Biskup Íslands heimsækir Sóltún

23.10.2012 09:59

Föstudaginn 12. október 2012 heimsótti frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, hjúkrunarheimilið Sóltún. Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdarstjóri, og Jón Jóhannsson, djákni, kynntu heimilið og starfið í Sóltúni yfir hádegisverði. Rætt var um stöðu þeirra sem þurfa að nýta úrræði hjúkrunarheimila, sem og þróun þeirra mála hér á landi. Í dag eru margir sem bíða heima eftir úrræðum, sumir við erfiðar aðstæður. Agnes miðlaði einnig af reynslu sinni af landsbyggðinni, þar sem hún þjónaði sem prestur bæði á Hvanneyri um árabil og í Bolungarvík í tæpa tvo áratugi. Í lok fundar var gengið um heimilið, vistarverur og þjálfunaraðstæður íbúa skoðaðar. Biskup hitti hjúkrunarstjóra, íbúa og starfsmenn hverrar hæðar fyrir sig auk þess sem einn íbúi bauð biskupi að skoða heimili sitt. Guðsþjónusta var síðan haldin kl 14:00. Hún byrjaði með að framkvæmdastjóri flutti ávarp . Biskup prédikaði og flutti bæn og blessun. Gunnar Gunnarsson og Örn Arnarson fluttu tónlist og stjórnuðu söng. Djákni Sóltúns hafði umsjón með og leiddi stundina. Að lokinni guðsþjónustu var kaffisamsæti í aðalsal. Góð og almenn þátttaka var við athöfnina. Mikil ánægja var meðal íbúa, aðstandenda þeirra og starfsfólks með Guðsþjónustuna og heimsókn biskups.

til baka