Fréttir

24.nóv. 2022

Jólahlaðborð íbúa

Jólahlaðborð íbúa verða dagana 7. - 9. desember. Hlaðborðin verða í samkomusalnum og skráning er hafin á skrifstofunni. Einnig er hægt að skrá sig á aðstandendavefnum, senda tölvupóst á soltun@soltun.is eða hringja í 590 6003. Matseðill verður auglýstur innan skamms! Verð fyrir gesti íbúa er kr. 4500.
Nánar ...
10.sep. 2022

Halla Thoroddsen nýr forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu

Breytingar hafa verið gerðar á lykilstjórnendum hjá Sóltúni heilbrigðisþjónustu ehf. (SH) og dótturfélögum. SH rekur Sóltún hjúkrunarheimili, Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima, Sóltún Heilsusetur og Sólstöður. Halla Thoroddsen verður nýr forstjóri SH. Dótturfyrirtæki SH eru Sóltún öldrunarþjónusta ehf. og Öldungur hf. Halla var áður framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu sem rekur Sólvang hjúkrunarheimili, Sóltún Heima og Sóltún Heilsusetur á Sólvangi. Anna Birna Jensdóttir sem hefur verið framkvæmdastjóri Öldungs hf. í rúm 20 ár eða frá stofnun Sóltúns hjúkrunarheimilis hættir störfum sem framkvæmdastjóri en tekur nú við sem starfandi stjórnarformaður hjá SH. Þórir Kjartansson sem hefur verið stjórnarformaður Öldungs undanfarin 13 ár mun víkja sem stjórnarformaður en sitja áfram í stjórn félagsins ásamt Arnari Þórissyni.
Nánar ...
05.sep. 2022

Sóltúns Heilsusetur tekur til starfa í dag

Sóltún öldrunarþjónusta hélt formlega upp á opnun Sóltúns Heilsuseturs 1. september s.l. Sérstakar þakkir eru til allra sem áttu þátt í að láta þessa þjónustu, endurhæfingu fyrir aldraða á Sólvangi, verða að veruleika, svo sem Heilbrigðisráðuneytið, Sjúkratryggingar Íslands og Hafnarfjarðarbær sem við höfum átt afar farsælt samstarf við. Í dag 5. september mæta fyrstu gestirnir en á heilsusetrinu er tekið á móti 39 einstaklingum sem dvelja í 4 vikur í alhliða heilsueflingu. Árlega munu um 400 aldraðir einstaklingar njóta góðs af endurhæfingu og snúa aftur heim hraustari að lokinni dvölinni, með vonandi minni þörf á aðstoð heima fyrir og heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa áhuga á að dvelja á heilsusetrinu skulu snúa sér til heimahjúkrunar höfuðborgarsvæðisins sem sjá um að vísa í þetta úrræði.
Nánar ...
22.jún. 2022

Aukin útbreiðsla á COVID-19 - varúðar er þörf

Útbreiðsla COVID-19 er að aukast á ný, þá er rétt að minna á: • að eindregið er hvatt til bólusetningar með 4. skammti bóluefnis gegn COVID-19 fyrir alla íbúa hjúkrunarheimila • að allir séu vakandi fyrir einkennum COVID-19 og að starfsfólk og gestir passi að vera ekki með einkenni um sýkingar innan um aldraða • að hvert hjúkrunarheimili fylgist vel með smitum á sínu svæði og geti ákveðið að grípa til takmarkana á heimsóknum og eða grímuskyldu, ef þörf er á • að allir þurfa að vera duglegir að framkvæma sýkingavarnir þ.e. handhreinsun, persónulegt hreinlæti, hafa góða loftræstingu og halda umhverfi hreinu og snyrtilegu
Nánar ...
21.jún. 2022

Sóltún heilsusetur opnar 1. september 2022

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Sóltún öldrunarþjónusta ehf. hafa gert með sér samning sem kveður á um nýja tegund sérhæfðrar þjónustu við aldraða. Þjónustan verður veitt í endurgerðu húsnæði gamla Sólvangs í Hafnarfirði. Þar verða rými fyrir 39 einstaklinga sem gert er ráð fyrir að dvelji þar skamma hríð og njóti einstaklingsmiðaðrar, heildrænnar og þverfaglegrar endurhæfingar. Markmiðið er að viðhalda og auka virkni viðkomandi í daglegu lífi og efla þannig getu þeirra til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 400 einstaklingum þessa þjónustu. „Það er mér mikil ánægja að staðfesta samninginn um þessa þjónustu sem ég tel að marki tímamót. Við eigum að leggja miklu meiri áherslu á virkar forvarnir og endurhæfingu eins og hér verður gert og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið fyrirmynd að sambærilegri þjónustu miklu víðar og um allt land“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. „Við hlökkum mikið til að bjóða nýtt og spennandi þjónustuúrræði í Sóltúni Heilsusetri á Sólvangi. Með fjölþættri heilsueflingu í skammtímadvöl er horft til þess að hjálpa fólki að bæta lífsgæði sín, sjálfstæði og hreysti á efri árum og draga úr þörf þess fyrir aðstoð annarra við athafnir daglegs lífs“, segir Halla Thoroddsen, framkvæmdastjóri Sóltúns öldrunarþjónustu ehf. „Þessi samningur SÍ og Sóltúns öldrunarþjónustu felur í sér einstaklega spennandi nýsköpun sem mun stuðla að því að aldraðir geti haldið lengur getu sinni og færni til að búa á eigin heimili og seinka þar með þörf þeirra til að flytja á hjúkrunarheimili. Þverfagleg endurhæfing með fyrirbyggjandi áherslum þar sem unnið er með virkni fólksins, næringar- og heilsufarsástand er örugglega lykill að góðum árangri“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Nánar ...
16.jún. 2022

Skemmtun var haldin í dag í tilefni af þjóðhátíðardeginum

Í morgun var haldin hátíðleg skemmtun í salnum okkar sem heppnaðist einstaklega vel. Mjög margir íbúar gátu komið og var fullur salur. Byrjað var á því að fara yfir sögu þjóðhátíðardagsins og síðan fengum við okkar einu sönnu Fjallkonu, Dagnýju Heiðu Vilhjálmsdóttur, sem er amma iðjuþjálfa Sóltúns og fór hún með ljóðið "Eldgamla Ísafold" sem vakti mikla lukku. Þökkum við henni innilega fyrir að koma til okkar og vera með okkur í þessari skemmtilegu stund. Söngur ómaði um salinn þar sem íbúarnir tóku virkan þátt og þáðu veitingar. Að lokum voru íþróttaleikir í anda sjúkraþjálfunar þar sem margir urðu hissa á sínum eigin hæfileikum. Met voru slegin og íbúarnir hvöttu hvorn annan áfram. Frábær dagur og allir fóru útí daginn með bros á vör. Gleðilegan þjóðhátíðardag!
Nánar ...
10.jún. 2022

Breytingar í iðjuþjálfun

Hildur Þráinsdóttir iðjuþjálfi hefur látið af störfum að eigin ósk. Hildur byggði upp þjónustu iðjuþjálfunar í Sóltúni og hafði yfirumsjón með henni s.l. 20 ár. Eru henni þökkuð frábær störf og óskað góðs gengis í lífinu framundan. Sóltún hefur ráðið Guðrúnu Hildi Einarsdóttur iðjuþjálfa til að hafa yfirumsjón með starfsemi iðjuþjáfunar í Sóltúni og tók hún til starfa 1. júni s.l. Með henni starfar Hjördís Anna Benediktsdóttir iðjuþjálfi og Guðrún Steingrímsdóttir félagsliði. Við bjóðum Guðrúnu Hildi velkomna til starfa fyrir íbúana okkar hér í Sóltúni.
Nánar ...
29.apr. 2022

Heimsóknartakmörkunum og grímuskyldu gesta aflétt frá og með 2. maí 2022

Sóltún fer af hættustigi um helgina og frá og með mánudeginum 2. maí verður heimsóknartakmörkunum aflétt sem og grímuskylda gesta. Áfram er þó fólk beðið um að koma ekki í heimsókn ef það er með veikindaeinkenni sem gætu verið smitandi. Þá stendur aftur til boða að panta samkomusalinn fyrir afmæli íbúa og félagslíf fer í sinn hefðbundna farveg. Gangi okkur vel og takk fyrir góða samvinnu.
Nánar ...
05.apr. 2022

Viðhorfskönnun 2022

Nú stendur yfir viðhorfskönnun meðal íbúa og ættingja. Könnuninni er bæði hægt að svara á prentútgáfu og rafrænt. Íbúar og ættingjar eru hvattir til að taka þátt. Takk fyrir þátttökuna.
Nánar ...
07.mar. 2022

Hjólastólagalli

Nú nýverið barst Sóltúni gjöf frá fyrirtækinu P&Ó. Um er að ræða fyrirtæki sem hannar sérsaumaða útivistargalla fyrir aldraða og hreyfihamlaða og gefur möguleika á aukinni útiveru og gæðastundum allan ársins hring. Ólöf Árnadóttir sem er hönnuðurinn á bakvið þetta frábæra verkefni og er einnig starfsmaður Sóltúns, afhenti Hildi Björk Sigurðardóttur (aðstoðarframkv. stjóra hjúkrunar) fyrsta hjólastólagallann með þakklæti fyrir foreldra sína sem bjuggu bæði á Sóltúni. Upphaflega hannaði Ólöf gallann fyrir móður sína eftir að hún veiktist og gallinn gerði þeim kleyft að njóta fleiri gæðastunda úti sem var þeim mæðgum ómetanlegt. Við þökkum Ólöfu innilega fyrir þessa gjöf sem mun sannarlega koma að góðum notum fyrir íbúa Sóltúns.
Nánar ...
11.feb. 2022

Til hamingju Sóltún - 38 starfsmenn fá starfsaldursviðurkenningar

Árlega veitir Sóltún starfsaldursviðurkenningar. Hefðbundið eru þær afhentar í janúar en það seinkaði aðeins vegna aðstæðna. Það eru 38 starfsmenn að þessu sinni sem fá glaðning. Átján fá viðurkenningu eftir 3ja ára starf, tíu eftir 5 ára starf, tveir eftir 10 ára starf, tveir eftir 15 ára starf og sex eftir 20 ára starf. Sóltún hefur ávallt verið lánsamt með frábært starfsfólk og færi Sóltún starfsfólki sínu bestu þakkir fyrir fagmennsku, umhyggju og góð samskipti sem eru svo þýðingamikil fyrir íbúana okkar, ættingja þeirra og alla þá sem starfa hér. Þá eru þeim sem útskrifuðust út heilbrigðistengdu námi árið 2021 færð bókagjöf.
Nánar ...
09.feb. 2022

Heimsóknir á Sóltún - óbreyttar heimsóknarreglur gilda

Þar sem veruleg smit eru enþá í samfélaginu gild áfram eftirfarandi reglur í Sóltúni. Innan heimilis: -Gestir þurfa að vera bólusettir- og bera grímu. ALLIR gestir þurfa að bera andlitsgrímu við komu á heimilin. Ekki er mælt með að taka grímuna niður inni á herbergi íbúa. Ekki er heimilt að vera með margnota grímur. Virða ber 2 m reglu og spritta hendur við komu og brottför. - Gestir sem eru óbólusettir þar með talin óbólusett börn, komi ekki í Sóltún. Undanþágu er hægt að fá í samráði við vakthafandi hjúkrunarfræðing ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa, þá er gerð krafa um neikvætt hraðpróf. - Heimsóknartími er æskilegastur milli kl. 13-19. Ekki vera fleiri en 1-2 í heimsókn á dag. Virðið 2 m reglu í samskiptum við starfsfólk og aðra íbúa og forðist að stoppa og spjalla. -Ekki er heimilt að nýta setustofur og borðstofur eða annað sameiginlegt rými í húsinu til heimsókna. -Fullbólusettir aðstandendur sem dvalið hafa erlendis – Þeim er heimilt að koma í heimsókn eftir að hafa farið í skimun (PCR próf) á landamærum og niðurstaða úr skimun er neikvæð ásamt því að þeir séu með öllu einkennalausir. Mikilvægt er samt að hafa samráð við vakthafandi hjúkrunarfræðing. -Óbólusettir aðstandendur sem eru að koma erlendis frá - mega ekki koma í heimsókn (undanþágu er hægt að fá í samráði við vakthafandi hjúkrunarfræðing ef um skyndileg veikindi/lífslokameðferð er að ræða hjá íbúa). -Undanþága frá reglum um heimsóknir hverju sinni, er aðeins veitt við mikil veikindi íbúa og þarf leyfi frá vakthafandi hjúkrunarfræðingi. Utan heimilis: -Íbúar geta farið út í garð, í göngu- og ökuferðir með sínum nánasta. Heimsóknir íbúa á einkaheimili krefjast þess að smitvarnir séu í hámarki, og sem fæstir séu á heimilinu og þeir séu bólusettir. Mælt er með hraðprófi hjá viðurkenndum aðilum sem varúðarráðstöfun. - Mannfagnaðir og samkomur. Þá er áfram mælst til þess að íbúar fari ekki á stærri mannfagnaði eða samkomur. Hafið í huga að: - Íbúi sem hefur verið verið útsettur fyrir smiti (verið í umhverfi þar sem grunur er á að smit hafi verið í gangi), má búast við því að hann/hún þurfi að vera í smitgát í eigin herbergi við komu aftur á hjúkrunarheimilið í nokkra daga, meðan skimað er og fylgst með hvort einkenni gera vart við sig. Það getur verið nauðsynlegt til að útsetja ekki aðra íbúa á sambýlinu sem og starfsfólk. Alls ekki koma í heimsókn ef: 1. Þú ert í sóttkví eða smitgát 2. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. 3. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. 4. Þú ert með COVID-19 lík einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl.). 5. Þú ert með einhver önnur almenn einkenni um veikindi. Munið að sýna ýtrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Við þurfum öll að hafa í huga persónulegar sýkingavarnir s.s. handþvott og handsprittun. Tökum ekki óþarfa áhættur. Saman höfum við staðið okkur vel, og viljum gera það áfram. Nýjar heimsóknarreglur gilda, að öllu óbreyttu, fram yfir jól og áramót. Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
29.jan. 2022

Einangrun og sóttkví aflétt

Einangrun og sóttkví verður aflétt á 3. hæð BC í dag. Þá er ekkert smit í gangi hjá íbúum svo vitað sé . Hins vegar eru margir starfsmenn frá vinnu vegna COVID. Áfram förum við varlega og haldast heimsóknarreglur óbreyttar um sinn. Búist er við því að smitum fjölgi í samfélaginu og er það áhætta fyrir starfsemi hjúkrunarheimila. Mælst er til þess að ættingjar stilli heimsóknum í hóf, 1-2 á dag eftir hádegi eins og verið hefur. Fara á beint inn til íbúa og beint út þegar farið er. Það er grímuskylda og halda á 2 metra fjarlægðarbili. Það reynir mikið á íbúa að smitast og að þurfa að fara í einangrum. Sjálfkrafa fara aðrir íbúar á sama svæði í sóttkví/smitgát sem reynir líka mikið á. Vinnuálag eykst og það er því mikilvægt að allir vandi sig og virði aðstæður. Fólk þarf að vera vakandi fyrir einkennum og koma ekki í Sóltún ef þau eru til staðar. Þá er einnig mælst til þess að íbúar fari ekki á mannfagnaði út í bæ meðan sýkingartíðnin er svona há.
Nánar ...
22.jan. 2022

Sóttkví aflétt á 1. hæð BC

Öll PCR próf hjá íbúum á 1.hæð BC reyndust neikvæð og hefur sóttkví því verið aflétt þar. Áfram er lokað fyrir heimsóknir á 3. hæð BC vegna einangrunar og sóttkvíar.
Nánar ...
21.jan. 2022

Heimsóknir á Sóltún

Þá hefur sóttkví verið aflétt á 3. hæð DE. Áfram er einangrun og sóttkví á 3. hæð BC og ekki leyfðar heimsóknir þangað. Áætlað er að hægt sé að aflétt þar um miðja næstu viku. Beðið er eftir niðurstöðum úr PCR prófum þeirra sem hafa verið í sóttkví á 1. hæð BC, og verður lokað fyrir heimsóknir þar þangað til niðurstöður koma í kvöld eða á morgun. Að öðru leyti er mælst til þess að ættingjar stilli heimsóknum í hóf meðan smittíðni er jafnhá í samfélaginu og greint er frá í fréttum. Fólk er beðið að gæta sóttvarna í hvívetna. Það er afar slæmt að fá smit inná hjúkrunarheimilið. Gangi okkur vel.
Nánar ...
17.jan. 2022

Framvinda COVID smita og heimsóknir

Þrír íbúar á 3. hæð DE sem greindust með COVID eru lausir úr einangrun. Nýtt smit kom upp fyrir helgi hjá íbúa á 3. hæð BC, sá íbúi hafði smitast í einkaerindum úti í bæ. Í framhaldinu smituðust 4 til viðbótar og eru þeir allir í 7 daga einangrun, og aðrir á 3. hæð BC í sóttkví. Öll 3ja hæðin verður því áfram lokuð meðan á einangrun stendur. Mikið álag er á starfsfólk. Aðstandendur íbúa á öðrum hæðum eru beðnir að stilla heimsóknum í hóf, mikið er um smit í samfélaginu og fjöldi starfsmanna frá vinnu vegna sóttkvíar og smita. Fólk er hvatt til að gæta persónulegra sóttvarna í hvívetna.
Nánar ...
11.jan. 2022

3. hæð lokuð fyrir heimsóknum vegna einangrunar af völdum COVID og sóttkvíar

3. hæð er nú alveg lokuð vegna einangrunar og sóttkvíar. Það hafa ekki fleiri smit greinst á DE gangi og íbúar þar í hægum afturbata. En í morgun greindist með hraðprófi íbúi á 3. hæð BC. Viðkomandi er kominn í einangrun og aðrir í sóttkví. Unnið er að smitrakningu og fylgst er með einkennum, gerð hraðpróf og PCR próf eftir því sem við á. Allir íbúar á hæðinni eru þríbólusettir. Ættingjar íbúa á BC hafa verið upplýstir um stöðu mála.
Nánar ...
09.jan. 2022

Þrír íbúar hafa greinst með COVID smit

Þrír íbúar hafa greinst með COVID smit. Einkenni þeirra eru væg. Unnið er að því að rekja smitin og eru viðkomandi íbúar í einangrun í herbergjum sínum. Aðrir íbúar í sambýlinu eru í sóttkví og er fylgst með einkennum og tekin hraðpróf. Ættingjar hlutaðeigandi hafa verið upplýstir um gang mála.
Nánar ...
07.jan. 2022

Sóltún fagnar 20 ára starfsafmæli í dag

Í dag fagnar Sóltún 20 ára starfsafmæli. Ferilinn hefur verið farsæll þökk sé frábæru starfsfólki, sterkri hugmyndafræði og vel hannaðri byggingu. Sérstakar aðstæður vegna COVID sýkinga í samfélaginu koma í veg fyrir hefðbundinn fagnað í dag þar sem margir koma saman. Bíður það betri tíma þegar færi gefst á afmælisárinu. Boðið verður uppá hátíðarhádegisverð, fjarbingó og afmælistertu um miðjan dag. Afmælissöngurinn mun óma um húsið. Innilega til hamingju með daginn Sóltún.
Nánar ...
21.des. 2021

Nýjar heimsóknarreglur frá 21.12.2021

Til íbúa og aðstandenda Því miður er ekkert lát á kórónuveiru-smitum í samfélaginu. Mikilvægt er að íbúar, aðstandendur og starfsfólk taki höndum saman og taki ekki óþarfa áhættur yfir hátíðarnar. Fjöldatakmarkanir í samfélaginu miðast nú við 20 manns, hjúkrunarheimili þar sem fjölveikt fólk býr þarf að miða við mun færri, og sem fæsta. Smit eru nú flest meðal óbólusettra barna 12 ára og yngri og bólusetts/óbólusettts fólks á miðjum aldri (Ómíkron).
Nánar ...
05.nóv. 2021

Takmarka þarf heimsóknir meira frá og með 5. nóvember.

COVID-19 smit hefur komið upp hjá einum starfsmanni í stoðþjónustu og er rakningu lokið. Tekin hafa verið hraðrpróf og skimað fyrir hugsanlegum smitum, frekari smit hafa ekki greinst. Nú er unnið í sóttvarnarhólfum og mælst er til að einstaklingar 0-30 ára komi ekki í heimsókn og aðeins 1-2 gestir í einu. Það er grímuskylda í Sóltúni og eiga gestir að fara beint inn til ibúa og staldra ekki við á almenningssvæðum og fara eftir leiðbeiningum starfsmanna.
Nánar ...
13.sep. 2021

30 ára og yngri nú heimilt að koma í heimsókn

Uppfærðar heimsóknarreglur frá Sýkingavarnarnefnd Sóltúns. Áfram er grímuskylda á Sóltúni fyrir alla nema íbúa. Ekki er heimilt að vera með margnota grímur. Stilla ber heimsóknum í hóf og koma ekki fleiri en 1-2 í senn. Við biðlum til aðstandenda að: • Vera ekki í alrýmum heimilisins, þegar þeir koma í heimsókn, heldur fara beint inn á herbergi íbúa. Heimilt er að fara út í garð og mælt er með útivist ef veður leyfir. Staldrið þó ekki við á almenningssvæðum innanhúss. • Að forðast að fara með íbúa á mannfagnaði eða samkomur, en leyfilegt er að fara í bílferðir eða heimsóknir. • Fara í sýnatöku ef þeir eru að koma erlendis frá og ekki koma fyrr en neikvæð niðurstaða er komin. Þetta á einnig við við bólusetta aðstandendur. Við minnum jafnframt á eftirfarandi: • Munið að hafa grímu meðferðis, þó ekki taugrímu. Leyfilegt er að taka grímu niður inni á herbergi íbúa ef gestur er fullbólusettur. • Virða sóttvarnarráðstafanir og sýna ýtrustu varkárni. • Sinna persónulegum sýkingavörnum eins og handþvotti og handsprittun. • Virða 2ja metra regluna í samskiptum við starfsfólk og forðast að stoppa og spjalla. • Forðist snertingu við íbúa eins og kostur er. • Allir heimsóknargestir hlaði niður smitrakningarappinu í símann sinn. Vinsamlega EKKI koma í heimsókn: • Ef þú ert í einangrun eða sóttkví, eða ekki liðnir 14 dagar frá útskrift vegna Covid smits • Ef þú ert að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku. • Ef þú ert með flensueinkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang, uppköst o.fl). • Ef þú varst erlendis fyrir minna en 14 dögum og ert óbólusettur. Við fylgjumst náið með stöðu mála og upplýsum ykkur um leið og breytingar verða. Nýjar reglur hafa tekið gildi nú þegar eða frá og með 13.09.2021. Með vinsemd og virðingu, Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
31.ágú. 2021

Sóttkví aflétt

Sóttkví hefur verið aflétt af 2. hæð B. Áfram gilda í húsinu að við vinnum sem mest í okkar sóttvarnarhólfum, heimsóknum er stillt í hóf, ættingjar dvelja ekki í almenningssvæðum, 30 ára og yngri bíða með að koma í heimsókn. Allir gæta persónulegra sóttvarna. Vel gert 2. hæð B og C. Gangi okkur áfram vel og vonum að bylgjan sé að ganga niður í samfélaginu.
Nánar ...
27.ágú. 2021

Sóttvarnir á Sóltúni yfir helgina

Sóttkví hefur verið aflétt á 2. hæð C. Sóttkví er þó áfram á 2. hæð B, þar sem mælingar styðja ekki enþá að aflétta henni og því vissara að vernda íbúa þar sérstaklega. Íbúar á 2. hæð B og C fengu sjúkraþjálfun í dag. Ákveðið hefur þó verið að íbúar á 2. hæð B sem eru í sóttkví geti tekið á móti einum heimsóknargesti yfir helgina hver, þá er komið inn um gaflhurð brunastiga 2. hæð B, hringt í 5906212 og gert grein fyrir sér. Farið er beint inn til íbúa og þaðan sömuleið út þegar heimsókn er lokið. Nota á maska og ekki koma í heimsókn ef einhver minnstu COVID-19 einkenni hafa verið, eða fólk verið á mannamótum eða sé nýlega komið erlendis frá. 30 ára og yngri bíða með að koma. Ekki koma við neitt á leið inn og út og muna að þvo og spritta hendur. Íbúi í einangrun getur ekki fengið gesti fyrr en einangrun er lokið. Almennt eru ættingjar beðnir að stilla heimsóknum í hóf , nota á maska og ekki koma í heimsókn ef einhver minnstu COVID-19 einkenni hafa verið, eða fólk verið á mannamótum eða sé nýlega komið erlendis frá. 30 ára og yngri bíða með að koma. Ekki fara með íbúa á mannamót. Gangi okkur vel ​ Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
19.ágú. 2021

Engin smit hafa orðið útfrá COVID-19 smiti íbúa frá 8. ágúst

Engin smit hafa orðið útfrá COVID-19 smiti íbúa á 2. hæð frá heimsókn í heimahús 8. ágúst. Íbúi er á batavegi. Starfsfólk okkar og íbúar hafa staðið sig afar vel við þesssar erfiðu aðstæður. Íbúar á 2. hæð BC eru enþá í sóttkví og verður henni ekki aflétt fyrr en íbúinn útskrifast úr eingangrun í samráði við COVID-19 göngudeild Lsh. Þá þarf að sótthreinsa samkvæmt sérstakri hreinsunaráætlun eftir COVID-19. Áfram starfar starfsfólk í sóttvarnarhólfum og fylgja sýkingarvarnaráætlun. Ættingjar eru almennt beðnir að stilla heimsóknum í hóf meðan þetta ástand varir og gæta sóttvarna sjálfir svo ekki berist smit í húsið. Íbúar fengu Moderna örvunarbólusetningu fyrr í vikunni og fóru nokkuð vel í gegn um hana þó gætt hafi slappleika sumstaðar og smá hitasveiflna. Gangi okkur vel. Sýkingarvarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
12.ágú. 2021

Boðið verður uppá örvunarskammt vegna COVID 19 í næstu viku

Í næstu viku stendur til að gefa íbúum í Sóltúni svokallaðan örvunarskammt af bóluefni Pfizer eða bólusetningu nr. 3. Við höfum ekki fengið að vita nákvæma dagsetningu en það skýrist síðar í vikunni. Ef einhver heimilismaður vill EKKI bólusetningu, og aðstandendur þekkja best sitt fólk, þá endilega að láta hjúkrunarfræðing á sambýli ykkar íbúa vita. Annars munu hjúkrunarfræðingar og læknar hér fara yfir það með tiliti til heilsufars hjá hverjum og einum. Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
12.ágú. 2021

Einn íbúi Sóltúns greindist smitaður af COVID-19

Eftir heimsókn í heimahús um helgina smitaðist einn íbúi í Sóltúni af COVID-19. Íbúinn er í einangrun og aðrir íbúar í sama sambýli og því næsta við hliðina eru komnir í sóttkví, sem og nokkrir starfsmenn. Heimsóknir eru því ekki heimilaðar á sambýli B og C á 2. hæð á meðan sóttkví stendur yfir til að minnsta kosti næsta þriðjudag. Þar sem búið er að reka smitið þá þarf ekki að skima hér í Sóltúni að sinni en fylgst er vel með heilsu íbúa og starfsmanna. Sóltún vill ítreka leiðbeiningar og benda á að íbúar séu ekki að hitta ættingja sína 30 ára og yngri þar sem flest smit eru í þeim hópi í samfélaginu. Ættingjar eru beðnir að stilla heimsóknum annars staðar í húsinu í hóf, meðan tekist er á við þetta alvarlega verkefni og gæta sóttvarna í hvívetna. Búast má við að grípa þurfi til frekari takmarkana ef smitum fjölgar. Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
29.jún. 2021

Fiðlutónleikar

Tvær stúlkur, mjög langt komnar í námi hjá Menntaskóla í Tónlist, heimsóttu Sóltún fyrir helgi og spiluðu ljúfa tóna fyrir íbúana á tvær fiðlur. Það láðist að skrá niður nöfnin þeirra en við þökkum þeim kærlega fyrir heimsóknina.
Nánar ...
11.jún. 2021

Söngskemmtun á Sóltúni

Eftir langa Covid bið gátum við loksins komið saman í samkomusalnum okkar og hlustað á ljúfa tónlist. Nathalía Druzin Halldórsdóttir mezzósópran og Júlíana Rún Indriðadóttir píanóleikari komu og fluttu fyrir okkur einstaklega ljúfa tóna og þökkum við þeim kærlega fyrir heimsóknina. Og svo hlökkum við svo sannarlega til að gera meira af þessu!
Nánar ...
25.maí 2021

Heimsóknir á Sóltún - rýmkaðar reglur

Nú birtir til og takmarkanir vegna COVID í samfélaginu fara minnkandi, þá verða breytingar hjá okkur. Við biðjum samt biðja fólk um að fara varlega enn sem komið er, það er verið að bólusetja sumarstarfsfólkið okkar og enþá er fjöldi í samfélaginu óbólusettur.
Nánar ...
13.maí 2021

Tilslakanir á sóttvarnarráðstöfunum

Nú hafa flestir íbúar og starfsmenn Sóltúns verið fullbólusettir fyrir Covid-19 og farið hefur verið af Neyðarstigi yfir á Hættustig. Í samræmi við leiðbeiningar Samráðshóps hjúkrunarheimila í heimsfaraldri og Almannavarna mun heimilið slaka á sóttvarnarráðstöfunum í starfseminni.
Nánar ...
25.mar. 2021

Heimsóknir aðstandenda takmarkaðar við 18 ára og eldri

Vegna aukinna smita í samfélaginu og hertra sóttvarnarreglna Almannavarna hefur Sýkingavarnarnefnd Sóltúns ákveðið að takmarka heimsóknir aðstandenda við einstaklinga 18 ára og eldri. Breska afbrigðið, sem er að dreifast um þessar mundir, hefur sýnt sig að vera meira smitandi á meðal barna og Samráðshópur hjúkrunarheimila í heimsfaraldri hefur ráðlagt heimilum að á meðan þessi bylgja gengur yfir, að gera þessar ráðstafanir. Vinsamlegast skiljið börnin eftir heima. Einnig biðlum við til aðstandenda að draga úr því að taka íbúa heim, það er áfram heimilt en í samræmi við tilmæli Almannavarna eru allir beðnir um að lágmarka samskipti og samkomur í samfélaginu. Aðrar heimsóknarreglur gilda áfram, þ.e. mest tveir gestir daglega, heimsóknartíminn er milli kl. 13-19, sprittið hendur áður en þið komið inn, farið beint inn og út úr herbergjum, óheimilt er að staldra í sameiginlegum rýmum og notið einnota grímur. Nýjar reglur hafa tekið gildi í dag, 25. mars 2021.
Nánar ...
22.mar. 2021

Eflið eigin sóttvarnir þar sem samfélagsmit er orðið á ný

Þar sem samfélagssmit eru á ný komin upp á höfuðborgarsvæðinu vil ég biðja ættingja að gæta vel að eigin heilsu, ef minnstu einkenna er vart þá ber að panta sýnatöku. Ekki koma í heimsókn ef einkenni eru til staðar. Gæta þarf vel að persónulegum sóttvörnum, einnig þó svo fólk sé búið að fá bólusetningar. Munum að dæmi eru um að bylgjur hafa blossað upp af einungis einu smiti.
Nánar ...
19.mar. 2021

Trúnaðarbrot

Trúnaðarbrot hefur átt sér stað varðandi takmarkaðar upplýsingar úr sjúkraskrá í Sóltúni. Um afmarkað tilvik er að ræða sem varðar einn íbúa og einn starfsmann hjúkrunarheimilisins. Málið hefur verið tilkynnt til Persónuverndar og Embættis Landlæknis sem hefur eftirlit með heilbrigðisstarfsfólki. Í vinnslu er kæra til lögreglu. Hlutaðeigandi hafa verið upplýstir um málið. Sóltún harmar atvikið sem hefur reynst þungbært og mun ekki tjá sig um málið á meðan það er til rannsóknar hjá þar til bærum aðilum.
Nánar ...
03.mar. 2021

Tilslakanir á hættustigi

Þar til bólusetningu starfsmanna Sóltúns er að fullu lokið er mælst til þess að heimsóknargestir séu eingöngu í heimsókn inni á herbergjum íbúa, en ekki í setustofum eða borðstofum eininga/deilda. Á Sóltúni hjúkrunarheimili eru reglur á hættustigi eftirfarandi: 1. Mælst er til þess að heimsóknartími sé að öllu jöfnu milli kl. 13-19 daglega. Starfsmenn, íbúar og heimsóknargesti eru hvattir til að gæta ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. 2. Að öllu jöfnu mæti aðeins tveir gestir (fullorðnir) í heimsókn til íbúa á hverjum tíma . Börn eru ekki þar með talin. Þau eru ábyrgð fullorðinna gesta og eiga ekki að dvelja á almenningssvæðum. Yfirmaður getur veitt undanþágu ef: a. íbúi er á lífslokameðferð b. íbúi veikist skyndilega c. um er að ræða neyðartilfelli d. hann metur það svo að nauðsynlegt sé að rjúfa þessa reglu. 3. Gestir þvo hendur með sápu og spritta áður en gengið er inn á heimili og einnig við brottför. 4. Gestir bera grímu á leið sinni innnandyra að vistarveru ættingja. 5. Gestir mega ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilis. 6. Gestir eiga forðast beina snertingu við íbúa eins og hægt er (á ekki við um hjón eða sambúðarfólk). MUNIÐ 2ja metra nándarmörk! 7. Hjúkrunarheimilið er opið á auglýstum tíma fyrir gesti og áríðandi er að þeir fari rakleiðis að herbergi íbúa og aftur að útidyrum að heimsókn lokinni. Almenningssvæði eru lokuð heimsóknargestum s.s. samkomusalur. Sem dæmi má nefna að heimsókn getur falist í að íbúi fari út í garð og hitti sinn aðstandanda þar. 8. Gestir mega ekki koma í heimsókn ef þeir: a. eru í sóttkví. b. eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku) c. hafa dvalið erlendis og ekki eru liðnir 14 dagar frá heimkomu d. hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift e. eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang). Íbúi getur farið út af heimilinu til að sinna almennum erindum og heimsóknum . Gæta þarf ítrustu árvekni og hafa sóttvarnaráðstafanir í heiðri. Þegar íbúi kemur tilbaka í Sóltún er mikilvægt að ættingjar aðstoði viðkomandi við að þvo og/eða spritta hendur. Mælst er til þess að íbúar fari ekki á hópfagnaði, þar sem fleiri en 50 koma saman og einnig að ekki séu haldnar samkomur innan heimilis þar sem fleiri en 50 koma saman í rými. Grímuskyldu framlínustarfsmanna við umönnun á hjúkrunarheimilum er almennt aflétt inni á vistarverum íbúa þar sem bólusetningu íbúa er lokið og starfsmenn hafa hlotið fyrri bólusetningarskammt. Undantekningin er sú að starfsmenn verða að setja upp grímu ef ekki er hægt að halda 2ja metra nándarmörk við gesti eða íbúa sem ekki hafa fengið bólusetningu. Gæta skal ítrustu varúðar og ef minnsti grunur vaknar um smit hjá íbúa, gesti eða starfsmanni skulu grímur umsvifalaust settar upp. Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
11.feb. 2021

Starfsfólk var bólusett í dag

Starfsfók Sóltúns var bólusett í dag með AstraZeneca bóluefninu. Þetta er 1. bólusetning og sú næsta verður eftir 3 mánuði. Fyrirkomulagið var vel skipulagt af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og var Sóltún með hjúkrunarfræðing og starfsmann á staðnum til aðstoðar. Sóltúnsbíllinn bauð sætaferðir fram og til baka í Sóltún í allan dag.
Nánar ...
11.feb. 2021

Samstarf um uppbygginu í öldrunarþjónustu

Öldungur hf. hefur hafið samstarf við Reginn fasteignafélag um frekari uppbyggingu í öldrunarþjónustu. Reginn hefur keypt 90% hlut í Sóltún fasteign ehf. og á Öldungur hf. 10% hlut. Engin breyting er á starfsemi Sóltúns hjúkrunarheimilis og er það áfram rekið af Öldungi í samræmi við þjónustusamning við ríkið.
Nánar ...
20.jan. 2021

Seinni bólusetning íbúa er 21. janúar

Það er komið að seinni bólusetningu íbúa Sóltúns við COVID-19 en hún mun fara fram fimmtudaginn 21. janúar. Reynslan sýnir að bólusettir einstaklingar eru líklegri til að fá meiri flensueinkenni við síðari bólusetningu en við fyrri en fylgst verður vel með öllum eins og áður. Viku síðar er talið að bóluefnið hafi náð fullri virkni og þá er þungu fargi létt af mörgum. Þeir íbúar sem ekki fengu fyrri bólusetningu í desember af einhverjum ástæðum, fá fyrstu bólusetningu sama dag. Heimsóknarreglur verða áfram óbreyttar. Við bíðum fyrirmæla varðandi breytingar á heimsóknarreglum frá samráðshópi almannavarna og hjúkrunarheimila um heimsfaraldur en ekki má búast við miklum afléttingum á sóttvörnum þar sem bólusetning starfsmanna hjúkrunarheimila hefur verið færð í forgangsröðun fyrir aftan Íslendinga 70 ára og eldri. Með kveðju, Sýkingavarnarnefnd Sóltúns
Nánar ...
28.des. 2020

