Garðyrkja og grill
Nú er búið er að gróðursetja blóm og matjurtir í Sóltúnsgarðinn sem ugglaust á eftir að gleðja augu og maga okkar í sumar og haust. Gulrótarfræjum var sáð í gróðurreit við enda C-álmu um miðjan maí og dúkur breiddur yfir. Í matjurtagarðinn voru settar kartöflur, rauð- og gulrófur, grænkál, mismunandi salat- og kryddtegundir. Þar sprettur nú rabarbarinn fagurrauður og höfum við gleði af að uppskera hann tvisvar, bæði snemmsumars og í ágúst. Í gróðurskálanum dafnar eplatréð vel og gefur líklega góð epli á haustmánuðum, ef fólk sleppir því að snerta veikburða greinar trésins með ört vaxandi eplum – bara horfa. Kirsuberjatréð felldi því miður alla berjavísa. Það er búið að grilla tvisvar, í fyrra skiptið voru grillaðar pylsur með tilheyrandi og í seinna skiptið grillaðar lambakótilettur. Hvort tveggja heppnaðist mjög vel, en það var of kalt til að borða úti. Vonum að sumarið verði hlýtt svo við getum notið útiveru í nálægð við gróðurinn.
til baka