Smurbrauðsdömur Sóltúns slóu í gegn á jólasölunni með glæsilegum veitingum

23.11.2013 11:27

Í október síðastliðnum fóru 6 starfsmenn frá eldhúsi og íbúaeldhúsum á smurbrauðsnámskeið á vegum Iðunnar og Eflingar. Kennari námskeiðsins var hin margrómaða Marentsa Poulsen smurbrauðsdama. Námskeiðið var haldið í Matvælaskólanum í Kópavogi og stóð yfir í fjögur kvöld. Starfsmenn Sóltúns lærðu handbragðið fljótt og vel og var mikil ánægja með námskeiðið í heild sinni. Á árlegri sölu Iðjuþjálfunar var boðið upp á smurbrauð að hætti Dana. Hafist var handa kl. 9 um morguninn við að smyrja rúmlega 400 stykki smurbrauð. Mikil vinna er við smurbrauðsgerð og stóðu starfsmennirnir sig frábærlega og náðu að smyrja og skreyta allt fyrir kl. 14.30 þegar kaffihúsið opnaði. Boðið var uppá smurbrauð með gröfnum laxi, egg og síld, skinku og roast beef og til að renna veitingunum niður var bæði pilsner og jólablanda. Dagurinn tókst vel í alla staði og var mikil ánægja með framtakið og var mál manna að það væri svo notalegt að geta komið með þessa upplifun inní húsið. Íbúar og gestir þeirra gerðu veitingunum góð skil og þótti smurbrauðið einstaklega gott. Nemendurnir eru því útskrifaðir með ágætiseinkunn að mati íbúanna og starfsmanna og viljum við þakka þeim fyrir skemmtilega matarupplifun .

til baka

Myndir með frétt