Bólusetning gegn COVID

Fyrri bólusetning íbúa á Sóltúni við COVID-19 mun fara fram miðvikudaginn 30. desember. Við fögnum mjög þessum tímamótum eftir virkilega krefjandi ár þar sem við höfum öll lagst á eitt við að verja viðkvæma íbúa heimilisins. Loksins geta íbúar, aðstandendur og starfsfólk andað aðeins léttar vegna þessa vágests sem hefur lagst yfir heimsbyggðina. Tilslakanir á sóttvörnum Þar sem bóluefnið gefur ekki fulla vörn við fyrstu bólusetningu, þá má búast við því að starfsfólk og aðstandendur þurfi að fylgja stífum sóttvarnarfyrirmælum fram yfir seinni bólusetningu að minnsta kosti. Bóluefnið skilar ekki fullri virkni fyrr en viku eftir síðari bólusetningu. Seinni bólusetning mun fara fram 19-23 degi síðar. Óvíst er á þessari stundu hvað tekur svo við í framhaldinu hvað varðar heimsóknarreglur hjúkrunarheimila þar sem starfsfólk hjúkrunarheimila er áfram óvarið og verður bólusett síðar. Samráðshópur almannavarna og hjúkrunarheimila um heimsfaraldur mun gefa út uppfærðar leiðbeiningar um sóttvarnir sem við munum fylgja eftir sem áður. Starfsfólk hjúkrunarheimila er í forgangshópi 5 en í dag er óvíst hvenær sá hópur fær bólusetningu, sennilega í lok janúar, byrjun febrúar miðað við nýjustu fréttir. Þangað til þeirri aðgerð er lokið er nauðsynlegt að halda áfram sóttvörnum til að varna hópsmiti meðal starfsfólks en það getur haft í för með sér þjónustuskerðingu fyrir íbúa, svo ekki sé talað um heilsu og vellíðan okkar dýrmæta starfsfólks. Þegar bólusetningu starfsfólks er lokið að fullu, þá getum við tekið aftur upp eðlilegt líf í Sóltúni. Miðað við upplýsingar um bólusetningarsendingar má búast við því á vormánuðum. Með vinsemd og virðingu. Sýkingarvarnarnefnd Sóltúns.
Nánar ...
25.nóv. 2020

Frekari tilslakanir vegna heimsókna

Þar sem smitum fer fækkandi þá verða frekari tilslakanir vegna heimsókna. Nú verða leyfðar 2 heimsóknir á viku til hvers íbúa, best er að það sé sami heimsóknargesturinn (náinn ættingi sem heldur sig að mestu í sjálfskipaðri sóttkví milli heimsókna). Munið að það er maskaskylda, þvo þarf hendur og spritta, halda 2ja metra fjarlægð, fara beint inn til íbúa og beint út þegar heimsókn lýkur. Ekki dvelja á almenningssvæðum og ef ræða þarf við starfsmenn, nota þá símann. Alls ekki koma ef þú ert með veikindaeinkenni, eða hefur verið útsettur fyrir smit, ert í sóttkví eða nýkomin til landsins og ert ekki búin að hafa í tvær skimanir. Möguleiki er að fara saman út í garð ef veður leyfir, en halda fjarlægð ef þið mætið einhverjum. Möguleiki er að fara í bíltúr með einum heimsóknargesti. Þá þarf að spritta snertifleti í bílnum, vera með maska og ekki fara á mannamót eða í verslun eða þess háttar. Gangi okkur öllum vel, verum traustsins verð.
Nánar ...
11.nóv. 2020

Leikskólinn Sólstafir söng úti í garði

Leikskólinn Sólstafir kom og söng fyrir íbúa og starfsfólk í gær. Krakkarnir sungu nokkur lög hátt og snjallt og lífguðu heldur betur upp á skammdegið. Við þökkum kærlega fyrir heimsóknina og hlökkum til að fá þau aftur.
Nánar ...
05.nóv. 2020

Sérstök COVID einangrunardeild fyrir íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu

Samið hefur verið við Sjúkratrygginar Íslands um rekstur sérstakrar COVID einangrunardeildar fyrir íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu. Hún verður rekin á Eir hjúkrunarheimili og er samstarfsverkefni hjúkrunarheimila innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni. Ef íbúi hjúkrunarheimilis smitast af COVID er möguleiki á að flytja hann í einangrun og í sérhæfða meðferð á deildina. Þannig fæst sérhæfð þjónusta við góðar aðstæður og smit dreifist síður út.
Nánar ...
27.okt. 2020

Minningarsjóður Sóltúns gefur rólu í garðinn

Við fengum uppsetta 3ja sæta/manna rólu í Sóltúnsgarðinn í sumar. Hún var keypt fyrir peninga sem safnast höfðu í Minningasjóð Sóltúns og sáu söluaðilar um uppsetningu hennar. Rólunni var valin staður á skjólsælum stað við gróðurskálann, þar sem oft eru haldnir viðburðir á hlýjum björtum dögum. Gúmmímotta var sett undir til að auka stöðugleika notenda og til draga úr jarðvegseyðingu. Rólan var oft nýtt í sumar af íbúum og samfylgdarfólki þeirra sem áttu leið um og töluðu menn um róandi áhrif hennar. Sumir tóku upp gamla rólutakta og spyrntu fótum fram til að fá meiri kraft í “swingið”. Fyrir kom að í rólunni sátu 3 ættliðir saman. Ekkert er því til fyrirstöðu að nýta róluna á fögrum vetrardegi undir hlýju teppi. Kærar þakkir fyrir hlýhuginn til starfseminna.
Nánar ...
20.okt. 2020

Sóltún Öldrunarþjónusta svarar ákalli heilbrigðisráðuneytisins um ný hjúkrunarrými

Sóltún öldrunarþjónusta systurfélag hjúkrunarheimilisins Sóltúns: • Býðst til að reka Oddsson hótel sem hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða og létta álagi á Landspítalann • Gæti nýst 77 einstaklingum sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými og komast m.a. ekki af Landspítalanum vegna skorts á hjúkrunarrýmum Reykjavík, 20. október 2020 Sóltún Öldrunarþjónusta hefur boðið heilbrigðisráðuneytinu að reka Oddsson hótel sem tímabundna hjúkrunaraðstöðu fyrir aldraða. Þar myndi félagið taka á móti einstaklingum sem hægt er að útskrifa af Landspítalanum en komast ekki þaðan vegna skorts á úrræðum. Með því myndi léttast verulega það álag sem nú er á Landspítalanum, en Oddsson gæti tekið við allt að 77 einstaklingum í einstaklingsherbergi. Sóltún Öldrunarþjónusta svarar þannig nýlegu ákalli heilbrigðisráðuneytisins, sem sendi fyrir skömmu erindi á hjúkrunarheimili og óskaði eftir að þau leituðu leiða til að fjölga hjúkrunarrýmum. Félagið býðst til að reka aðstöðuna í Oddsson á meðan samfélagið vinnur úr því erfiða ástandi sem skapast hefur vegna COVID-19. Fyrstu rýmin gætu verið tilbúin í nóvember. Oddsson hótel er í nýuppgerðu húsnæði við Grensásveg og ekki þarf að ráðast í miklar breytingar á sameiginlegu rými eða herbergisaðstöðu til að hægt sé að reka þar þjónustu fyrir aldraða. COVID-19 hefur gert það að verkum að lítil eftirspurn er eftir hótelrýmum sem stendur og því hefur myndast þetta tækifæri til að nýta hótelið til að leysa bráðavanda Landspítalans. Sóltún Öldrunarþjónusta er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði og heimahjúkrunarþjónustunnar Sóltún Heima. Félagið hefur jafnframt reynslu af uppsetningu og rekstri bráðabirgðahjúkrunarheimilis, því það opnaði og rak 30 bráðabirgðarými á síðasta ári sem stækkun við Sólvang á meðan beðið var eftir opnun nýs hjúkrunarheimilis á Sléttuvegi. Anna Birna Jensdóttir, stjórnarformaður Sóltúns öldrunarþjónustu,
Nánar ...
05.okt. 2020

Heimsóknarbann er á NEYÐARSTIGI

Lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna á öllu landinu í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum COVID-19. Neyðarstig tók gildi á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. október samhliða hertum samkomutakmörkunum. Mikil fjölgun smita undanfarna daga auka líkur á veldisvexti. Frá 15. september til 4. október hafa um 630 einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands. Jafnframt hefur daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví veriðum 50%. Fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega hefur aukist og hafa um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda. Í dag eru þrettán á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu og tveir á öndunarvél. Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu. Mjög áríðandi er að fólk fylgi leiðbeiningum um einstaklingsbundnar smitvarnir, virði sóttkví og fylgi gildandi takmörkunum á samkomum. Sóltún hefur sett á heimsóknarbann í samræmi við viðbragsáætlun.
Nánar ...
14.sep. 2020

COVID 19 greindist hjá einum starfsmanni Sóltúns

Í gær greindist einn starfsmaður Sóltúns með COVID19 eftir skimun vegna smávægilegra veikinda. Viðkomandi starfaði í sóttvarnarhólfi og var ekki í beinum samskiptum við íbúa, ættingja eða sambýli undanfarnið. Unnið er að smitrakningu á vegum smitrakningarteymis Almannavarna.
Nánar ...
07.ágú. 2020

Heimsóknir takmarkast við eina á dag

Sæl, vegna aukningu á samfélagssmitum í samfélaginu þá eru heimsóknir takmarkaðar við eina heimsókn á dag og óskað er eftir því að sá sem kemur sé í sjálfskipaðri sóttkví heima hjá sér milli heimsókna og noti ekki almenningssamgöngur til að komast til og frá Sóltúni. Þetta er afar mikilvægt á þessu stigi að fólk fari eftir þessum leiðbeiningum. Gestur er beðinn um að skrá heimsókn sína á blað sem er í anddyrinu og skila í rauða póstkassann í innra anddyri þegar hann fer. Ath.gestir geta ekki komið oftar en einu sinni á dag. Við erum öll almannavarnir og svona takmarkanir eru ekki settar á nema það sé talið afar nauðsynlegt. Anna Birna Jensdóttir
Nánar ...
30.júl. 2020

TAKMARKANIR Á HEIMSÓKNUM VEGNA COVID 19- BREYTINGAR 30.JÚLÍ 2020

Kæru íbúar, starfsmenn og aðstandendur. Í ljósi breyttra aðstæðna í samfélaginu sl. daga þá hefur verið ákveðið að takmarka heimsóknir til íbúa Sóltúns til að tryggja sem best öryggi þeirra. 1-2 gestir mega heimsækja hvern íbúa í daglega. Gestir verða að fara beina leið inn á herbergi íbúa og er ekki heimilt að nýta önnur samverurými á meðan á takmörkunum stendur. Sé viðkomandi íbúi ekki inni í herbergi þarf að biðja starfsmenn um að sækja hann. Gestir eru vinsamlega beðnir að gera það ekki sjálfir. 2 metra reglan er nú skylda og forðast skal snertingu við íbúa. Við minnum á mikilvægi handspritts og almenns hreinlætis. Spritt er við inngang í húsið og á öllum sambýlum og herbergjum. Aðstandendur sem eru í einangrun eða sóttkví, bíða eftir niðurstöðum úr sýnatöku, hafa einkenni flensu eða hafa verið erlendis mega ALLS EKKI koma í heimsókn á Sóltún. Reglurnar hafa þegar tekið gildi og verða endurskoðaðar eftir þörfum. Hjúkrunarstjórn Sóltúns
Nánar ...
15.jún. 2020

Reglur fyrir gesti sem koma erlendis frá

Komufarþegar til Íslands eiga frá 15. júní 2020 kost á að fara í sýnatöku á landamærum í stað 14 daga sóttkvíar. Meðan það verður í boði gilda ákveðnar reglur á Sóltúni hjúkrunarheimili. Þeim eindregnu tilmælum er beint til gesta að heimsækja ekki ættingja á hjúkrunarheimilinu fyrr en 14 dögum eftir heimkomu erlendis frá. Ef aðstæður eru þannig að heimsókn er metin mikilvæg og að höfðu samráði við Sóltún þá er heimsóknargestur beðinn um að vera með skurðstofugrímu og spritta hendur. Þetta gildir aðeins að því gefnu að viðkomandi hafi engin einkenni sem geta bent til COVID-19 eða hafi umgengist einstakling með sjúkdóminn á síðustu 14 dögum.
Nánar ...
29.maí 2020

Heimsóknarbanni aflétt frá 31. maí

Vel hefur gengið með tilslakanir á heimsóknarbanninu og færi ég íbúum og ættingjum þeirra og starfsfólki kærar þakkir fyrir það. Frá og með sunnudeginum 31. maí verður opið fyrir heimsóknir. Þá þarf ekki lengur að panta tíma. Það eru þó enþá að greinast smit í samfélaginu og því ber að fara með aðgát og viðhalda smitvörnum.
Nánar ...
19.maí 2020

Frekari tilslakanir á heimsóknarbanni framundan

Sæl, takk fyrir þolinmæði og góða samvinnu vegna takmarkana á heimsóknum á COVID 19 tímum. Frá og með 25. maí munu heimsóknir heimilaðar í tvær á hvern íbúa þá vikuna, börn yngri en 14 ára geta þá komið í heimsókn, en einungis einn með hverjum fullorðnum gesti.
Nánar ...
07.maí 2020

Fréttir frá Sóltúni

Það hefur gengið ágætlega að skipuleggja heimsóknir, nánast allir íbúar eru með skipulagða heimsókn þessa fyrstu viku. Það getur verið tilfinningaþrungið að sjá ættingja sinn eftir svona langan tíma og erfitt að fylgja leiðbeiningum. Sárt er hjá þeim sem hefur farið aftur á tímabilinu. ​Þakka má samstilltu átaki starfsfólks og samvinnu þeirra við íbúa og ættingja hvernig til hefur tekist að verjast Covid vágestinum enn sem komið er. Íbúar hafa sýnt æðruleysi og þakklæti og stappað stálið í ættingja sína með því að bera sig vel. Margir íbúar eiga marga nána ættingja og reynir nú á þolinmæði t.d. í systkinahópi að bíða eftir tíma þar sem aðeins er einn gestur í einu á viku. Tilslakanir á heimsóknarbanni verða endurskoðaðar um miðjan mánuð. Um helgina eigum við von á sönghópnum Vocalist í garðinn að syngja og í næstu viku hljóðfæraleikurum úr Symfóníuhljómsveitinni til að halda hljómleika í garðinum. Listamennirnir munu halda 2 metrum á milli og íbúar fylgjast með eftir áhuga sínum frá sínum sambýlum og svölum, gætt verður að aðeins fólk sem er í sama sóttvarnarhólfi sé saman. Ekki er hægt að bæta gestum í garðinn. Veðrið er að batna og fer starfsfólk með íbúa út í garð og svalir eftir því sem áhugi og geta leyfir. Við tökum bráðum út hjólið okkar góða og bjóðum áhugasömum í hjólatúr. Gangi okkur áfram vel í baráttunni. Anna Birna Jensdóttir
Nánar ...
04.maí 2020

Tilslakanir á heimsóknarbanni hefjast í dag

Sæl, þá hefjast heimsóknir samkvæmt skipulagi í dag. Hver heimsóknargestur hefur fengið staðfestan tíma og leiðbeiningar um hvernig eigi að bera sig að. Það eru 12 heimsóknir á dag, þannig að á einni viku ættu allir íbúar að hafa fengið eina heimsókn. Það er mikilvægt að gæta að 2 metra fjarlægð á leið inn og út úr húsinu. Bíða ef fleiri eru að ganga stiga o.s.frv. og fylgja leiðbeiningunum: Munið að þvo og/eða spritta hendur í upphafi heimsóknar og að henni lokinni. • Notið fljótandi sápu og bréfþurrkur (ekki handsápu eða handklæði íbúans). • Notið einnota hanska meðan á heimsókn stendur (ekki henda notuðum hönskum á víðavang). • Komið við sem minnst af snertiflötum í íbúðinni. • Haldið 2 metra fjarlægð og forðist snertingu. • Ekki fara fram á gang, nema þegar komið er og farið gegnum hurð á brunastiga. • Ef nota þarf WC, notið þá aðstöðu hjá íbúanum. • Ef þarf aðstoð, hringjið þá bjöllu eftir hjálp. Bíðið við gluggann meðan aðstoðað er. Ef aðstæður þínar breytast áður en heimsóknartíminn er áætlaður, þá frestast heimsóknin: a. Þú ert í sóttkví b. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku c. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. d. Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.). Stefnt er að því að vanda heimsóknir eins og frekast er unnt og því er áríðandi að fylgja leiðbeiningum. Anna Birna Jensdóttir
Nánar ...
30.apr. 2020

Daglegt líf í Sóltúni

Góða veðrið hefur leikið við okkur undanfarna daga. Garðurinn hefur verið hreinsaður og garðhúsgögnin komin út. Íbúar sem búa í sama sambýli hafa notið útiveru saman og farið í göngutúra eða setið í sólinni. Enþá er samkomubann innanhúss og því var bingó gegnum farfundabúnað í dag. Vel hefur gengið að skipulaggja heimsóknir sem hefjast í næstu viku. Ættingjar geta pantað heimsókn með því að hringja í 5906003 virka daga eða senda tölvupóst á soltun@soltun.is. Þá fær fólk heimsóknartíma og leiðbeiningar um hvernig bera á sig að. Við stefnum að því að fara varlega og fylgja reglum og leiðbeiningum sóttvarnaryfirvalda við tilslakanir. Kærar þakkir til allra fyrir skilning og samstöðu.
Nánar ...
22.apr. 2020

Tilslakanir á heimsóknarbanni frá 4. maí

Ágæti íbúi og aðstandandi Heimsóknir verða leyfðar inn á hjúkrunarheimilið Sóltún frá og með 4. maí næstkomandi með ákveðnum takmörkunum. Þó mikið hafi áunnist í baráttunni gegn COVID-19 erum við ekki komin í höfn og sýna þarf ítrustu varkárni og virða sóttvarnaráðstafanir í heimsóknum. Einnig er nauðsynlegt að takmarka þann fjölda sem kemur inn í heimilið á hverjum tíma. Vonir eru bundnar við að heimsóknir verði rýmkaðar enn frekar í júní 2020. Vinsamlega kynnið ykkur vel eftirfarandi heimsóknarreglur: 1. Ekki panta heimsóknartíma og alls ekki koma í heimsókn ef: a. Þú ert í sóttkví b. Þú ert í einangrun eða að bíða eftir niðurstöðu úr sýnatöku c. Þú hefur verið í einangrun og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift. d. Þú ert með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.). 2. Heimsóknartími er frá: kl. 14-16 daglega 3. Hægt verður að byrja að panta eftir næstu helgi. Hafið samband gegnum tölvupóstfangið soltun@soltun.is eða hringið í móttöku Sóltúns í síma 5906003 á dagvinnutíma og pantið heimsóknartíma. Tímum verður jafnað niður á íbúa og um húsið. Það verður haft samband við þig um hvenær þú færð tíma. Heimild til heimsókna, einu sinni í viku er veitt frá 4. maí. Ef vel gengur í baráttunni við veiruna, verður tíðni heimsókna aukin í annarri viku í tvisvar í viku til hvers íbúa. 4. Við hvetjum ykkur til að hlaða niður í símana ykkar smitrakningarappi almannavarna Rakning C-19 fyrir 4. maí 5. Hinkrið eftir starfsmanni á tilgreindum inngöngustað, hann fylgir ykkur til íbúa. M.a. verður notast við innganga um brunastiga til íbúa á efri hæðum til að takmarka umferð um almenningssvæði hússins. Munið að þvo og/eða spritta hendur áður en heimsókn hefst og að henni lokinni. Ekki koma við neitt í almannarýmum, gestum verður fylgt beint til íbúa og fylgt að útgöngudyr þegar þeir fara. 6. Athugið að heimsóknin er til ættingja þíns, staldrið ekki við til að ræða við aðra íbúa, ættingja eða starfsfólk. Notið símann til að fá upplýsingar hjá hjúkrunarfræðingi. 7. Virðið 2ja metra regluna og forðist snertingu við íbúa eins og hægt er. Aðrar breytingar sem verða frá 4.maí á starfsemi innan hjúkrunarheimila Iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, önnur þjálfun: Einstaklingsmeðferð verður fyrir íbúa og starfsfólk á heimilinu. Einstaklingar utan úr bæ mega ekki koma inn á heimili til þjálfunar fyrr en frekari tilslakanir verða. Í sal sjúkraþjálfunar er nauðsynlegt að halda 2ja metra reglunni áfram og hámarksfjöldi í sal miðast við að þessi regla haldi. Hópameðferð skal áfram vera takmörkuð við að einstaklingar í sama sóttvarnahólfi séu saman við æfingar. Hárgreiðsla og hársnyrting/fótaaðgerð og fótsnyrting: Er aðeins leyfð fyrir heimilismenn og starfsmenn á hverjum tíma. Einstaklingar utan úr bæ mega ekki koma inn á heimilið til að fá þessa þjónustu á sama tíma og íbúar eru í sama rými. Gæta þarf vel að aðskilnaði íbúa frá utanaðkomandi gestum. Almenna reglan er áfram að einstaklingar í sama sóttvarnahólfi fái þjónustu á sama tíma. ATHUGIÐ: Ef smit vegna COVID-19 aukast aftur, eða smit vegna annarra smitsjúkdóma, munu tilslakanir á heimsóknarbanni ganga til baka og reglur verða hertar á ný. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri
Nánar ...
16.apr. 2020

Daglegt líf á COVID19 tímum

Sæl, ég vil byrja á að þakka öllum aðstandendum skilning og samvinnu vegna heimsóknarbanns á COVID tímum. Í morgun var fólk í leikfimi, sjúkraþjálfun, settar voru rúllur í hár, þvottur var brotinn saman, hlustað var á framhaldssögu, farið í gönguferðir, verið í iðjuþjálfun og svo mætti lengi telja. Sóttkví er enþá á 3. hæð D og E, ekkert smit hefur greinst og lýkur sóttkví þar á þriðjudag í næstu viku. Hópur starfsmanna er í sóttkví heima og við höfum haft bakverði til að leysa þá af á meðan. Fólk stendur sig vel. Starfshópur á vegum Sóttvarnalæknis og hjúkrunarheimilanna vinnur að leiðbeiningum við tilslakanir á heimsóknarbanni sem reiknað er að verði frá 4. maí. Þær verða kynntar síðasta vetrardag. Það er mikilvægt að standa saman sem áður, að við séum öll almannavarnir hefur gefist vel fram að þessu. Anna Birna Jensdóttir
Nánar ...
14.apr. 2020

Aukin samvera íbúa og djákna á tímum sóttvarna og heimsóknarbanns

Djákni Sóltúns býður uppá fastar hugræktarstundir fyrir íbúa á deildum þeirra. Þar er spjallað um daginn og veginn, gert að gamni sínu, spáð í veðrið, og ýmislegt annað skemmtilegt. Fréttir eru oft ræddar við horfum með bjartsýni framá veginn og ræðum út um hluti ef fólk hefur áhyggjur af ástandinu og finnum því góðan farvegi. Mörg fylgjast með fréttum og því er nauðsynlegt að ræða það og sjá að þetta tekur enda. Mörg eiga reynslu af faraldri sem gekk yfir á þeirra yngri árum. Lesnar eru stuttar uppbyggjandi sögur og ljóð. Við hlustum á fjölbreytta tónlist, síðast höfum við verið að hlusta á lög eftir Sigfús Halldórsson, sem minna á vorið og sumarið sem er að næsta leiti og syngjum með. Við æfum okkur í að anda og hugleiða á gleðina og þakklætið. Við biðjum, við tölum um Guð og trú. Förum með bænavers sem flestir kunna. Við biðjum fyrir okkur, fjölskyldum okkar, landi, þjóð og ástandi heimsins. Við finnum að bænin gerir okkur gott og við upplifum þennan dýrmæta frið. Það eykur vellíðan og lífsgæði. Lagt hefur verið áhersla á að auka heimsóknir djákna til íbúa annað hvort inná herbergi þeirra eða yfir kaffibolla í dagstofum allt eftir þörfum og aðstæðum. Þó svo að margir sakni ásvina sinna þá eru þau ótrúlega skilningsrík, þolinmóð og þakklát fyrir fjölskyldur sínar og vita að þau hugsa til þeirra. Eins hefur starfsfólk deildanna mikil samskipti við íbúa. Síminn er mikið notaður, eins er boðið uppá að vera á skype. Svo hafa íbúar félagsskap hver af öðrum. Þannig að oft er mjög glatt á hjalla hjá okkur en líka rólegt og notalegt. Við leggjum okkur fram um að hlúa að og veita félagsskap eins og okkur er unnt á þessum tímum. En það birtir upp um síðir og vorar, það styttist í sumardaginn fyrsta þegar Harpan gengur í garð þann 23.apríl. Elísabet Gísladóttir djákni.
Nánar ...
09.apr. 2020

Milli máls og messu

Sveinn Einarsson færði íbúum og starfsfólki glaðning fyrir páskana. Handrit af sögunni ,,Milli máls og messu". Sagan sem gerist á hjúkrunarheimili er lesin sem framhaldssaga fyrir íbúa í hverju sambýli fyrir sig. Frásögnin er tileinkuð þeim sem hugsa meira um sjálfa sig en aðra. Kærar þakkir fyrir hlýhug og léttir lund og gleður í heimsóknarbanni á COVID tímum.
Nánar ...
08.apr. 2020

Sjúkra- og iðjuþjálfun á COVID tímum

Hér í Sóltúni höfum við þurft að gera töluverðar ráðstafanir til að tryggja sóttvarnir seinasta mánuðinn. Við höfum þurft að gera breytingar nokkrum sinnum á vinnulagi til að aðlagast aukinni útbreiðslu sjúkdómsins eftir því sem liðið hefur á. Í dag er vinnulag þannig að við höfum skipt húsinu upp í 6 parta. Hvert sambýli í húsinu fær sinn dag í þjálfun (þau tvö sambýli sem eru með fæsta virka íbúa fá einn dag saman). Þann dag fer allt okkar starfsfólk inn á það sambýli og nær hver einasti íbúi fær sjúkraþjálfun þann daginn. Líka þeir sem ekki hafa endilega áður verið í fastri sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfunin fer þá fram þannig að við förum inn á sambýlið með mestallan þann búnað sem er færanlegur og fólk hjólar, gerir styrkjandi og liðkandi æfingar, færniþjálfun, boltaþjálfun, gönguæfingar og allt það sem okkur dettur í hug auk leikja og almenns sprells þann daginn. Þann daginn býðst íbúum líka að fara í útigöngu með fylgd og er það vel nýtt þá daga sem það er möguleiki vegna veðurs. Fyrir utan þann dag sem sjúkraþjálfun er inni á sambýlunum fær hvert sambýli einnig tvo hópþjálfunartíma á viku, sem passað er upp á að dreifa vel yfir vikuna. Þeir sem eru vanir að vera í mikilli þjálfun hjá okkur hafa fengið leiðbeiningar um hvernig þeir geta sem mest og best þjálfað sig sjálfir með eða án aðstoðar starfsmanna á sambýlunum eftir því sem við á. Núna fyrir páska fengum við einnig aukna mönnun til að passa upp á að ekki myndi líða of langur tími milli þess að íbúar fengju þjálfun vegna frídaga. Það hefur verið almenn og mikil ánægja með þetta fyrirkomulag þjálfunar meðal íbúa og starfsfólks og ýmsar hugmyndir sem hafa komið upp með þessu breytta fyrirkomulagi. Sérstaklega ánægjulegt hefur verið að sjá hvað íbúar sem hafa ekki haft áður löngun til að mæta í sal til þjálfunar hafa svo þegar hún er færð í þeirra sambýli, þeirra heimasvæði, hafa komið og fengist til að gera ýmsar æfingar. Þannig að í raun eru fleiri íbúar í þjálfun núna heldur en í venjulegu árferði sem er fagnaðarefni. Í iðjuþjálfunarsal hefur verið lokað meðan samgöngubann er, en starfsfólk hittir íbúa í dagstofum sambýla þeirra og einstaklinga á herbergjum sínum sem þess óska. • Helstu efnistök félagsstunda: o söngstundir, o upplestur og umfjöllun (framhaldsögur, smásögur, dagblöð, ljóð, gátur, málshættir), o saumaklúbbar og handverk ýmiskonar, o púsl, spil og bingó o Bíóstundir tvo eftirmiðdaga í viku þar sem sýndar eru valdar kvikmyndir, tónleikar náttúrulífsmyndir (snakk gos/safar) auk þess sem sóttar eru myndir-og tónlistarefni gegnum stafræna sjónvarpsmiðla. Oft er glatt á hjalla á þessum stundum og íbúar tjá þakklæti sitt og ánægju með samveruna. Með hækkandi sól má nýta útiveru meira, garðskála göngu- og hjólaferða.
Nánar ...
07.apr. 2020

Tvö sambýli sett í sóttkví

Starfsmaður Sóltúns hefur greinst með kórónuveirusmit í slembiúrtaki. Starfsmenn smitrakningardeildar Almannavarna létu vita af þessu í dag. Unnið er að smitrakningu. Tvö sambýli á þriðju hæð D og E hafa verið sett í sóttkví næstu tvær vikur í forvarnarskyni og hefur aðstandendum íbúa þar verið gert viðvart. Þá hafa alls þrír starfsmenn Sóltúns greinst með smit frá upphafi faraldurs, en enginn íbúi. Sýkingavarnanefnd Sóltúns
Nánar ...
06.apr. 2020

Páskabingó í fjarfundabúnaði

Nú er verið að spila páskabingó, því er sjónvarpað frá samkomusal í öll sjónvörp hússins. Fólk hringir inn bingó og hlaupari fer með vinninginn til íbúans.
Nánar ...
03.apr. 2020

Samtal eða sálgæsla fyrir aðstandendur íbúa Sóltúns

Á þessum fordæmalausu tímum þegar allar heimsóknir eru bannaðar til íbúa Sóltúns vegna COVID-19, upplifa margir aðstandendur erfiða tíma, einmannaleika og kvíða. Til að koma til móts við aðstandendur bjóðum við uppá samtal við djákna. Markmiðið er að liðsinna þeim sem glíma við vanlíðan eða söknuð ástvina sem þau geta ekki hitt vegna heimsóknarbannsins. Hægt er að senda póst á elisabetg@soltun.is, hringja í síma 824-9007, skilja eftir skilaboð í síma 590-6000, eins má koma skilaboðum til sambýlanna. Djákni verður í sambandi við fyrsta tækifæri. Endilega nýtið ykkur þessa þjónustu. Saman stöndum við í gegnum þessa erfiðu tíma.
Nánar ...
02.apr. 2020

Bakvarðarsveit Sóltúns

Stofnuð hefur verið bakvarðasveit Sóltúns vegna Covid 19 faraldursins. Óskað er eftir hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, félagsliðum og almennum starfsmönnum vönum aðhlynningu, eldhússtörfum og ræstingu til að skrá sig á útkallslista bakvarða komi til tímabundið aukinnar mönnunarþarfar á meðan faraldurinn gengur yfir. Við yrðum því afar þakklát ef einhverjir fyrrum starfsmanna Sóltúns og aðrir áhugasamir sem gætu lagt okkur lið myndu skrá sig með því að senda tölvupóst á Önnu Guðbjörgu Gunnarsdóttur, mannauðsstjóra á annagg@soltun.is eða í síma 590-6211. Tímabil starfa og fjöldi vakta er samkomulag. Laun og réttindi taka mið af kjarasamningum viðeigandi stéttarfélags og SFV. Með hlýhug og kæru þakklæti frá okkur öllum í Sóltúni
Nánar ...
30.mar. 2020

Daglegt líf á COVID19 tímum

Daglegt líf á hjúkrunarheimilinu gengur ágætlega, allt er með ró og spekt og íbúar taka takmörkunum með æðruleysi. Töluverð endurskipulagning hefur verið á skipulagi starfseminnar. Heimsóknarbann fór á 6. mars og er engin umferð utanaðkomandi um heimilið nema starfsmanna á vakt hverju sinni. Undantekningar eru í algjöru lágmarki. Íbúar hafa samskipti við ættingja sína gegnum hefðbundin símtöl, Skype, Messenger o.s.frv. Hárgreiðslustofan og fótaaðgerðarstofan eru lokaðar. Þjálfun er á sambýlum íbúa, ekki í sal og djákni sinnir sálgæslu íbúa. Starfsfólk ber mikla umhyggju fyrir íbúum og grípur hvert tækifæri til að njóta dagsins. Starfsfólk hefur verið flest 12 í sóttkví heima hjá sér, flestir af þeim fóru í sóttkví í kjölfar utanlandsferðar, aðrir vegna þess að smit kom upp í þeirra fjölskyldu eða vinahópi. Tveir starfsmenn hafa smitast, annar smitaðist erlendis og kom ekkert til vinnu, hinn smitaðist eftir að hafa verið í sóttkví í lengri tíma. Nú eru 9 starfsmenn í sóttkví, þrír komnir til starfa úr sóttkví og höfðu ekki smitast. Hjá okkur eru reglulegir upplýsingafundir og fræðsla til starfsfólks. Leitað er allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar smitist. Fylgt er sýkingarvarnaráætlun og Leiðbeiningum til hjúkrunarheimila frá sóttvarnarlækni. Góð samvinna er milli hjúkrunarheimila og Sóttvarnaryfirvalda, og eru daglegir fjarfundir haldnir til að takast á við spurningar og viðbrögð. Ýmsir hafa sýnt heimilinu hlýhug og gefið gjafir til afþreyingar. Eru þeim færðar góðar þakkir fyrir. Sérstaklega vil ég hrósa íbúum og ættingjum þeirra fyrir skilning og samheldni í að fylgja leiðbeiningum og starfsfólki Sóltúns sem leggur sig allt fram við að starfsemin gangi sem best fyrir sig. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri
Nánar ...
20.mar. 2020

Vöffluilmur um húsið

Það er gott að lyfta sér aðeins upp á þessum krefjandi tímum og ilmur af nýbökuðu hefur yfirleitt góð áhrif á alla. Eldhúsið sendi því upp Vöfflumix fyrir kaffitímann og bakað var í öllum íbúaeldhúsum fyrir sig. Íbúar og starfsfólk nutu þess að fá volga vöfflu með sultu og þeyttum rjóma.
Nánar ...
19.mar. 2020

Saga Film færir Sóltúni DVD diska

Saga Film færði Sótúni að gjöf bunka af DVD geisladiskum svo íbúar gætu stytt sér stundir, í því ástandi sem nú varir, með því að horfa á góðar íslenskar bíómyndir. Takk fyrir það Saga Film.
Nánar ...
11.mar. 2020

Nýtt fréttabréf er komið út

Nýtt fréttabréf kom út í dag og hefur verið borið út til íbúa. Þeir fá prentað eintak. Ættingjar á póstlista fá tilvísun á rafrænt fréttabréf gegnum tölvupóst.
Nánar ...
06.mar. 2020

Neyðarstig vegna COVID 19- Lokað er fyrir heimsóknir ættingja og gesta

6. mars 2020 Áríðandi tilkynning til íbúa, ættingja og starfsfólks hjúkrunarheimilisins Sóltúns vegna sýkingar af völdum Kórónaveirunnar (COVID-19) á Íslandi Stjórn hjúkrunarheimilisins Sóltúns hefur tekið þá ákvörðun að loka hjúkrunarheimilinu fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta frá og með 6. mars þar til annað verður formlega tilkynnt. Er þetta gert að höfðu samráði við Sóttvarnarlækni og Landlækni eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir fyrr í dag. Sóltún hjúkrunarheimili er hér að fylgja eindregnum tilmælum þessara aðila sem eru í framvarðasveit Almannavarna Íslands. Heilsa og velferð íbúanna þarf alltaf að vera í forgangi! Nú er staðfest að smit vegna Kórónaveirunnar hafa borist á milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Þar sem íbúar Sóltún hjúkrunarheimilis eru flestir aldraðir og með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma eru þeir í sérstökum áhættuhóp tengt því að veikjast alvarlega af Kórónaveirunni. Leita þarf allra leiða til að draga úr þeirri hættu að íbúar heimilanna veikist af Kórónaveirunni. Okkur þykir mjög leitt að þurfa að taka svo stóra ákvörðun en þetta er gert með velferð íbúanna okkar í húfi og biðjum við fólk að sýna þessari ákvörðun virðingu og skilning. Það er ljóst að það getur reynst íbúa mjög erfitt að fá ekki heimsóknir frá ættingjum sínum og á sama hátt getur það reynst ættingjum íbúans mjög erfitt að heimsækja hann ekki. Það er samt nauðsynlegt að grípa til þessarra ráðstafana til að koma í veg fyrir að íbúi veikist af veirunni og eins geta smit borist frá ættingjum eins íbúa til annars íbúa. Jafnframt verður umferð allra annara gesta en nauðsynlegs starfsfólks á vakt, takmörkuð inn á hjúkrunarheimilið og gerðar hafa verið sérstakar reglur um það. Svo sem birgja með vörur, iðnaðarmenn og aðra sem þurfa að koma inn á heimilin. Við bendum ykkur á að hafa samband við: Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri, tölvupóstfang: annabirna@soltun.is eða vakthafandi hjúkrunarfræðing þar sem ykkar ættingji býr. Einnig er mikilvægt að þið kynnið ykkur upplýsingar og leiðbeiningar á vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is Þar eru greinargóðar upplýsingar og leiðbeiningar tengdar stöðu málar, en þær geta breyst frá degi til dags. Sóltún hjúkrunarheimili Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri
Nánar ...
03.mar. 2020

COVID 19 veiran

Sóltún styðst við almennar leiðbeiningar sóttvarnarlæknis um varúð vegna COVID 19 veirunnar og er viðbragðsáætlun endurskouð reglulega með hliðsjón af þeim. Við biðjum alla starfsmenn og gesti að fara í einu og öllu að leiðbeiningum og sýna ávallt fulla ábyrgð gagnvart sýkingarvörnum.
Nánar ...
14.feb. 2020

Starfsemin meðan óveður geysar

Nokkrir starfsmenn höfðu tök á að mæta snemma í morgun. Starfsemin í dag verður því með rólegra sniðinu þar til veðrinu slotar og fleira starfsfólk getur mætt á vaktirnar.
Nánar ...
24.jan. 2020

Þorrablótið

Ánægja var með þorramatinn á bóndadaginn. Svavar Knútur kom, söng og spilaði eins og honum er einum lagið. Starfsfólk klæddi sig upp í tilefni dagsins, íbúum og öllum öðrum til skemmtunar.
Nánar ...
03.apr. 2019

