Hátíðarstund í Sóltúni

19.10.2007 15:44

Það var fagnaðar- og hátíðarblær yfir október guðsþjónustunni okkar hér í Sóltúni. Ekki einungis fengum við að fagna góðum gesti, sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur, sem í byrjum október tók við prestsembætti í Dómkirkjunni. Því þennan sama dag var einnig fagnað nýrri þýðingu Biblíunnar með hátíðarstund í Dómkirkjunni kl 11:00 þar sem forseta Íslands og öðrum í æðstu embættum þjóðfélagsins var afhent fyrstu eintök Biblíunnar. Kl 14:00 var svo guðsþjónusta hér í Sótúni þar sem við á sérstakan hátt með þátttöku íbúa, aðstandenda og starfsfólks fögnuðum og tókum í notkun hina nýju útgáfu Biblíunnar. Tónlist var í umsjá Gunnars Gunnarssonar og Þorvaldar Þorvaldssonar, fluttu þeir meðal annars sálminn fallega “Góður engill Guðs oss leiðir” við lag eftir Ísólf Pálsson, afa sr.Önnu Sigríðar.
Almenn og góð þátttaka var í guðsþjónustunni og má geta þess að í umræðum í messukaffinu á eftir kom meðal annars fram að fólki fannst sá texti Biblíunnar, sem lesinn var í stundinni áheyrilegur og kallaði á að lesið yrði meira úr hinni helgu bók.
Telja má nokkuð víst, að við hér í Sóltúni höfum verið fyrst til að fagna hinni nýju Biblíuútgáfu með guðsþjónustu.
Öllum, sem á einn eða annan hátt tóku þátt í undirbúningi að umgjörð og framkvæmd guðsþjónustunnar eru færðar alúðar þakkir. Jón Jóhannsson djákni

til baka