudaginn og er fram að því engin breyting gerð á heimsóknarreglum.
Það er áfram gríðarlega mikilvægt að aðstandendur komi ekki í heimsókn ef þeir finna fyrir einkennum sem geta bent til COVID-19 smits.

Ekki koma því í heimsókn ef þið eruð með einhver einkenni sem geta bent til COVID-19 smits eins og t.d. hósta, hálssærindi, mæði, niðurgang, uppköst, hita, höfuðverk, kviðverki, beinverki eða þreytu.

Að lokum viljum við þakka aðstandendum fyrir skilninginn og þolinmæðina. Það er gott að finna stuðninginn frá ykkur í þessum aðgerðum öllum.

Eigið góða helgi

til baka