Breytingar í stjórnendahópi á Sóltúni og Sólvangi

Sóltún öldrunarþjónusta ehf sem hefur rekið heimaþjónustufyrirtækið Sóltún Heima tók við rekstri Sólvangs í Hafnarfirði af ríkinu 1. apríl sl. Halla Thoroddsen er nýr framkvæmdastjóri Sólvangs, ásamt því að stýra Sóltúni Heima, og Ingibjörg Eyþórsdóttir tók við starfi framkvæmdastjóra hjúkrunar. Fráfarandi framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sólvangi, Hildur Björk Sigurðardóttir, mun taka við starfi hjúkrunarstjóra á 1. hæð á Sóltúni. Auk þess verður hún þjónustustjóri Sóltúns. Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir sem hefur sinnt því starfi mun taka við starfi hjúkrunarstjóra á 4. hæð á Sólvangi. Breytingarnar taka gildi 2. maí næstkomandi. „Þessar breytingar munu styrkja bæði Sóltún og Sólvang og stuðla að virku samstarfi milli þessa tveggja heimila“, segir Anna Birna Jensdóttir sem er framkvæmdastjóri Öldungs hf og framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sóltúni hjúkrunarheimili og stjórnarmaður í Sóltúni öldrunarþjónustu sem rekur Sólvang.
Nánar ...
02.apr. 2019

Sóltún kynnti niðurstöður gæðavísa 2005-2018 á IHI & BMI ráðstefnunni í Glasgow

Á ráðstefnu Institute of Health Care Improvement IHI og BMJ í Bretlandi um ..Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu" sem haldin var í Glasgow í síðustu viku voru yfir 3400 þátttakendur alls staðar frá í heiminum. Rúmlega 200 þeirra kynntu niðurstöður gæðaumbótastarfs á mismunandi þjónustustigum heilbrigðisþjónustunnar. Þar á meðal kynnti Sóltún niðurstöður gæðavísa á árabilinu 2005-2018.
Nánar ...
11.jan. 2019

Viðhorfskönnun meðal íbúa og ættingja

Árleg viðhorfskönnun er hafin meðal íbúa og ættingja. Við hvetjum fólk til að svara, svo hægt sé að greina það sem vel er gert og það sem betur má fara. Prentuðum eintökum er dreift til íbúa og jafnframt er hægt að svara rafrænt á heimasíðunni
Nánar ...
14.nóv. 2018

Öldungur framúrskarandi fyrirtæki 2018

Öldungur er í annað skiptið í röð í hópi framúrskarandi fyrirtækja samkvæmt úttekt Creditinfo. Félagið er eitt af aðeins 2% íslenskra fyrirtækja sem uppfyllti skilyrði um Framúrskarandi fyrirtæki 2018.
Nánar ...
18.okt. 2018

Frábær haustfagnaður

Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk fögnuðu haustinu í gær með glæsilegum kvöldverði að hætti Sóltúnseldhússins. Borið var fram steikt lambafille með kartöfluturni, haustgrænmeti og villibráðasósu. Í eftirrétt var karamellufrauð. Eftir kvöldverðinn voru tónleikar á Kaffi Sól. Tríóið skipuðu Björn Thoroddssen á gítar, Jón Rafnsson á bassa og Gunnar Þórðarson söng og spilaði á gítar. Frábær veisla sem nærði sál og maga og fólk naut þess að vera saman.
Nánar ...
21.jún. 2018

Íþróttahátíð

Sjúkraþjálfun Sóltúns stóð fyrir íþróttadegi fyrir heimilismenn í góðviðrinu 20.júní. Góð þátttaka varð og mikið fjör. Það voru 5-6 greinar í boði þannig að sem flestir gátu spreytt sig á þeim og fylgdu starfsmenn íbúum á sínum hæðum með í fjörið og kvöttu til dáða. Heilu hæðarnar kepptu í einu.
Nánar ...
16.mar. 2018

Vel heppnuð góugleði

André Bachmann sló í gegn á góugleði Sóltúns. Að loknum hátíðarkvöldverði þar sem 170 manns gæddu sér á yndislega meyrum steiktum lambakótilettum í raspi að hætti Sóltúnseldhússins með öllu tilheyrandi mætti fólk í sal þar sem André og félagar tóku á móti með söngveislu. Kristinn Hraunfjörð hafði milligöngu um komu André sem heillaði alla og bætti um betur og hafði með sér leynigesti. Fyrsti leynigestur var Geir Ólafs sem hreyfði við fólki með frægum slögurum og bauð uppá óskalög úr sal. Þar á eftir kom Eyþór Arnalds og flutti lagið ,,Ó borg mín borg" við góðar undirtektir. Fluttur var bragur eftir Kristinn Hraunfjörð þar sem starfsfólk Soltúns kom við sögu. André og félagar sungu og spiluðu síðan fram eftir kvöldi. Sóltún færir öllum sem komu að yndislegu kvöldskemmtun kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
09.mar. 2018

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir nýr hjúkrunarstjóri á 1. hæð

Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin hjúkrunarstjóri á 1. hæð Sóltúns. Hún mun jafnframt vera þjónustustjóri hjúkrunarheimilisins. Hún hóf störf 1. febrúar. Umsækjendur um starfið voru 7. Helga Sæunn útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1990. Hún lauk meistaraprófi í (Master of Science in Nursing & Nurse Practitioner) frá UNC at Chapel Hill, í Bandaríkjunum 1998, og er með sérfræðiréttindi frá Embætti landlæknis í heilsugæsluhjúkrun frá 2011. Helga Sæunn hefur jafnframt góða starfsreynslu við bæði klínísk störf og stjórnunarstörf í heilbrigðisþjónustu. Helga Sæunn tekur við starfinu af Önnu Guðbjörgu Gunnarsdóttur. Anna Guðbjörg mun starfa áfram við mannauðsmál og ýmis sérverkefni fyrir Sóltún. Við bjóðum Helgu Sæunni velkomna í hópinn og óskum henni og Önnu Guðbjörgu velfarnaðar í nýjum hlutverkum.
Nánar ...
09.feb. 2018

Dansiball í Sóltúni föstydaginn 9. febrúar

Danssýning og dansiball Danssýning og dansiball var haldið í Sóltúni föstudaginn 9. febrúar og tókst mjög vel. Danshópurinn Neisti sýndi línudans undir góðri tónlist s.s. kántrýtónlist, tangó og vals. Danshópurinn Neisti er áhugamannahópur dansara á besta aldri sem sýnir dans og dansar með eldri borgurum við ýmis tilefni. Dansararnir stóðu sig frábærlega og færðu okkur mikla gleði. Eftir danssýninguna var svo slegið upp balli og stiginn dans við gamalkunn íslensk dægurlög. Íbúar fjölmenntu á sýninguna og dansgólfið var þéttskipað og allir nutu tónlistarinnar og dansgleðinnar. Gleðin endaði svo á kótilettuveislu í föstudagshádeginu. Danshópurinn Neisti naut þess að fá að koma í heimsókn í Sóltún og stefnir á að koma aftur í Sóltún í vor og færa okkur meiri dans og gleði.
Nánar ...
31.jan. 2018

Afar gagnlegir húsfundir og íbúaþing 2018

Haldnir voru húsfundir með íbúum þann 29. janúar. Fyrirkomulagið var að stjórnendur málaflokka fóru á milli 6 staða í húsinu þar sem íbúar, ættingjar og starfsfólk kom saman frá tveimur sambýlum á hvern fund. Rædd voru þau málefni sem efst voru á baugi hjá íbúum varðandi heimilishaldið og þjónustuna. Fundagerðir voru skráðar og stjórnendur settu strax í gang aðgerðir er vörðuðu einstaka íbúa og skráðu niður það sem varðar hópa og staði. Á íbúaþingi þann 31. janúar sem haldinn var í samkomusal og sjónvarpað í öll viðtæki um húsið, fór Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri yfir starfsemi Sóltúns í máii og myndum. Kynnti hún helstu niðustöður frá 2017 um starfsemina, niðurstöðu gæðavísa, rekstrartölur, mannauðsmál, gæði og ferla. Umræður urðu á eftir um m.a. væntingar um þjónustu. Anna Birna dró hún saman helstu niðurstöðu húsfunda og kom með svör eftir því sem að þau voru tilbúin. Íbúa- og vinaráðið var kynnt og óskað eftir 1-2 til viðbótar til að gefa kost á sér frá 1 og 2 hæð. Anna Birna hvatti fólk til að svara viðhorfskönnuninni sem er í gangi. Niðurstöður af fundunum og könnunum eru notaðar til að greina það sem vel er gert og það sem má bæta. Ákveðið var að nota framlög í Minningar-og styrktarsjóð 2018 til að kaupa fleiri snjall/tölvusjónvörp í setustofur Sóltúns, en þau hafa gert mikla lukka þar sem þau eru komin. Það eru 12 setustofur í Sóltúni. Boðið var uppá fyrirmyndarköku í kaffinu eftir þingið í tilefni að Sóltún er í hópi 2,2% fyrirtækja á Íslandi sem er ,,Fyrirmyndarfyrirtæki 2017".
Nánar ...
25.jan. 2018

Sóltún ,,Fyrirmyndarfyrirtæki 2017"

Síðastliðin átta ár hefur Creditinfo unnið ítarlega greiningu sem sýnir rekstur hvaða íslensku fyrirtækja telst til fyrirmyndar. Að þessu sinni komust 2,2% fyrirtæki á listann af þeim rúmlega 38.500 sem skráð eru í hlutafélagaskrá. Öldungur hf., sem rekur Sóltún hjúkrunarheimili er eitt þeirra og erum við stolt af því og hvað hugmyndafræði, gildi og liðsheild getur stuðlað að. Árum saman hafa niðurstöður gæðavísa í þjónustu, mannauð og gæðaferlum sýnt afburða niðurstöður og því sérlega ánægjulegt að síðustu 3 ár höfum við ná mjög góðum árangri í fjármálavíddinni. Creditinfo stóð fyrir hátíð í Elborgarsal Hörpu 24. janúar að þessu tilefni. Til hamingju Sóltún.
Nánar ...
23.jan. 2018

Til hamingju frábæra starfsfólk

Á starfsmannafundi þann 23. janúar afhenti Anna Birna framkvæmdastjóri árlegar starfsaldursgjafir. Alls fengu 31 starfsmenn starfsaldursgjöf í ár auk þriggja sem fengu viðurkennigu fyrir að hafa lokið áfanga. 10 ára starfsaldursviðurkenning - 5 einstaklingar. Danute Kalinskiene, Helga Pálsdóttir, Guðrún Steingrímsdóttir, Carmela Concha Andeme og Iris Hansen. 5 ára starfsaldursviðurkenning - 12 einstakingar. Gerður Ósk Jóhannsdóttir, Jórunn Steinsson, Marlena Paulina Wysocka, Ragnheiður Ólafsdóttir, Anna Heiða Gunnarsdótttir, Ragnheiður Hlíf Árnýjardóttir, Hanna Lára Harðardóttir, Hildur Hlöðversdótttir, Krístín Gústafsdóttir, Sara Margrét Sigurðardóttir, Kristina Unnsteinsdóttir og Somporn Sonyoo. 3 ára starfsaldursviðurkenningar - 14 einstaklingar Salome Magnúsdóttir, Ingibjörg Elín Ingimundardóttir, Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir, Kristín Erla Björndsóttir, Ólöf Arnardóttir, Inga Huld Daníelsdóttir, Denisa Catty, Bjarney Sveinsdóttir, Orasa Somyong, Aldís Ásgeirsdóttir, Þórhildur Helga Eyþórsdóttir, Svanhvít Ingibergsdóttir, Guðrún Björk Jónsdóttir og Svanhvít K. Ingibergsdóttir. Útskriftargjafir - 3 útskrifaðar sem félagsliðar árið 2017. Guðrún Steingrímsdóttir, Ragnheiður Árnýjardóttir og Svanhvít K. Ingibergsdóttir. Hér má sjá nokkrar myndir frá afhendingunni.
Nánar ...
15.jan. 2018

Handbók Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu fyrir íbúa hjúkrunarheimila

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) sem hjúkrunarheimilið Sóltún er aðili að hefur gefið út Handbók fyrir íbúa hjúkrunarheimila. Handbókin var unnin innan Fagráðs hjúkrunarstjórnenda SFV og er hugsuð til að auðvelda nýjum íbúum og ættingjum þeirra að átta sig á hvað sé innifalið í dvalargjaldi sem greitt er fyrir dvölina frá Sjúkratryggingum Íslands og með lögbundinni greiðsluþátttöku íbúa.
Nánar ...
10.jan. 2018

Undanþágulistar birtir, ef til verkfalla kemur 2018

Birtir hafa verið undanþágulistar yfir þau störf í Sóltúni sem að mati hjúkrunarheimilisins þurfa að vera undanþegin ef til verkfalla kemur til að tryggja megi nauðsynlega heilbrigðis- og öryggisþjónustu. Samráð var haft við stéttarfélögin vegna þeirra starfa sem við á. Samkomulag náðist við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Sjúkraliðafélag Íslands. Ekki náðist samkomulag við Eflingu.
Nánar ...
08.jan. 2018

Vínartónleikar

Síðastliðinn fimmtudag 4. janúar bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands eldri borgurum á opna æfingu fyrir Vínartónleika í Eldborgarsal Hörpu. Auk hljómsveitar komu fram söngvararnir Valgerður Guðnadóttir og Kolbeinn Ketilsson. Hljómsveitarstjóri var Karen Kamensek. Meðan hljómsveitin lék ljúfa tónlist dönsuðu listdansarar létt um svæðið . Eldborgarsalur var þéttskipaður áheyrendum. Við fórum 9 saman frá Sóltúni, 6 íbúar þar af tveir sem notuðu hjólastóla og 3 starfsmenn. Við þökkum Sinfóníuhljómsveit Ísland kærlega fyrir að gefa okkur þetta tækifæri.
Nánar ...
22.okt. 2017

Glæsilegur haustfagnaður

Um 2oo manns voru í hátíðarkvöldverði á haustfagnaði Sóltún 19. október síðastliðinn. Sóltúnseldhúsið bauð uppá humarsnittur haustsins í forrétt, kryddmarinerað lambafille með hasselbac kartöflum, blanceruðu litríku grænmeti og villibráðasveppasósu. Í eftirrétt voru litlar heimabakaðar marenstertur með frómas og berjum. Nemendur í matartæknanámi við Menntaskólann í Kópavogi tóku þátt í matseld og framreiðslu undir umsjón kennara síns. Þá tók við söngskemmtun í samkomusal þar sem Magnea Tómasdóttir söngkona söng við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara.
Nánar ...
09.okt. 2017

Inga Lára Karlsdóttir hjúkrunarstjóri hjá Sóltún Heima

Inga Lára Karlsdóttir hjúkrunarfræðingur hóf störf sem hjúkrunarstjóri hjá Sóltúni Heima 3. október síðastliðinn. Inga Lára útskrifaðist úr hjúkrunarfræði frá HÍ 2009 og M.Sc. í heilsuhagfræði við HÍ 2015. Hún hefur starfað á Landspítalanum á ýmsum deildum en áður en hún kom til liðs við Sóltún Heima starfaði hún sem teymisstjóri í heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2014. Inga Lára mun bera ábyrgð á heimahjúkrun og heimaþjónustu við skjólstæðinga Sóltúns Heima í þjónustuíbúðunum hinum megin við götuna og á höfuðborgarsvæðinu. Inga Lára og Sóltún Heima er staðsett á 2. hæð í Sóltúni hjúkrunarheimili. Netfang hennar er ingalara@soltunheima.is og sími 563 1414.
Nánar ...
20.sep. 2017

Námsheimsókn frá Sagenehjemmet í Osló

Nina Martinussen framkvæmdastjóri Sagenehjemmets í Osló heimsótti Sóltún ásamt stjórnendateymi heimilisins. Nina hafði komið hér áður og hafði skipulagt námsheimsókn til Íslands sem lið í stefnumótunarvinnu hópsins. Hópurinn fræddist sérstaklega um gæðakerfi og starfsemi Sóltúns hjá Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra.
Nánar ...
09.jún. 2017

Skemmtilegt kvennahlaup

Þann 8.júní síðastliðinn var haldið Kvennahlaup hér í Sóltúni. Þetta er 27.árið sem Kvennahlaup er haldið á vegum ÍSÍ og Sjóvá en þetta er jafnframt í 16. sinn sem hlaupið er haldið hér í Sóltúni. Virkilega góð þátttaka var í hlaupinu í ár. Metfjöldi bola seldist auk þess sem aðrir íbúar hússins og starfsmenn tóku virkan þátt, jafnt karlar sem konur, alls í kringum 100 manns og var það virkilega skemmtilegt. Hlaupið/gengið var hringinn í kringum lóð Sóltúns sem skartaði sínu fínasta í sólinni. Eftir hlaup var sest í suðurhluta garðsins, þorstanum svalað með gosdrykk og fjöldasöngur sunginn. Spakmæltur heimilismaður á Sóltúni henti þá í vísu sem hljóðar svo: ,,Þetta er bara skondið skaup Sem karlmenn sjá við Kvennahlaup Halleluja, heims um ból Hringinn fer í hjólastól" Höf: Kristinn Hraunfjörð
Nánar ...
08.maí 2017

Frábærir tónleikar á Rótarýdeginum

Húsfyllir var á tónleikunum Rótarýklúbbs Reykjavíkur 6. maí í tilefni af Rótarýdeginum á Íslandi. Rótarýfélagarnir Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú), Guðmundur G. Haraldsson og Kjartan Óskarsson, ásamt dóttur hans Ástu Maríu Kjartansdóttur fluttu undurfallega tónlist fyrir íbúa hjúkrunarheimilisins og gesti þeirra. Jón Karl Ólafsson forseti klúbbsins sagði frá Rótarýhreyfingunni og spilaði hann og söng með Diddú þekkt dægurlög í lokin. Anna Birna Jensdóttir færði þeim rós með þakklæti fyrir komuna. Söngur og spil fyllti gleði í hverja sál sem þarna var. Gleðistund sem færði sumarið í hús í Sóltún þennan fagra vordag. Takk fyrir frábæra upplifun og gjöf.
Nánar ...
04.apr. 2017

Vel heppnuð vorgleði

Vorkomunni var fagnað í Sóltúni fimmtudagskvöldið 30. mars. Sóltúnseldhúsið stóð fyrir glæsilegu borðhaldi fyrir íbúa og gesti þeirra, samtals um 170 manns þar sem boðið var uppá Confit de canard/andalegg með kartöflu-næpumús, kryddlegnum perum, vorsalati og plómusósu. Í eftirrétt var frönsk súkkulaðikaka með þeyttum rjóma, kaffi og konfekti. Eftir kvöldverðinn voru djazztónleikar í samkomusal þar sem Stefanía Svavarsdóttir söng við undirleik Benjamíns Náttmarðar Árnasonar. Þau voru alveg frábær og með mjög gott lagaval, þar á meðal ýmis lög Ellýar Vilhjálms sem féllu í góðan jarðveg.
Nánar ...
02.mar. 2017

Happy end ljósmyndasýningin REFLEKTIONER opnuð í Sóltúni

Fyrir ári síðan nutu íbúar Sóltúns þess að taka þátt í samnorrænu verkefni þar sem þeir ásamt dönsurum og hljómlistarfólki sömdu dansverk og sýndu öðrum íbúum og gestum þeirra á þremur viðburðum hér á Kaffi Sól. Danski danshöfundurinn Ingrid Traunum Velásquez leikstýrði hópnum sem var samansettur af kunnum listamönnum til að fjalla um veruleika eldri borgara í norrænum samfélögum. Auk Sóltúns, þá var verkið sett upp á hjúkrunarheimilunum Slottet og Aftensolen í Kaupmannahöfn, og í Lágargarður í Þórshöfn í Færeyjum. Fjórir dansarar frá Danmörku og Færeyjum sýndu dansana með fimm íbúum Sóltúns. Gjörningahópurinn í Reykjavík hannaði búninga og sviðsmynd og tónlistina samdi færeyska tónskáldið Trondur Bogason. Samvinnan var ákaflega gefandi og nutu áhorfendur verkanna og gátu spjallað um upplifun sína á Kaffi Sól eftir hverja sýningu. Íbúar sýndu á sér nýjar hliðar og deildu með áhorfendum köflum úr lífi sínu sem snerust ekki síst um líf þeirra með náttúru Íslands, hafinu, jöklunum, fjöllunum, blómunum og ástinni og væntumhyggjunni í lífinu. Hvernig það var að eldast með kroppnum sínum og mismunandi aldursupplifun sálar og kropps. Nú ári síðar opnum við í dag ljósmyndasýningu REFLEKTIONER hér í Sóltúni þar sem sýndar eru myndir teknar af Per Morten Abrahamsen ljósmyndara frá viðburðunum. Aðstandendur verkefnisins vilja færa leikurum hér í Sóltúni kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og færa þeim til eignar portretmynd af sér að gjöf. Við þökkum fyrir frábæra samvinnu.
Nánar ...
06.feb. 2017

Hress andblær á þorrablótinu

Árlegt þorrablót var vel sótt af íbúum og ættingjum þeirra. Þorramatur var borinn fram í trogum og öl og brennivín boðið með, ásamt kæstum hákarli og harðfisk. Eftir matinn komu Gamlir fóstbræður og skemmtu fólki í sal með tilþrifamiklum söng. Lára Ómarsdóttir fór með Minni karla og Hörður Helgason með Minni kvenna. Guðrún Björg Guðmundsdóttir stjórnaði blótinu og fólk skemmti sér vel.
Nánar ...
20.jan. 2017

15. íbúaþing Sóltúns

Þann 16. janúar mættu stjórnendur á 6 húsfundi þar sem einn til tveir þeirra í senn, ræddu víð íbúa og ættingja í litlum hópum um það sem fólki lá á hjarta um þjónustuna, starfsemina, mannauðinn, samskiptin, matinn, ræstinguna, hundaheimsóknir og önnur gæðamál. Fundagerðir voru skráðar og mál sett í farveg. Í framhaldinu var síðan haldið 15. íbúaþingið í Sóltúni í samkomusalnum þann 19. janúar. Þar fór Anna Birna Jensdóttir yfir stefnumörkun 2017 og starfsemina í tölum og myndum. Íbúaþingið var vel sótt. Skoðanaskipti og samræðurnar skipta miklu máli og tókust viðburðirnir afar vel. Anna Birna óskaði eftir fulltrúum í íbúa- og vinaráðið og hvatti fólk til að svara viðhorfskönnuninni.
Nánar ...
16.jan. 2017

Húsfundir

Í dag verða haldnir húsfundir á 6 stöðum í húsinu. Þar munu stjórnendur og ábyrgðamenn fyrir þjónustu og ýmsum málaflokkum hitta íbúa og starfsfólk í litlum hópum og fara yfir þau mál í heimilishaldinu og þjónustunni sem liggur fólki á hjarta. Á fimmtudaginn verður síðan íbúaþing í samkomusal.
Nánar ...
07.jan. 2017

Fjölmennt var á afmæliskaffi Sóltúns

Sóltún fagnaði 15 ára afmæli sínu með kaffisamsæti á Kaffi Sól. Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk fékk góðar veitingar hjá Sóltúnseldhúsinu. Hjúkrunarheimilið hefur farsæla 15 ára starfsemi að baki, þökk sé góðu starfsfólki og uppbyggingu á góðu samfélagi hér í húsinu.
Nánar ...
18.nóv. 2016

Óskum sjúkraliðum til hamingju á 50 ára afmæli Sjúkraliðafélags Íslands

Sjúkraliðar fagna 50 ára afmæli Sjúkraliðafélagi Íslands. Í Sóltúni starfar frábær hópur sjúkraliða sem af fagmennsku vinnur að því að auka lífsgæði íbúanna okkar og vellíðan. Á þessum tímamótum heiðraði Sóltún hópinn með skemmtilegu samkvæmi í gærkveldi. Brugðið var á leik í myndatökunni. Til hamingju mikilvægi hópur og takk fyrir að starfa með okkur.
Nánar ...
01.nóv. 2016

Októberfest á Kaffi Sól

Á októberfest á Kaffi Sól var boðið uppá nokkrar tegundir af bjór og léttvíni, snittur með sveitasalami, flatkökur með hangikjöti, gulrótarkökur með rjómatoppi og kaffi. Fagrar tírólameyjar þjónuðu til borðs. Fullt var út að dyrum og fólk hafði gaman af.
Nánar ...
23.okt. 2016

Gerðubergskórinn flutti ljúfa tóna

Síðastliðinn föstudag, þann 21. október, kom Gerðubergskórinn í heimsókn og söng fyrir íbúa og starfsmenn Sóltúns undir stjórn Kára Friðrikssonar. Við þökkum Gerðubergskórnum kærlega fyrirgóða heimsókn.
Nánar ...
20.okt. 2016

Haustfagnaður

Fólk skemmti sér vel á haustfagnaði Sóltúns sem haldinn var 19. október. Fagnaðurinn hófst með kvöldverði og voru yfir 180 manns í mat. Sóltúnseldhúsið töfraði fram Steikt lambafille, borið fram með kartöflugratínturni, gljáðu-og sinnepskrydduðu grænmeti, berjasalati og villibráðasósu. Í eftirrétt var Saltkaramellu drauma mousse. Síðan skemmti Guðmundur Símonarson á Kaffi Sól, þar sem fólk tók lagið og dansaði.
Nánar ...
18.okt. 2016

Góð mæting í utankjörstaðakosningu

Sýslumaðurinn í Reykjavík bauð íbúum Sóltúns að kjósa utankjörstaða vegna alþingiskosninga mánudaginn 10. október. Góð kjörsókn var og kusu nánast allir sem það gátu. Löng biðröð myndaðist þegar mest var. Embættinu er þakkað fyrir góða þjónustu.
Nánar ...
19.ágú. 2016

Þrír velunnarar hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni

Það er frábært að þrír velunnarar hafa ákveðið að hlaupa fyrir Minningar- og styrktarsjóð Sóltúns. Nú hvet ég alla til að hvetja þau til dáða með því að heita á þau á www.hlaupastyrkur.is Margt smátt gerir eitt stórt og hafa nú þegar safnast 44.000.- Nýverið keypti sjóðurinn farþegahjól fyrir íbúana og næsta verkefni er að kaupa stóra útirólu þar sem starfsfólk, ættingjar og íbúar geta setið saman í huggulegheitum og notið samverunnar.
Nánar ...
25.maí 2016

Sóltún fékk viðurkenningu Vinnumálastofnunar og Velferðarráðuneytis

Á ársfundi Vinnumálastofnunar þann 12.maí veitti Gisssur Pétursson forstjóri og Eygló Harðardóttir ráðherra nokkrum fyrirtækjum og vinnustöðum viðurkenningar fyrir frábært starf og nálgun við fjölgun starfa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Viðurkenningarnar voru veittar út frá reynslu Vinnumálastofnunar af góðu samstarfi við þau og sveigjanleika í samskiptum sem væri til mikillar fyrirmyndar þegar skapa þyrfti starfstækifæri fyrir fólk með mismikla starfsgetu. Eftirtalin fyrirtæki hlutu viðurkenningar á ársfundinum, Mjólkursamsalan á Selfossi, Samkaup, Hagstofan og Hjúkrunarheimilið Sóltún. Anna Birna Jensdóttir veitti viðurkenningunni móttöku fyrir hönd Sóltúns.
Nánar ...
25.maí 2016

Pönnukökuþema

Kaffihúsin okkar hafa verið mjög vel sótt og gaman að sjá hve íbúarnir njóta þess að koma og brjóta upp hversdaginn. Margir aðstandendur og vinir koma í heimsókn á kaffihúsadögunum og að þessu sinni var salurinn tvísetinn. Öll tilbreyting er vel þegin og gestir íbúanna fjölmenntu til að gleðjast með sínu fólki. Við dúkuðum borðin með fallegum rauðkóflóttum dúkum og breyttum uppröðun á salnum svo pláss væri fyrir sem flesta. Mikil alúð er lögð við að gera allt sem huggulegast og skapa skemmtilega kaffihúsaumgjörð. Að þessu sinni bauð eldhúsið uppá pönnukökur og karamellutertu. Starfsfólk eldhússins byrjaði um morguninn kl. 8 að undirbúa baksturinn, 2-3 starfsmenn stóðu og bökuðu allann daginn og var mikill gangur í bakstrinum. Alls voru um 470 stk bakaðar, rjómapönnukökurnar urðu alls 230 og upprúllaðar pönnukökur um 240 stk. Einsog endranær var vel tekið á veitingunum og þóttu pönnukökurnar gómsætar. Sóltún hefur fengið vínveitingaleyfi og því er hægt að bjóða til sölu léttvín og bjór þegar kaffihúsið er opið. Starfsfólk eldhúss þakkar fyrir veturinn og bjóðum sumarið velkomið.
Nánar ...
17.maí 2016

Anna Birna Jensdóttir formaður Öldrunarráðs

Á aðalfundi Öldrunarráðs Íslands, sem haldinn var föstudaginn 29. apríl, var Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík, kjörin formaður ráðsins. Tók hún við af Pétri Magnússyni, forstjóra Hrafnistu sem gegnt hefur stöðu formanns undanfarin sex ár. Öldrunarráð Íslands eru regnhlífasamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á land. Að Öldrunarráði Íslands eiga því aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Eru aðilar nú alls 32. Markmið Öldrunarráðs Íslands er að vinna að bættum hag aldraðra. Tilgangi sínum hyggst ráðið meðal annars ná með því að: a. vinna að samræmdri stefnu í málefnum aldraðra og framkvæmd hennar b. koma fram fyrir hönd aðila sinna eftir því sem við á c. standa fyrir námskeiðum og ráðstefnum og beita sér fyrir almennri upplýsinga- og fræðslustarfsemi um málefni aldraðra d. efla rannsóknir í öldrunarmálum með starfsemi sérstaks rannsóknarsjóðs e. veita aðilum sínum aðstoð við skipulagningu verkefna og framkvæmd þeirra f. annast samskipti við erlenda aðila Stjórn Öldrunarráðs Íslands skipa níu aðilar. Formaður er Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns og er hún fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ásamt Önnu Birnu skipa stjórnina Guðlaug Jóna Hilmarsdóttir frá Sveitarfélaginu Árborg, Janus Guðlaugsson frá Sjómannadagsráði og Hrafnistuheimilunum, Haukur Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Ingibjörg Halla Þórisdóttir frá Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu, Linda Baldursdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ólafur Þór Gunnarsson frá Öldrunarfræðafélagi Íslands, Ragnhildur Hjartardóttir frá Hjúkrunarheimilinu Mörk og Sigrún Ingvarsdóttir frá Reykjavíkurborg.
Nánar ...
17.maí 2016

Erlendir sjúkraliðanemar vorönn 2016

Hingað koma mikið af nemum í starfsþjálfun bæði innanlands og erlendis frá. Á vorönn kom til okkar spænskur sjúkraliðanemi og skiptinemi á vegum Fjölbrautarskólans í Breiðholti í einn mánuð. Hún er frá Minorca, lítilli eyju við hliðina á Mallorca. Hún kom hingað til að kynna sér öldrunarhjúkrun hér á landi. Fjölbrautarskólinn í Breiðholti mun síðan senda nema héðan til Minorca. Einnig komu hingað í mánuð tveir danskir sjúkraliðanemar á vegum Fjölbrautarskólans við Ármúla á styrk frá Erasmus. Konurnar á myndinni heita Maja Hansen og Helle Hansen. Nemendurnir hafa fengið góðar viðtökur af bæði íbúum og starfsfólki og hafa þeir staðið sig vel.
Nánar ...
15.mar. 2016

Happy end

Íbúar Sóltúns hafa notið þess að taka þátt í samnorrænu verkefni þar sem þeir ásamt dönsurum og hljómlistarfólki hafa samið dansverk og sýnt öðrum íbúum og gestum þeirra á þremur viðburðum. Danski danshöfundurinn Ingrid Traunum Velásquez leikstýrði hópnum sem var samansettur af kunnum listamönnum til að fjalla um veruleika eldri borgara í norrænum samfélögum. Auk Sóltúns, þá hefur verkið verið sett upp á hjúkrunarheimilunum Slottet og Aftensolen í Kaupmannahöfn. Næst verður það sett upp í Þórshöfn í Færeyjum. Fjórir dansarar frá Danmörku og Færeyjum sýndu dansana með fimm íbúum Sóltúns. Gjörningahópurinn í Reykjavík hannaði búninga og sviðsmynd og tónlistina samdi færeyska tónskáldið Trondur Bogason. Samvinnan var ákaflega gefandi og nutu áhorfendur verkanna og gátu spjallað um upplifun sína á Kaffi Sól eftir hverja sýningu. Íbúar sýndu á sér nýjar hliðar og deildu með áhorfendum köflum úr lífi sínu sem snerust ekki síst um líf þeirra með náttúru Íslands, hafinu, jöklunum, fjöllunum, blómunum og ástinni og væntumhyggjunni í lífinu. Hvernig það var að eldast með kroppnum sínum og mismunandi aldursupplifun sálar og kropps. Við þökkum fyrir frábæra samvinnu.
Nánar ...
29.feb. 2016

Glæsilegir Rótarýtónleikar

Rótarýklúbbur Reykjavíkur bauð upp á stórglæsilega tónleika í Sóltúni á Rótarýdaginn 27. febrúar. Jón Karl Ólafsson viðtakandi forseti klúbbsins sagði frá Rótarýhreyfingunni og kynnti síðan listamennina og Rótarýfélagana þau Sigrúnu Hjálmtýsdóttur söngkonu og Kjartan Óskarsson klarinettleikara. Með þeim voru Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari og kona Kjartans og Þorkell Jóelsson hornleikari og maður Sigrúnar. Þau fluttu glæsilegt úrval laga fyrir fullum sal af íbúum Sóltúns, ættingjum þeirra og starfsfólki. Anna Birna Jensdóttir þakkaði þeim og klúbbnum fyrir yndislega tónleika og færði þeim rósir fyrir hönd okkar hér í Sóltúni. Tónlistarflutningurinn flutti áheyrendur upp í hæstu hæðir vellíðunar og nutu tónleikagestir yndislegrar stundar.
Nánar ...
09.feb. 2016

Bolludagskaffi á Kaffi Sól

Bolludagskaffið á Kaffi Sól var sérlega vel heppnað og vel sótt af íbúum og ættingjum þeirra. Bollurnar voru fjölbreyttar og einstaklega góðar.
Nánar ...
29.jan. 2016

Fólk skemmti sér vel á þorrablóti Sóltúns

Fimmtudagskvöldið 28. janúar var þorra blótað í Sóltúni. Gómsætur þorramatur var borinn fram í trogum og öl og íslenskt brennivín borið fram með kæstum hákarlinum. Skemmtidagskrá var í framhaldinu á Kaffi Sól þar sem Ólafur B. Ólafsson þeytti harmonikkuna og stýrði fjöldasöng. Minni karla flutti Sigríður Ólafsdóttir og Minni kvenna flutti Rúnar Halldórsson, en þau eiga bæði ættingja hér í Sóltúni. Þorrablótsstjóri var Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir hjúkrunarstjóri.
Nánar ...
21.jan. 2016

14. íbúaþingið haldið 20. janúar 2016

Þann 18. janúar mættu stjórnendur á 6 húsfundi þar sem einn til tveir þeirra í senn, ræddu víð íbúa og ættingja í litlum hópum um það sem fólki lá á hjarta um þjónustuna, starfsemina, mannauðinn, samskiptin, matinn, ræstinguna og önnur gæðamál. Fundagerðir voru skráðar og mál sett í farveg. Í framhaldinu var síðan haldið 14. íbúaþingið í Sóltúni í samkomusalnum þann20. janúar. Þar fór Anna Birna Jensdóttir yfir stefnumörkun 2016 og starfsemina í tölum og myndum. Íbúaþingið var vel sótt. Skoðanaskipti og samræðurnar skipta miklu máli og tókust viðburðirnir afar vel. Anna Birna óskaði eftir fulltrúum í íbúa- og vinaráðið og hvatti fólk til að svara viðhorfskönnuninni.
Nánar ...
13.jan. 2016

Iðjuþjálfun fær tréútskurðarsett

Á fundi í íbúa- og vinaráðinu þann 12. janúar færði Erna Hallbera Ólafsdóttir og fjölskylda iðjuþjálfun að gjöf handverkfæri til tréútskurðar. Gjöfin er til minningar um Jón Magnús Jóhannsson. Hildur Þráinsdóttir iðjuþjálfi tók á móti gjöfinni. Með Ernu og Hildi á myndinni er Guðný dóttir Jóns og Ernu. Fjölskyldunni eru færðar kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
12.jan. 2016

Vínartónleikar

Síðastliðinn fimmtudag bauð Sinfóníuhljómsveit Íslands eldri borgurum á opna æfingu fyrir Vínartónleika í Eldborgarsal Hörpu fimmtudaginn 7.janúar 2015 kl.11:30. Auk hljómsveitar komu fram söngvararnir Guðrún Ingimarsdóttir og Elmar Gilbertsson. Meðan hljómsveitin lék ljúfa tónlist liðu 2 danspör létt um svæðið og dönsuðu vals. Eldborgarsalur var þéttskipaður áheyrendum á öllum hæðum sem rúmar yfir 1600 manns. Við fórum 10 saman frá Sóltúni, 6 íbúar og 4 starfsmenn. Allir voru hæst ánægðir með tónleikana og er aðstaða í húsinu til fyrirmyndar hvað varðar aðgengi fyrir hjólastóla, bílastæði, áheyrn sem og sjónræna upplifun. Við þökkum Sinfóníuhljómsveit Ísland kærlega fyrir að gefa okkur þetta tækifæri.
Nánar ...
07.jan. 2016

Mikilvægi sýkingavarna

Vegna sýkinga í samfélaginu af völdum flensu- og iðrasýkinga meðal annars af völdum nóróveiru, vill sýkingavarnanefnd Sóltúns minna eindregið á mikilvægi handþvottar og að spritta hendur. Ættingjar og vinir eru beðnir um að bíða með að koma í heimsókn ef viðkomandi er með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst. Fólk er smitandi meðan á veikindum stendur en er í flestum tilfellum laust við smit tveimur til þremur sólarhringum eftir veikindin.
Nánar ...
08.des. 2015

