Bólusetning gegn COVID

28.12.2020 13:58

Fyrri bólusetning íbúa á Sóltúni við COVID-19 mun fara fram miðvikudaginn 30. desember. Við fögnum mjög þessum tímamótum eftir virkilega krefjandi ár þar sem við höfum öll lagst á eitt við að verja viðkvæma íbúa heimilisins. Loksins geta íbúar, aðstandendur og starfsfólk andað aðeins léttar vegna þessa vágests sem hefur lagst yfir heimsbyggðina. Tilslakanir á sóttvörnum Þar sem bóluefnið gefur ekki fulla vörn við fyrstu bólusetningu, þá má búast við því að starfsfólk og aðstandendur þurfi að fylgja stífum sóttvarnarfyrirmælum fram yfir seinni bólusetningu að minnsta kosti. Bóluefnið skilar ekki fullri virkni fyrr en viku eftir síðari bólusetningu. Seinni bólusetning mun fara fram 19-23 degi síðar. Óvíst er á þessari stundu hvað tekur svo við í framhaldinu hvað varðar heimsóknarreglur hjúkrunarheimila þar sem starfsfólk hjúkrunarheimila er áfram óvarið og verður bólusett síðar. Samráðshópur almannavarna og hjúkrunarheimila um heimsfaraldur mun gefa út uppfærðar leiðbeiningar um sóttvarnir sem við munum fylgja eftir sem áður. Starfsfólk hjúkrunarheimila er í forgangshópi 5 en í dag er óvíst hvenær sá hópur fær bólusetningu, sennilega í lok janúar, byrjun febrúar miðað við nýjustu fréttir. Þangað til þeirri aðgerð er lokið er nauðsynlegt að halda áfram sóttvörnum til að varna hópsmiti meðal starfsfólks en það getur haft í för með sér þjónustuskerðingu fyrir íbúa, svo ekki sé talað um heilsu og vellíðan okkar dýrmæta starfsfólks. Þegar bólusetningu starfsfólks er lokið að fullu, þá getum við tekið aftur upp eðlilegt líf í Sóltúni. Miðað við upplýsingar um bólusetningarsendingar má búast við því á vormánuðum. Með vinsemd og virðingu. Sýkingarvarnarnefnd Sóltúns.

 

til baka