Erlendir sjúkraliðanemar í starfsþjálfun í Sóltúni
Tveir finnskir nemar og þrír danskir nemar eru nú á Sóltúni í starfsnámi. Hanna Niess, Kate Poulsen og Christa Johansen eru sjúkraliðanemar frá Danmörku. Þær komu til Íslands á vegum Erasmus+ nemaskiptaverkefnis sem Fjölbrautaskólinn í Ármúla stendur fyrir í samstarfi við SOPU í Danmörku. Þær fengu styrk til að taka hluta af sinni starfsþjálfun á Íslandi. Dönsku nemarnir verða hér á Sóltúni frá 8. nóvember til 13. desember 2014. Lauri Marjaoja og Heidi Pasanen eru sjúkraliðanemar frá Finnlandi og verða á Sóltúni frá 3. til 30. nóvember 2014. Þau fengu styrk í gegnum menntaáætlun Evrópusambandsins um að taka hluta af sinni starfsþjálfun á Íslandi. Lauri og Heidi eru með starfþjálfunarsamning hjá Helsinki og hafa þau aðallega verið að sinna heimsþjónustu aldraða. IÐAN fræðslusetur og menntaráð Helskini borgar eru samstarfsaðilar á sviði starfþjálfunar. Sóltún og IÐAN hafa unnið saman á ýmsum sviðum sem varð til þess að leitað var til Sóltúns. Á myndunum eru nemendurnir að baka snúða með íbúum.
Erasmus+ veitir nemendum í starfsmenntaskólum og nemum á samningi tækifæri til að fara í náms- og þjálfunarferðir og starfsnám hjá skólum, fyrirtækjum og stofnunum í Evrópu í 2 vikur til 12 mánuði. Námið skal vera hluti af námi viðkomandi nemanda og metið af heimaskóla að dvöl lokinni.
Markmið náms- og þjálfunarferða nemenda er að auka hæfni þeirra og þekkingu á sínu fagsviði, efla sjálfstraust og tungumálakunnáttu, sem og að kynnast menningu og venjum annarra landa.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimsíðu Erasmus+ http://www.erasmusplus.is/ .
til baka