Gunnar Kvaran og Haukur Guðlaugsson fluttu klassísk verk

Í gær kl.11 fengum við tvo góða gesti til okkar í Sóltún, þá Gunnar Kvaran sellóleikara og Hauk Guðlaugsson píanóleikara. Þeir fluttu okkur efnisskrá með frægum klassískum verkum sem allflest voru áheyrendum vel kunnug. Gunnar kynnti hvert verk á sinn einlæga skýra máta og algjört hljóð ríkti í salnum þær 40 mínútur sem við nutum tónlistarinnar utan þeirra stunda þegar menn fögnuðu flutningnum með lófataki. Hjartans þakkir fyrir komuna og verið ávallt velkomnir.
Nánar ...
07.des. 2015

Full mannað í nótt

Næturvaktin fullmönnuð. Okkar frábæra starfsfólk tók mikla ábyrgð og mætti í góðum tíma bæði fyrir kvöldvakt og næturvakt. Ekki sjálfgefið, margir þurfa að skilja eftir börnin sín, og aðra nánustu eftir heima. Næturvaktarhjúkrunarfræðingur er í síma 5906016.
Nánar ...
25.nóv. 2015

Árleg jólasala Sóltúns

Árleg jólasala Sóltúns fór fram í gær, þriðjudaginn 24. nóvember. Á Kaffi Sól var boðið uppá heitt súkkulaði með rjóma, randalínur og smákökur og átti fólk notalega stund í salnum okkar. Ágóði af kaffisölunni mun renna til kaupa á farþegahjóli fyrir íbúa Sóltúns. Jólasalan gekk ágætlega en nóg er eftir af vörum, til dæmis gott úrval af kertunum okkar sívinsælu sem er kjörið að stinga með í jólapakkann. Við hvetjum fólk til að koma við í iðjuþjálfuninni til kl 16 virka daga til að gera góð kaup.
Nánar ...
25.nóv. 2015

Gerðubergskórinn tók lagið í Sóltúni

Síðastliðinn föstudag, þann 20. nóvember, kom Gerðubergskórinn í heimsókn og söng fyrir íbúa og starfsmenn Sóltúns undir stjórn Kára Friðrikssonar. Við þökkum Gerðubergskórnum kærlega fyrir ljúfa tóna.
Nánar ...
18.nóv. 2015

Endurlífgunarnámskeið vel heppnað

Hjúkrunarfræðingar Sóltúns þær Marta Jónsdóttir og Nanna Ólafsdóttir heldu vel heppnað endurlífgunarnámskeið fyrir starfsfólkið sl. miðvikudag. Góð þátttaka var á námskeiðinu, þar sem 34 starfsmenn mættu.
Nánar ...
18.nóv. 2015

Waldorfsskólinn í heimsókn

Nemendur úr 1-6. bekk í Waldorfsskólanum komu í heimsókn miðvikudaginn 11.nóvember með ljós og luktir sem þau hafa búið til og sungu nokkur lög fyrir íbúa og starfsfólk. Þetta er í tilefni Marteinsmessu sem þau halda uppá í Waldorfskólanum til að minna okkur á að kveikja sem flest ljós í skammdeginu og einnig í huga og hjarta og gera eitthvað fallegt fyrir hvert annað. Takk kærlega fyrir komuna.
Nánar ...
11.nóv. 2015

Tröllum meðan við tórum

Hæ! Tröllum meðan við tórum var yfirskrift mjög vandaðra tónleika sem Karlakórinn Gamlir Fóstbræður héldu hér í Sóltúni föstudaginn 6. nóvember. Efnisskráin var metnaðarfull, fjölbreytt og flutningur einstakur. Þorgeir Andrésson óperusöngvari söng einsöng með kórnum í lagi Inga T. Lárussonar við texta Jónasar Hallgrímssonar „Eg bið að heilsa“. Stjórnandi kórsins er Árni Harðarson og er kórinn í höndum hans, sem hljóðfæri af bestu tegund og hljómurinn himneskur. Mikil og almenn ánægja var með tónleikana af þeim fjölmörgu sem sóttu tónleikana og eru kórnum, einsöngvara og stjórnanda færðar alúðar þakkir fyrir stundina.
Nánar ...
06.nóv. 2015

Sóltún þátttakandi í ,,Hjólað óháð aldri"

Sóltún hefur fengið farþegahjól og er þátttakandi í verkefni Hjólafærni um að efla tækifæri til hjólreiða óháð aldri. Hjúkrunarheimili á Norðurlöndum eru víða þátttakendur í þessu verkefni og kynntust stjórnendur verkefninu fyrir rúmu ári og hefur Sóltún síðan verið með söfnun í gangi til að eignast slíkt hjól. Það var því frábært tækifæri að vera með í verkefni Sesselju Traustadóttur frá byrjun og er mikill áhugi og tilhlökkun meðal íbúa hér í Sóltúni að nýta sér hjólið til útivistar.
Nánar ...
06.nóv. 2015

Alltaf góð stemming á Kaffi Sól

Sóltúnseldhúsið bauð uppá úrval af brauðtertum á Kaffi Sól sl. miðvikudag. Kristrún og Ástrós sem bæði vinna á 3. hæðinni sungu fyrir íbúa og gesti. Takk fyrir yndislega gæðastund.
Nánar ...
30.okt. 2015

Fólk skemmti sér vel á haustfagnaðnum

Miðvikudagskvöldið 14. október var hátíð í bæ í Sóltúni. Sóltúnseldhúsið hafði fengið til liðs við sig nemendur í matartæknanámi við Menntaskólann í Kópavogi ásamt kennurum. Starfsfólk hafði skreytt borðstofur þar sem haustlitir tónuðu svo fallega. Hátíðarkvöldverður var framreiddur og samanstóð hann af heitreyktum lax á salatbeði með kryddjurtasósu borin fram af nemendum á forréttardiskum. Í aðalrétt voru síðan steiktar lambalundir að hætti hússins með rótargrænmeti haustsins, waldorfsalati, fersku salati og rjómalagaðri villisveppasósu. Eftirrétturinn, döðlusúkkulaðikaka með rjómatoppi og ferskum jarðaberjum toppaði síðan máltíðina. Barinn var opin og gat fólk verslað sér léttvín eða bjór. Þá var skemmtanahald í samkomusalnum þar sem tróðu upp þær Alla og Anna Sigga. Anna Sigríður Helgadóttir söngkona sem söng við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara. Kærar þakkir til allra fyrir frábært kvöld.
Nánar ...
24.sep. 2015

Myndlistarsýning með verkum Karólínu Lárusdóttur

Íbúar og starfsfólk Sóltúns nutu einkasýningar á verkum Karólínu Lárusdóttur í samkomusalnum 22. september. Ólöf Árnadóttir starfsmaður í Sóltúni og fulltrúi í íbúa- og vinaráði setti upp sýninguna með 14 verkum frá mismunandi tímabilum á starfsævi listakonunnar. Málverkin voru í eigu ýmissa aðila. Sóltúnseldhúsið bauð upp á léttar veitingar. Öllum sem komu að þessum atburð eru færðar kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
07.sep. 2015

Sýkingavarnavika 7. - 11. september

Árleg sýkingavarnarvika hefst í dag. Forvarnir eru besta vörnin gegn sýkingum. Daglega verður farið yfir ýmis praktísk umgengismál sem skipta máli í daglegu starfi og haldnir verða fyrirlestrar, sjá:
Nánar ...
03.sep. 2015

Símenntun haustsins 2015

Fræðslunefnd hefur gefið út símenntunar dagskrá fyrir haustið 2015. Fræðslufundirnir eru á fimmtudögum kl. 13:30 og eru opnir starfsfólki, íbúum og ættingjum þeirra. Fræðslunefndina skipa þau Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri, Jón Jóhannsson djákni og Anna Heiða Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari.
Nánar ...
27.ágú. 2015

Blaðamenn frá Guangzhou í Kína heimsóttu Sóltún

Blaðamennirnir Augustus Wu og Liu Dan frá Guangzhou Daily Group í Kína tóku viðtal við Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra í Sóltúni þann 26. ágúst. Þeir hafa ferðast um Norðurlöndin og kynnt sér öldrunarþjónustu landanna fyrir greinarskrif í blaðinu sínu. Öldrunarmál eru ofarlega á baugi í Kína vegna fjölgunar í elsta aldurshópnum og breytinga í samfélaginu.
Nánar ...
13.júl. 2015

Kínverski dagurinn vel heppnaður

Zhang Weidong sendiherra Kína á Íslandi og kona hans Zhou Saixing heiðruðu íbúa og starfsfólk Sóltúns með heimsókn sinni á kínverskum þemadegi 8. júlí. Boðið var upp á skemmtidagskrá og veitingar í skreyttum samkomusal heimilisins. Liu Xiaohang lék á Guzheng, kínverskt hljóðfæri og Unnur Guðjónsdóttir sýndi dans. Zhang Guangpeng sýndi Taijiquan, kínverska bardagalist. Zhang Weidong og Unnur Guðjónsdóttir kenndu okkur nokkur kínversk tákn og Zhou Saixing leiddi kínverskan söng. Þá stjórnaði Unnur tískusýningu þar sem sagt var frá silkiframleiðslu og sýndar voru silkislár. Boðið var uppá jasmine te og kínverskt dumplings. Að lokum færðu sendiherrahjónin íbúum Sóltúns gjafir. Eiður Guðnason fyrrum sendiherra Íslands í Kína sagði nokkur orð og færði heimilinu um leið gjöf til minningar um konu sína Eygló Haraldsdóttur píanóleikara. Sóltún þakkar fyrir afar skemmtilegan viðburð og samvinnu við undirbúning og framkvæmd. Þetta var sannarlega gleðidagur.
Nánar ...
01.júl. 2015

Sumarveður á Kaffi Sól 30.júní

Íbúar og starfsfólk í Sóltúni fjölmenntu á Kaffi Sól í blíðskaparveðri í Sóltúnsgarðinum 30. júní. Ólafur Beinteinn Ólafsson þandi harmonikkuna og fólk söng samsöng. Dýrindis kaffibrauð var á borðstólum að hætti Kaffi Sól og barinn var opinn.
Nánar ...
29.jún. 2015

Sumarstemning með Ventus Brass

Glæsilegir sumartónleikar voru haldnir í Sóltúnsgarðinum 24. júní. Hljóðfæraleikararnir Jón Arnar Einarsson, Elísa Guðmarsdóttir, Ásgrímur Ari Einarsson, Birgitta Björg Guðmarsdóttir og Þórunn Eir Pétursdóttir í Ventus Brass spiluðu. Kærar þakkir fyrir komuna.
Nánar ...
19.jún. 2015

Sumarsamvera 19.júní

Í tilefni sumarsins og þeirra merkilegu tímamóta að 19. júní eru liðin 100 ár frá því konur hlutu kosningarétt á Íslandi, var hátíðleg og gleðileg stund með heimilisfólki í Sóltúnsgarðinum. Sóknarprestur Laugarneskirkju sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir og Jón Jóhannsson djákni Sóltúns leiddu stundina og lögðu út frá kvenréttindabaráttunni í framsögum sínum. Með þeim var Arngerður María Árnasóttir tónlistarstjóri. Þá var sungið saman og notið sólar. Kærar þakkir fyrir góða heimsókn.
Nánar ...
13.jún. 2015

Sóltúnsgengið 13. júní

Sóltúnsgengið undir forystu Ólafar Árnadóttur hitti sannarlega á góðan útivistardag laugardaginn 13. júní. Íbúar fóru í góðan göngutúr með ættingjum sínum og komu síðan saman á Kaffi Sól, þar sem bakaðar voru vöfflur sem bornar voru fram með sultu og þeyttum rjóma. Bakað var alls úr 9 lögunum. Ragnheiður Haraldsdóttir harmonikkuleikari spilaði undir söng.
Nánar ...
12.jún. 2015

Kvennahlaupið frábær samverustund

Fjöldi kvenna, íbúar og ættingjar þeirra ásamt starfsfólki fór kvennahlaup í Sóltúnsgarðinum 11. júní. Veðurguðirnir stóðu með okkur og sólin skein. Karlar tóku á móti hópnum og færðu þeim verðlaunapeninga. Efnt var til fjöldasöngs og fólk gæddi sér á nýjum kirsuberjum.
Nánar ...
05.jún. 2015

Garðyrkja og grill

Nú er búið er að gróðursetja blóm og matjurtir í Sóltúnsgarðinn sem ugglaust á eftir að gleðja augu og maga okkar í sumar og haust. Gulrótarfræjum var sáð í gróðurreit við enda C-álmu um miðjan maí og dúkur breiddur yfir. Í matjurtagarðinn voru settar kartöflur, rauð- og gulrófur, grænkál, mismunandi salat- og kryddtegundir. Þar sprettur nú rabarbarinn fagurrauður og höfum við gleði af að uppskera hann tvisvar, bæði snemmsumars og í ágúst. Í gróðurskálanum dafnar eplatréð vel og gefur líklega góð epli á haustmánuðum, ef fólk sleppir því að snerta veikburða greinar trésins með ört vaxandi eplum – bara horfa. Kirsuberjatréð felldi því miður alla berjavísa. Það er búið að grilla tvisvar, í fyrra skiptið voru grillaðar pylsur með tilheyrandi og í seinna skiptið grillaðar lambakótilettur. Hvort tveggja heppnaðist mjög vel, en það var of kalt til að borða úti. Vonum að sumarið verði hlýtt svo við getum notið útiveru í nálægð við gróðurinn.
Nánar ...
30.maí 2015

Heilsueflingarleikar starfsfólks

Verðlaunaafhendingar voru fyrir hinar ýmsu keppnir sem hafa verið í gangi innanhúss þann 28. maí : Lífshlaupið: Fyrst var greint frá úrslitum í Lífshlaupinu þar sem keppt var um farandbikara fyrir flestar mínútur og flesta daga. Alls tóku 39 starfsmenn þátt að þessu sinni en það er minnsta þátttaka frá byrjun. Hópurinn hreyfði sig í 446 daga eða hver og einn starfsmaður hreyfði sig í 11. 4 daga að meðaltali. Alls hreyfði hópurinn sig í 28.252 mín eða að meðaltali 724,4 mín á mann eða um 30 mín pr dag eins og ráðleggingar segja til um. Í 3. sæti í flestum dögum urðu Sykurpúðarnir , í 2. sæti Kjallaraskvísur og í 1. sæti með 183 daga eða 14,8 daga pr mann eru Krúttin á 1. hæð. Í 3. sæti í flestum mínútum urðu Sólgarpar , í 2. sæti Kjallaraskvísur og í 1. sæti með 12. 505 mínútur eða 961,92 mín pr mann eru Krúttin á 1. hæð þannig að Krúttin eru tvöfaldir sigurvegarar í ár. Boccia mótið: Þann 10. mars var keppt í Boccía og voru fjögur lið skráð í keppnina að þessu sinni. Í fyrstu umferð kepptu lið 1. hæðar og 2. hæðar en þeim leik lauk með 6/1 sigri 2. hæðar. Í annarri umferð kepptu lið 3. hæðar og stoðdeildar, þeim leik lauk með jafntefli og þurfti því bráðabana til að fá vinningshafa. Í bráðbananum vann stoðdeildin með 2/0. Til úrslita kepptu því lið Stoðdeildar og 2. hæðar. Leiknum lauk með stórsigri Stoðdeildar 7/0 en það má með sanni segja að þær Ingunn, Erla og Þórdís hafi unnið leikinn með glæstri niðurstöðu enda eru þær stöllur Erla og Ingunn að æfa boccia. Púttmótið: Síðan var púttmótið og mættu 6 lið til leiks. Fjögur úr stoðdeild og eitt frá 1. hæð og eitt frá 3. hæð. Fimm brautir voru spilaðar og gátu keppendur æft sig fyrir mótið. Í 2. -3 sæti að þessu sinni voru tvö lið annarsvegar „húsumsjón“ og hins vegar „stoðdeild aðal“ sem voru hnífjöfn á 27 höggum samtals. Í 1. sæti með á 26 höggum voru eldhússtelpurnar þær Lilja, Hjördís og Kalla Hjólað í vinnuna: Í 2. sæti var Anna Birna Jensdóttir með 70.2 km og í 1. sæti með 73 km Þórlaug Steingrímsdóttir .
Nánar ...
15.maí 2015

Rauðmagi á borðstólum hjá matarklúbbnum

Matarklúbbur Sóltúns alls tíu íbúar gæddu sér á rauðmaga með öllu tilheyrandi í hádeginu sl. miðvikudag. Brennivínsstaup var boðið með og kaffi og konfekt á eftir. Upphaflegt markmið með klúbbnum var að bjóða áhugafólki um mat að koma að matargerð með einum og öðrum hætti og snæða saman. Sérstaklega var þeim boðin þátttaka sem óskuðu eftir að borða “öðruvísi” mat en daglega var á boðstólum í Sóltúni. Árið 2014 hittust t.d. áhugasamir matgæðingar og snæddu saman sigin fisk og kæsta skötu og ákveðið er að endurtaka. Þetta árið var ákveðið að hvíla sláturgerð, því erfitt reynist að fá ekta vambir og íbúar sýndu verkinu lítinn áhuga. Í staðinn voru bakaðar kleinur í nóvember sem síðan voru seldar á jólasölunni – þær sem ekki voru snæddar á staðnum. Hvert ár er útbúin áfengur berjadrykkur, ýmist úr kræki-, blá-, rifs- eða sólberjum. Honum er leyft að blandast undir ströngu eftirliti frá hausti fram að aðventu þar sem hans er neytt sparlega. Árið 2014 brást berjauppskeran á suðurlandi og því bauð jólasölusjóðurinn upp á sherry á aðventu. Á öllum hæðum hefur skapast sú hefð að baka smákökur og laufabrauð fyrir jólin. Einnig má hér nefna ræktun matjurta yfir sumarmánuðina, s.s.kartöflur, rófur og gulrætur, kál, rabbabari, ýmsar kryddtegundir o.fl. Í gróðurskála gleðja eplatré og kirsuberjatré í fallegum blóma snemma á vorin. Eplatréð hefur gegnum tíðina gefið af sér mörg bragðgóð eplin sem reynt er að deila bróðurlega niður á áhugasama íbúa. Kirsuberjatréð er fremur sparsamt en þolinmóð bíðum við þessa að tréð gefi fullt af berjum.
Nánar ...
28.apr. 2015

Vetur kvaddur á Kaffi Sól

Á síðasta degi vetrarins var Kaffi Sól opið því við vildum kveðja þennan vindasama og kalda vetur og bjóða sumarið velkomið hér í Sóltúni. Við dúkuðum borðin með fallegum hvítum dúkum og breyttum uppröðun á salnum svo pláss væri fyrir sem flesta. Mikil alúð er lögð við að gera allt sem huggulegast og skapa skemmtilega kaffihúsaumgjörð. Kaffihúsin okkar hafa verið mjög vel sótt og gaman að sjá hve íbúarnir njóta þess að koma og brjóta upp hversdaginn. Öll tilbreyting er vel þegin og gestir íbúanna fjölmenntu til að gleðjast með sínu fólki. Að þessu sinni bauð eldhúsið uppá snittur með reyktum laxi og roast beefi , síðan var boðið uppá súkkulaðikökubita með rjómatoppi og jarðaberi, kókoskökur, makkarónukökur , vatnsdeigsbollur og konfekt. Einsog endranær var vel tekið á veitingunum og þóttu veitingarnar fallegar fyrir augað og bragðið eftir því. Boðið er til sölu léttvín og bjór þegar kaffihúsið er opið. Starfsfólk eldhúss þakkar fyrir veturinn og bjóðum langþráð sumar velkomið og óskum öllum gleðilegs sumar.
Nánar ...
27.apr. 2015

Hugrakkir dansarar

Síðastliðinn föstudag sýndu fimm ungar stúlkur úr Danskóla Ingu Dóru okkur í Sóltúni frumsaminn dans sem þær höfðu æft stíft ásamt kennara sínum Ingibjörgu Dóru sem stofnaði dansskólann fyrir fyrir tveimur vikum. Þær endurtóku dansinn x2 og til að fylla upp í stundina sungu þær tvö vorlög. Þessar hugrökku stúlku létu ekki hindra sig að koma fram þrátt fyrir stuttan æfingatíma og að ein gekk tímabundið með hækjur.
Nánar ...
15.apr. 2015

Heimsókn frá Kínverska sendiráðinu

Sóltún fékk ánægjulega heimsókn þegar Zhou Saixing og föruneyti frá Kínverska sendiráðinu í Reykjavík kom hingað 10. apríl 2015. Hópurinn kynnti sér starfsemi Sóltúns og öldrunarþjónustuna á Íslandi hjá Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra. Síðan skoðuðu þau hjúkrunarheimilið og heimsóttu meðal annars íbúa sem hafði farið til Kína.
Nánar ...
31.mar. 2015

Gleðilega páska

Sóltún óskar íbúum, ættingjum þeirra og starfsfólki og landsmönnum öllum gleðilegra páska.
Nánar ...
27.mar. 2015

Úrslit í Pútt móti heilsueflingarmánaðar

Púttmótið Í gær var síðan púttmótið og mættu 6 lið til leiks. Fjögur úr stoðdeild og eitt frá 1. hæð og eitt frá 3. hæð. Fimm brautir voru spilaðar og gátu keppendur æft sig fyrir mótið. Í 2. -3 sæti að þessu sinni voru tvö lið annarsvegar „húsumsjón“ og hins vegar „stoðdeild aðal“ sem voru hnífjöfn á 27 höggum samtals. Í 1. Sæti með á 26 höggum voru eldhússtelpurnar þær Lilja, Hjördís og Kalla
Nánar ...
26.mar. 2015

Úrslit í Boccía móti heilsueflingarmánaðar

Þann 10. mars var keppt í Boccía og voru fjögur lið skráð í keppnina að þessu sinni. Í fyrstu umferð kepptu lið 1. Hæðar og 2. Hæðar en þeim leik lauk með 6/1 sigri 2. Hæðar. Í annarri umferð kepptu lið 3. Hæðar og stoðdeildar þeim leik lauk með jafntefli og þurfti því bráðabana til að fá vinningshafa. Í bráðbananum vann stoðdeildin með 2/0. Til úrslita kepptu því lið Stoðdeildar og 2. Hæðar. Leiknum lauk með stórsigri Stoðdeildar 7/0 en það má með sanni segja að þær Ingunn, Erla og Þórdís hafi unnið leikinn með glæstri niðurstöðu enda eru þær stöllur Erla og Ingunn að æfa boccia.
Nánar ...
24.mar. 2015

Ellen og Eyþór heilluðu fólk á vorfagnaðnum

Síðastliðið fimmtudagskvöld nutu íbúar, gestir þeirra og starfsfólk hátíðarkvöldverðar frá Sóltúnseldhúsinu á árlegum vorfagnaði. Starfsfólk lagði sig fram við að leggja fallega á borð og fólk klæddist sínu fínasta pússi. Í forrétt var nýstárlegt rækjutvist. Aðalrétturinn samanstóð af steiktum andabringum með rótargrænmetismauki, steiktu brokk- og blómkáli, kryddsósu og vorsalati með perum og pekanhnetum. Chocolate crunchy kaka með rjómatoppi og hindberjasósu var síðan í eftirrétt. Maturinn hlaut mjög góða dóma og það var satt og sælt fólk sem hélt á tónleika í samkomusalinn eftir kvöldverðinn. Frábærir listamenn hjónin Ellen Kristjánsdóttir söngkona og Eyþór Gunnarsson píanóleikari heilluðu áheyrendur með söng sínum og píanóleik og yndislegri framkomu. Við þökkum kærlega fyrir góða skemmtun.
Nánar ...
23.mar. 2015

Fundur um nýsköpun og þróun hugbúnaðarlausna

Bjarni Þór Björnsson framkvæmdastjóri Stika, ásamt samstarfsfélögum frá eglu Danmörku þeim Flemming Rasmussen og Jens Ole Lædefoged heimsóttu Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra þann 20. mars 2015 til að ræða RAI mat og frekari rafræna þróun og nýsköpun til notkunar í öldrunarþjónustu.
Nánar ...
20.mar. 2015

Niðurstöður gæðavísa árið 2014

Þann 5. mars kynnti Anna Birna Jensdóttir niðurstöður gæðavísa í Sóltúni fyrir árið 2014. Farið var yfir viðmið og ákvarðanir teknar á gæðaráðsfundi sem opinn var starfsfólki, íbúum og ættingjum. Árangur Sóltúns er mjög góður og var starfsfólki færðar þakkir fyrir frábær störf í þágu íbúanna okkar.
Nánar ...
09.mar. 2015

Jafnréttismál

Stjórnendahópur Sóltúns átti góðan fund með Bergljótu Þrastardóttur frá Jafnréttisstofu þann 5. mars. Rædd voru kynjasamþættingarverkefni, jafnrétti óháð kyni, þjóðerni, sjúkdómsgreiningum, kynhneigð, stétt og stöðu, viðbrögð við hvers konar áreitni og aðgerðir til framfara.
Nánar ...
02.mar. 2015

Frábærir tónleikar á Rótarýdeginum

Á Rótarýdeginum þann 28. febrúar nutu íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk þess að fá góða heimsókn í Sóltún. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri tók á móti félögum sínum úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur og bauð þá og áheyrendur velkomna. Ágústa Guðmundsdóttir viðtakandi forseti klúbbsins flutti stutt ávarp og kynnti starfsemi Rótarý. Meðal gesta var Ester Guðmundsdóttir aðstoðarumdæmisstjóri Rótarý á Íslandi og fleiri Rótarýfélagar. Ágústa kynnti þau Sigrúnu Hjálmtýsdóttir söngkonu (Diddú), Kjartan Óskarson klarinettleikara og Hrefnu Eggertsdóttur píanóleikara sem buðu upp á frábæra tónleika sem saman stóðu af vel samsettu lagaúrvali. Tónlistarfegurðin lyfti áheyrendum upp í hæstu hæðir á þessum fallega laugardegi. Að lokinni frábærri dagskrá færðu þær Ágústa og Anna Birna félögum sínum tónlistarfólkinu kærar þakkir fyrir hönd Rótarýklúbbs Reykjavíkur, áheyrenda og gesta fyrir þessa frábæru og gefandi heimsókn sem laðaði til sín fullan sal áheyrenda.
Nánar ...
25.feb. 2015

Tónleikaferð á Kjarvalsstaði

Síðasti dagur Góu kallast Góuþræll, hann bar upp á mánudaginn 23.febrúar í ár. Þá sóttu 5 íbúar Sóltúns, 1 aðstandandi og 2 starfsmenn tónleika á Kjarvalsstöðum í tónleikaröðinni Töframáttur tónlistar. Í þetta sinn hljómuðu saman selló og harpa þar sem Gunnar Kvaran og Elísabet Waage léku hugljúf lög eins og Svaninn eftir Saint-Saëns og Nótt Árna Thorsteinssonar en einnig menúett, spænskan dans, elddans og tarantellu svo að eitthvað sé nefnt. Að venju sögðu flytjendur frá efnisskránni. Við sem fengum tækifæri til að fara á Kjarvalsstaði erum flytjendum og stjórnendum tónleikanna mjög þakklát.
Nánar ...
11.feb. 2015

Sóknarnefnd Laugarneskirkju

Sóknarnefnd Laugarneskirkju heimsótti Sóltún þann 10. febrúar. Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri og Jón Jóhannsson djákni kynntu starfsemi Sóltúns og spunnust góðar umræður. Sóltún hefur ávallt átt gott samstarf við Laugarneskirkju. Takk fyrir komuna.
Nánar ...
31.jan. 2015

Þorrablótið tókst vel

Þorrablót Sóltúns var haldið þann 29.janúar síðastliðinn. Starfsfólk lagði sig fram við að skreyta borðstofur og síðan var þorramaturinn borin fram í trogum og boðið uppá brennivín með hákarlinum. Að loknu borðhaldi var skemmtun í salnum þar sem Örn Árnason fór með revíusöngva við undirleik Jónasar Þóris. Anna Birna Jensdóttir flutti minni karla og Ragnar Tómasson minni kvenna.
Nánar ...
28.jan. 2015

Gagnlegir húsfundir og íbúaþing

Þann 26. janúar mættu stjórnendur á 6 húsfundi þar sem einn til tveir þeirra í senn, ræddu víð íbúa og ættingja í litlum hópum um það sem fólki lá á hjarta um þjónustuna, starfsemina, mannauðinn, samskiptin, matinn, ræstinguna og önnur gæðamál. Fundagerðir voru skráðar og mál sett í farveg. Í framhaldinu var síðan haldið 13. íbúaþingið í Sóltúni í samkomusalnum þann 28. janúar. Þar fór Anna Birna Jensdóttir yfir stefnumörkun 2015 og starfsemina í tölum og myndum. Íbúaþingið var vel sótt. Skoðanaskipti og samræðurnar skipta miklu máli og tókust viðburðirnir afar vel.
Nánar ...
19.jan. 2015

Árleg viðhorfskönnun

Árleg viðhorfskönnun fer nú fram meðal meðal íbúa og ættingja þeirra. Íbúar fá prentað eintak af könnuninni og ættingjar ef þeir vilja. Möguleiki er á að svara rafrænt á heimasíðu Sóltún og hefur slóðin verið send til ættingja sem eru á tölvupóstlista. Í Sóltúni fer fram stöðugt umbótastarf. Reynsla og skoðun íbúa og ættingja þeirra skiptir okkur máli. Niðurstöðurnar eru notaðar til að greina hvað má betur fara og hvar við stöndum okkur vel og hvort okkur hafi farið fram eða aftur í einhverjum þáttum milli tímabila.
Nánar ...
09.jan. 2015

Glæsilegir Vínartónleikar

Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð eldri borgurum á opna æfingu á Vínartónlist í Eldborgarsal Hörpu í gær fimmtudaginn 8.janúar 2015. Auk hljómsveitarinnar komu fram söngvararnir Dísella Lárusdóttir og Garðar Thor Cortes og meðan hljómsveitin lék liðu 2 danspör létt um svið og sal dansandi vínarvalsa. Eldborgarsalur var þéttskipaður áheyrendum á öllum hæðum. Við fórum 12 saman frá Sóltúni, 7 íbúar þar af 3 hjólastólanotendur, aðstandandi og 4 starfsmenn. Allir voru hæst ánægðir með tónleikana og er aðstaða í húsinu til fyrirmyndar hvað varðar aðgengi fyrir hjólastóla, á bílastæði, við áheyrn sem og sjónræna upplifun. Við þökkum Sinfóníuhljómsveit Ísland kærlega fyrir að gefa okkur þetta tækifæri.
Nánar ...
07.jan. 2015

Mikilvægi sýkingavarna

Vegna sýkinga í samfélaginu af völdum flensu- og iðrasýkinga meðal annars af völdum nóróveiru, vill sýkingavarnanefnd Sóltúns minna eindregið á mikilvægi handþvottar og að spritta hendur. Ættingjar og vinir eru beðnir um að bíða með að koma í heimsókn ef viðkomandi er með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst. Fólk er smitandi meðan á veikindum stendur en er í flestum tilfellum laust við smit tveimur til þremur sólarhringum eftir veikindin.
Nánar ...
24.des. 2014

Gleðilega hátíð

Stjórn og starfsfólk Sóltúns óskar íbúum Sóltúns, ættingjum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári.
Nánar ...
18.des. 2014

Sérfræðingur í sérgreininni öldrunarhjúkrun

Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri á 2. hæð Sóltúns hefur hlotið heimild landlæknis til að kalla sig sérfræðing í sérgreininni öldrunarhjúkrun. Júlíana Sigurveig lauk hjúkrunarprófi frá Russel Saga College, Troy, New York 1985, rekstrar- og viðskiptafræðinámi frá Endurmenntunardeild Háskóla íslands 1995 og meistaraprófi í öldrunarhjúkrun við Háskóla Íslands 2005. Júlíana Sigurveig hefur unnið af eflingu þekkingar í þágu aldraðra með rannsóknum og komið niðurstöðum þeirra á framfæri í fagtímaritum og með kennslu og fyrirlestrarhaldi. Sóltún hefur átt því láni að fagna að hafa Júlíönu Sigurveigu í starfi hjúkrunarstjóra frá því fyrir opnun heimilisins 2002. Við óskum henni innilega til hamingju með viðurkenninguna.
Nánar ...
04.des. 2014

Kvennakórinn Senjoríturnar

Kvennakórinn Senjóríturnar komu í sína árlegu heimsókn 3. desember og sungu jólalög í samkomusalnum fyrir íbúa og starfsfólk. Kærar þakkir fyrir góða heimsókn.
Nánar ...
04.des. 2014

Vel heppnuð jólahlaðborð

Þann 2., 3. og 4. desember voru haldin jólahlaðborð fyrir íbúa Sóltúns og ættingja þeirra í samkomusal. Íbúarnir 92 fengu 76 gesti til sín á hátíðirnar auk starfsfólks. Þetta voru sannkallaðar gleði- og hátíðarstundir. Á matseðlinum var forréttardiskur með jólasíld með eggi, reyktur- og grafinn lax með sinnepssósu, aspas og brauð. Í aðalrétti var volg heimabökuð lifrarkæfa með steiktum sveppum, beikoni og rauðbeðum og hamborgarahryggur með brúnuðum kartöflum, rauðkáli, brokkáliblöndu, rifsgele og sósu. Eftirréttur var karamellumousse desert með rjómatoppi og kaffi. Boðið er upp á maltöl, appelsín og pilsner og barinn var opinn. Á jólahlaðborði íbúa á 3. hæð flutti Jón Jóhannsson djákni hugvekju og Valgerður Bjarnadóttir spilaði á píanó og söng ásamt Marinellu Arnórsdóttur. Á jólahlaðborði íbúa á 2. hæð flutti Jón Jóhannsson djákni hugvekju og Stefán Helgi Stefánsson söngvari skemmti. Á jólahlaðborði íbúa á 1. hæð fluttir Sr. Sigurður Jónsson hugvekju og Tinna Sigurðardóttir söng jólalög við píanó undirleik Guðrúnar Salómonsdóttir. Kærar þakkir til allra sem tóku þátt og lögðu að mörkum.
Nánar ...
02.des. 2014

Marta Jónsdóttir heiðruð

Þann 28. nóvember var haldið kveðjuhóf fyrir Mörtu Jónsdóttur, þar sem hún ákvað að hefja töku lifeyris. Marta gengdi stöðu hjúkrunarstjóra á 1. hæð síðastliðin 13 ár og var jafnframt með ábyrgð á starfsþróun og mannauðsmálum í Sóltúni. Við þökkum Mörtu fyrir frábært starf og samstarf við hjúkrun íbúanna í Sóltúni og stjórnun þjónustunnar og óskum henni velfarnaðar.
Nánar ...
27.nóv. 2014

Jólabazar Sóltúns

Árlegi jólabazar Sóltúns fór fram 26. nóvember s.l.. Boðið var uppá heitt súkkulaði með rjóma, randalínur og smákökur. Ágætlega seldist en er eftir af vörum, til dæmis gott úrval af kertunum okkar sívinsælu. Einnig vorum við með heimabakaðar kleinur gerðar af íbúum og hálfmána með heimagerðri sveskjusultu sem ennþá er eitthvað eftir af. Óhætt að kíkja við í iðjuþjálfun til kl 4 virka daga og gera góð kaup.
Nánar ...
26.nóv. 2014

Fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga

Góð mæting var á jólafund fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga sem haldinn var í Sóltúni 25. nóvember. Kristín Steingrímsdóttir frá TM software fjallaði um Sögu - rafræna sjúkraskrá og Anna Birna Jensdóttir sagði frá gæðastöðlum Sóltúns um skráningu hjúkrunar og reynslu af notkun rafrænnar sjúkraskrá síðastliðin 13 ár. Sóltún var fyrsta hjúkrunarheimilið á Íslandi til að taka í notkun rafræna sjúkraskrá árið 2002.
Nánar ...
25.nóv. 2014

Kleinubakstur fyrir jólasöluna

Íbúar og starfsfólk voru önnum kafin við að baka og steika kleinur í morgun. Sannkölluð gæðastund. Kleinurnar verða til sölu ásamt handverki á árlegri jólabazar Sóltúns miðvikudaginn 26. nóvember kl. 14.
Nánar ...
17.nóv. 2014

Erlendir sjúkraliðanemar í starfsþjálfun í Sóltúni

Tveir finnskir nemar og þrír danskir nemar eru nú á Sóltúni í starfsnámi. Hanna Niess, Kate Poulsen og Christa Johansen eru sjúkraliðanemar frá Danmörku. Þær komu til Íslands á vegum Erasmus+ nemaskiptaverkefnis sem Fjölbrautaskólinn í Ármúla stendur fyrir í samstarfi við SOPU í Danmörku. Þær fengu styrk til að taka hluta af sinni starfsþjálfun á Íslandi. Dönsku nemarnir verða hér á Sóltúni frá 8. nóvember til 13. desember 2014. Lauri Marjaoja og Heidi Pasanen eru sjúkraliðanemar frá Finnlandi og verða á Sóltúni frá 3. til 30. nóvember 2014. Þau fengu styrk í gegnum menntaáætlun Evrópusambandsins um að taka hluta af sinni starfsþjálfun á Íslandi. Lauri og Heidi eru með starfþjálfunarsamning hjá Helsinki og hafa þau aðallega verið að sinna heimsþjónustu aldraða. IÐAN fræðslusetur og menntaráð Helskini borgar eru samstarfsaðilar á sviði starfþjálfunar. Sóltún og IÐAN hafa unnið saman á ýmsum sviðum sem varð til þess að leitað var til Sóltúns. Á myndunum eru nemendurnir að baka snúða með íbúum.
Nánar ...
12.nóv. 2014

Luktarhátíð á Marteinsmessu

Þann 11. nóvember kom hópur ungra krakka frá Waldorfsskóla sem eru nágrannar okkar hérna í Sóltúni og sungu nokkur lög fyrir utan Sóltún - garðmegin. Gönguna sína og sönginn kölluðu þau Luktarhátíð sem er haldin á Marteinsmessu sem var einmitt 11. nóvember. Kærar þakkir fyrir þessa skemmtilegu morgun heimsókn.
Nánar ...
30.okt. 2014

