Rauðmagi á borðstólum hjá matarklúbbnum
15.05.2015 13:01Matarklúbbur Sóltúns alls tíu íbúar gæddu sér á rauðmaga með öllu tilheyrandi í hádeginu sl. miðvikudag. Brennivínsstaup var boðið með og kaffi og konfekt á eftir. Upphaflegt markmið með klúbbnum var að bjóða áhugafólki um mat að koma að matargerð með einum og öðrum hætti og snæða saman. Sérstaklega var þeim boðin þátttaka sem óskuðu eftir að borða “öðruvísi” mat en daglega var á boðstólum í Sóltúni. Árið 2014 hittust t.d. áhugasamir matgæðingar og snæddu saman sigin fisk og kæsta skötu og ákveðið er að endurtaka. Þetta árið var ákveðið að hvíla sláturgerð, því erfitt reynist að fá ekta vambir og íbúar sýndu verkinu lítinn áhuga. Í staðinn voru bakaðar kleinur í nóvember sem síðan voru seldar á jólasölunni – þær sem ekki voru snæddar á staðnum. Hvert ár er útbúin áfengur berjadrykkur, ýmist úr kræki-, blá-, rifs- eða sólberjum. Honum er leyft að blandast undir ströngu eftirliti frá hausti fram að aðventu þar sem hans er neytt sparlega. Árið 2014 brást berjauppskeran á suðurlandi og því bauð jólasölusjóðurinn upp á sherry á aðventu. Á öllum hæðum hefur skapast sú hefð að baka smákökur og laufabrauð fyrir jólin. Einnig má hér nefna ræktun matjurta yfir sumarmánuðina, s.s.kartöflur, rófur og gulrætur, kál, rabbabari, ýmsar kryddtegundir o.fl. Í gróðurskála gleðja eplatré og kirsuberjatré í fallegum blóma snemma á vorin. Eplatréð hefur gegnum tíðina gefið af sér mörg bragðgóð eplin sem reynt er að deila bróðurlega niður á áhugasama íbúa. Kirsuberjatréð er fremur sparsamt en þolinmóð bíðum við þessa að tréð gefi fullt af berjum.
til baka