Frábærir tónleikar á Rótarýdeginum

02.03.2015 12:31

Á Rótarýdeginum þann 28. febrúar nutu íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk þess að fá góða heimsókn í Sóltún. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri tók á móti félögum sínum úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur og bauð þá og áheyrendur velkomna. Ágústa Guðmundsdóttir viðtakandi forseti klúbbsins flutti stutt ávarp og kynnti starfsemi Rótarý. Meðal gesta var Ester Guðmundsdóttir aðstoðarumdæmisstjóri Rótarý á Íslandi og fleiri Rótarýfélagar. Ágústa kynnti þau Sigrúnu Hjálmtýsdóttir söngkonu (Diddú), Kjartan Óskarson klarinettleikara og Hrefnu Eggertsdóttur píanóleikara sem buðu upp á frábæra tónleika sem saman stóðu af vel samsettu lagaúrvali. Tónlistarfegurðin lyfti áheyrendum upp í hæstu hæðir á þessum fallega laugardegi. Að lokinni frábærri dagskrá færðu þær Ágústa og Anna Birna félögum sínum tónlistarfólkinu kærar þakkir fyrir hönd Rótarýklúbbs Reykjavíkur, áheyrenda og gesta fyrir þessa frábæru og gefandi heimsókn sem laðaði til sín fullan sal áheyrenda.

til baka

Myndir með frétt