Kínastund með Unni

Unnur Guðjónsdóttir bauð íbúum, ættingjum þeirra og starfsfólki uppá Kínastund með Unni þann 29. október í samkomusalnum. Sýndi hún myndir frá Kína og var með sýningu á Tai-Chi og kínverskum listmunum. Að sýningu lokinni bauð hún uppá léttar veitingar. Kærar þakkir fyrir áhugaverða sýningu.
Nánar ...
22.okt. 2014

Raggi Bjarna sló í gegn á haustfagnaðnum

Ragnar Bjarnason vakti mikla lukka með söng sínum og spjalli á haustfagnaði íbúa og ættingja þeirra þann 16. október. Undirleikari hjá honum var Þorgeir Ástvaldsson. Allar borðstofur heimilisins voru í hátíðarbúningi þegar 180 veislugestir settust að borðum. Skreytt var með bleikum rósum og sérvettum í tilefni að Bleika deginum. Boðið var uppá rækjumousse í smjördeigsskel í forrétt, steikt lambafille að hætti Sóltúnseldhússins með gratineruðum kartöfluturni, steiktu grænmeti, fersku salati og villibráðasósu í aðalrétt. Í eftirrétt var berjatiramisú, kaffi og konfekt. Barinn var opinn á Kaffi Sól og skemmti fólk sér vel.
Nánar ...
09.okt. 2014

Uppskerudagar í Sóltúni

Við nýttum góðviðrisdagana til uppskeru úr matjurtagörðum og búa þá undir vetrarhvíld. Af kartöflum ræktuðum við aðallega rauðar íslenskar, þær eru vinsælastar samkvæmt mati heimilismanna. Grösin gáfu mismikla uppskeru, ýmist margar stórar undir sama grasi eða fáar smáar, mögulega skipti staðsetning grasanna máli. Uppskeran gaf í 2 málíðir fyrir heimilisfólk og starfsfólk Sóltúns. Einnig erum við að gera tilraunir með ræktun á Blálandsdrottningu og Möndlukartöflum, en sú uppskera verður geymd sem útsæði. Gulræturnar brugðust okkur þetta árið þrátt fyrir að sáð var í tvígang og næg var vætan. Við áttum í töluverðu stríði við snigla sem herjuðu á garðana og átu allt sem fyrir varð. Vetrarklúbbar munu hafa tök á að reifa gróðurmálin og finna betri lausn fyrir næsta sumar.
Nánar ...
08.okt. 2014

Fjölmennt í pönnukökum á Kaffi Sól

Kaffi Sól bauð uppá nýbakaðar pönnukökur með kaffinu s.l. föstudag. Það féll í það góðan jarðveg að aðsókn varð langt umfram væntingar. Fjöldi ættingja mætti í kaffið með íbúum. Bakaðar voru um 550 pönnukökur þar af 250 rjómapönnukökur og 300 upprúllaðar. Aldrei hefur verið bakað annað eins af pönnukökum hér í Sóltúni. Pönnukökubaksturinn hófst kl. 10 um morguninn og síðasta pönnukakan var bökuð um kl. 15.30. Stúlkurnar í eldhúsinu stóðu sig ótrúlega vel því álagið var mikið, á tímabili var hreinlega beðið eftir pönnukökunum og máttu þær því hafa sig allar við.
Nánar ...
23.sep. 2014

Hátíðarblær í guðþjónustu í Sóltúni

Það var hátíðarblær í guðþjónustu í Sóltúni s.l.föstudag þegar sóknarpresturinn sr. Bjarni Karlsson var kvaddur og arftaka hans sr. Kristínu Þórunni Tómasdóttur fagnað. Að lokinni guðþjónustunni var Bjarna þakkað ánægjulega og gefandi samfylgd og gott samstarf allt frá því að heimilið tók til starfa og Kristínu var fagnað og boðin velkomna til starfa. Þorvaldur Halldórsson annaðist tónlistarflutning á sinn frábæra hátt. Laugarneskirkja bauð síðan íbúum, ættingjum og starfsfólki uppá messukaffi í samkomusalnum.
Nánar ...
01.sep. 2014

Sýkingavarnarvika 1.- 5. september

Árleg sýkingavarnarvika hefst í dag. Forvarnir eru besta vörnin gegn sýkingum. Daglega verður farið yfir ýmis praktísk umgengismál sem skipta máli í daglegu starfi og haldnir verða fyrirlestrar, sjá:
Nánar ...
05.ágú. 2014

Grillveisla í veðurblíðunni

Í veðurblíðunni 1. ágúst var slegin upp grillveisla í hádeginu í Sóltúni. Boðið var upp á grillaðan kjúkling með kartöflubátum og ísblómi í eftirrétt.
Nánar ...
04.júl. 2014

Það varð glaumur og gaman

Tríóið „Nú verður glaumur og gaman" hélt sína 66 tónleika í Sóltúni þann 30.júní. Á einum mánuði héldu þau alls 66 tónleika til heiðurs heldri borgurum Íslands á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins. Íbúar, ættingjar og starfsfólk skemmtu sér vel. Tónlistarfólkið þau Tómas Jónsson, Ása Berglind Hjálmarsdóttir og Jökull Brynjarsson spiluðu á hin ýmsu hljóðfæri ásamt því að syngja þekkt lög. Þau fengu síðan íbúana til að spila með á hin ýmsu hljóðfæri svo úr varð stórhljómsveit. Kæra þakkir fyrir góða heimsókn og eftirtektarvert framtak.
Nánar ...
03.júl. 2014

Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir ráðin hjúkrunarstjóri á 1. hæð Sóltúns

Anna Guðbjörg Gunnarsdóttir hefur verið ráðin hjúkrunarstjóri á 1. hæð Sóltúns. Hún mun jafnframt bera ábyrgð á mannauðsmálum hjúkrunarheimilisins. Hún hefur störf 1. október næstkomandi. Umsækjendur um starfið voru 7. Anna Guðbjörg útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1997. Hún lauk meistaraprófi í lýðheilsufræði (Master of Public Health) frá Háskólanum í Reykjavík 2008, þar sem hún sérhæfði sig í mannauðsmálum í lokaverkefni sínu. Anna Guðbjörg hefur jafnframt góða reynslu úr öldrunarþjónustunni þar sem hún hefur starfað sem deildarstjóri á hjúkrunarheimili síðastliðin 5 ár. Vellíðan íbúa Sóltúns er meginverkefnið og að vera aðlaðandi vinnustaður er eitt af undirstöðum þess að það markmið náist. Þekking og reynsla Önnu Guðbjargar mun nýtast vel við það mikilvæga verkefni.
Nánar ...
02.júl. 2014

Guðrún Björg Guðmundsdóttir vann farandbikarinn í golfmóti Sóltúns

Árlegt golfmót starfsmannafélagsins STALDAR var haldið á golfvelli GR Korpunni þann 26. júní síðastliðinn í allskonar veðri. Í upphafi móts var hressilegur vindur og rigning sem hægði á sér þegar leið á en í lokin byrjaði aftur að rigna og vindurinn jókst til muna. Það voru því veðurbarðir golfarar sem settust inn á kaffistofuna, sáttir og sælir að hafa lokið 18 holum. Mótsfyrirkomulagið var punktakeppni með forgjöf. Í ár voru alls 11 manns sem spiluðu um starfsmannabikarinn, gullsleginn farandbikar og verðlaun sem birgjar Sóltúns gáfu. Við þökkum öllum þeim birgjum sem styrktu okkur með margvíslegum gjöfum. Í ár var keppni skemmtileg einsog endranær en í 1.sæti var Guðrún Björg Guðmundsdóttir, í 2.sæti var Guðný Jónsdóttir og í 3. sæti var Gísli Sváfnisson. Guðrún Björg Guðmundsdóttir var með hæsta skor starfsmanns og vann farandbikar Sóltúns í annað sinn. Nándarverðlaun voru veitt fyrir högg næst holu á par 3 brautum og voru þau Anna Birna Jensdóttir, Sigríður Óladóttir, Guðný Jónsdóttir og Gísli Sváfnisson næst holu. Að lokum voru dregin út skorkort. Allir fóru sáttir heim þó svo skorið hefði mátt vera örlítið betra.
Nánar ...
01.júl. 2014

Ferð suður með sjó á málverkasýningu

Við nýttum hlýviðrið á dögunum og fórum á Sóltúnsbílnum á málverkasýningu Karólínar Lárusdóttur í Duushúsi, Keflavík. Sýningin er nefnd Dæmisögur úr sumarlandinu og inniheldur yfir 20 stór olíumálverk í glöðum litum. Við gáfum okkur góðan tíma til að njóta málverkanna og toppuðum svo skynhrifin með góðum kaffisopa við smábátahöfnina.
Nánar ...
23.jún. 2014

Fyrsta rabarbarauppskera sumarsins

Fyrsta rabarbarauppskera sumarsins var í síðustu viku. Áhugasamir íbúar fjölmenntu til að hreinsa og skera safaríka ilmandi stilkana og pakka síðan í hæfilegar umbúðir fyrir frystinn, en ekki gafst tími fyrir grautar- köku- eða sultugerð í þetta skiptið. Flestir sögðust áður fyrr hafa haft aðgang að rabarbara og var eins og gamall og góður taktur fór í gang þegar menn handléku rauða stilkana sem þeir kölluðu Vínrabarbara.
Nánar ...
23.jún. 2014

Rafmagnsstóll nytsamleg gjöf

Iðjuþjálfar og aðstoðarfólk starfandi við endurhæfingu á LHS Grensásdeild komu færandi hendi á dögunum og gáfu Sóltúni nettan rafmagnsstól af gerðinni Pride Go Chair. Stóllinn er aðallega hugsaður til notkunar innan dyra og í garðinn umhverfis húsið. Gjöfin kemur sér einkar vel nú þegar Sjúkratryggingar Íslands hafna öllum beiðnum íbúa á hjúkrunarheimilum um rafdrifna hjólastóla.
Nánar ...
10.jún. 2014

Kvennahlaup

Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í Sóltúni þann 6. júní í frábæru veðri. Margar konur keyptu bol og fengu verðlaunapening frá Jóni djákna og Guðmundi. Elsti þátttakandinn var Guðrún Straumfjörð sem er 103 ára. Öllum var boðið upp á hressandi drykk að hlaupi loknu. Heiða starfsmaður á 1.hæð kom með gítar og spilaði undir söng fyrir og eftir hlaupið. Karlarnir mættu og fögnuðu konunum og tóku undir í söngnum.
Nánar ...
06.jún. 2014

Heilsueflingarfréttir

Í ár héldum við Sóltúnsleikana meðal starfsfólksins í annað sinn, að þessu sinni var keppt í Boccia og pútti. Í Boccianu voru þrjú lið sem kepptu sín á milli. Til úrslita kepptu lið 2. hæðar og lið stoðþjónustu, leikar voru hnífjafnir í lokakasti en liðsmaður 2. hæðar kastaði síðasta bolta með þeim afleiðingum að bolti stoðþjónustu færðist nær hvíta boltanum og því vann stoðþjónusta með aðstoð frá 2. hæð. Mikill keppnisandi var í öllum og lið uppábúin og íbúar Sóltúns komu og hvöttu sín lið. Í púttmótinu voru fjögur lið sem skráðu sig til leiks. Búinn var til golfvöllur í kaffiteríu og spilaðar voru 4 holur; Völlurinn, Vatnaholan, Víðáttan og Röffið. Par vallarins var 9. Besta skor í keppninni var 7 högg en Hildur iðjuþjálfi sem er alger byrjandi var á þessu frábæra skori. Í hverju liði voru 4 keppendur en skor 3 bestu var valið. Kjallaraskvísur voru í 3. sæti á 34 höggum, í 2. sæti var lið Stoðþjónustu með 30 högg og í 1.sæti var lið 3. hæðar með 29 högg. Verðlaunaafhending var haldinn og vinningshafar fengu allir rós að verðlaun. Sóltún tók þátt í Hjólað í vinnuna og fengu þær Þórdís Hannesdóttir og Hildur Þráinsdóttir verðlaun fyrir flesta km og daga.
Nánar ...
02.jún. 2014

Gæðastarf Sóltúns kynnt á 22. Norrænu öldrunarfræðaráðstefnunni

Anna Birna Jensdóttir og Marta Jónsdóttir kynntu árangur af gæðastarfi Sóltúns á ,,22. Nordic Congress of Gerontology" sem haldin var í Gothenburg, Sweden dagana 25.-28. maí. Veggspjaldið bar yfirskriftina ,, Improving the quality of care of nursing home residents". Yfir 1000 manns sóttu ráðstefnuna og fékk veggspjald Sóltúns góða athygli.
Nánar ...
02.jún. 2014

Uppstigningardagur- dagur aldraðra haldinn hátíðlegur í Sóltúni

Líkt og undanfarin ár var uppstigningardagur sem er jafnframt dagur aldraðra haldinn hátíðlegur hér í Sóltúni. Helgistund var haldin í aðalsal. Ragnhildur Ásgeirsdóttir djákni og framkvæmdarstjóri Hins Íslenska biblíufélgas kom ásamt dætrum sínum þeim Írisi og Mörtu. Íris og Marta fluttu okkur dúetta á þverflautu, Íris söng einsöng við undirleik Ragnhildar. Ragnhildur flutti ljóð, sagði frá tildrögum að stofnun fyrsta biblíufélags í heiminum og hvernig það leiddi til að Ebeneser Henderson kom til Íslands til að dreifa Biblíunni víðsvegar um landið, bæði Nýja testamentum og Biblíunni í heild í þúsundum eintaka (rúmlega 6,600 eintökum af Nýja testamentinu og rúmlega 4 þúsund Biblíum). Þar með varð Biblían í fyrsta sinn almenningseign á Íslandi. Það er því enginn vafi að heimsókn Ebenezers Henderson markar tímamót í sögu íslenskrar kristni. Ísland varð þar með eitt af fyrstu löndum í heiminum til að stofna Biblíufélag en það var stofnað 10. júlí 1815 og verður því 200 ára á næsta ári. Góð þátttaka var á stundinni og mikil ánægja með fallega, uppbyggilega og fræðandi stund. Við erum þeim Írisi, Mörtu og Ragnhildi innilega þakklát og þeim færðar bestu þakkir fyrir komuna og yndislega stund.
Nánar ...
23.maí 2014

Konditori á Kaffi Sól

Vel heppnað konditori var á Kaffi Sól 21. maí. Íbúar og gestir þeirra gæddu sér á glæsilegum hnallþórum og súkkulaðitertum framreiddum af Sóltúnseldhúsinu. Fullt var út að dyrum þegar flest var.
Nánar ...
23.maí 2014

Nemendur í alþjóðlegu námskeiði í hjúkrunarstjórnun heimsóttu Sóltún

Nemendur sem sækja alþjóðlegt framhaldsnámskeið í hjúkrunarstjórnun við Hjúkrunarfræðideild komu í kynningu og heimsókn í Sóltún þann 20. maí. Námskeiðið stendur yfir dagana 20. – 23. maí. Þátttakendur í námskeiðinu koma frá University of Minnesota í Bandaríkjunum, Riga Stradins University í Lettlandi, Karlstad University og University of Lund í Svíþjóð og Háskóla Íslands. Námskeiðið fjallar um hjúkrunarstjórnun og nefnist „Leadership in nursing – a global approach“. Þar skoða nemendur meðal annars breytt hlutverk hjúkrunarfræðinga í heilbrigðisþjónustu, ímynd hjúkrunarfræðinga og frumkvæði í hjúkrun. Kennslan fer fram á háskólasvæðinu en nemendurnir fara jafnframt í smærri hópum og fylgjast með starfi á heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu.
Nánar ...
20.maí 2014

Þingkonur frá danska þjóðþinginu heimsóttu Sóltún

Níu danskar þingkonur sem sitja í ,,71-tilsynet” ásamt danska ræðismanninum á Íslandi heimsóttu Sóltún þann 8. maí. Þingnefndin hefur eftirlit með þvingunarinnlögnum geðsjúkra, heilabilaðra og barna á stofnanir í Danmörku. Jafnframt hefur þingnefndin eftirlit með notkun hvers kyns hafta í meðferðarskyni. Erindið var að kynna sér hvernig þessum málum er háttað á Íslandi. Sóltún hafði vakið athygli þeirra fyrir stefnu sína að nota ekki höft eða fjötra.
Nánar ...
19.maí 2014

Hjúkrunarfræðingar semja við SFV

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur undirritað samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi sínum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) sem Sóltún er aðili að. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 til 30. apríl 2015.Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum.
Nánar ...
19.maí 2014

Dræm kosningaþátttaka

Kosið var utankjörstaða til sveitastjórnar í Sóltúni í dag. Þátttaka var dræm. það voru innan við 1/3 íbúa sem nýttu tækifærið til að kjósa.
Nánar ...
19.maí 2014

Efling stéttarfélag gerir nýjan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu

Skrifað var undir samning þann 8. maí sl. við hjúkrunarheimilin á sambærilegum nótum og við ríkið. Kynningarfundur fyrir starfsfólk Sóltúns sem er í Eflingu verður í samkomusal 20. maí kl. 13:30. Þar verður innihald samningsins kynnt og samhliða því fer fram atkvæðagreiðsla með kjörfundarfyrirkomulagi. Þá hefur kynningarbæklingur verið sendur á alla félagsmenn sem starfa hjá þeim hjúkrunarheimilum og stofnunum sem eru innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Niðurstaða atkvæðagreiðslu mun liggja fyrir mánudaginn 26. maí kl. 16.00.
Nánar ...
15.maí 2014

Verkfall sjúkraliða stendur yfir frá kl.8-16 í dag

Sjúkraliðar Sóltúns eru félagar í Sjúkraliðafélagi Íslands. Félagið á í samningaviðræðum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem Sóltún er aðili að. Deilan er hjá Ríkissáttasemjara. Í dag verða 48 af 61 starfsmönnun sem eiga skipulagða vakt við störf. Okkur vantar 13 sjúkraliða til vinnu þennan tíma, en þeir eru í verkfalli. Störfum verður forgangsraðað þannig að grunnþjónusta við íbúa gengur fyrir og að öryggi sé tryggt. Þjónustuhraði verður þó annar en íbúar eiga að venjast. Eins og ávallt eru ættingjar velkomnir hér í Sóltúni.
Nánar ...
12.maí 2014

Alþjóðardagur hjúkrunar 12. maí, sem er fæðingardagur Florence Nightingale

Í tilefni dagsins fengu hjúkrunarfræðingar Sóltúns þær Svandísi Írisi Hálfdánardóttir sérfræðing í líknandi hjúkrunarmeðferð og Dóru Halldórsdóttur deildarstjóra á líknardeild Landspítalans á fræðslufund til að segja frá starfi sínu á líknardeildinni. Farið var yfir klínisk grunngildi í líknarmeðferð og sérhæfða líknarmeðferð hjá einstaklingum með erfið og fjölþætt einkenni og mikilvægi fjölskylduhjúkrunar hjá deyjandi einstaklingum. Góðar umræður sköpuðust um ýmiss praktísk mál í klínisku starfi hjúkrunarfræðinga sem hjúkra deyjandi einstaklingum. Hjúkrunarfræðingar Sóltúns færa framsögukonum kærar þakkir fyrir góðan fund.
Nánar ...
12.maí 2014

Verkfall sjúkraliða

Sjúkraliðar Sóltúns eru félagar í Sjúkraliðafélagi Íslands. Félagið á í samningaviðræðum við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu sem Sóltún er aðili að. Deilan er hjá Ríkissáttasemjara. Verkfall er skollið á frá kl. 8-16 mánudaginn 12.maí. Það er einnig boðað fimmtudaginn 15. maí, frá kl 8-16, og mánudaginn 19. maí, frá kl 00-24. Fimmtudaginn 22. maí kl 8 hefst allsherjarverkfall sem stendur yfir þar til samið verður. Búast má við að verkfallið hafi áhrif á þjónustuhraða.
Nánar ...
08.maí 2014

Ökutúrar um fallega borg

Nutum veðurblíðunnar sl.miðvikudag, fylltum Sóltúnsbílinn í þrígang af áhugasömum íbúum af öllum hæðum og keyrðum út í vorið. Ekið var meðfram sjónum um Sæbraut á út á Granda, þaðan að Gróttuvita þar sem krían heilsaði okkur og að Bakkatjörn, en þar má sjá 18 ára gamallt álftapar undirbúa komu unga. Hún liggur á úti í Hólmanum en hann flýtur um eins og varðmaður. Þaðan var ekið að Nesvegi, eftir Ægissíðu, Suðurgötu, um Hringbraut/Miklubraut og heim í Sóltún. Mjög gott skyggni var vestur á Snæfellsnes og suður á Reykjanesið. Íbúar höfðu orð á því hvað við byggjum í fallegri borg og fögnuðu vorkomunni og græna litnum sem allsstaðar sprettur fram þessa dagana.
Nánar ...
24.apr. 2014

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar og kærar þakkir til allra sem lagt hafa að mörkum við að hlúa að íbúum Sóltúns og auka lífsgæði þeirra í vetur. Heimilishundurinn Stemma er einn af gleðigjöfunum, og er hún hér á myndinni með honum Brynjari að fagna sumarkomunni.
Nánar ...
20.apr. 2014

Gleðilega páska

Sóltún óskar íbúum og ættingjum þeirra, starfsfólki og landsmönnum öllum gleðilegra páska.
Nánar ...
10.apr. 2014

Eldvarnardagur

Í dag er eldvarnardagur í Sóltúni. Fulltrúar frá Slökkviliðinu fjalla um eldvarnir og hvernig stofnanir geti starfað árangursríkt að eigin eldvarnareftirliti og forvörnu á fræðslufundi.
Nánar ...
08.apr. 2014

Vel heppnað kaffisamsæti

Það var ánægjustund í kaffiteríu Sóltúns þegar 15 fyrrum starfsmenn sem hætt hafa vegna aldurs komu í kaffisamsæti. Sóltúns eldhúsið bar fram kræsingar eins og þeim er lagið og um margt var spjallað og skemmt sér yfir endurminningum. Hópurinn var leystur út með pásakaeggi.
Nánar ...
04.apr. 2014

Skemmtilegur dagur

Að tilefni fyrirmyndardagsins fengum við gest hingað frá Vinnumálastofnun, það var hún Jóhanna Þórkatla Eiríksdóttir sem heimsótti okkur og fékk hún að kynnast starfseminni hér í Sóltúni . Hún fylgdist með og tók þátt í leikfimi í sjúkraþjálfun og einnig tók hún þátt í iðjuþjálfun. Að lokum aðstoðaði hún við hreingerningar í húsinu. Það var bæði lærdómsríkt og ánægjulegt að fá að kynnast Þórkötlu og þökkum við henni kærlega fyrir komuna til okkar.
Nánar ...
04.apr. 2014

Sóltún tekur þátt í fyrirmyndardeginum

Fyrirmyndardagurinn er dagur þar sem fyrirtæki bjóða atvinnuleitendum með skerta starfsgetu að fylgja starfsmanni eftir í sínu fyrirtæki eða stofnun í einn dag eða hluta úr degi. Fyrirmyndardagurinn er haldinn í fyrsta sinn á Íslandi í dag. Þátttakendur dagsins í ár eru atvinnuleitendur með skerta starfsgetu sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun og fyrirtæki sem eru nú þegar í samvinnu við Atvinnu með stuðningi/Vinnumálastofnun auk fyrirtækja sem eru aðilar innan Festu-samfélagsábyrgð fyrirtækja. Stefnt er að því að Fyrirmyndardagurinn verði haldinn á landsvísu til þess að allir sem áhuga hafa á að taka þátt fái tækifæri til þess, bæði atvinnuleitendur með skerta starfsgetu og atvinnurekendur. Ávinningur dagsins er sá að atvinnuleitendur fá tækifæri til að kynna sér margvísleg störf innan ólíkra fyrirtækja og kynna sig sem atvinnuleitendur. Þátttökufyrirtækin fá tækifæri til þess að kynna störf innan sinna fyrirtækja fyrir atvinnuleitendum.
Nánar ...
31.mar. 2014

Glatt á hjalla á vorfagnaði

Það var glatt á hjalla á vorfagnaði Sóltúns þann 27. mars 2014. Fagnaðurinn hófst með hátíðarkvöldverði þar sem borið var fram í forrétt rækjukokteill að hætti hússins. Í aðalrétt var steikt lambafille með steiktum kartöflum (kartöflur/sætar kartöflur), léttsteikt brokkáli/blómkál, vorsalat og púrtvínssósa. Í eftirrétt var súkkulaðimousse carre með jarðaberjum og þeyttum rjóma. 180 manns voru í mat og fær Sóltúns eldhúsið fyrstu einkunn fyrir frammistöðu sína. Á eftir var skemmtun í salnum þar sem Guðmundur Símonarson spilaði á hljómborð og söng. Fólk söng með og dansaði og naut kvöldsins í botn.
Nánar ...
10.mar. 2014

Gerðubergskórinn

Gerðubergskórinn hélt tónleika í Sóltúni 28. febrúar. Kári Friðriksson stjórnaði söng og undirleikari var Árni Ísleifs. Gerðubergskórinn gleður okkur hér í Sóltúni á hverju ári og er þeim færðar kærar þakkir fyrir heimsóknina.
Nánar ...
10.mar. 2014

Tónlist John Lennons á Kaffi Sól

Það var glatt á hjalla á Kaffi Sól þann 17. febrúar. Guðmundur Símonarson spilaði og söng lög eftir John Lennon og Bítlana. Ófáir fengu síðan óskalögin sín sungin. Sóltúnseldhúsið bauð upp á snittur og annað góðmeti.
Nánar ...
12.feb. 2014

Velferðanefnd Landsambands eldri borgara

Ragnheiður Stephensen, Ásgeir Jóhannesson og Loftur Magnússon frá Velferðanefnd Landsambands eldri borgara heimsóttu Sóltún þann 11. febrúar. Þau kynntu sér starfsemina og spunnust góðar umræður um málefni eldri borara og nauðsynlegar úrbætur í málaflokknum. Ragnheiður sem átti 75 ára afmælisdag fékk blómvönd frá félögum sínum í nefndinni.
Nánar ...
11.feb. 2014

Góð heimsókn frá ljóðahópnumTungubrjótar

Ljóðahópurinn Tungubrjótar komu í Sóltún og fluttu ljóð eftir Davið Stefásson undir stjórn Guðnýar Helgadóttur. Þetta er í annað sinn sem hópurinn heimsækir okkur við góðar undirtektir íbúa og vonum við að hann komi fljótlega aftur.
Nánar ...
07.feb. 2014

Samráðsfundur með Landspítala

Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri sótti fund sem forstjóri Landspítalans boðaði til með forstöðumönnum hjúkrunarheimila og heilsugæslunnar þann 6. febrúar. Aðalumræðuefnið snerist um fráflæðisvanda Landspítala, þar sem aldraðir sem bíða eftir hjúkrunarheimili ílengjast að lokinni meðferð á sjúkrahúsinu. Ljóst var á fundinum að hjúkrunarheimilin eru að gera allt sem er á þeirra færi til að aðstoða aldraða sjúklinga og spítalann, en fjármagn og heimild frá ríkinu skortir til að fjölga úrræðum. Sóltún hefur til dæmis áréttað árlega boð sitt til ríkisins að fjölga hjúkrunarrýmum í Sóltúni umtalsvert, án þess að fá hljómgrunn.
Nánar ...
05.feb. 2014

Þingmenn Framsóknarflokksins í heimsókn

Þau Sigrún Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Karl Garðarsson þingmenn Framsóknarflokksins í Reykjavík heimsóttu Sóltún 4. febrúar og kynntu sér starfsemina hjá Önnu Birnu Jensdóttur og heilsuðu upp á íbúa.
Nánar ...
01.feb. 2014

Veggspjaldasýning á árangri gæðaumbótaverkefna Sóltúns

Á íbúaþingi 29. janúar var opnuð ,,Veggspjaldasýning á árangri gæðaumbótaverkefna Sóltúns" í samkomusalnum. Verkefnin fjalla um næringu og fæði, forvarnir gegn þunglyndi og kvíða, forvarnir gegn byltum, varnir gegn hvers kyns höftum, sáravarnir og verkjameðferð. Allt mjög mikilvægir þættir að sinnt sé sem best verður á kosið fyrir íbúa Sóltúns. Íbúum, ættingjum og starfsfólki gefst kostur á að skoða niðurstöðurnar og kunna sér hvernig verkefnin voru unnin, en notast var við aþjóðlegar viðurkenndar aðferðir gæðastjórnunar. Sýningin verður opin til 12.febrúar.
Nánar ...
01.feb. 2014

Vel heppnað íbúaþing

Haldnir voru húsfundir á 6 stöðum í Sóltúni 27. janúar. Þar gafst íbúum kostur á að fara yfir helstu mál með stjórnendum Sóltúns, koma með fyrirspurnir, tillögur og athugasemdir. Vel var mætt á húsfundina og umræður góðar. Almenn ánæga var með þjónustuna og aðbúnað, rætt var um ýmis praktísk atriði sem farin eru í vinnslu. Á miðvikudeginum 29. janúar var síðan haldið íbúaþing í samkomusal. Yfir 50 manns sóttur þingið í salnum og allmargir fylgdust með útsendingu í sjónvörpum. Þar fór Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri yfir reksturinn, þjónustuna og mannauðsmálin. Ennfremur tók hún fyrir þau mál og fyrirspurnir sem fram höfðu komið á húsfundundunum. Þetta var 12. íbúaþingið í Sóltúni og hefur það alltaf reynst til gagns og verið farsæl leið til að stilla saman strengi.
Nánar ...
28.jan. 2014

Töframáttur tónlistar undir stjórn Gunnars Kvaran og Hildar Jóhannesdóttur

Í vetur hefur íbúum Sóltúns staðið til boða að fara á tónleika að Kjarvalstöðum. Í gær naut hópur frá Sóltúni þess að hlusta á Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara flytja undurfallega píanótónlist auk þess sem hann útskýrði svo frábærlega tónverkin og kynnti höfunda þeirra. Næsta ferð er fyrirhuguð þann 3.mars en þá lýkur tónleikaröð þessa vetrar. Frábært að svona flott tækifæri séu í boði. Kærar þakkir.
Nánar ...
27.jan. 2014

Fjötrar ekki notaðir í Sóltúni

Sérstakt gæðateymi til varnar hvers konar fjötranotkun var sett á fót í Sóltúni árið 2004. Sóltún starfar eftir gæðastaðli um varnir gegn fjötrum og hvers kyns höftum og hefur gefið út leiðbeiningar til íbúa og ættingja sem hefur að geyma upplýsingar um forvarnir og upplýst samþykki um notkun öryggisútbúnaðar. Athugun gæðateymis á 2.515 RAI-mötum þar sem skoðað var hvort vísbendingar um að 5-10% íbúa væru fjötraðir eða notuðu öryggisútbúnað á árunum 2004-2012, reyndist í öllum tilvikum vera um notkun á öryggisútbúnaði að ræða. Öryggisútbúnaðurinn var fyrst og fremst öryggisbelti í hjólastól, og upplýst samþykki hefur legið til grundvallar.
Nánar ...
24.jan. 2014

Þorrablótið vel heppnað

Fólk skemmti sér vel á þorrablóti Sóltúns í gærkveldi. Dýrindis þorramatur var borin fram á trogum, og harðfiskur, öl, hákarl og brennivín boðin með. Á eftir var skemmtun í salnum. Ólafur B. Ólafsson tók á móti fólki í sal með harmonikkuleik. Síðan söng Marta Friðriksdóttir nokkur lög við undirleik Ólafs. Heillaði hún áhorfendur með sinni fögru söngrödd og skemmtilegri framkomu. Amma hennar og nafna býr í Sóltúni. Anna Birna Jensdóttir flutti minni karla og Ómar Össurason minni kvenna. Fólk naut þess síðan að syngja saman fram eftir kveldi. Blótstjóri var Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir.
Nánar ...
17.jan. 2014

Tekist á við þunglyndi og kvíða

Sett var á fót gæðateymi 2006 til að draga úr þunglyndi og kvíða og stuðla að aukinni velíðan og lífsgæðum. Gæðateymið hefur sett fram gæðastaðal um þunglyndi og kvíðameðferðir. Ársfjórðungslega er farið yfir niðurstöður RAI-mælinga og skoðuð nánar þau atvik sem upp hafa komið. Teymið fer yfir samspil heilsufars, lyfjagjafar, notkunar hjálpartækja , virkni og umhverfi, auk þess að veita ráðgjöf og stuðning ef með þarf. Sóltún kynnti niðurstöður af gæðaumbótastarfi sínu á ráðstefnunni Hjúkrun 2013 s.l.haust. Árið 2010 birtu hjúkrunarfræðingar Sóltúns grein í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2. tbl. um árangur og bar greinin heitið ,,Útivera eykur vellíðan íbúa".
Nánar ...
15.jan. 2014

Góður árangur í verkjameðferð í Sóltúni

Sérstakt verkjateymi hefur verið starfandi allt frá árinu 2004 í Sóltúni. Verkjateymið er til ráðgjafar og stuðnings varðandi ill viðráðanlega verki hjá íbúum. Sóltún hefur náð góðum árangri í verkjameðferð og dregið hefur úr tíðni daglegra verkja og styrk þeirra. Niðurstöður gæðaumbótastarfs Sóltúns var kynnt á ráðstefnunni Hjúkrun 2013 sl. haust og grein var birt í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2011.
Nánar ...
07.jan. 2014

Sóltún fagnar 12 ára starfsafmæli

Í dag eru 12 ár frá því að fyrsti íbúinn flutti í Sóltún. Starfið hefur verið farsælt og árangur góður. Sóltún hefur búið yfir miklum mannauði sem hefur reynst íbúum heimilisins mikils virði. Til hamingju með daginn.
Nánar ...
16.des. 2013

Heimsókn frá Tónlistarskóla Seltjarnarness

Fólk steymdi að af öllum hæðum og eftirvæntingin sveif yfir vötnum. Enn á ný fengum við í Sóltúni að njóta yndislegrar heimsóknar og fallegra tónleika. Enn á ný fengum við að upplifa vináttu og tryggð nemenda og kennara Tónlistarskóla Seltjarnarness með skólastjórann Gylfa Gunnarsson í fylkingarbrjósti. Bæði hljóðfæraleikur og söngur var heillandi og bar nemendum og kennurum fagurt vitni um brennandi áhuga, hæfileika, gleði og traust í samstarfi og vandað skólastarf. Einlægar þakkir fyrir ljúfa og hátíðlega stund.
Nánar ...
28.nóv. 2013

Aðventan sungin inní hjörtu áheyrenda

Senjorítur Kvennakórs Reykjavíkur heimsóttu Sóltún í gær og sungu skemmtileg og falleg lög með jólaívafi. Stjórnandi kórsins er Ágota Joó og Vilberg Viggósson lék á píanó. Sönghópurinn (um 50 konur) geisluðu af orku og gleði og sungu aðventuna inn í hjörtu viðstaddra.
Nánar ...
23.nóv. 2013

Smurbrauðsdömur Sóltúns slóu í gegn á jólasölunni með glæsilegum veitingum

Í október síðastliðnum fóru 6 starfsmenn frá eldhúsi og íbúaeldhúsum á smurbrauðsnámskeið á vegum Iðunnar og Eflingar. Kennari námskeiðsins var hin margrómaða Marentsa Poulsen smurbrauðsdama. Námskeiðið var haldið í Matvælaskólanum í Kópavogi og stóð yfir í fjögur kvöld. Starfsmenn Sóltúns lærðu handbragðið fljótt og vel og var mikil ánægja með námskeiðið í heild sinni. Á árlegri sölu Iðjuþjálfunar var boðið upp á smurbrauð að hætti Dana. Hafist var handa kl. 9 um morguninn við að smyrja rúmlega 400 stykki smurbrauð. Mikil vinna er við smurbrauðsgerð og stóðu starfsmennirnir sig frábærlega og náðu að smyrja og skreyta allt fyrir kl. 14.30 þegar kaffihúsið opnaði. Boðið var uppá smurbrauð með gröfnum laxi, egg og síld, skinku og roast beef og til að renna veitingunum niður var bæði pilsner og jólablanda. Dagurinn tókst vel í alla staði og var mikil ánægja með framtakið og var mál manna að það væri svo notalegt að geta komið með þessa upplifun inní húsið. Íbúar og gestir þeirra gerðu veitingunum góð skil og þótti smurbrauðið einstaklega gott. Nemendurnir eru því útskrifaðir með ágætiseinkunn að mati íbúanna og starfsmanna og viljum við þakka þeim fyrir skemmtilega matarupplifun .
Nánar ...
21.nóv. 2013

Árleg jólasala gekk vel

Það var mikil eftirvænting á árlegri jólasölu Sóltúns. Allir handverksmunir voru unnir af íbúum og starfsfólki iðjuþjálfunar. Barnaleikföng, sokkar, vettlingar, keramik, kerti og fleiri glæsilegir hlutir voru til sölu. Fjörugt var á sölunni sem gekk vel.
Nánar ...
17.nóv. 2013

Gamlir fóstbræður með flotta tónleika

Flottir tónleikarnir hjá Gömlum fóstbræðrum í Sóltúni 15. nóvember. Kórinn söng úrval laga eftir Sigfús Einarsson og Hannes Hafstein, Bellmann, Sigvalda Kaldalóns og fleiri. Stjórnandi kórsins var Árni Harðarson. Kærar þakkir fyrir góða heimsókn.
Nánar ...
24.okt. 2013

Sóltúnsgengið gönguhópur íbúa og aðstandenda þeirra

Göngugarpar hittast á sunnudögum í anddyri Sóltúns kl. 14.00 og ákveða lengd og umfang göngunnar hverju sinni. Markmiðið með samkomunni er að tengjast, eiga góða stund og síðast en ekki síst að innbyrða eins mikið súrefni og lungun leyfa. Gönguleiðir eru fjölmargar og breytilegar, allt frá því að vera stutt ganga hringinn í kringum húsið yfir í það að ganga upp á Laugaveg eða niður í Borgartún á kaffihús – eða jafnvel enn lengri leiðir fyrir þá sem treysta sér til þess.
Nánar ...
20.okt. 2013

