Ómar Ragnarsson í Sóltúni

13.04.2013 10:53

Á 1.hæð eru lesnar valdar bækur alla virka daga. Nú er nýlokið við að lesa bækurnar Fólk og Firnindi – stiklað á Skaftinu og Manga með svartan vanga. Í því tilefni var því kannaður sá möguleiki að fá höfund bókanna Ómar Ragnarsson í heimsókn. Það var auðsótt mál og stóra stundin rann upp síðastliðin föstudag 12. apríl. Segja má að Ómar hafi nú verið kominn á bernskuslóðir. Sem ungur drengur bjó hann í Samtúni hér rétt við hliðina og leikvöllurinn þar sem hann meðal annars uppgötvaði sólina var hér í grasinu þar sem Sóltúnsheimilið stendur. Auk þess að segja frá bernsku sinni og fjölskyldu fjallaði hann um efni bókanna og fólkið sem þar kemur við sögu og margt fleira. Einnig söng Ómar eitt óbirt lag af sinni alkunnu snild. Segja má að líf Ómars hafi verið ein samfeld gjöf til samfélagsins. Með lífi sínu og starfi, skemmtunum, fréttaflutningi, þáttagerð og ritstörfum hefur hann gefið fólki tækifæri til að komast í snertingu við lífið sjálft. Að heyra tónverk fossanna, sjá myndlist náttúrunnar og komast í snertingu við mennskuna. Ómari eru færðar alúðar þakkir fyrir góða og gefandi heimsókn og allt það sem hann hefur verið og gefið landi og þjóð.

til baka