Tilslakanir á heimsóknarbanni hefjast í dag

04.05.2020 11:40

Sæl, þá hefjast heimsóknir samkvæmt skipulagi í dag. Hver heimsóknargestur hefur fengið staðfestan tíma og leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig að. Það eru 12 heimsóknir á dag, þannig að á einni viku ættu allir íbúar að hafa fengið eina heimsókn. Það er mikilvægt að gæta að 2 metra fjarlægð á leið inn og út úr húsinu. Bíða ef fleiri eru að ganga stiga o.s.frv. og fylgja leiðbeiningunum: Munið að þvo og/eða spritta hendur í upphafi heimsóknar og að henni lokinni. • Notið fljótandi sápu og bréfþurrkur (ekki handsápu eða handklæði íbúans). • Notið einnota hanska meðan á heimsókn stendur (ekki henda notuðum hönskum á víðavang). • Komið við sem minnst af snertiflötum í íbúðinni. • Haldið 2 metra fjarlægð og forðist snertingu. • Ekki fara fram á gang, nema þegar komið er og farið gegnum hurð á brunastiga. • Ef nota þarf WC, notið þá aðstöðu hjá íbúanum. • Ef þarf aðstoð, hringjið þá bjöllu eftir hjálp. Bíðið við gluggann meðan aðstoðað er. Ef aðstæður þínar breytast áður en heimsóknartíminn er áætlaður, þá frestast heimsóknin: a. Þú ert í sóttkví b. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku c. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. d. Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.). Stefnt er að því að vanda heimsóknir eins og frekast er unnt og því er áríðandi að fylgja leiðbeiningum. Anna Birna Jensdóttir

til baka