Anna Birna Jensdóttir formaður Öldrunarráðs

17.05.2016 14:11

Á aðalfundi Öldrunarráðs Íslands, sem haldinn var föstudaginn 29. apríl, var Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík, kjörin formaður ráðsins. Tók hún við af Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistu sem gegnt hefur stöðu formanns undanfarin sex ár. Öldrunarráð Íslands eru regnhlífasamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á land. Að Öldrunarráði Íslands eiga því aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Eru aðilar nú alls 32. Markmið Öldrunarráðs Íslands er að vinna að bættum hag aldraðra. Tilgangi sínum hyggst ráðið meðal annars ná með því að: a. vinna að samræmdri stefnu í málefnum aldraðra og framkvæmd hennar b. koma fram fyrir hönd aðila sinna eftir því sem við á c. standa fyrir námskeiðum og ráðstefnum og beita sér fyrir almennri upplýsinga- og fræðslustarfsemi um málefni aldraðra d. efla rannsóknir í öldrunarmálum með starfsemi sérstaks rannsóknarsjóðs e. veita aðilum sínum aðstoð við skipulagningu verkefna og framkvæmd þeirra f. annast samskipti við erlenda aðila Stjórn Öldrunarráðs Íslands skipa níu aðilar. Formaður er Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns og er hún fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ásamt Önnu Birnu skipa stjórnina Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir frá Sveitarfélaginu Árborg, Janus Guðlaugsson frá Sjómannadagsráði og Hrafnistuheimilunum, Haukur Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Ingibjörg Halla Þórisdóttir frá Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu, Linda Baldursdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ólafur Þór Gunnarsson frá Öldrunarfræðafélagi Íslands, Ragnhildur Hjartardóttir frá Hjúkrunarheimilinu Mörk og Sigrún Ingvarsdóttir frá Reykjavíkurborg.

til baka