Uppstigningardagur- dagur aldraðra haldinn hátíðlegur í Sóltúni

02.06.2014 09:51

Líkt og undanfarin ár var uppstigningardagur sem er jafnframt dagur aldraðra haldinn hátíðlegur hér í Sóltúni. Helgistund var haldin í aðalsal. Ragnhildur Ásgeirsdóttir djákni og framkvæmdarstjóri Hins Íslenska biblíufélgas kom ásamt dætrum sínum þeim Írisi og Mörtu. Íris og Marta fluttu okkur dúetta á þverflautu, Íris söng einsöng við undirleik Ragnhildar. Ragnhildur flutti ljóð, sagði frá tildrögum að stofnun fyrsta biblíufélags í heiminum og hvernig það leiddi til að Ebeneser Henderson kom til Íslands til að dreifa Biblíunni víðsvegar um landið, bæði Nýja testamentum og Biblíunni í heild í þúsundum eintaka (rúmlega 6,600 eintökum af Nýja testamentinu og rúmlega 4 þúsund Biblíum). Þar með varð Biblían í fyrsta sinn almenningseign á Íslandi. Það er því enginn vafi að heimsókn Ebenezers Henderson markar tímamót í sögu íslenskrar kristni. Ísland varð þar með eitt af fyrstu löndum í heiminum til að stofna Biblíufélag en það var stofnað 10. júlí 1815 og verður því 200 ára á næsta ári. Góð þátttaka var á stundinni og mikil ánægja með fallega, uppbyggilega og fræðandi stund. Við erum þeim Írisi, Mörtu og Ragnhildi innilega þakklát og þeim færðar bestu þakkir fyrir komuna og yndislega stund.

til baka