Happy end

15.03.2016 15:53

Íbúar Sóltúns hafa notið þess að taka þátt í samnorrænu verkefni þar sem þeir ásamt dönsurum og hljómlistarfólki hafa samið dansverk og sýnt öðrum íbúum og gestum þeirra á þremur viðburðum. Danski danshöfundurinn Ingrid Traunum Velásquez leikstýrði hópnum sem var samansettur af kunnum listamönnum til að fjalla um veruleika eldri borgara í norrænum samfélögum. Auk Sóltúns, þá hefur verkið verið sett upp á hjúkrunarheimilunum Slottet og Aftensolen í Kaupmannahöfn. Næst verður það sett upp í Þórshöfn í Færeyjum. Fjórir dansarar frá Danmörku og Færeyjum sýndu dansana með fimm íbúum Sóltúns. Gjörningahópurinn í Reykjavík hannaði búninga og sviðsmynd og tónlistina samdi færeyska tónskáldið Trondur Bogason. Samvinnan var ákaflega gefandi og nutu áhorfendur verkanna og gátu spjallað um upplifun sína á Kaffi Sól eftir hverja sýningu. Íbúar sýndu á sér nýjar hliðar og deildu með áhorfendum köflum úr lífi sínu sem snerust ekki síst um líf þeirra með náttúru Íslands, hafinu, jöklunum, fjöllunum, blómunum og ástinni og væntumhyggjunni í lífinu. Hvernig það var að eldast með kroppnum sínum og mismunandi aldursupplifun sálar og kropps. Við þökkum fyrir frábæra samvinnu.

til baka

Myndir með frétt