Pönnukökuþema

25.05.2016 10:41

Kaffihúsin okkar hafa verið mjög vel sótt og gaman að sjá hve íbúarnir njóta þess að koma og brjóta upp hversdaginn. Margir aðstandendur og vinir koma í heimsókn á kaffihúsadögunum og að þessu sinni var salurinn tvísetinn. Öll tilbreyting er vel þegin og gestir íbúanna fjölmenntu til að gleðjast með sínu fólki. Við dúkuðum borðin með fallegum rauðkóflóttum dúkum og breyttum uppröðun á salnum svo pláss væri fyrir sem flesta. Mikil alúð er lögð við að gera allt sem huggulegast og skapa skemmtilega kaffihúsaumgjörð. Að þessu sinni bauð eldhúsið uppá pönnukökur og karamellutertu. Starfsfólk eldhússins byrjaði um morguninn kl. 8 að undirbúa baksturinn, 2-3 starfsmenn stóðu og bökuðu allann daginn og var mikill gangur í bakstrinum. Alls voru um 470 stk bakaðar, rjómapönnukökurnar urðu alls 230 og upprúllaðar pönnukökur um 240 stk. Einsog endranær var vel tekið á veitingunum og þóttu pönnukökurnar gómsætar. Sóltún hefur fengið vínveitingaleyfi og því er hægt að bjóða til sölu léttvín og bjór þegar kaffihúsið er opið. Starfsfólk eldhúss þakkar fyrir veturinn og bjóðum sumarið velkomið.

til baka