Vel heppnaður haustfagnaður

Fólk skemmti sér vel á haustfagnaði á spænskum dögum. Fagnaðurinn hófst með hátíðarkvöldverði þar sem borið var fram steikt lambafille með kanarískum kartöflum, grænmeti og rósmarínsósu. Í eftirrétt var crema catalana, kaffi og konfekt. 200 manns voru í mat og fær Sóltúns eldhúsið fyrstu einkunn fyrir frammistöðu sína. Tónleikar voru í salnum á eftir þar sem Tríó Björns Thoroddsens spilaði þekkt spænsk dægurlög. Auk Björns skipuðu þeir Jón Rafnsson bassi og Bjarni Arason söngvari tríóið. Fólk naut tónleikanna og kvöldsins. Á spænsku dögunum var húsið allt skreytt og skemmti fólk sér við að fara um og skoða skreytingarnar og rifja upp endurminningar um Spánarferðir.
Nánar ...
16.okt. 2013

Tapas, sangría og Baltasar Samper

Á Café Carmen á spænskum dögum var boðið uppá tapasrétti og svalandi sangría. Baltasar Samper sem er frá Katalóníu á Spáni og löngu orðin þjóðþekktur listamaður á Íslandi kom í heimsókn og sagði frá uppvexti sínum á Spáni. Hann sagði okkur frá tapasmenningunni og mörgu öðru fróðlegu., s.s saltfisknum og tenginguna við Ísland og listinni. Kærar þakkir fyrir heimsóknina. Ung senjóríta mætti og heillaði fólk. Sóltúnseldhúsið sló í gegn með flottu tapasréttunum.
Nánar ...
16.okt. 2013

Skemmtilegt á spænskum dögum

Kristinn R. Ólafsson gladdi okkur með skemmtilegri og fræðandi frásögn um lífið á Spáni, menningu landsins og kóngasögur. Í framhaldi af kynningu Kristins sagði Stefán Guðjónsson fólki frá mismunandi Rioja vínum og bauð uppá smakk. Góð mæting var og eru framsögumönnum færðar kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
15.okt. 2013

Glæsileg árshátíð STÖLD

Glæsileg árshátíð starfsmannafélags Sóltúns var haldin í Víkingasal Hótel Natura. Að þessu sinni var umsjón árshátíðar á höndum starfsfólks á 1. hæð. Atli Þór Albertsson sá um veislustjórn og hljómsveit Sín spilaði fyrir dansi. Allir skemmtu sér vel og nutu kvöldsins.
Nánar ...
16.sep. 2013

Sigríður Óladóttir vann golfmót Sóltúns

Sigríður Óladóttir vann golfmót Sóltúns sem fór fram á Korpunni 13. september. Þar með fór Sóltúnsbikarinn frá 3. hæð á 1. hæð. Á myndinni sést Guðný Jónsdóttir mótsstjóri afhenda Sigríði 1. verðlaun og bikarinn góða. Til hamingju Sigríður.
Nánar ...
05.sep. 2013

Uppskerudagur

Íbúar og starfsfólk nutu góða veðursins og tóku upp kartöflur og grænmeti í Sóltúnsgarðinum í gær. Heimilishundurinn Stemma var að sjálfsögðu á staðnum.
Nánar ...
05.júl. 2013

Gróska í garðskálanum

Í garðskálanum eru íbúar og starfsfólk með tilraunaræktun. Kirsuberjatréð launar uppeldið með berjum okkur til yndisauka.
Nánar ...
24.jún. 2013

Samið um tryggingar við VÍS

Sóltún hefur samið við VÍS að tryggja starfsemi Sóltúns. „Við erum afskaplega ánægð með tilboðið sem VÍS gerði okkur og vorum ekki í nokkrum vafa að söðla um. Forvarnaáherslur VÍS falla sérlega vel að starfseminni hér enda markmiðið að veita íbúum bestu hjúkrun og þjónustu sem völ er á hverju sinni,“ segir Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri. Auður Björk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs VÍS segir ánægjulegt að fá Öldung í viðskipti. „Starfsemin í Sóltúni er til mikillar fyrirmyndar. Við leggjum ríka áherslu á hvers kyns forvarnir með fyrirtækjum og stofnunum sem tryggja hjá okkur. Forvarnarstarfið í Sóltúni er eins og best verður á kosið og við hlökkum til frekara samstarfs.“
Nánar ...
19.jún. 2013

Úrslitin í blómagátuleiknum

Úrslit voru nýlega kynnt í blómagátuleiknum sem staðið hefur yfir í maí og apríl. Tvisvar í viku var send út mynd af blómi með vísbendingum um heiti þess og átti að skrifa nafnið á blóminu á miða og setja í tilheyrandi kassa. Sendar voru út fimmtán myndir. 1.hæð BC sigraði keppnina en þau tóku þátt í hverjum leik og sendu inn 14 rétt svör og 1 rangt. Mikill metnaður var þar í gangi því þau sendu einnig inn latneska heitið á hverri plöntu. 1.hæð DE var í öðru sæti sem svöruðu 12 sinnum, þar af 1 rangt svar. Næstir komu 3.hæð DE sem svöruðu 5 sinnum, þar af 2 röng svör. Þá kom 3.hæð BC sem svaraði 4 sinnum, þar af 1 rangt svar. 2.hæð BC svaraði 2 sinnum og bæði rétt. Að lokum var það 2.hæð DE sem svaraði aldrei. Veitt voru vegleg verðlaun fyrir tvö efstu sætin og tóku þær Marta Jónsdóttir og Pálína Skjaldardóttir á móti þeim fyrir 1.hæð.
Nánar ...
18.jún. 2013

Glæsilegir tónleikar frá krökkunum í Rudolf Steinerskólanum í Bergen

Nemendahópur frá Rudolf Steinerskolen í Bergen gladdi okkur með tónleikum í salnum þriðjudaginn 11. júní kl. 14.00. Þetta voru 16 nemendur á aldrinum 10-18 ára sem spiluðu á fiðlu og selló. Kammerhópur og yngri hópur. Þau spiluðu norska tónlist eftir Grieg o.fl. Tónleikarnir voru yndislegir, einn nemandinn talaði íslensku og þýddi kynningu stjórnandans á verkunum sem spiluð voru.
Nánar ...
13.jún. 2013

Sigurvegarar í innanhússkeppni Hjólað í vinnuna

Þokkalegasta þátttaka var í hjólað í vinnuna en þar var keppt um fjölda daga, fjögur lið kepptu. Sigurliðið kom af þriðju hæð og kallaði sig Sykurpúðana. Liðið var skipað sjö starfsmönnum með Jóhönnu Sævarsdóttur sem liðsstjóra og hjóluðu þær í 51 dag. Sigurliðið fékk yndisfagrar rósir í verðlaun og tóku tveir fulltrúar þeirra þær Dagný Elva Þorsteinsdóttir og Aldís Gunnarsdóttir á móti þeim á starfsmannafundi 30. maí fyrir hönd hópsins.
Nánar ...
12.jún. 2013

Tungubrjótar

Ljóðahópurinn Tungubrjótar lásu og sungu ljóð eftir Hannes Hafstein. Guðnýjar Helgadóttur stjórnaði flutningnum. Kærar þakkir fyrir góða og skemmtilega heimsókn í Sóltún.
Nánar ...
05.jún. 2013

Skemmtilegt kvennahlaup

Kvennahlaup ÍSÍ fór fram í Sóltúni 5.júní. Til stóð að fara degi fyrr en vegna veðurs var því frestað um einn dag. Veðurútlit var þokkalegt og ákveðið að láta það ekki stoppa sig frekar. Það reyndist góð ákvörðun því að þó að sólin léti lítið sjá sig að þá var þurrt og vindurinn hlýr. Margar konur keyptu bol og fengu verðlaunapening frá Jóni djákna og Haraldi. Öllum var boðið upp á hressandi drykk að hlaupi loknu. Heiða starfsmaður á 1.hæð kom með gítar og spilaði undir söng fyrir og eftir hlaupið. Karlarnir mættu í anddyrið og fögnuðu konunum og tóku undir í söngnum.
Nánar ...
13.maí 2013

Frábær tónlistarflutningur hjá Júlíkvartettinum

Íbúarnir, ættingjar og starfsfólk nutu hverrar mínútu á tónleikum Júlíkvartettsins þann 10. maí. Strengjakvartettinn sem var skipaður Júlíönu Elínu Kjartansdóttur, Rósu Hrund Guðmundsdóttur, Sesselju Halldórsdóttur og Auði Ingvadóttur tónlistarmönnum í Sinfóníuhljómsveit Íslands heilluðu salinn. Þúsund þakkir fyrir þessa tónleika sem boðið var upp á í Sóltúni.
Nánar ...
03.maí 2013

Sóltún kynnir árangur af gæðastarfi á alþjóðlegri ráðstefnu

Sóltún kynnti árangur sinn í gæðastarfi á alþjóðlegri ráðstefnu the International Forum on Quality and Safety in Healthcare. Ráðstefnuhaldarar voru IHI Institute for Healthcare Improvement and BMJ, ExCel, London 17.-19. april 2013. Alls bárust 220 veggspjaldakynningar og komust aðeins 120 að, þar á meðal kynning Sóltúns ,,Improving the quality of care of nursing home residents". Höfundar: Anna Birna Jensdóttir, Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir, Guðrún Björg Guðmundsdóttir og Marta Jónsdóttir. Uppselt var á ráðstefnuna, en hana sóttu 3300 manns. Fjölmargir áhugaverðir fyrirlestrar og kynningar voru á ráðstefnunni sem fjölluðu allar um gæðaumbótastarf, gæðastjórnun og sjúklingaöryggi. Mikið var rætt um hvernig bæta má gæði heilbrigðisþjónustunnar og draga úr hvers kyns sóun.
Nánar ...
30.apr. 2013

Heimsókn frá Norður Noregi

Ingrid Marie Saga Drageset PhD-student og hjúkrunarfræðingur frá University of Tromsø, Noregi heimsótti Sóltún. Hún er að rannsaka lífsögu einstaklinga með heilabilun og hvernig hún varðveitist og heldur sér eftir því sem sjúkdómurinn þróast og hver áhrif þess að flytjast á hjúkrunarheimili hefur þar á. Ingrid átti viðtal við Önnu Birnu Jensdóttur hjúkrunarforstjóra og Júlíönu Sigurveigu Guðjónsdóttur hjúkrunarstjóra.
Nánar ...
15.apr. 2013

Um þriðjungur íbúa kusu utankjörfundar

Um þriðjungur íbúa kusu utankjörfundar í Sóltúni í dag. Biðröð myndaðist þar sem einungis var möguleiki á að kjósa í einum kjörklefa, en áður hafa verið tveir klefar. Fulltrúar sýslumanns höfðu aðeins eitt sett af stimplum sem orsökuðu þetta.
Nánar ...
13.apr. 2013

Ómar Ragnarsson í Sóltúni

Á 1.hæð eru lesnar valdar bækur alla virka daga. Nú er nýlokið við að lesa bækurnar Fólk og Firnindi – stiklað á Skaftinu og Manga með svartan vanga. Í því tilefni var því kannaður sá möguleiki að fá höfund bókanna Ómar Ragnarsson í heimsókn. Það var auðsótt mál og stóra stundin rann upp síðastliðin föstudag 12. apríl. Segja má að Ómar hafi nú verið kominn á bernskuslóðir. Sem ungur drengur bjó hann í Samtúni hér rétt við hliðina og leikvöllurinn þar sem hann meðal annars uppgötvaði sólina var hér í grasinu þar sem Sóltúnsheimilið stendur. Auk þess að segja frá bernsku sinni og fjölskyldu fjallaði hann um efni bókanna og fólkið sem þar kemur við sögu og margt fleira. Einnig söng Ómar eitt óbirt lag af sinni alkunnu snild. Segja má að líf Ómars hafi verið ein samfeld gjöf til samfélagsins. Með lífi sínu og starfi, skemmtunum, fréttaflutningi, þáttagerð og ritstörfum hefur hann gefið fólki tækifæri til að komast í snertingu við lífið sjálft. Að heyra tónverk fossanna, sjá myndlist náttúrunnar og komast í snertingu við mennskuna. Ómari eru færðar alúðar þakkir fyrir góða og gefandi heimsókn og allt það sem hann hefur verið og gefið landi og þjóð.
Nánar ...
12.apr. 2013

Heimsókn frá Vogaskóla

Þær voru sem vorboðinn ljúfi stúlkurnar, sem mynduðu kór Vogaskóla hér í Sóltúni fimmtudaginn 11. apríl. Það er yndislegt að eiga slíka vini sem Vogaskóli hefur verið okkur í gegnum árin. Á hverju vori kemur kór frá skólanum undir stjórn Ágústu Jónsdóttur tónlistarkennara og tekur þátt í samverustund með djákna heimilisins. Söngur þeirra og framkoma öll heilluðu áheyrendur. Það er greinilegt að þarna eru á ferðinni góðir listamenn undir leiðsögn hæfs kennara. Stundin samanstóð af söng og lestri fallegrar og lærdómsríkrar sögu, sem Guðrún Hrönn Jónsdóttir djáknanemi las að þessu sinni. Góður rómur var gerður af stundinni. Eru hér færðar alúðar þakkir til allra er komu að undirbúningi og framkvæmd stundarinnar.
Nánar ...
11.apr. 2013

Glæsileg danssýning

Danspörin Alexander og Rakel Birna og þau Rúnar og Stella sýndu Latin-dansa og yngsta parið þau Tristan og Rakel sýndu Ballroom-dansa. Þau voru glæsileg á dansgólfinu eins og myndirnar sýna og nutu íbúar, ættingjar og starfsfólk að sjá þau svífa um salinn. Kærar þakkir fyrir komuna.
Nánar ...
10.apr. 2013

Breytingar á stjórn Öldungs

Á aðalfundi Öldungs hf., 8. apríl síðastliðinn var kosin ný stjórn. Stjórnarformaður er Þórir Kjartansson og meðstjórnendur Arnar Þórisson og Anna Birna Jensdóttir. Varamaður er Gunnar Thoroddsen. Endurskoðandi félagsins er Árni Claessen KPMG.
Nánar ...
02.apr. 2013

Blómagátuleikurinn

Á tveimur næstu vormánuðum, apríl og maí, verður gátuleikur í boði fyrir íbúa, aðstandendur og starfsfólk. Leikurinn fer þannig fram að spurningar um íslenskar blómjurtir eru framsettar í dagstofum íbúðakjarna. Menn skrifa svarmiða og setja í hugmynda póstkassann. Á mánudags- og fimmtudagsmorgnum eru póstkassar tæmdir, nýtt blóm framsett í dagstofum ásamt réttu svari við fyrra blómið. Í lokin verða veitt verðlaun fyrir flest flestar réttar gátulausnir. Umsjón með leiknum hefur Hildur Þráinsdóttir iðjuþjálfi.
Nánar ...
29.mar. 2013

Gleðilega páska

Sendum íbúum og starfsfólki hér í Sóltúni, ættingjum þeirra og landsmönnum öllum ósk um gleðilega páska. Anna Birna Jensdóttir
Nánar ...
18.mar. 2013

Harmonikkuleikari í heimsókn á 2. hæð

Páll Elíasson kom í heimsókn til okkar 3. og 17. mars og spilaði nokkur gömul og góð íslensk lög á harmonikku við mikinn fögnuð íbúa á 2. hæð. Hann ætlar að halda áfram að gleðja okkur og koma reglulega og spila lögin sem allir kunna.
Nánar ...
18.mar. 2013

Ljóskurnar og Fiðrildin sigruðu í innanhúskeppni Lífshlaupsins

Starfsfólk Sóltúns tók þátt í Lífshlaupsverkefni ÍSÍ í ár eins og undanfarin ár. Mjög góð þátttaka var í keppninni. 84 starfsmenn af 210 tóku þátt í 9 liðum og hreyfðu sig að meðaltali í 21 klst þær þrjár vikur sem keppnin stóð yfir. Keppt var bæði innanhúss og við önnur fyrirtæki í sama stærðarflokk. Sóltún varð í 6. sæti af 36 fyrirtækjum í sínum stærðarflokki. Innanhússkeppnin var feyki spennandi og endaði þannig að Ljóskurnar sem er starfsfólk af 1.hæð bc unnu þegar horft er á fjölda mínútna með alls 14.611 mínútur og Fiðrildin sem koma frá 2.hæð de unnu þegar horft er á fjölda daga með 196 daga. Veittir eru farandbikarar fyrir þessa sigra og voru þeir afhendir á föstudaginn. Auk þes fékk hver liðsmaður sippuband og Sóltúnsbuff. Á myndinni sést hluti af keppendunum taka á móti verðlaununum. Við óskum starfsfólkinu til hamingju með árangurinn. Heilsueflinganefndin
Nánar ...
15.mar. 2013

Góugleðin vel heppnuð

Íbúar Sóltúns, ættingjar og starfsfólk skemmti sér vel á góugleðinni. Þema var hattar, slæður og höfuðskraut. Fólk kom saman í miðrými hússins þar sem nemendur á matartæknabraut Menntaskólans í Kópavogi buðu uppá Vor í glasi og fjölbreytta smárétti í forrétt. Síðan hófst borðhaldið og voru um 190 manns í mat. Á matseðilnum var steikt lambafille með hallelbach kartöfum og brenaisesósu. Eftirrétturinn frönsk súkkulaðiterta með Grand mariner ávöxtum og þeyttum rjóma fór vel með kaffinu. Frábærir tónleikar voru síðan í samkomusalnum þar sem hjónin Ellen Kristjánsdóttir söngkona og Eyþór Gunnarsson píanóleikari fluttu gesti inn í töfraveröld ljúfra tóna og hugljúfra söngva.
Nánar ...
12.mar. 2013

Samstarfs eldhúss Sóltúns og matartæknabraut Menntaskólans í Kópavogi

Miðvikudaginn 13.mars og fimmtudaginn 14.mars munu nemendur af matartæknabraut framleiða og framreiða kvöldverði í samvinnu við starfsfólk eldhúss Sóltúns. Nemendur eru á lokaönn í matartæknanáminu og er þetta liður í því að æfa nemendur við raunverulegar aðstæður. Guðný Jónsdóttir næringarrekstrarfræðingur Sóltúns og Margrét Sigurbjörnsdóttir deildarstjóri sjá um skipulagið ásamt nemendum. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt verkefni er reynt og bindum við miklar vonir við að það takist vel.
Nánar ...
08.mar. 2013

Lið íbúa sigrar lið starfsfólk í bocciakeppni

Í tilefni af heilsuvorinu hefur heilsueflingarnefnd starfsfólks ákveðið að hafa Sóltúnsleika sem byrja á bocciakeppni, þá pútt og síðast keila . Nú liggur ljóst fyrir niðurstöður bocciakeppninnar sem fram fór í salnum sl.miðvikudag 6.mars. Mótið var skipulagt þannig að hver hæð eða starfseining sendir eitt lið til keppninnar, samtals 4 lið. En þar sem ekki náðist að mynda lið 1.hæðar hljóp boccialið íbúa í skarðið. Í fyrstu umferð vann 3ja hæð stoðdeildina með 5 stigum gegn 3. Annarri umferð lauk með sigri íbúa eftir heita keppni við 2.hæð með 8 stigum gegn 3. Úrslitaviðureignin fór fram milli 3ju hæðar og íbúaliðsins. Hörð keppni var háð milli liðanna þar sem umferðinni lauk með jafntefli svo grípa varð til bráðabana þar sem íbúar sigruðu að lokum með 5 stig gegn 4. Sigurliðinu var ákaft fagnað og mun verðlaunaafhending fara fram síðar.
Nánar ...
03.mar. 2013

Sóltúnsleikarnir 2013

Í tilefni af heilsuvorinu hefur heilsueflingarnefnd starfsfólks ákveðið að hafa Sóltúnsleika í marsmánuði. Hugmyndin er að hver hæð eða starfseining sendir eitt lið til keppninnar. Liðið getur verið mismunandi skipað allt eftir áhuga keppenda. Þannig ná líka fleiri að taka þátt. Ef fleiri hafa áhuga þá fjölgum við liðunum. Lið íbúa er velkomið að senda lið í leikina og skora á starfsfólk. Verðlaun eru í boði. Keppt verður í þremur greinum: 5.mars kl. 15.45 - 17 Boccia í salnum Dómari og stigaverðir Hildur og Guðrún. Þrír leikmenn keppa í liði og tekur hver leikur um 20 mín, stigahæstu liðin leika síðan til úrslita. 19.mars kl. 15.45-17 Innanhúss pútti í salnum Dómarar Guðný og Guðrún Björg. Skráð er skor hjá öllum í liðinu og besta skor liðs vinnur. 27.mars kl. 16.30 -18.30 í Keiluhöllinni Lið með hæsta skor vinnur. Skráning fer fram hjá hjúkrunarstjóra hverrar hæðar og hjá Guðnýju. Heilsueflingarnefndin
Nánar ...
26.feb. 2013

Leiksýningin Ráðabrugg

Þann 21.febrúar síðastliðinn fóru samtals 18 manns (þar af 11 íbúar) úr Sóltúni í Iðnó til að sjá leiksýningu með leikhópnum Snúði og Snældu – Félagi eldri borgara. Dagskráin innihélt leikritið Ráðabruggið og nokkra gamanþætti þar sem stiklað var á milli söngatriða, þar sem gestum bauðst að taka hraustlega undir í söngnum. Verkinu, sem var um 80 mínútur í flutningi, var gerður góður rómur. Á leiðinni heim rifjuðu menn upp margar góðar minningastundir frá Iðnó og umhverfi tjarnarinnar.
Nánar ...
05.feb. 2013

Vel heppnað þorrablót

Íbúar Sóltúns buðu 72 ættingjum sínum til þorrablótsveislu þann 31. janúar. Yfir 190 manns að starfsfólki meðtöldu gæddu sér á afar góðum þorramat frá Sláturfélagi Suðurlands. Hjúkrunarstjórar buðu uppá hákarl og brennivín og ekki þótti síðra að kjammsa á sviðakjömmum og borða súran hval. Með minni karla og kvenna fóru þau Jón Jóhannsson djákni og Guðrún Björg Guðmundsdóttir gæðastjóri. Ragnar Bjarnason sló í gegn með söng og gamanmáli. Með honum voru hinir frábæru tónlistarmenn Björn Thoroddsen sem lék á gítar og Jón Rafnsson á bassa. Blótstjóri var Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri.
Nánar ...
30.jan. 2013

Starfsaldursviðurkenningar

Á fyrsta starfsfólksfundi ársins voru starfsmenn heiðraðir fyrir störf sín og hollustu við Sóltún. Fimm ára starfsaldri höfðu náð þær Bertha R. Langedal, Carmela Concha Andeme, Danute Kalinskiene, Gracia Surban, Guðrún Steingrímsdóttir, Halldóra Kristjánsdóttir, Helga Pálsdóttir, Hildur Pálsdóttir, Ingveldur Björnsdóttir, Neringa Meiluniene, Huldrún Þorsteinsdóttir, Sigþóra Sigurjónsdótir og Þórdís Kristjánsdóttir. Þriggja ára starfsaldri náðu síðan þau Árný G. Gunnarsdóttir, Chona Cuares Millan, Ingibjörg Eyþórsdóttir, Katrín Jónsdóttir, Rakel Jónsdóttir, Sólveig Gunnarsdóttir, Stefán Birnir Stefánsson, Telma Ólafsdóttir og Unnur Jónsdóttir. Mannauðurinn er mesta ríkidæmi starfseminnar og því afar ánægjulegt að starfsfólk finnur sig í starfi í þágu íbúanna hér í Sóltúni. Stöðugleiki og sterkur starfsfólkshópur eykur sannanlega lífsgæði þeirra. Á myndunum má sjá hluta af hópunum ásamt stjórnendum við afhendinguna. Til hamingju.
Nánar ...
25.jan. 2013

Mikilvægi forvarna þegar pestir ganga

Vegna mikilla sýkinga í samfélaginu af völdum flensu- og nóróveiru, vill sýkingavarnanefnd Sóltúns minna eindregið á mikilvægi handþvottar og biðja ættingja og vini að bíða með að koma í heimsókn ef viðkomandi er með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst.
Nánar ...
25.jan. 2013

Húsfundir og íbúaþing

Haldnir voru húsfundir á 6 stöðum í Sóltúni 21. janúar. Þar gafst íbúum kostur á að fara yfir helstu mál með stjórnendum Sóltúns, koma með fyrirspurnir, tillögur og athugasemdir. Vel var mætt á húsfundina og umræður góðar. Almenn ánæga var með þjónustuna og aðbúnað, rætt var um ýmis praktísk atriði sem farin eru í vinnslu. Á miðvikudeginum 23. janúar var síðan haldið íbúaþing í samkomusal. Þar fór Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri yfir reksturinn, þjónustuna og mannauðsmálin. Þetta var 11 íbúaþingið í Sóltúni og hefur það alltaf reynst til gagns og verið farsæl leið til að stilla saman strengi.
Nánar ...
04.jan. 2013

Bæjarferð á ljósmyndasýningu

Nokkur hópur íbúa, aðstandenda og starfsmanna (12 manns) nýttu hlýindin í gær til bæjarferðar og sáu ljósmyndasýningu Mats Wibe Lund sem haldin er þessa dagana á 6.hæð í Grófarhúsinu við Tryggvagötu. Á sýningunni er sjónum beint að því sem Mads myndaði á árunum 1956 – 1978, af því sem fyrir augu hans bar og vakti forvitni hans á ferðalögum sínum um landið. Mads hitti Sóltúnshópinn á staðnum og upplýsti hann um myndefni og margt fleira forvitnilegt. Íbúar nutu ferðarinnar og ekki síst þess að ræða við Mads um sína heimahaga og sameiginlega kunningja. Mads er okkur að góðu kunnur fyrir loftljósmyndir sínar af landslagi og átthögum. Við þökkum honum móttökurnar og hlökkum til að hitta hann aftur.
Nánar ...
02.jan. 2013

Gleðilegt nýtt ár

Stjórn og starfsfólk Sóltúns óskar landsmönnum öllum gleðilegs árs, guðs blessunar, friðar og farsældar.
Nánar ...
22.des. 2012

Gleðilega jólahátíð

Stjórn og starfsfólk Sóltúns óskar íbúum hjúkrunarheimilisins, ættingjum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Við þökkum allan þann hlýhug sem borist hefur starfseminni á liðnu ári með margvíslegum hætti og metum hann mikils.
Nánar ...
19.des. 2012

Nýtt fréttabréf er komið út

5. tölublað 11. ágangs af fréttabréfi Sóltúns er komið út. Þar er að finna upplýsingar um viðburði sem af er aðventu, jólaguðþjónustu og jóla- og áramótamatseðil.
Nánar ...
06.des. 2012

Senjoríturnar í Sóltúni

Flokkur yndislegra söngkvenna Senjoríturnar sungu fyrir íbúa og starfsfólk 5. desember í samkomusalnum. Kærar þakkir fyrir komuna.
Nánar ...
29.nóv. 2012

Gerður G. Bjarklind heillaði fólk á jólabazarnum

Þann 28. nóvember fengum við góðan gest í heimsókn á jólabazarnum hjá iðjuþjálfun. Gerður G. Bjarklind flutti frásögn af uppvaxtaráum sínum í Reykjavík og árunum góðu þegar hún var fastur heimilisvinur landsmanna í störfum sínum hjá Ríkisútvarpinu. Íbúa og ættingjar þeirra gæddu sér á heitu súkkulaði með rjóma og randalínum og smákökum. Góða sala var á handverksmunum sem íbúarnir höfðu unnið.
Nánar ...
27.nóv. 2012

Hálka- forvarnir

Hálku er vart þessa dagana í Reykjavík. Bílaplan Sóltúns var saltað í dag til að minnka hálkuna. Gestum og gangandi er leiðbeint að ganga að húsinu á gangstéttunum í kringum bílastæðið, þar sem þær eru upphitaðar. Í hálku er síðan ávallt jákvætt að nota mannbrodda.
Nánar ...
09.nóv. 2012

Fé – lagaferð í Seðlabankann

Nokkrir félagar úr Herrahópi Sóltúns fóru í heimsókn í Seðlabankann sl.miðvikudag til að skoða myntsafn Seðlabankans og Þjóðmynjasafns Íslands, ásamt sýningu á minnispeningum og munum úr eigu Dr.Kristjáns Eldjárns fyrrverandi forseta Íslands. Stefán Jóhann Stefánsson og Anton Holt tóku á móti hópnum og sá síðarnefndi rakti söguna og kynnti sýninguna á fróðlegan og lifandi hátt. Að lokum þáðum við kaffiveitingar í boði Seðlabankans. Ánægjuleg og fræðandi ferð og er þakkað fyrir höfðinglegar móttökur.
Nánar ...
23.okt. 2012

Biskup Íslands heimsækir Sóltún

Föstudaginn 12. október 2012 heimsótti frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup, hjúkrunarheimilið Sóltún. Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdarstjóri, og Jón Jóhannsson, djákni, kynntu heimilið og starfið í Sóltúni yfir hádegisverði. Rætt var um stöðu þeirra sem þurfa að nýta úrræði hjúkrunarheimila, sem og þróun þeirra mála hér á landi. Í dag eru margir sem bíða heima eftir úrræðum, sumir við erfiðar aðstæður. Agnes miðlaði einnig af reynslu sinni af landsbyggðinni, þar sem hún þjónaði sem prestur bæði á Hvanneyri um árabil og í Bolungarvík í tæpa tvo áratugi. Í lok fundar var gengið um heimilið, vistarverur og þjálfunaraðstæður íbúa skoðaðar. Biskup hitti hjúkrunarstjóra, íbúa og starfsmenn hverrar hæðar fyrir sig auk þess sem einn íbúi bauð biskupi að skoða heimili sitt. Guðsþjónusta var síðan haldin kl 14:00. Hún byrjaði með að framkvæmdastjóri flutti ávarp . Biskup prédikaði og flutti bæn og blessun. Gunnar Gunnarsson og Örn Arnarson fluttu tónlist og stjórnuðu söng. Djákni Sóltúns hafði umsjón með og leiddi stundina. Að lokinni guðsþjónustu var kaffisamsæti í aðalsal. Góð og almenn þátttaka var við athöfnina. Mikil ánægja var meðal íbúa, aðstandenda þeirra og starfsfólks með Guðsþjónustuna og heimsókn biskups.
Nánar ...
19.okt. 2012

Frábær haustfagnaður

Aðsóknarmet var slegið á haustfagnaði íbúa í Sóltúni í gær. Yfir 200 manns sátu hátíðakvöldverð þar sem boðið var uppá steikt lambafille með villibráðasósu, krydduðum kartöflum, grænmeti og haustsalati. Í eftirrétt var síðan heit súkkulaðiterta með grand marinerðuðum ávöxtum og vanilluís. Eftir kvöldverðinn voru tónleikar í samkomusal og var troðfullt út að dyrum. Tríó Helenu Eyjólfsdóttur söngkonu skemmti og voru gestir yfir sig ánægðir. Í tríóinu auk hennar voru Gunnar Gunnarsson píanóleikari og Jón Rafnsson bassaleikari.
Nánar ...
19.okt. 2012

Júlíkvartettinn með glæsilega tónleika

Það voru yndislegir tónar sem léku um húsið þegar Júlíkvartettinn, sem samanstendur af 4 strengjahljóðfæraleikurum ásamt söngkonunni Þórunni Völu Valdimarsdóttur, fluttu okkur tónlist úr ýmsum áttum meðal annars ítalska, þýska og íslenska. Íslensk sönglagasyrpa var leikin og áheyrendur tóku vel undir í söng sem og í valsasyrpu. Hinir fögru tónar strengja og söngs voru yndislegir og snertu hjörtu okkar er á hlýddu um leið og þeir mynduðu eins og heildrænt listaverk með sólinni og hinni tæru birtu sem geislað hefur inn um gluggana í dag. Bestu þakkir fyrir yndislega heimsókn.
Nánar ...
17.okt. 2012

Heimsókn frá Orkeröd hjúkrunarheimilinu í Noregi

Starfsmannahópur frá Orkeröd hjúkrunarheimilinu í Moss í Noregi kom í námsheimsókn til Sóltúns 15. október. Þær höfðu sérstakan áhuga á að kynna sér hjúkrun íbúa með heilabilun, mönnun, skipulag og verkferla. Hvernig tekist er á við atferlisvandamál og ógnanir. Hvernig ábyrgð er útdeilt meðal starfsmanna og hvernig unnið er að gæðaúrbótum. Norðmennirnir voru ánægðir með heimsóknina og færðu heimilinu að gjöf þessa fallegu bangsa og norskt súkkulaði. Súkkulaðið verður notað í bingóvinninga.
Nánar ...
15.okt. 2012

Ellefta árshátíð starfsfólks vel heppnuð

Starfsfólk og makar þeirra skemmtu sér vel á árshátíð starfsmannafélagsins sem haldin var á Icelandairhótel Natura Reykjavík þann 13.október síðastliðinn. Veislan hófst með fordrykk og síðan framreiddi starfsfólk hótelsins frábæran þriggja rétta kvöldverð sem samanstóð af humarsúpu, lambahrygg og volgri súkkulaðiköku með tilheyrandi ljúfum veigum. Veislustjórinn Karl Örvarsson fór á kostum með allskyns gríni og eftirhermum. Sýnt var heimatilbúið grínmyndband og farið var í samkvæmisleiki og skemmti fólk sér hið besta. Um dansstuðið sáu þau Sigga Beinteins og Grétar Örvarsson. Happadrættisvinningarnir slógu í gegn að vanda. Stjórn Öldungs sá um alla skipulagningu og framkvæmd í góðri og skemmtilegri samvinnu við stjórn starfsmannafélagsins.
Nánar ...
08.okt. 2012

Sóltún gerir samning við Vinnuvernd

Sóltún hefur gert samning við Vinnuvernd ehf., um þjónustu trúnaðarlæknis. Hún felur í sér þjónustu við bæði stjórnendur og starfsfólk. Trúnaðarlæknir veitir óháð mat á veikindum starfsmanna, meðferðarmöguleikum, horfum og starfshæfni.
Nánar ...
08.okt. 2012

Sóltún semur um samgöngukort við Strætó

Í samræmi við samgöngustefnu Sóltúns hefur hjúkrunarheimilið gert samning við Strætó bs. Þar bætist Sóltún í hóp þeirra fyrirtækja sem leggja sitt af mörkum við að bæta borgarsamfélagið, létta á umferð og draga úr megnun. Í samningnum er umhverfisvernd sýnd í verki og starfsfólki Sóltúns sem gengur frá samgöngusamningi gert kleift að kaupa strætókort á góðum kjörum. Ásmundur K. Ólafsson kynnti nýjungar í þjónustu Strætó á starfsfólksfundi í Sóltúni þann 25. september.
Nánar ...
26.sep. 2012

Ökuferð til að njóta haustlitanna

Við gripum tækifærið og fórum í formiddagsbíltúr á Sóltúnsbílnum í góða veðrinu í gær, átta íbúar og tveir starfsmenn. Sólin skein glatt og náttúran skartaði sínum fegustu haustlitum, hvert sem litið var. Við höfðum frétt af litadýrð trjágróðurs við Bæjarbraut í Garðabæ og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þaðan var ekið að Vífilsstöðum, að Elliðavatni um nýja byggð í Kópavogi og áfram að Rauðavatni. Þá var stefna tekin að Korpúlfsstöðum, meðfram sjávarsíðunni við Geldingarnes, Geirsnef og þaðan óku glaðir íbúar og starfsmenn heim í hádegismat.
Nánar ...
25.sep. 2012

Fyrsta tónleikaferðin úti í bæ

Fyrsta tónleikaferð haustsins var farin að Kjarvalsstöðum síðast liðinn mánudag í dásamlega fallegu haustveðri. Þar nutu 6 íbúar og 3 starfsmenn Sóltúns Töframáttar tónlistar, sem er tónleikaröð nú starfandi sinn sjöunda starfsvetur undir stjórn Gunnars Kvaran og Hildar Jóhannesdóttur. Á þessum tónleikum fluttu hjónin Guðrún Sigríður Birgisdóttir og Martial Nardau bæði flautuleikarar og Peter Máté píanóleikari vandaða tónleikadagskrá. Þessi tónleikaröð er ómissandi hluti vetrargleðinnar í félagsstarfi okkar og þökkum við innilega fyrir það tækifæri.
Nánar ...
24.sep. 2012

Sýkingavarnarvika 24.-28. sept.

