Innheimta greiðsluþátttöku fyrir Tryggingastofnun

17.03.2009 11:05

Villandi frétt birtist á mbl.is 16.03.2009. Dvalarkostnaður á hjúkrunarheimilum er greiddur með daggjöldum sem ákveðin eru af heilbrigðisráðuneytinu og félags- og tryggingaráðuneytinu hverju sinni. Daggjöldin eru greidd af Tryggingastofnun ríkisins til hjúkrunarheimila.Þátttaka vistmanna í dvalarkostnaði er tekjutengd og óháð því hjúkrunarheimili sem viðkomandi býr á. Ef mánaðartekjur vistmanns eru að jafnaði 65.005 kr. eða meira eftir skatta (greiðslur frá Tryggingstofnun ekki meðtaldar) tekur hann þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem eru umfram það. Greiðsluþátttaka vistmanna verður þó aldrei hærri en 262.313 kr. á mánuði. Tryggingastofnun greiðir fullt daggjald til heimilisins. Ef vistmaður á að taka þátt í dvalarkostnaði innheimtir heimilið hans hlut og endurgreiðir hann til Tryggingastofnunar. Hjúkrunarheimili hirða því ekki fé af vistmönnum eða fjölskyldum þeirra eins og blaðamaðurinn komst að orði, heldur annast innheimtuþjónustu fyrir hið opinbera.

til baka