Ferð í Strandakirkju

31.07.2012 10:22

Það var glaðbeittur hópur er lagði af stað úr Sóltúni í yndislegu veðri þann 6. júní kl 10:30. Ferðinni var heitið í Strandakirkju í Selvogi. Ekið var í gegnum Kópavoginn og Hafnarfjörð fram hjá höfninni og skoðuð sú mikla breyting sem er orðin á ásýnd bæjarins með tilkomu landfyllingar og háhýsa sem og slip og höfninni almennt. Greinilegt að saga útgerðar í þessum mikla útgerðarbæ hefur breyst mikið. Færri fiskar og fleiri hringtorg kom upp í hugann þegar sú áskorun farþega var tekin og farið í gegnum eitt af nýrri hverfum Hafnarfjarðar framhjá fjölmörgum hringtorgum. Nánast óteljandi eins og eyjarnar á Breiðarfirði, en skemmtilegt að skoða nýtt hverfi og alla uppbygginguna. Því næst var stefnan tekin á Krýsuvík og horft yfir Kleifarvatn, stoppað við hverasvæðið við Seltún. Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel til fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Farið var inn á nýja veginn í Selvog sem er beinn og breiður og áðum við síðan við annað af tveimur kaffihúsanna við Strandakirkju og snæddum nestið okkar. Gaman er að geta þess að þar var meðal annars flóamarkaður og ýmislegt hægt að skoða og versla svo sem skó, bækur og barnafatnað. Síðan var ekið að Strandakirkju og allir fóru ínn í kirkjuna og lesin sálmur úr sálmabókinni og notið kyrrðar.

„Einhverju sinni var ungur bóndi að koma frá Noregi á skipi sínu þar sem hann hafði sótt sér við til húsagerðar. Þegar hann var að koma að landi lenti hann í sjávarháska í dimmviðri og fékk  ekkert við ráðið. Bóndinn fylltist örvæntingu og hét  því að að gefa allann húsagerðarviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað er hann næði landi. Þegar hann hafði unnið þetta heit birtist honum ljósengill framundan stefni skipsins og verður þessi sýn honum stefnumið sem hann stýrir eftir. Engillinn leiddi svo skipið gegnum brimið og bárust skipverjar þannig inn í vík eina nálægt Strönd sem nefnist Engilsvík eftir þetta. Þar skammt fyrir ofan malarkamb var reist hin fyrsta Strandarkirkja. „

Þessi helgisögn er talin vera frá 12. öld og hefur verið til í manna minnum allt frá þeim tíma. Hún hefur orðið til þess að Strandarkirkja hefur alla tíð verið áheitakirkja og verið mörgum sáluhjálp í gegnum lífsins raunir. 

Greinilegt er að kirkjunni er vel við haldið og svæðið fallegt og vel hirt. Þar koma áheitin að góðum notum, en þeir aurar mættu sín lítils ef ekki væri til staðar traustur hópur einstaklinga, velunnara sem vinna ómælt starf við að hlú að og vaka yfir þessu lifandi tákni um handleiðslu Guðs og nærveru.

Einn af þessum velunnurum var með okkur í ferðinni og kunnum við hennar okkar bestu þakkir. 

Að kirkjuheimsókn lokinni var staldrað við á ný í kaffihúsinu, skoðaðir minjagripir sem eru seldir í sjoppunni.  Ekki var hægt að yfirgefa kaffihúsið nema fá sér kaffi og pylsu. Ekið var síðan í gegnum Þrengslin á heimleiðinni. Eftir 6 klst ferðalag og hátt á annað hundrað kílómetra akstur sneru þreyttir og glaðir Sóltúnsíbúar og starfsmenn heim, komið í hlað kl 16. 

til baka

Myndir með frétt