Árleg sýkingavarnarvika Sóltúns hófst í dag. Þá er daglega farið í helstu þætti sýkingavarna til að skerpa árverkni og þjálfa verklag í daglegri umgengni á hjúkrunarheimilinu. Sýkingavarnanefnd hefur gefið út sérstaka handbók fyrir starfsfólk og endurútgefið Sýkingavarnaráætlun heimilisins. Á sýkingavarnarviku er opin sérstök síða með fræðsluefni um sýkingavarnir. Sjá tengil:
Nánar ...
21.sep. 2012

Alþjóðlegi Alzheimersdagurinn

Árlega er alþjóðlega Alzheimersdagsins minnst um heim allan 21. september. Félag aðstandenda alzheimersjúklinga mun að vanda standa fyrir málstofu í tilefni dagsins og er umfjöllunarefnið í ár "Hjúkrunarheimili framtíðarinnar, hvernig þau munu þróast og hvaða áherslur ber að leggja í þeim efnum." Framsögumenn eru Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri í Sóltúni, Ragnheiður Stephensen formaður félags eldri borgara í Mosfellsbæ, sr. Sigurður Jónsson sóknarprestur Ásprestakalls, Pétur Magnússon forstjóri hrafnistu og Þorsteinn Guðmundsson leikari. Staður og stund: Grand Hótel - Gullteigur B- föstudagurinn 21. september kl 17:00-19:00.
Nánar ...
12.sep. 2012

Góð uppskera

Gróðurhópur Sóltúns með aðstoð starfmanna og jafnvel barna úr skólum eða leikskólum í hverfinu setja niður á hverju vori kartöflur, mismunandi grænmeti og kryddjurtir ýmiskonar í matjuurtagarða Sóltúns. Í sumar hefur eldhús Sóltúns nýtt sér kryddjurtir úr garðinum. Mikil og góð uppskera hefur verið í kryddjurtum og grænmeti sem íbúar og starfsmenn hafa notið. Í septemberbyrjun voru teknar upp kartöflur sem dugðu í tvo málsverði með stuttu millibili. Starfsmenn iðjuþjálfunar, eldhúss og íbúar og starfsmenn sambýlanna hjálpuðust að við að taka upp kartöflur og grænmeti. Nýju kartöfurnar þykja mikið lostæti og þeim gerð góð skil. Nýjar gulrætur voru sendar á öll sambýli og síðan var nóg af gulrótum og rófum fyrir eina máltíð af kjötsúpa. Á næstunni verður seinni skammturinn af kartöflum tekinn upp og þá fá íbúar aftur að njóta nýrra kartaflna. Uppskera sumarsins hefur verið mjög góð og fullnýtt í eldhúsinu.
Nánar ...
07.sep. 2012

Gæs bar að garði

Sóltún laðar að sér dýr þó svo að heimilið kenni sig ekki við EDEN hugmyndafræðina. Sóltúnsmódelið byggir á mun viðameiri hugmyndafræði. Dag einn bar að garði gæs, hún gerði sig heimakomna og fór inn í anddyrið. Næsta dag kom hún síðan aftur og settist að við dyrnar. Borið var í hana ýmislegt góðgæti og var gæsaskíturinn fljótlega um alla stétt. Gæsin vakti mikla athygli íbúa og starfsfólks, svo varla var vinnufriður um stund. Þrestir, Svartbakur og Maríuetlur bættust í hópinn. Þegar heimilishundurinn Stemma hitti gæsina, þá leyst henni hins vegar ekki eins vel á okkur og sást ekki aftur.
Nánar ...
31.ágú. 2012

Thorvaldsenskonur gefa fólkslyftara

Í kaffisamsætinu 28. ágúst færðu Thorvaldsenskonur Sóltúni fólkslyftara að gerðinni Viking M. Lyftarinn er ætlaður til notkunar við hjúkrun minnisskertra íbúa á 2. hæð og veitti Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri honum viðtöku frá Kristínu Zöega formanni Thorvaldsensfélagsins.
Nánar ...
28.ágú. 2012

Ný heimasíða opnuð

Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri opnaði nýja heimasíðu Sóltúns í kaffisamsæti í Sóltúni í dag. Heimasíðan leysir af hólmi 11 ára gamla hönnun og er fagnaðarefni á 10 ára starfsafmæli hjúkrunarheimilisins. Síðan er þrískipt. Aðalsíðan er opin almenningi og gefur greinagóðar lýsingar á þeirri starfsemi sem hjúkrunarheimilið sinnir og þjónustunni sem í boði er. Aðbúnaði eru gerð góð skil og hugmyndafræði og stefnum hjúkrunarheimilisins. Mun meiri gagnvirkni er til staðar og geta áhugasamir sent inn fyrirspurnir, skráð sig á póstlista og svarað könnunum. Innri vefir eru annars vegar ætlaðir íbúum og ættingjum þeirra og hins vegar starfsfólki. Þeir eru notendastýrðir. Kröfulýsingu fyrir tilboðsgerð í heimasíðuna með starfsfólki Sóltúns vann Sjá ehf., og grafísk hönnun var í umsjón Potrhönnunar ehf. Tilboði frá Advania var tekið og er notast við vefumsjónarkerfið Lisu.
Nánar ...
15.ágú. 2012

Golfmótið tókst vel

Árlegt golfmót starfsmannafélagsins STALDAR var haldið á golfvelli Kjalar í Mosfellsbæ þann 14.ágúst síðastliðinn í ágætu veðri. Í upphafi móts var hressilegur vindur en þegar á leið varð bæði logn og hiti. Veðurguðrinir hafa alltaf verið hliðhollir okkur svona eins og þegar við höfum grillað hér í Sóltúni. Mótsfyrirkomulagið var punktakeppni með forgjöf.
Nánar ...
31.júl. 2012

Ferð í Strandakirkju

Það var glaðbeittur hópur er lagði af stað úr Sóltúni í yndislegu veðri þann 6. júní kl 10:30. Ferðinni var heitið í Strandakirkju í Selvogi. Ekið var í gegnum Kópavoginn og Hafnarfjörð fram hjá höfninni og skoðuð sú mikla breyting sem er orðin á ásýnd bæjarins með tilkomu landfyllingar og háhýsa sem og slip og höfninni almennt. Greinilegt að saga útgerðar í þessum mikla útgerðarbæ hefur breyst mikið. Færri fiskar og fleiri hringtorg kom upp í hugann þegar sú áskorun farþega var tekin og farið í gegnum eitt af nýrri hverfum Hafnarfjarðar framhjá fjölmörgum hringtorgum. Nánast óteljandi eins og eyjarnar á Breiðarfirði, en skemmtilegt að skoða nýtt hverfi og alla uppbygginguna. Því næst var stefnan tekin á Krýsuvík og horft yfir Kleifarvatn, stoppað við hverasvæðið við Seltún. Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands. Þar er stórbrotið landslag sem mótað er af umbrotum og jarðeldum, og er það vel til fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Farið var inn á nýja veginn í Selvog sem er beinn og breiður og áðum við síðan við annað af tveimur kaffihúsanna við Strandakirkju og snæddum nestið okkar. Gaman er að geta þess að þar var meðal annars flóamarkaður og ýmislegt hægt að skoða og versla svo sem skó, bækur og barnafatnað. Síðan var ekið að Strandakirkju og allir fóru ínn í kirkjuna og lesin sálmur úr sálmabókinni og notið kyrrðar.
Nánar ...
12.jún. 2012

Góð mæting var í Kvennahlaupinu í Sóltúns

Almenn og góð þátttaka var í árlegu Kvennahlaupi ÍSÍ sem fram fór í Sóltúni þriðjudaginn 12.júní. Aðalbjörg Íris Ólafsdóttir sjúkraþjálfari ræsti hlaupið kl.11.Um 70 manns fóru fylktu liði hinn hefðbundna hring í kringum heimilið.
Nánar ...
10.jún. 2012

Dúfa í heimsókn

Aðfaranótt laugardagsins 9.júni kom óvæntur gestur í heimsókn á 2 hæð Sóltúns. Hvít falleg dúfa kom og settist á svalirnar og gerði sér dátt við næturvaktina. Seinna þegar verið var að lofta út kom hún aftur og beint inn í borðstofuna. Þar gerði hún sig heimakomna og auðvitað var tekið vel á móti henni og fékk hún brauðbita áður en hún flaug aftur á vit ævintýranna.
Nánar ...
31.maí 2012

Grillveisla og glæsilegir tónleikar

Grillað var í veðurblíðiunni og borðað úti í hádeginu.Lagið var tekið og spilað undir á gítar.Um kaffileitið hélt síðan Hörður Bragason píanótónleika í samkomusalnum.Frábær dagur og við þökkum kærlega fyrir góðar heimsóknir.
Nánar ...
28.maí 2012

Guðþjónusta á hvítasunnudag

Guðsþjónusta verður í Sóltúni á hvítasunnudag 27.maí kl. 14:00. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir héraðsprestur prédikar og þjónar fyrir altari ásamt Jóni Jóhannssyni djákna Sóltúns.Tónlistina leiða Örn Arnarson og Gunnar Gunnarsson tónlistarmenn.
Nánar ...
11.maí 2012

Gerðubergskórinn í Sóltúni

Reglulega heimsækja okkur góðir vinir, söngfélagar úr Gerðubergskórnum.Þau sungu fyrir íbúa og starfsfólk undir stjórn Kára Friðrikssonar þann 11. maí. Kærar þakkir fyrir komuna.
Nánar ...
10.maí 2012

Glæsilegir tónleikar

Jónas Guðmundsson tenor söng fyrir íbúa og starfsfólk við undirleik Kristins Björnssonar.Frábær heimsókn og kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
08.maí 2012

Nýtt fréttabréf komið út

Þriðja tölublað fréttabréfs Sóltúns 2012 er komið út. Það hefur meðal annars að geyma fréttir af gæðaúttektum landlæknis og óháðra aðila af starfseminni.
Nánar ...
08.maí 2012

Úttekt Embættis landlæknis á starfsemi Sóltúns

Í janúar 2012 gerði Embætti landlæknis úttekt á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Fyrir úttektina var leitað eftir ákveðnum upplýsingum frá framkvæmdastjórn heimilisins um þætti er varða þjónustu, húsnæði og aðbúnað, mannauðsmál, gæðamál, lyfjamál, skráningu, atvik og öryggismál. Athugað var hvort kvartanir hefðu borist embættinu varðandi þjónustu heimilisins á undanförnum árum en það reyndist ekki vera. Þá voru niðurstöður úr RAI mati skoðaðar. Tveir starfsmenn embættisins komu í úttektarheimsókn og funduðu með stjórnendum heimsilisins og fóru yfir ýmis gögn sem tengdust úttektinni. Samantekt úr skýrslunni: Mönnun. Mönnun fagfólks við hjúkrun/umönnun í Sóltúni er í góðu lagi en þó mætti að sögn framkvæmdastjórnar fjölga aðstoðarfólki og sjálfboðaliðum, sérstaklega á kvöldin og um helgar. Flutningur íbúa á heimilið. Verklag við inntöku íbúa á heimilið er í góðu lagi en um það bil 90% íbúa koma frá Landspítalanum. Þjálfun/virkni og sálgæsla. Í góðu lagi. Fæði og mötuneyti. Í góðu lagi. Öryggi og eftirlit. Í góðu lagi og áhersla lögð á öryggi íbúa. Gæðastarf Í mjög góðu lagi og vel skipulagt. Atvik /kvartanir. Atvik eru skráð á þar til gert eyðublað, NOMESKO, í rafræna sjúkraskrá Sögu. Sjúkraskrár Vel skipulagðar á rafrænu formi og í góðu lagi. Hjúkrunarskrár Hjúkrunarskráning, svo sem hjúkrunargreiningar, tillögur um meðferð og framvindumat er í rafrænni sjúkraskrá Sögu og er til fyrirmyndar. RAI skráning Í góðu lagi og vel fylgst með niðurstöðum sem eru nýttar meðal annars til að auka gæði þjónustunnar. Lyfjamál Í góðu lagi. Lyfjafyrirmæli eru ávallt gefin af lækni og lyf ekki gefin án fyrirmæla nema ef um vægari verkjalyf og þess háttar er að ræða. Lyfjaþjónusta Sóltúns er útvistuð með samþykki Lyfjastofnunar. Almennt um hjúkrunarheimilið Sóltún Augljóst er að starfsfólk lætur sér annt um vellíðan og velferð íbúanna í Sóltúni og metnaður er fyrir hendi til að gera vel. Hugmyndafræði, markmið, gildi, stefna og stefnukort er aðgengileg á heimasíðu Sóltúns. Almennt um húsnæði og aðstöðu Húsnæði Sóltúns er í góðu standi og vel við haldið. Allir íbúar heimilisins búa í einbýlum með sér salerni og sturtu. Sameiginlegar vistarverur eru vel útbúnar, hlýlegar og smekklegar. Embætti landlæknis þakkar fyrir góða samvinnu við gerð úttektarinnar.
Nánar ...
05.maí 2012

Fimm stjörnur *****. Viðurkenning frá Samtökum Tékkneskra hjúkrunarheimila

Óháðir aðilar gerðu gæðaúttekt á starfsemi heimilisins 2011. Þeir voru frá Samtökum Tékkneskra hjúkrunarheimila. Sóltún fékk niðurstöður gæðamats á starfsemi heimilisins í september 2011. Sóltún náði 886 stigum af 900 sem hefði gefið 5 stjörnur og er hæsta stigagjöf sem hægt er að ná. Í hjúkrunar-þættinum skoraði hjúkrunarheimilið 5 stjörnur, en lítilsháttar breytingar þurfti til að ná fimmtu stjörnunni í þremur þáttum varðandi húsnæði, samskipti og fæði. Óskaði Sóltún eftir endurmati í janúar 2012, þar sem talið var að ávinningur til að ná yfir 900 stigum hefði náðst. Niðurstaðan var að Sóltún skoraði 930 stig og náði þar með 5 stjörnum í heildina. Helstu viðbætur fólust í að fjölbreytni í fæðuvali var aukið, plöntum var fjölgað í húsinu, 7 ný ábendingabox voru sett upp, húsfundir voru haldnir á 6 stöðum í aðdraganda íbúaþingsins og samskipti stjórnenda og íbúa elfd.
Nánar ...
26.apr. 2012

Vel heppnuð vorgleði

Íbúar,ættingjar þeirra og starfsfólk áttu ánægjulega stund á vorfagnaði Sóltúns, samtals 200 manns.Fagnaðurinn hófst með hátíðakvöldverði þar sem Sóltúnseldhúsið framreiddi steikt lambalæri, brúnaðar kartöflur, rauðkál, grænar baunir, salat og brúna sósu að hætti mömmu og ananasfromage í eftirrétt.Fólk sótti síðan tónleika í samkomusal þar sem Andrea Gylfadóttir söng vinsælar vorvísur og kunna alþýðusöngva við undirleik Jóns Rafnssonar bassaleikara og Björns Thoroddsens sem spilaði á gítar.Fylltu þau huga áheyrenda um hlýjan sunnanblæ og þýða vorvinda með sól í heiði
Nánar ...
24.apr. 2012

Embættismenn landlæknis Færeyinga og Íslands

Landlæknir Færeyja Høgni Debes Joensen og Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur Embættis Landlæknis á Íslandi heimsóttu Sóltún. Fengu þau kynningu á starfsemi hjúkrunarheimilisins, skiptust á skoðunum um öldrunarmál og aðferðafræði við gæðaúttektir og eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila.Síðan heilsuðu þau uppá íbúa og starfsfólk.
Nánar ...
21.mar. 2012

Sinfóníuhljómsveitin í heimsókn

Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk nutu yndirlegra tóna þegar nokkrir hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands komu og léku perlur eftir Sigfús halldórsson, Oddgeir Kristjánsson og fleiri. Kærar þakkir fyrir komuna.
Nánar ...
14.mar. 2012

Nýtt fréttabréf er komið út

Komið er út nýtt fréttabréf. Í tilefni af afmælisári hefur Fréttabréf Sóltúns fengið andlitslyftingu. Sagt er frá starfi stuðningshópa, málþingi sem er í marsmánuði og frá starfinu.
Nánar ...
09.mar. 2012

Snyrtistofan Fabulous og kleinubakstur

Snyrtistofan Fabulous starfar á 2.hæðinni alla fimmtudaga en þá fá íbúar sem vilja handsnyrtingu, handanudd, hárgreiðslu og annað dekur í boði starfsfólks.Í baksýn má sjá þann hluta íbúa sem taka á í liðkandi æfingum undir góðri stjórn Halldóru K.Þórðardóttur. Notaleg tónlist hljómar að sjálfsögðu á meðan, öllum til ánægju og yndisauka.Karítas Jónsdóttir aðstandandi,kom með kleinudeig að heiman í morgun.Deigið var flatt og skorið út með dyggri aðstoð íbúa.Kleinurnar gerðu mikla lukku enda afbragðsgóðar.
Nánar ...
02.mar. 2012

Verðlaunaafhending í innanhússkeppni Lífshlaupsins

Starfsfólk Sóltúns tók þátt í Lífshlaupinu núna í febrúar, líkt og undanfarin ár.Lífshlaupið er landskeppni í hreyfingu og fer fram á vegum ÍSÍ.Markmið keppninnar er að hvetja fólk til að gera hreyfingu að hluta að sínu daglega lífi.Af 200 manna heildarstarfsmannafjölda Sóltúns tóku 75 manns þátt í 10 liðum.Keppt var bæði við önnur fyrirtæki og innan húss, annars vegar um fjölda daga og hins vegar um fjölda mínútna varið í hreyfingu.Í okkar stærðarflokki fyrirtækja kepptu 27 lið og varð Sóltún í 5. sæti varðandi mínútur og í 6.sæti varðandi daga.Í innanhússkeppninni er keppt um farandbikara sem efstu liðin í hvorum flokk fá.Í ár fara báðir bikararnir á 1.hæð. Ljóskurnar sem eru starfsfólk á 1.hæð BC unnu fjölda mínútna og Heiðurnar sem starfa á 1.hæð DE unnu fjölda daga.Vinningshafar fengu göngumæli í verðlaun sem keyptir voru hjá Göngum saman styrktarhópi krabbameinsrannsókna kvenna.Liðin brugðu á leik við verðlaunaafhendinguna.
Nánar ...
20.feb. 2012

Handverkshópastarf í Sóltúni

Markmið hópanna er að mæta þörfum íbúa Sóltúns á að taka virkan þátt í fjölbreyttri iðju til að viðhalda færni, veita tækifæri til að takast á við ný eða gömul hlutverk, upplifa sigra og ánægjulegar stundir í félagsskap við aðra íbúa og samstarfsfólk.Í hópum er boðið upp á handverk af ýmsu tagi sem aðlagað hefur verið að færni og áhuga íbúa. Það sem helst hefur vakið áhuga er málun á tau, pappír, gler, silki, keramik og tré. Einnig smíða/fullklára ýmsa trémuni eða sauma hluti sem hafa notagildi fyrir íbúa, aðstandendur, Sóltúnsheimilið eða árlega jólasölu.Þeir íbúar sem ekki hafa færni/áhuga á handverki en njóta félagslegrar samveru eru einnig velkomnir.
Nánar ...
02.feb. 2012

Þorrablótið heppnaðist vel

Þorrablót Sóltúns heppnaðist vel.Þorrablótinu stjórnaði Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri sem var uppáklædd íslenska þjóðbúningnum. Jón Jóhannsson djákni fór með Minni kvenna og Hrafnhildur Sigurðardóttir með Minni karla og gamanmál. Íbúar buðu með sér ættingum sínum til þorrablótsins og voru yfir 170 manns í kvöldmat.Ólafur B. Ólafsson lék á harmonikku og píanó og stjórnaði fjöldasöng.
Nánar ...
15.jan. 2012

Upplestur sögu og úr dagblöðum vinsælar hjá íbúum

Markmiðið er að auka lífsgæði og gefa áhugasömum íbúum Sóltúns færi á að hlýða á upplestur ritverka sem þau hafa áhuga á, hittast yfir sameiginlegu áhugamáli og ræða um efnistök, upplifa jákvæðar tilfinningar og sjálfsmynd og skipta um umhverfi og hitta aðra íbúa.Þátttakendur eru íbúar Sóltúns og starfsfólk iðjuþjálfunar, sem hittast á mánudögum kl.11 í sal iðjuþjálfunar. Flestir þátttakenda koma frá 2.og 3.hæð, en íbúar 1.hæðar hafa völ á að hlýða á upplestur framhaldssögu hvern virkan formiddag á sambýlum sínum (djákni les). Starfsfólk iðjuþjálfunar les upphátt úr ritverkum sem þátttakendur eru oftast með í að velja. Íbúar deila skoðunum sínum um efnistök og er upplifun óspart látin í ljós. Þeir eru ánægðir með þessa tíma og gagnrýna helst að ekki skuli vera fleiri upplestrartímar á viku. Að auki er haldin morgunstund á sambýlum 2.og 3.hæðar á miðvikudagsmorgnum. Þá eru oft lesnar valdar greinar úr dagblöðum og leitast við að virkja frásagnargetu íbúa og efla þátttöku þeirra í umræðu um efnið. Hér gefst tækifæri til raunveruleikaglöggvunar, hvaða dagur er, hvernig viðrar, hvað í vændum sé í Sóltúni og hvað helst er í fréttum í samfélaginu nær og fjær. Hildur Þráinsdóttir iðjuþjálfi
Nánar ...
08.jan. 2012

Hátíðarguðþjónusta í tilefni af 10 ára afmælinu

Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Sóltúns var hátíðarguðsþjónusta 8. janúar.Íbúar, starfsfólk og gestir fjölmenntu og tóku þátt í messunni með biskupi Íslands, prófasti og héraðspresti Reykjavíkurprófastsdæmis vestra auk djákna heimilisins Jóni Jóhannssyni.Allt frá upphafi hefur verið trúarleg þjónusta á heimilinu sem hefur falið í sér helgihald, sálgæslu, samfylgd með íbúum, aðstandendum og starfsfólki. Sóltún hefur þróað trúarlegu þjónustu sína og þegar heimilið opnaði voru þrír djáknar kallaðir til starfa, hver og einn í 50% stöðugildi. Hugmyndin var að einn djákni væri á hverri hæð með tvær deildir. Þannig var skipulagið í nokkur ár en nú er einn djákni þar í fullu starfi. Boðið hefur verið upp á sérstaka stuðningshópa fyrir aðstandendur á vegum hjúkrunarfræðinga og djákna Sóltúns. Prestþjónusta er sótt til sóknarprests Laugarnessóknar og boðið er upp á guðþjónustur reglulega í samkomusal heimilisins.
Nánar ...
07.jan. 2012

Íbúa og vinaráðið heiðrað á 10 ára afmælinu

Stjórn Sóltúns bauð íbúum og starfsfólki til móttöku í Sóltúni laugardaginn 7.janúar. Með þeim samglöddust gestir frá Velferðarráðuneyti, Landlæknisembætti,Landspítala og frá öðrum hjúkrunarheimilum. Til móttökunnar mættu um 230 manns. Tríóið Guitar Islancio lék ljúfa tónlist og sýndar voru svipmyndir frá daglega lífinu í Sóltúni. Ávörp fluttu þau Þórir Kjartansson stjórnarformaður og Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri. Dagskránni var sjónvarpað um húsið og fór veislan fram í samkomusal og öllum setustofum. Veitingar komu frá veisluþjónustu Múlakaffis. Íbúa– og vinaráðið Sóltúns var heiðrað fyrir ómetanlegt starf síðastliðin 10 ár.
Nánar ...
03.jan. 2012

Sóltún fagnar 10 ára starfsafmæli þann 7. janúar

Laugardaginn 7. janúar fagnar hjúkrunarheimilið 10 ára starfsafmæli sínu en fyrsti íbúinn flutti inn á heimilið þann dag árið 2002.Starfið hefur verið farsælt og hefur þjónustan við íbúana verið í öndvegi, ásamt því að gera heimilið að aðlaðandi starfsvettvangi. Allt uppbyggingarstarf hefur miðað að vellíðan íbúa, þróun hjúkrunar og annarrar þjónustu og fjölmörg nýsköpunarverkefni hafa verið unnin, sem litið hefur verið til. Sóltún þakkar árangur sinn frábæru starfsfólki sínu og sterkum stoðum.
Nánar ...
24.des. 2011

Vel sótt jólaguðþjónusta

Um 70 manns, íbúar Sóltúns, ættingjar þeirra og starfsfólk sóttu jólaguðþjónustu í samkomusalnum á aðfangadag,fleiri fylgdust með stundinni sem var sjónvarpað innanhúss. Sóknarpresturinn okkar séra Bjarni Karlsson predikaði og leiddi guðþjónustuna ásamt Jóni Jóhannssyni djákna.Edda Anika Einarsdóttir las jólaguðspjallið og Örn Arnason söng við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.
Nánar ...
30.okt. 2011

Vel heppnuð árshátíð hjá STÖLD

Starfsfólk og makar þeirra skemmtu sér vel á árshátíð starfsmannafélagsins sem haldin var á Hótel Natura þann 29.október síðastliðinn. Glæsilegur kvöldverður var framreiddur af starfsfólki hótelsins og umgjörð öll hin besta.Veislustjórinn Stefán Helgi Stefánsson söngvari fór á kostum ásamt þeim Ólafi B. Ólafsyni og Ingibjörgu Aldísi Ólafsdóttur sópran. Einnig var boðið upp á heimatilbúið skemmtiatriði. Helgi Már Hannesson sá um að velja danstónlist af mikilli snilld.Happadrættisvinningarnir slógu í gegn. Starfsfólk á 2.hæð Sóltúns sá um alla skipulagningu og framkvæmd með miklum sóma.
Nánar ...
14.okt. 2011

Haustfagnaðurinn vel heppnaður

Glæsilegur haustfagnaður var haldinn í tilefni að íslenskum dögum 13. október í Sóltúni. Íbúar buðu ættingjum sínum í hátíðakvöldverð og voru um 220 manns í mat. Á eftir var skemmtun í Gyllta salnum þar sem Ingibjörg Ólafsdóttir og Stefán Helgi Stefánsson sungu sig inn í hjörtu fólksins við undirleik Ólafs B. Ólafssonar.
Nánar ...
07.okt. 2011

Íslenskir þemadagar 10-14. október

Þemavikur eru vinsælar í Sóltúni. Þær létta lund og eru hin besta skemmtun fyrir íbúa, ættingja þeirra og starfsfólk. Í vor voru tékkneskir dagar, franskir dagar voru í október 2010 og fjölmenningarvika og gleði og hamingjuvika voru 2009. Árið 2008 voru írskir dagar og norsk þemavika var 2007. Færeyskir dagar og breskir dagar voru 2006, danskir dagar 2005 og amerískir árið2004. Nú verður landið okkar Ísland í aðalhlutverki.Þegar þemadagar eru þá er matseðill skipulagður í samræmi við þemað og húsið skreytt. Haldnir eru lista– og menningarviðburðir og veislur.
Nánar ...
28.sep. 2011

Ný kartöfluuppskera í Sóltúni

Í kvöld verður boðið uppá nýuppteknar Sóltúnskartöflur – seinni uppskeran var tekin upp í morgun, jafnframt voru nýjar gulrætur úr garðinum sendar á öll sambýli fyrr í dag.
Nánar ...
23.sep. 2011

Sóltúni fékk **** tékknesku gæðamati

Stjórnendahópur frá Sóltúni fékk niðurstöður tékknesks gæðamats á starfsemi heimilisins á fundi í Tékklandi 20/9 2011. Sóltún náði 886 stigum af 900 sem hefði gefið 5 stjörnur og er hæsta stigagjöf sem hægt er að ná. Í hjúkrunarþættinum skoraði hjúkrunarheimilið 5 stjörnur, en lítilsháttar breytingar þarf til að ná fimmtu stjörnunni í þremur þáttum varðandi húsnæði, samskipti og fæði. Á myndinni er Petr Krcál ráðherra velferðamála í Vysocina Region, Anna Birna Jensdóttir, Hildur Þráinsdóttir, Marta Jónsdóttir, Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir og Guðrún Björg Guðmundsdóttir frá Sóltúni, Hrönn Ljótsdóttir frá Hrafnistu Boðaþingi og starfsmaður ráðuneytisins.
Nánar ...
23.ágú. 2011

Málverkagjöf í minningu Jónasínu Jónsdóttur

Jónasína Jónsdóttir eiginkona Geirs Þórðarson sem búsett var í Sóltúni síðustu ár ævi sinnar hefði orðið 85 ára 23.ágúst 2011. Af því tilefni færði Geir og synir hans Sóltúni 16 málverk í þakklætisskyni fyrir afar góða umönnun.Sóltún færir þeim kærar þakkir fyrir hlýjan hug til starfseminnar og munu málverkin prýða veggi heimilisins til ánægju fyrir íbúa, ættingja þeirra og starfsfólk.
Nánar ...
11.ágú. 2011

Gæði á hjúkrunarheimilum

Notast er við skilgreinda gæðavísa til að meta árangur hjúkrunar á hjúkrunarheimilum. Gæðavísar gefa starfsfólki og stjórnendum vísbendingar um það sem vel er gert og það sem betur má fara. Í Sóltúni er vakað yfir niðurstöðum gæðavísa og fjölmörg gæðateymi eru að störfum. Má þar nefna; byltuteymi, næringarteymi, sárateymi, þunglyndisteymi, teymi til varnar hvers kyns höftum, líknarteymi, verkjateymi og þvaglekateymi. Jafnframt eru starfandi sýkingavarnanefnd,fræðslunefnd, einkavarnanefnd, umhverfisnefnd o.s.frv. Landlæknisembættið á samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu að hafa eftirlitmeð og tryggja gæði þjónustunnar. Töluverð umræða hefur verið í fjölmiðlum um flokkun hjúkrunarheimila í góð, meðal og léleg hjúkrunarheimili, skv. skýrslu Ingibjargar Hjaltadóttur doktorsnema í hjúkrunarfræði.Landlæknisembættið hefur nýlega komið því á framfæri við Sóltún að Sóltún hafnaði í flokknum Góð heimili í skýrslu Ingibjargar frá 2009.Stefnt er að samskonar úttekt hjá Landlæknisembættinu í lok þessa árs.
Nánar ...
01.júl. 2011

Sóltúnsbíllin mikið notaður

Íbúar og starfsfólk Sóltúns hefur verið iðið við að skreppa í stuttar ökuferðir í sumar. Vinsælt hefur verið að aka út í Gróttu og niður á höfn. Þá hefur verið farið í heimsókn í nýja tónlistarhúsið Hörpu.
Nánar ...
30.jún. 2011

Vel heppnuð sumarferð starfsmannafélagsins

Í lok júní stóð starfsmannafélagið STÖLD fyrir fjölskylduhelgarferð á Þingvöll.Farið var í göngur, leiki og notið útvistar saman. Um 40 manns tóku þátt og bauð Sóltún hópnum í grillveislu á laugardagskvöldinu.
Nánar ...
15.jún. 2011

Píanó gefið í Sóltún

Dætur Ingibjargar Jónasdóttur færðu Sóltúni píanó að gjöf til minningar um móður sína.Píanóið er staðsett í setustofunni á 3. hæð C. Sóltún færir þeim kærar þakkir fyrir höfðinglega gjöf.
Nánar ...
25.maí 2011

Kvennahlaup ÍSÍ í Sóltúni 27. maí kl. 11

Að venju taka konur í Sóltúni þátt í kvennahlaupi ÍSÍ. Hlaupið verður föstudaginn 27. maí kl. 11. Íbúar, starfsfólk og ættingjar eru hvattir til að taka þátt. Skráning er í Sjúkraþjálfun Sóltúns.<
Nánar ...
25.maí 2011

Heilsueflingarmánuður fór skemmtilega af stað

Maí mánuður er árlegur heilsueflingarmánuður starfsfólksins í Sóltúni.Glæsileg dagskrá er í boði þar sem hugað er að andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu. Sóltún tekur þátt í Hjólað í vinnuna, og svo skemmtilega vildi til að liðið Gulræturnar frá Hjúkrunarheimilinu Sóltúni var dregið út í skráningarleik Rásar 2 og ÍSÍ. Í verðlaun fengu allir 9 meðlimir liðsins viðgerðasett, dekkjaþræl og vatnsbrúsa.
Nánar ...
24.maí 2011

Guðrún Straumfjörð fagnar 100 ára afmæli sínu

Guðrún Straumfjörð er 100 ára í dag.Foreldrar hennar voru Jón Straumfjörð Jónasson frá Straumfirði á Mýrum og Ragnheiður Valby Jónsdóttir. Ævistörf Guðrúnar voru ýmis skrifstofu- og verslunarstörf, lengst af starfaði hún sem gjaldkeri hjá Skipaútgerð ríkisins.Eiginmaður hennar var Ólafur Þórðarson og sonur þeirra er Jón Þ.Ólafsson. Guðrún hefur búið í Sóltúni síðan 2005.Starfsfólk og íbúar í Sóltúni óska Guðrúnu innilega til hamingju með daginn.<
Nánar ...
07.maí 2011

Vinna með gæðavísa

Á fundi Landlæknisembættisins og Samtaka fyrirtækja í heilbigðisþjónustu sem haldin var á Grund föstudaginn 6.maí flutti Guðrún Björg Guðmundsdóttir hjúkrunarstjóri í Sóltúni erindi um hvernig starfsfólk vinnur í gæðateymum að bættu gæðum hjúkrunar.
Nánar ...
17.mar. 2011

Sóltún og Samtök tékkneskra hjúkrunarheimila

Samtök tékkneskra hjúkrunarheimila hafa mikinn áhuga á innleiðslu RAI mælitækisins og sótti í annað sinn á tveimur árum vinnusmiðju hjá Sóltúni um innleiðslu RAI mælitækisins og hvernig Sóltún notar mælitækið í gæðaumbótastarfi.Jafnframt fór fram gæðaúttekt á starfsemi Sóltúns, Hrafnistu Boðaþingi og Skógarbæ þar sem notast var við mælitæki sem hannað hefur verið í Tékklandi um ,,Kröfur og viðmið til hjúkrunarheimila”. Samvinnuverkefni Sóltúns og tékkanna er styrkt af norska sjóðnum "eea grants".
Nánar ...
17.mar. 2011

Tékkneskir þemadagar 23. -25. mars í Sóltúni

Á tékkneskum dögum verður dagskrá tileinkuð Tékkneska lýðveldinu. Sagt verður frá áhugaverðri námsferð starfsfólks Sóltúns síðastliðið haust, landi, þjóð og heilbrigðisþjónustu. Sýndar verða frægar kvikmyndir og tónlistarmyndbönd og góðir gestir koma í heimsókn og segja frá landinu. Opnað verður tékkneskt Café og matseðilinn verður tileinkaður þeirra vinsælustu réttum. Hápunkturinn verður síðan vorgleði með kvöldverðaveislu og tónlistarflutningi eftir þeirra þekktustu tónlistarmenn.
Nánar ...
28.feb. 2011

Góð þátttaka meðal starfsmanna í Lífshlaupi ÍSÍ

Starfsmenn Sóltúns tóku þátt í lífshlaupi ÍSÍ annað árið í röð. Starfsmenn eru 205 og keppti heimilið því í flokki fyrirtækja með 150- 399 starfsmenn.Segja má að Sóltún hafi verið hástökkvari ársins, slík var aukning í þátttöku innan heimilisins og árangurinn á landsvísu.Í fyrra voru tvö lið skráð með innan við 20 þátttakendur. Í ár voru 10 lið skráð með alls 89 þátttakendum. Sóltún hafnaði í 5. sæti í ár varðandi daga með alls 1274 daga sem gerir hlutfall upp á 6,21 dag pr mann og 82042 mínútur sem gerir hlutfall upp á 400,2 mínútur pr. mann. Alls bætti Sóltún sig um 10 sæti.
Mikill og almennur áhugi var meðal starfsmanna og keppni milli liða. Sóltún gaf sérstaka farandbikara fyrir fyrsta sæti fyrir daga annars vegar og mínútur hinsvegar líkt og gert er á landsvísu.
Í fyrsta sæti fyrir hlutfall daga voru Kjallaraskvísurnar, þær voru 10 í liðinu með alls 170 daga, sem gerir hlutfall upp á 17,0 daga pr liðsmann. Í fyrsta sæti fyrir hlutfall mínútna var Lið 1, þau voru 9 í hópnum með alls 11620 mínútur sem gerir hlutfall upp á 1291,11 mínútur pr liðsmann.
Verðlaunaafhending fór fram mánudaginn 28. febrúar í hádeginu og af því tilefni bauð Sóltún öllum starfsmönnum til hádegisverðar.
Nánar ...
23.feb. 2011

Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir söng í Sóltúni

Hvað er fegurra en þegar sumar tekur við af vori og allt er að springa út. Maður lygnir aftur augum og dreymir að maður svífi um loftin blá, liggur í fallegum grasbala eða situr í góðum sófa innan um sína bestu vini að njóta nærveru og fegurstu tónlistar.Þar vill maður dvelja lengur.Þannig stund gáfu þær Þórgunnur Anna Örnólfsdóttir, sópran og Hrefna Eggertsdóttir píanóleikari okkur hér í Sóltúni.Efnisskráin var fjölbreytt bæði innlend sem erlend verk og flutningur þeirra Þórgunnar Önnu og Hrefnu heillandi. Rödd hinnar ungu söngkonu sem senn lýkur burtfararprófi í söng er einstkaklega tær og falleg. Hér er á ferðinni einn af vonarneistum íslenskrar tónlistar.Við þökkum þeim Þórgunnu Önnu og Hrefnu af heilum hug fyrir gefandi stund og hinni ungu söngkonu óskum við alls hins besta.<
Nánar ...
22.feb. 2011

Sigrún Hjálmtýsdóttir söng fyrir íbúa Sóltúns

Þeir voru sem vorboðinn ljúfi söngtónleikar Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, sópran og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur, píanóleikara. Á sinn einstaka hátt fluttu þessir reyndu og einir af okkar fremstu tónlistarmönnum landsins fjölbreytta efnisskrá, bæði með innlendum og erlendum verkum, við mikla hrifningu áheyrenda.Þeim Sigrúnu og Önnu Guðnýju eru færðar alúðar þakkir fyrir ljúfa stund og fallegan tónlistarflutning.Vorið,tími vonar og vaxtar hljómaði svo sannalega í hjörtum okkar er fengum að njóta góðrar heimsóknar og samveru.<
Nánar ...
28.jan. 2011

Íbúar Sóltúns skemmtu sér vel á þorrablótinu

Þorrablót Sóltúns tókst með ágætum undir stjórn þorrablótsstjóranna Júlíönu Sigurveigu Guðjónsdóttur og Jóns Jóhannssonar. Íbúar buðu með sér ættingum sínum til þorrablótsins og voru yfir 180 manns í kvöldmat.Á samkomu í sal eftir matinn spilaði Ólafur B. Ólafsson á harmonikku, farið var með minni kvenna og karla, og Ingibjörg Ólafsdóttir sópransöngkona söng.
Nánar ...
16.jan. 2011

Fólk með umgangspestir takmarki heimsóknir

Sýkingavarnarnefnd Sóltúns hvetur fólk með einkenni loftvega- eða iðrasýkinga til að takmarka heimsóknir í Sóltún þar til veikindi eru yfirstaðin. Ýmsar sýkingar eru í gangi í samfélaginu m.a. inflúensa, svínainflúensa og Noroveirusýking og geta þessar sýkingar verið alvarlegar fyrir íbúa hjúkrunarheimila sem búa við langvinna sjúkdóma.
Nánar ...
07.jan. 2011

