Daglegt líf á COVID19 tímum

30.03.2020 13:24

Daglegt líf á hjúkrunarheimilinu gengur ágætlega, allt er með ró og spekt og íbúar taka takmörkunum með æðruleysi. Töluverð endurskipulagning hefur verið á skipulagi starfseminnar. Heimsóknarbann fór á 6. mars og er engin umferð utanaðkomandi um heimilið nema starfsmanna á vakt hverju sinni. Undantekningar eru í algjöru lágmarki. Íbúar hafa samskipti við ættingja sína gegnum hefðbundin símtöl, Skype, Messenger o.s.frv. Hárgreiðslustofan og fótaaðgerðarstofan eru lokaðar. Þjálfun er á sambýlum íbúa, ekki í sal og djákni sinnir sálgæslu íbúa. Starfsfólk ber mikla umhyggju fyrir íbúum og grípur hvert tækifæri til að njóta dagsins. Starfsfólk hefur verið flest 12 í sóttkví heima hjá sér, flestir af þeim fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferðar, aðrir vegna þess að smit kom upp í þeirra fjölskyldu eða vinahópi. Tveir starfsmenn hafa smitast, annar smitaðist erlendis og kom ekkert til vinnu, hinn smitaðist eftir að hafa verið í sóttkví í lengri tíma. Nú eru 9 starfsmenn í sóttkví, þrír komnir til starfa úr sóttkví og höfðu ekki smitast. Hjá okkur eru reglulegir upplýsingafundir og fræðsla til starfsfólks. Leitað er allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar smitist. Fylgt er sýkingarvarnaráætlun og Leiðbeiningum til hjúkrunarheimila frá sóttvarnarlækni. Góð samvinna er milli hjúkrunarheimila og Sóttvarnaryfirvalda, og eru daglegir fjarfundir haldnir til að takast á við spurningar og viðbrögð. Ýmsir hafa sýnt heimilinu hlýhug og gefið gjafir til afþreyingar. Eru þeim færðar góðar þakkir fyrir. Sérstaklega vil ég hrósa íbúum og ættingjum þeirra fyrir skilning og samheldni í að fylgja leiðbeiningum og starfsfólki Sóltúns sem leggur sig allt fram við að starfsemin gangi sem best fyrir sig. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri

til baka