Stelpan frá Stokkseyri heimsótti Sóltún

13.10.2010 11:58

Í samverustundum íbúa á 1. hæð eru áhugaverðar bækur lesnar. Nú líður senn að lokum þeirrar bókar sem átt hefur hug okkar og hjarta undanfarnar vikur. Enda ekki undarlegt, því bókin “Stelpan frá Stokkeyri – saga Margrétar Frímannsdóttur” er heillandi bók og vel skrifuð. Á notalegan hátt fær lesandinn að fara með í ferðalag. Ferðalagið er lífshlaupið sjálft frá barnæsku til fullorðinsára, gleði þess og sorgir, sigrar sem ósigrar. Á afar einlægan hátt og af virðingu við sig, fjölskyldu sína og umhverfi sitt nær og fjær segir Margrét Frímannsdóttir lífssögu sína. Þar birtist kona sem býr yfir miklum styrk og ríkri réttlætiskennd.Það var gæðastund að fá Margréti Frímannsdóttur í heimsókn í samverustund síðastliðin mánudag hingað í Sóltún og eiga samtal við hana, njóta nærveru hennar og finna áhugann og kraftinn sem brennur í hjarta hennar sem aldrei fyrr.

til baka