Aukin samvera íbúa og djákna á tímum sóttvarna og heimsóknarbanns

14.04.2020 15:37

Djákni Sóltúns býður uppá fastar hugræktarstundir fyrir íbúa á deildum þeirra. Þar er spjallað um daginn og veginn, gert að gamni sínu, spáð í veðrið, og ýmislegt annað skemmtilegt. Fréttir eru oft ræddar við horfum með bjartsýni framá veginn og ræðum út um hluti ef fólk hefur áhyggjur af ástandinu og finnum því góðan farvegi. Mörg fylgjast með fréttum og því er nauðsynlegt að ræða það og sjá að þetta tekur enda. Mörg eiga reynslu af faraldri sem gekk yfir á þeirra yngri árum. Lesnar eru stuttar uppbyggjandi sögur og ljóð. Við hlustum á fjölbreytta tónlist, síðast höfum við verið að hlusta á lög eftir Sigfús Halldórsson, sem minna á vorið og sumarið sem er að næsta leiti og syngjum með. Við æfum okkur í að anda og hugleiða á gleðina og þakklætið. Við biðjum, við tölum um Guð og trú. Förum með bænavers sem flestir kunna. Við biðjum fyrir okkur, fjölskyldum okkar, landi, þjóð og ástandi heimsins. Við finnum að bænin gerir okkur gott og við upplifum þennan dýrmæta frið. Það eykur vellíðan og lífsgæði. Lagt hefur verið áhersla á að auka heimsóknir djákna til íbúa annað hvort inná herbergi þeirra eða yfir kaffibolla í dagstofum allt eftir þörfum og aðstæðum. Þó svo að margir sakni ásvina sinna þá eru þau ótrúlega skilningsrík, þolinmóð og þakklát fyrir fjölskyldur sínar og vita að þau hugsa til þeirra. Eins hefur starfsfólk deildanna mikil samskipti við íbúa. Síminn er mikið notaður, eins er boðið uppá að vera á skype. Svo hafa íbúar félagsskap hver af öðrum. Þannig að oft er mjög glatt á hjalla hjá okkur en líka rólegt og notalegt. Við leggjum okkur fram um að hlúa að og veita félagsskap eins og okkur er unnt á þessum tímum. En það birtir upp um síðir og vorar, það styttist í sumardaginn fyrsta þegar Harpan gengur í garð þann 23.apríl. Elísabet Gísladóttir djákni.

til baka