Mótun stefnu í þjónustu við aldraða til næstu ára

08.09.2016 10:24

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum sínum um þau atriði sem nefndin telur að ráðherra skuli setja í forgang við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum aldraðra á næstu árum.

Tillögur nefndarinnar

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra er fimm manna lögbundin nefnd, skipuð af félags- og húsnæðismálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að vera ráðherra og ríkisstjórn til ráðuneytis um málefni aldraðra og vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra.

Samstarfsnefndin hefur unnið að mótun meðfylgjandi tillagna í rúmt ár og eru þær kærkominn leiðarvísir um mikilvæg verkefni, áherslur og úrbætur í málefnum aldraðra til næstu ára, sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar hún tók við stefnuskjalinu úr hendi Elínar Jóhannsdóttur, formanni nefndarinnar, í dag.

Í tillögum samstarfsnefndarinnar er áhersla lögð á einföldun almannatryggingakerfisins þar sem réttindi aldraðra verði betur skilgreind. Einnig er fjallað um rétt aldraðra til sjálfstæðrar búsetu og sjálfræðis, hvort sem um er að ræða búsetu á eigin heimili eða á öldrunarheimili. Þá skuli öldruðum gert kleift að aðlaga sig breyttum aðstæðum og nýta sér úrræði/lausnir sem auka sjálfsbjargarmöguleika þeirra. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að sett verði gæðaviðmið á öllum sviðum þjónustu við aldraða, ásamt því að auka upplýsingagjöf og eftirlit með gæðum þjónustunnar.

Myndatexti: Á meðfylgjandi mynd eru, auk Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, Elín Jóhannsdóttir, formaður samstarfsnefndarinnar, og nefndarmennirnir Guðmundur Einarsson, Haukur Ingibergsson og Anna Birna Jensdóttir, ásamt Klöru Baldursdóttur Briem og Guðrúnu Björk Reykdal, sérfræðingum í velferðarráðuneytinu, sem starfað hafa með nefndinni.

til baka