Sóltún fagnar 9 ára afmæli

9 ár eru liðin síðan fyrsti íbúinn flutti á hjúkrunarheimilið. Starfsemin hefur verið farsæl og eftirspurn ávallt mun meiri en hægt hefur verið að mæta. Í búar koma fyrst og fremst frá Landspítalanum. Mikil festa hefur verið í starfsmannamálum sem hefur verið lykilatriði í árangri starfsins.Traustur mannauður og haldgóð fagþekking hefur stuðlað að auknum lífsgæðum íbúanna og getu til að takast á við þau fjölþættu og oft á tíðum flóknu heilsu- og félagslegu úrlausnarefni sem upp koma á hverjum tíma.Til hamingju með daginn.
Nánar ...
12.des. 2010

Jólahlaðborðin á aðventunni

Boðið var uppá þrjú jólahlaðborð á aðventunnni. Það fyrsta var haldið 30. nóvember fyrir íbúa á 2.hæð, þar næst þann 2. desember fyrir íbúa á 1. hæð og að síðustu þann 7. desember fyrir íbúa á 3. hæð. Íbúarnir 92 buðu með sér samtals 86 ættingjum og vinum. Jón Jóhannsson djákni flutti hugvekju og jólalög voru sungin. Starfsmenn, ættingjar og sjálfboðaliðar lögðu hönd á plóg og buðu fram tónlistaratriði. Sóltúnseldhúsið bauð uppá glæsilegan jólahlaðborðsmatseðil.
Nánar ...
07.des. 2010

EKKÓ-kórinn

EKKÓ-kórinn sem er kór Félags kennara á eftirlaunum heimsótti Sóltún og söng fyrir íbúa og starfsfólk undir stjórn Jóns Bjarnasonar. Ólöf Pétursdóttir íbúi í Sóltúni og fyrrum kórfélagi tók lagið með sínum gömlu félögum.Hjartans þakkir fyrir góða heimsókn.<
Nánar ...
17.nóv. 2010

Kosning til stjórnlagaþings 18.nóv. kl. 13-16

Sýslumaðurinn í Reykjavík auglýsir kosningu utan kjörfundar til stjórnlagaþings sem fer fram hér á stofnuninni fimmtudaginn 18. nóvember nk. kl. 13-16 og er ætluð vistmönnum/sjúklingum.Heimilt er að hafa útfylltan hjálparkjörseðil með sér á kjörstað til að auðvelda kjósendum kosninguna og er æskilegt að vistmenn/sjúklingar hafi slíkan seðil með sér.
Nánar ...
24.okt. 2010

Geir Ólafsson og félagar skemmtu íbúum Sóltúns

Geir Ólafsson söngvari bauð íbúum og starfsfólki í Sóltúni á tónleika í samkomusalnum sunnudaginn 24. október. Hann mætti með tónlistarmennina Jón Páll Bjarnason, Guðmundur Steingrímsson og Gunnar Hrafnsson í salinn. Úr varð hin besta skemmtun þar sem íbúar tóku virkan þátt í söngnum sem Geir og félagar hrifu þá með sér í með skemmtilegri og heillandi framkomu sinni. Kærar þakkir fyrir frábært boð.
Nánar ...
13.okt. 2010

Stelpan frá Stokkseyri heimsótti Sóltún

Í samverustundum íbúa á 1. hæð eru áhugaverðar bækur lesnar. Nú líður senn að lokum þeirrar bókar sem átt hefur hug okkar og hjarta undanfarnar vikur. Enda ekki undarlegt, því bókin “Stelpan frá Stokkeyri – saga Margrétar Frímannsdóttur” er heillandi bók og vel skrifuð. Á notalegan hátt fær lesandinn að fara með í ferðalag. Ferðalagið er lífshlaupið sjálft frá barnæsku til fullorðinsára, gleði þess og sorgir, sigrar sem ósigrar. Á afar einlægan hátt og af virðingu við sig, fjölskyldu sína og umhverfi sitt nær og fjær segir Margrét Frímannsdóttir lífssögu sína. Þar birtist kona sem býr yfir miklum styrk og ríkri réttlætiskennd.Það var gæðastund að fá Margréti Frímannsdóttur í heimsókn í samverustund síðastliðin mánudag hingað í Sóltún og eiga samtal við hana, njóta nærveru hennar og finna áhugann og kraftinn sem brennur í hjarta hennar sem aldrei fyrr.
Nánar ...
08.okt. 2010

Frönsk þemavika verður 13. til 15. október

Á hverju ári hafa verið haldnar þemavikur sem ávallt hafa reynst hin besta skemmtun. Í fyrra var fjölmenningarvika í september og gleði og hamingjuvika í maí. Árið 2008 voru ,,Írskir dagar” í maí, og ,,Norskir dagar” voru í sama mánuði árið 2007. Færeyskir dagar voru í september 2006 og ,,Breskir dagar” í mars sama ár. Árið 2005 voru ,,Danskir dagar” í nóvember og ,,Amerískir dagar” í apríl 2004. Nú verða,,Franskir dagar".
Nánar ...
05.okt. 2010

Sláturgerð í Sóltúni

Síðastliðinn mánudag 4.október hittist iðinn hópur íbúa og starfsmanna á iðjuþjálfunarsal og vann að sláturgerð, fylltu vambir að góðgæti og saumuðu fyrir. Starfsfólk eldhúss hafði áður útbúið innvolsið sem að miklu leyti samanstóð af innmat og blóði og heyrðust ýmsar hugmyndir um hvernig best væri að blanda það; þykkt/þunnt, blandað rúsínum eða jafnvel með viskídreitli. Slátur hefur verið tekið á hverju hausti frá árdögum Sóltúns. Sumir mæta galvaskir til leiks með uppbrettar ermar, aðrir biðjast undan og telja sig fullsadda af sláturverkum - ámóta og uppvaskinu!
Nánar ...
04.okt. 2010

Kanelbullens dag

Í tilefni af Kanelbullens dag (sænsk hefð) 4.oktober kom Eva-Maria Baldursson, félagsliði, með kanelsnúða sem hún hafði búið til og bakaði þá hér fyrir íbúa og starfsfólk á 2. hæð þar sem hún starfar. Ilmandi bökunarlyktin lagði um húsakynni og bragðgóðir volgir snúðar runnu létt niður.
Nánar ...
23.sep. 2010

Uppskerudagur

Í okkar fallega garði hefur gróðurinn sprottið sem aldrei fyrr og í dag 23.september ætlum við að taka upp kartöflur og gulrætur, lokahnykkurinn þetta sumarið. Garðurinn hefur verið gjöfull; auk ofannefndra tegunda höfum við uppskorið gullfallegar og bragðgóðar rófur, eigum nokkurt magn af niðurskornum rabbarbara í frysti sem nýtist í sultugerðina, fengið spínat og fleiri káltegundir og ýmsar kryddjurtir sem enn gefa af sér. Rifsberjarunnarnir virðast vera ná sér á strik eftir 2 erfið ár, gáfu nægilegt magn af berjum til að leggja í 1 flösku af jólasnafs.... og blessað eplatréð með sín epli: í dag útdeilum við 6 stórum heimaræktuðum eplum á sambýlin :-) smá biti handa hverjum íbúa.
Nánar ...
20.sep. 2010

Sýkingavarnarvika 2010 hefst í dag

Hefst í dag með fyrirlestri í sal kl 13:30. Efni dagsins verður “þrif á súrefnisvélum og sogtækjum”.Möppur með ýmsum fróðleik verða kynntar og fær hver vakt eina slíka.
Nánar ...
15.sep. 2010

Fræðsludagur starfsmanna vel heppnaður

Fræðsludagur starfsmanna fór fram miðvikudaginn 15. september 2010. Anna Jóna Guðmundsdóttir, sérfræðingur í jákvæðri sálfræði, fjallaði um hvernig jákvæður vinnustaður er byggður upp. Jákvæð sálfræði snýst um að finna það sem fólk gerir rétt en ekki rangt. Hún byggist á þeirri trú að fólk vilji: Lifa innihaldsríku lífi, rækta það besta í eigin fari og bæta eigin upplifun af kærleika, vinnu og gleði. Einnig var fjallað um dyggðir og styrkleikar og hvernig einstaklingar geta fundið leiðir til að þekkja styrkleika sína.
Nánar ...
30.ágú. 2010

Dagskrá símenntunar komin út

Fræðslunefnd hefur gefið út dagskrá símenntunar fyrir haustið 2010. Fræðslunefndina skipa Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri, Aðalbjörg Íris Ólafsdóttir sjúkraþjálfari og Jón Jóhannsson djákni.
Nánar ...
12.ágú. 2010

Anna Laufey Gunnlaugsdóttir 100 ára í dag

Anna Laufey Gunnlaugsdóttir fagnar 100 ára afmæli sínu í dag með fjölskyldu og vinum hér í Sóltúni.Hún fæddist 12.ágúst 1910 að Ytri-Mástöðum í Svarfaðardal en bjó lengst af í miðbæ Reykjavíkur. Eiginmaður hennar var Kristján Elíasson frá Aratungu í Staðarsveit og eignuðust þau fjögur börn. Anna var mikil saumakona og kunststoppari. Starfsfólk og íbúar í Sóltúni senda Önnu árnaðaróskir í tilefni dagsins.
Nánar ...
06.ágú. 2010

Golfmót Sóltúns 2010 haldið í Gufudal 5. ágúst

Golfmót Sóltúns 2010 sem var fjölskyldumót var haldið í Golfklúbbi Hveragerðis 5.ágúst. Spilaðar voru 18. holur í 4 hollum og var tilhögun mótsins punktakeppni með tilliti til forgjafar hvers og eins. Vinningshafi var Þorsteinn Sigurðsson sem spilaði á 32 punktum. Fékk hann glæsilegan 3G farsíma frá Vodafone og gjafakörfu frá Ekrunni í verðlaun.
Nánar ...
06.ágú. 2010

Stórsöngvari gleður íbúa Sóltúns með tónleikum

Fimmtudaginn 5. ágúst hélt Jónas Guðmundsson, tenór við óperuna í Wiesbaden, tónleika fyrir íbúa, starfsmenn og aðstandendur í samkomusalnum. Jónas er af frægum tónlistarmönnum komin en hann er barnabarn Þuríðar Pálsdóttur söngkonu. Koma hans og söngur vakti mikla lukku. Meðal þess sem Jónas söng voru hinar ýmsu aríur, Hamraborgin og lag eftir afa sinn, Pál Ísólfsson.
Nánar ...
24.jún. 2010

Páfagaukur heimsótti Sóltún

Miðvikudaginn 23. júní kom óvæntur gestur í heimsókn í Sóltún. Lítill grænn og gulur páfagaukur flaug inn og lenti á höfði starfsmanns. Vakti hann kátínu hjá starfsmönnum og íbúum og var komið fyrir í lánsbúri. Lýst var eftir eigendum fuglsins á hinum ýmsu útvarpsstöðum og sem leiddi til þess að þeir höfðu samband daginn eftir.
Nánar ...
15.jún. 2010

Kvennahlaup ÍSÍ, Sjóvá og Sóltúns 2010

Hress hópur íbúa,ættingjar þeirra og starfsfólk tók þátt í árlegu kvennahlaupi ÍSÍ, Sjóvá og Sóltúns í blíðskaparveðri. Formlega tóku þátt um 42 konur, við bættust síðan 30 þeim til aðstoðar og samfylgdar. Herrarnir tóku á móti hópnum og afhentu viðurkenningamedalíu, síðan var lagið tekið undir berum himni.
Nánar ...
13.jún. 2010

Norrænir næringarrekstrarfræðingar

Dagana 11. og 12. júní var árlegur stjórnarfundur norrænna félaga næringarrekstrarfræðinga haldinn á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Þátttakendur í norræna samstarfinu eru frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Íslandi. Þetta er í 3ja sinn sem fundurinn er haldinn hér á landi en hann er haldinn til skiptis í löndunum þó aðeins 7. hvert ár á Íslandi. Fundurinn í ár fjallaði um verkefni sem félögin hafa unnið að síðast liðið ár, auk þess sem komið var á framfæri ýmsum hugðarefnum þess lands sem heldur fundinn.
Nánar ...
11.jún. 2010

Tékkar í námsheimsókn á Íslandi

Í vikunni hafa þau Jirí Horecky, Petr Hladik, Miroslav Cermak, Martin Jezek, Renata Kainrathova, Martin Zarsky og Jirí Prochazka verið 2 daga á vinnufundum í Sóltúni þar sem fjallað var um skipulag öldrunarþjónustu og framtíðaruppbyggingu. Skipst var á upplýsingum, hugmyndum og aðferðum. Sérstaklega var fjallað um lagaumhverfi og regluverk, RAI aðferðafræðina, rafræna skráningu sjúkraskrár, þjónustu við heilabilaða, heimaþjónustu, hlutverk fjölskyldu í umönnun og umönnunarbætur.Skipulag hjúkrunarheimila og gæðaviðmið, kröfulýsingar, aðgengi og eftirlit voru jafnframt tekin fyrir. Auk vinnufundanna í Sóltúni,heimsótti hópurinn Droplaugarstaði, Hrafnistu í Boðaþingi, Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar, Félagsstarf eldri borgara í Gerðubergi og sat fund í félags-og tryggingamálaráðuneytinu.Erlendu gestirnir starfa í félagsmálaráðuneyti, stjórnsýslu í héraði, og eru forstjórar stofnana og samtaka í öldrunarþjónustu í Tékklandi.
Nánar ...
03.jún. 2010

Danskir hjúkrunarfræðingar heimsækja Sóltún

Danskir hjúkrunarfræðingar sem voru á Íslandi í tilefni af 20. Norrænu ráðstefnunni í öldrunarfræðum heimsóttu Sóltún. Markmið heimsóknarinnar var að kynna sér nýjungar í þjónustu við eldri borgara, rafræna sjúkraskrá og hagnýtingu RAI mats til gæðaumbótastarfs.Fyrir hópnum fór Kiddy El Kohly hjúkrunarforstjóri sem unnið hefur með NORD-RAI hópnum.Síðan hélt hópurinn út á landsbyggðina og heimsóttu þær bæði Ás í Hveragerði og Skjólgarð á Höfn í Hornafirði.
Nánar ...
27.maí 2010

Sumarblómin gróðursett og útigrillveisla

Íbúar og starfsfólk notuðu góða veðrið og gróðursettu sumarblóm í ker og grænmeti í matjurtagarðinn. Á eftir var slegið til grillveislu og hádegismaturinn snæddur úti í garði. Ólafur B. Ólafsson harmonikkuleikari mætti á staðinn og spilaði fyrir fólkið.
Nánar ...
01.maí 2010

Heilsueflingarmánuður tileinkaður sjálfseflingu

Sjálfsefling – þín ábyrgð eru einkunnarorð Heilsueflingarmánaðar starfsfólksins í Sóltúni árið 2010. Öll eigum við dýrmætan auð að varðveita. Þessi auður ert þú, fjölskylda þín og vinnustaður. Það ber að hlúa að þessum auði, allt árið um kring. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra. Þess vegna er Sóltún starfsmannavænn vinnustaður með starfsmanna- og fjölskyldustefnu.Í maímánuði er hinn árlegi “Heilsumánuður Sóltúns” þá tökum við á sérstakan og sýnilegan hátt saman höndum um að gera þennan mánuð að sérstökum heilsueflingarmánuði. Við brjótum upp daglegt mynstur, reynum eitthvað nýtt, fræðumst og sækjum fram til nýrra dáða á vettvangi líkamlegrar og andlegrar heilsu.
Nánar ...
23.apr. 2010

Nýtt fréttabréf komið út

Fréttabréfið fjallar um leiðbeiningar um viðbrögð vegna öskumisturs, sýkingarhættu og sérstaka varúð sem heimsóknargestir þurfa að hafa í huga ef þeir eru með sýkingu. Sagt er frá innra starfi og söfnun sjúkraþjálfunar fyrir þjálfunarhjóli.
Nánar ...
07.apr. 2010

Trén blómstra í gróðurskálanum

Bæði kirsuberjatréð og eplatréð eru í fullum blóma í garðskála Sóltúns. Í sól nær oft að verða yfir 20 gráðu hiti inni í skálanum sem er vinsæll staður að heimsækja meðal íbúa og starfsfólk.
Nánar ...
26.mar. 2010

Vel heppnuð góugleði

Góugleðin 26. mars var ákaflega vel heppnuð. Hún hófst með því að borðstofur og samkomusalur heimilisins voru skreyttar og fallega var lagt á borð og fólk klæddist sínu fínasta pússi. Kvöldverðaveisla íbúa og gesta þeirra hófst síðan klukkan 18. Á matseðlinum var steikt lambafille með púrtvínssósu, léttsteiktu grænmeti á salatbeði og kartöfluturni. Í eftirrétt var pekanpæ með þeyttum rjóma. Dúóið Trúton tróð upp í samkomusalnum eftir kvöldverðin og tók þekkt íslensk lög og bítlalög. Síðan komu Dísirnar hennar Guðmundu og sungu fyrir veislugesti.
Nánar ...
18.mar. 2010

Dansskemmtun

Dansparið Ásdís Sólveig Jónsdóttir og Alexsander Björnsson úr dansfélaginu Hvönn í Kópavogi dönsuðu ballrom og latin dansa fyrir íbúa Sóltúns.Þau voru að stíga sín fyrstu skref í dansinum en þau byrjuðu að dansa saman í janúar síðastliðnum. Mikil ánægja var með dansatriðið þeirra og allir dáðust að fallegum dansbúningum og flottri frammistöðu. Alexsander er sonur Lilju í eldhúsinu og hefur verið heimagangur í mörg ár og glatt okkur með nærveru sinni.
Nánar ...
15.mar. 2010

Ánægjuleg helgistund í Sóltúni

Það má segja að það verið vinafundur, þegar félagar í kór Vogaskóla komu í heimsókn með kennar sínum Ágústu Jónsdóttur, sl föstudag. Slík var eftirvæntingin og hún var gagnkvæm. Syngjandi gengu þau í hús og syngjandi kvöddu þau. En stærsta stundin var þó söngurinn í helgistundinni, sannkallaður englasöngur sem umvafði góða hugvekju Ingigerðar Önnu Konráðsdóttur djáknakandidats og fyrrum starfsþjálfunarnema í Sóltúni. Eldhúsið bauð upp á súkkulaðiköku sem var annáluð.
Nánar ...
08.mar. 2010

Syngjandi feðgin í Sóltúni

Íbúar og starfsfólk Sóltúns fengu ánægjulega heimsókn s.l. föstudag frá Ólafi Beinteini Ólafssyni og dóttur hans, Ingibjörgu Aldísi. Feðginin tóku nokkur skemmtileg og vel valin lög og má þar m.a. annars nefna ,,Það er svo glatt á góðra vina fundi”, ,,Alparós” og ,,Í Birkilundi”. Hlustendur unu sér vel við ljúfu tónanna sem voru hvort tveggja við íslensk eða erlend lög og ýmist spiluð á harmonikku eða píanó. En hlustendur fengu ekki einungis að hlýða á söng. Ólafur hafði samið ljóð til íbúanna eftir síðustu sumarferð Sóltúns og las það upp við frábærar undirtektir. Orkuveita Reykjavíkur gerði söngskemmtunina mögulega og bíða nú allir spenntir eftir næstu heimsókn söngelsku feðginanna.
Nánar ...
16.feb. 2010

Karlakór í heimsókn

Karlakórinn gamli fóstbræður komu og sungu nokkur lög undir stjórn Árna Harðarsonar. Frábær heimsókn sem fólk kunni vel að meta. Kærar þakkir.
Nánar ...
28.jan. 2010

Íbúar Sóltúns blótuðu þorra

Íbúar Sóltúns ásamt ættingjum sínum og starfsfólki komu saman á þorrablóti 28. janúar. Blótið hófst með borðhaldi þar sem dýrindis þorramatur frá SS var á borðum og að sjálfsögðu hákarl og brennivínssnaps. Haukur Sveinbjarnason tók á móti fólkinu í samkomusalnum með ljúfri tónlist, Jón Jóhannsson djákni flutti Minni kvenna og Guðrún Jónsdóttir Minni karla. Karlakórinn Kátir karlar mættu og heilluðu fólk með söngsyrpu undir stjórn Gylfa Gunnarssonar. Síðan tók Sigurður Guðmundsson gítarinn og stjórnaði fjöldasöng.Blótstjóri var Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir.
Nánar ...
07.jan. 2010

Sóltún á 8 ára starfsafmæli í dag

Íbúar og starfsfólk fagna 8 ára starfsafmæli Sóltúns í dag. Starfið hefur verið farsælt, þökk sé öflugum, traustum og samhentum starfsmannahópi og þjónustusamningi sem setur hag íbúanna í öndvegi.
Nánar ...
03.jan. 2010

Fræðslunefnd auglýsir dagskrá veturinn 2010

Fræðslunefnd Sóltún kynnir glæsilega símenntunardagskrá fyrir veturinn 2010. Fundirnir eru á miðvikudögum kl. 13:30 í fræðslusal Sóltúns.Þeim er jafnframt útvarpað um hjúkrunarheimilið. Fræðslufundirnir eru opnir starfsfólki, íbúum og ættingjum þeirra. Lykillin að árangri í þjónustu í Sóltúni byggir á þekkingu og reynslu starfsfólksins. Sóltún er því lærdómsfyrirtæki sem stöðugt leitast við að tryggja íbúum sínum bestu mögulega þjónustu byggða á gagnreyndum aðferðum og þekkingu sem studd er af rannsóknarniðurstöðum. Fræðslunefndina skipa J.Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri, Aðalbjörg Íris Ólafsdóttir sjúkraþjálfari og Jón Jóhannsson djákni.
Nánar ...
15.des. 2009

Jólasalan tókst vel

Stór hópur íbúa tekur virkan þátt í skapandi starfi í iðjuþjálfun, má þar nefna kertagerð og hannyrðir hverskonar. Í desember er haldin jólasala sem ávallt er vel sótt. Boðið er uppá heitt súkkulaði með randalínum og smákökum og jólalög eru sungin.
Nánar ...
14.des. 2009

Litróf heimsótti Sóltún

Hópur úr listasmiðjunni Litróf í Fella og Hólakirkju sem starfar með 9-15 ára gömlum börnum komu og sungu nokkur jólalög af nýútkomnum geisladiski. Þau kynntu íbúum og starfsfólki athyglisvert starf listasmiðjunar ásamt Ragnhildi Ásgeirsdóttur djákna.
Nánar ...
09.des. 2009

Jólahlaðborð íbúa á 1. hæð og ættingja þeirra

Á jólahlaðborð íbúanna á 1. hæð mættu 70 manns. Veislustjóri var Jón Jóhannsson djákni. Svanhvít Sigurðardóttir söngkona söng með glæsibrag og dóttir hennar Ingrid kjartansdóttir píanóleikari lék undir. Ánægja var með veisluhöldin.
Nánar ...
09.des. 2009

Hansína Ólafsdóttir gefur myndir á 1. hæð Sóltúns

Hanína Ólafsdóttir sjúkraliði og myndlistamaður hefur látið af störfum hér í Sóltúni en hún hefur starfað hér frá upphafi. Hansína hefur leitast við að skapa íbúum 1. hæðar tækifæri til listsköpunar og efla virkni þeirra í athöfnum daglegs lífs.Við starfslok færði Hansína Sóltúni 3 olíumálverk, 2 þeirra eru máluð 1990 og eitt þeirra 2009.Málverk þessi skreyta nú veggi 1.hæðar.Sóltún þakkar Hansínu hjartanlega fyrir hennar starfsframlag hér Sóltúni og góðar gjafir.
Nánar ...
08.des. 2009

Jón Kr. Ólafsson velunnari Sóltúns

Á undanförnum árum hefur Jón Kr.Ólafsson söngvari á Bíldudal hlúð að starfseminni í Sóltúni með reglubundnum gjöfum. Margar myndir prýða veggi heimilisins sem hann hefur gefið,m.a. útsaumuð mynd af ,,Drottinn blessi heimilið".Jón hefur einnig fært okkur bækur, tónlist og gleði. Eru honum færðar kærar þakkir fyrir hlýjan hug til Sóltúns.
Nánar ...
08.des. 2009

Framtíðarsýn í öldrunarþjónustu

Nýlega stóð Félag stjórnenda í öldrunarþjónustu FSÍÖ fyrir ráðstefnu um framtíðarsýn í öldrunarþjónustu. Meðal framsögumanna var Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri í Sóltúni. Auk hennar fluttu erindi Árni Páll Árnason félags-og tryggingamálaráðherra, Helga Hansdóttir öldrunarlæknir, og Jón Björnsson sálfræðingur.
Nánar ...
07.des. 2009

Söngfuglar bestu þakkir, ávallt velkomin

Birta og gleði skein af hverju andliti þegar þau komu í Sóltún. Hér var á ferðinni kórinn Söngfuglarnir, undir stjórn og undirleik Margrétar Sigurðardóttur.Það var greinilegt að söngurinn, félagsskapurinn og ekki síst það að geta glatt aðra með söng gaf þeim óendanlega mikið. Það birtist einmitt svo vel í flutningnum, sem líkt og lyftu áheyrandanum upp á vængjum söngsins og ferðuðust um loftin blá, til fjarlægra landa og heim aftur. Kórinn sem starfað hefur í liðlega 20 ár og telur á fimmta tug félaga er hluti félagsstarfsins á Vesturgötu 7. Þarna voru á ferð auðfúsugestir sem glöddu okkur með söng sínum og nærveru, góður orðrómur var gerður að heimsókninni meðal þeirra fjölmörgu sem sóttu tónleikanna.
Nánar ...
04.des. 2009

Aðventustemning

Jólahlaðborð 2. hæðar var haldið, 3. desember síðastliðinn, með glæsibrag. Gestir íbúa voru 37. Vel var úti látið af góðum mat og þjónusta eldhúss til fyrirmyndar.Jón Jóhannsson, djákni, flutti jólahugvekju. Stefán Stefánsson óperusöngvari söng og skemmti við mikinn fögnuð nærstaddra. Samsöngur íbúa, aðstandenda og starfsfólks tóks einnig vel í lokin. Góð og notaleg stemning einkenndi borðhaldið og létu gestir vel að góðri jólastund í upphafi aðventu.
Nánar ...
02.des. 2009

Ánægjuleg heimsókn frá Laugarneskirkju

Barnakór Laugarness komu gangandi í heimsókn þrátt fyrir að kalt væri í veðri. Þau sungu jólalög undir stjórn Huldu Guðrúnar Geirsdóttur og séra Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur sagði sögu og flutti bæn.
Nánar ...
27.nóv. 2009

Aðventudagskráin komin út

Fallegt jólatré lýsir upp skammdegið við aðalinngang Sóltúns. Aðventudagskráin hefur verið gefin út og birtist í nýjasta Fréttabréfinu. Dagskráin er ekki tæmandi og verða uppákomur og skemmtanir auglýstar á heimasíðunni.
Nánar ...
24.nóv. 2009

8. íbúaþingið haldið í Sóltúni 26.11.2009 kl.14

Næsta fimmtudag verður 8. íbúaþingið haldið í Sóltúni. Þá gera stjórnendur íbúum og ættingjum þeirra grein fyrir stöðu mála í öllum þjónustuþáttum. Tekið er á móti fyrirspurnum fyrir þingið og á þinginu og verður leitast við að svara þeim. Fjallað verður um það sem er efst á baugi, m.a. fjölbreytta dagskrá fyrir komandi aðventu og hátíðir.
Nánar ...
14.nóv. 2009

Árshátíð starfsmannafélagsins vel sótt

Starfsfólk og makar þeirra skemmtu sér vel á árshátíð starfsmannafélagsins sem haldin var í Skútunni þann 14.nóvember. Veislustjórar voru Guðný Jónsdóttir, Þórdís S. Hannesdóttir og Þórlaug Steingrímsdóttir. Hljómsveitin Úlfarnir léku fyrir dansi og skemmtiatriði voru heimatilbúin af starfsfólki.
Nánar ...
22.okt. 2009

Sláturgerð í Sóltúni

Á haustin hafa íbúar og starfsfólk sameinast í sláturgerð og kunni fólk vel til verka. Undirbúningur var í höndum Sóltúnseldhússins og iðjuþjálfunar.
Nánar ...
15.okt. 2009

Stærri mannfögnuðum frestað í sýkingavarnarskyni

Sýkingavarnarnefnd Sóltúns hefur ákveðið að guðþjónustu sem vera átti á morgun og haustfagnaði íbúa sem vera átti 22.október verði frestað til varnar útbreiðslu á svínaflensu.Starfsfólk Sóltúns verður bólusett gegn svínaflensu á næstu dögum að tilmælum Sóttvarnarlæknis, en heilbrigðisstarfsfólk er í Markhópi I, forgangshóp. Helstu ástæður þess eru: Að vernda sjúklinga gegn því að starfsmenn beri smit á milli. Til þess að starfsmenn sjálfir veikist ekki og geti sinnt mikilvægum störfum sínum og til að starfsmenn geti verndað fjölskyldur sínar með því að bera ekki smit frá sjúkrastofnunum og heim til sín.Ættingjar og aðrir heimsóknargestir ættu ekki að koma í heimsókn í Sóltún, hafi þeir einkenni um flensu.
Nánar ...
07.okt. 2009

Velheppnuð fjölmenningarvika í Sóltúni

Undanfarin ár hefur orðið mikil aukning í að fólk flytji búferlum milli landa og festa rætur þar. Ísland, eyja úti langt úti á hafi hefur heillað marga, sem flust hafa hingað undanfarin ár, og líkað vel, sagt landið fallegt og fólkið gott. Um 12% starfsfólks Sóltúns er ef erlendum uppruna, nýlega stóð heimilið fyrir fjölmenningarviku sem var mjög vel heppnuð.
Nánar ...
25.sep. 2009

SFH samkomulag við Eflingu samþykkt

Í dag var talið í atvkæðagreiðslu um samkomulagið um breytingar á kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags við SFH Samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, en Sóltún er í hópi þeirra hjúkrunarheimila sem eru aðilar að SFH. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykkti samkomulagið. Atkvæði féllu þannig að 263 eða 85% samþykktu samkomulagið. 41 eða 13% höfnuðu samningnum.Auðir og ógildir seðlar voru 5. Samkomulagið er því samþykkt.
Nánar ...
23.sep. 2009

Fjölmenningarvikan að hefjast

Nú er dagurinn,fjölmenningarvikan að hefjast.Við heilsumst meðal annars á Pólsku “Dzien dobry” og á Filippieysku “Magandang araw”. Kl.13:30 verður Guðbjört Guðjónsdóttir mannfræðingur með fyrirlesturinn, “Að starfa í alþjóðasamfélagi”. En ekki nóg með það, íbúum og starfsfólki er boðið uppá heimbakað kaffibrauð, í dag. Það eru þær Chona Cuares Millan og Lucivic Dagný Damasin frá Filippseyjum sem bjóða með kaffinu á 1. og 3. hæð. Á 2. hæð er það Anna Kaszczyssyn frá Póllandi sem býður uppá með kaffinu á annarri hæðinni.
Nánar ...
05.sep. 2009

Golfmót starfsfólks

Golf nýtur vaxandi vinsælda meðal starfsfólks Sóltúns. Haldið var golfmót 3. september á Korpúlfsstöðum. Leikurinn var hinn skemmtilegasti og sigurvegari Soffía Björg Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur.
Nánar ...
01.sep. 2009

Dagskrá símenntunar komin út

Fræðslunefnd hefur gefið út dagskrá símenntunar í Sóltúni haustið 2009. Fræðslufundir eru vikulega á miðvikudögum kl.13:30 í fræðslusal.Starfsfólk, íbúar og ættingjar þeirra eru hjartanlega velkomnir á fundina.
Nánar ...
25.ágú. 2009

Sóltúni færðar góðar gjafir

Guðrún Jónsdóttir færði Sóltúni fallega húsmuni úr dánarbúi Ingibjargar Daníelsdóttur Níelsen fyrir hönd ættingja hennar þeirra Halldórs Hlífar Árnasonar, Braga Árnasonar, Árna S. Daníelsonar og Davíðs M. Daníelssonar.Eru þeim færðar kærar þakkir fyrir að taka með þessum hætti þátt í uppbyggingu heimilisins.
Nánar ...
12.ágú. 2009

Auknar forvarnir gegn sýkingum

12.8.2009 Auknar forvarnir gegn sýkingum Nú þegar inflúensufaraldur vofir yfir hér á landi, hefur Sóltún aukið viðbúnað og hvers kyns sýkingavarnir. Í andyri Sóltúns eru upplýsingar um forvarnir vegna inflúensu og handspritt fyrir heimsóknagesti.Sýkingar geta komið upp með jöfnu millibili á hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum. Afleiðingar sýkinga fyrir aldraða sjúklinga eru oft verri en fyrir þá sem yngri eru og heilsuhraustir og því mikilvægt að vinna gegn smiti. Fjöldi mismunandi smitefna geta valdið sýkingum og smitleiðirnar eru margar.Algengasta smitleiðirnar eru hendur en aðrar smitleiðir eru vel þekktar m.a. Loftborið smit, úðasmit og örveru menguð matvæli. Hornsteinn í forvörnum gegn sýkingum er góður handþvottur og almennt hreinlæti. Sýkingavarnarnefnd hefur ákveðið að efna til sýkingavarnarviku til að skerpa á þekkingu og umgengisreglum.
Nánar ...
02.júl. 2009

Gjafir til Sóltúns

Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Félagsstarfsins í Gerðubergi og Elín Daðadóttir komu færandi hendi í Sóltún. Heimilinu var færð mynd sem unnin var af Auðunni Víði Péturssyni í félagsstarfinu 2008. Mynd unna af Fanney Magnúsdóttur (harðangur og klaustur) og mynd saumaða af Guðrúnu Jónsdóttur 1966. Einnig var heimilinu færðir fallegir dúkar úr dánarbúi Ingibjargar Daníelsdóttur Níelsen f.7.maí 1915, d.24.janúar 2009, fyrir hönd ættingja.Gefendum eru færðar kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
30.jún. 2009

Glæsileg sumarferð starfsfólks

Starfsmannafélagið STÖLD stóð fyrir sumarferð helgina 26.-28.júní. Haldið var með rútu að Skógum þar sem 27 manns af 34 þátttakendum gengu af stað yfir Fimmvörðuháls niður í Þórsmörk. Gist var í Básum og notið útivistar yfir helgina. Frábær helgi.
Nánar ...
10.jún. 2009

Metþátttaka í kvennahlaupi ÍSÍ, Sjóvá og Sóltúns

Frábært veður og sólskin mættu um 100 þátttakendum úr hópi íbúa, ættingja þeirra og starfsfólks í kvennahlaupinu í morgun. Þemað á 20 ára afmæli kvennahlaupsins er heilbrigt hugarfar og hraustar konur.Inntakið er að láta sér líða vel og láta ekki kröfur um staðalímyndir ræna sig gleðinni.Ólafur B.Ólafsson gladdi þátttakendur með harmonikkuleik.
Nánar ...
04.jún. 2009

Breyting á eignarhaldi og ný stjórn

Íslenska heilbrigðisþjónustan ehf.,hefur keypt öll hlutabréf Öldungs hf., af Frumafli, félagi Jóhanns Óla Guðmundssonar. Að nýja eigendahópnum koma Anna Birna Jensdóttir og Íslensk fjárfesting ehf.,sem er félag í eigu Þóris Kjartanssonar og Arnars Þórissonar. Við stjórnarformennsku tekur Þórir Kjartansson. Meðstjórnendur eru Arnar Þórisson og Gunnar Thoroddsen.Varamaður í stjórn er Anna Birna Jensdóttir.Engar breytingar eru áætlaðar í starfsemi eða rekstri hjúkrunarheimilisins.
Nánar ...
28.maí 2009

Uppskeruhátíð heilsu-og gleðimánaðar

Starfsfólkið bauð íbúum og ættingjum þeirra uppá vöfflur með rjóma á uppskeruhátíð í tilefni að lok heilsu-og gleðimánaðar í maí. Sagt var frá heilsumánuðinum og kynntar voru niðurstöður frá vinnustofum sem fóru fram víða á heimilinu meðal íbúa og starfsfólks. Ungir gestir sýndu samkvæmisdansa og síðan var sungið saman. Að lokum var föndrað við ;;Gogginn" sem sérstaklega var útbúinn að þessu tilefni
Nánar ...
27.maí 2009

Grillveisla og gróðursetningardagur

Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk naut blíðviðrisins með grillveislu og snætt var úti í garði. Á matseðlinum voru grillaðir hamborgarar með köldu kartöflusalati, sósum, grænmeti og íspinnar í eftirrétt að hætti Sóltúnseldhússins, sannkallaður sólarkostur. Hross komu í heimsókn og dúettinn Sambandið spilaði og söng.
Nánar ...
25.maí 2009

Námsheimsókn frá University of Iowa

Hjúkrunarfræðingarnir Ann L. Bossen og Janet Specht prófessor frá Iowa University heimsóttu Sóltún ásamt 6 nemendum 25.maí. Fengu þær kynningu á starfseminni og sérstaka kynningu á notkun upplýsingatækni og störfum gæðateyma í hjúkrun.
Nánar ...
14.maí 2009

Nemendur úr Suzukitónlistarskólanum léku á píanó

Nemendur úr Suzukitónlistarskólanum hér í næsta nágrenni, Sóltúni 24, færðu með sér sumargleði til íbúanna þegar þau komu og léku á píanó undir stjórn Þórunnar Huldu Guðmundsdóttur. Það er orðin fastur liður að nemendur skólans komi í Sóltún, öllum til mikillar ánægju.
Nánar ...
14.maí 2009

Yfirmaður Sóltúnsseldhússins í stjórn MNÍ

Guðný Jónsdóttir næringarrekstrarfræðingur og yfirmaður eldhússins í Sóltúni var kosin í stjórnm MNÍ (Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands. Stjórnina skipa auk hennar Herdís Guðjónsdóttir, Ragnheiður Guðjónsdóttir, Helen Williamsdóttir Gray og Sigríður Ásta Guðjónsdóttir. Varamaður er Rósa Jónsdóttir. Félagið var stofnað 1981 og er fagfélag háskólamenntaðra matvælafræðinga, næringarfræðinga, næringarráðgjafa og skyldra stétta.
Nánar ...
13.maí 2009

Kertahópur Sóltúns færir börnum gjöf

Íbúar Sóltúns sem eru í kertahópnum, ákváðu að í þetta sinn skyldi ágóði að því fé sem safnaðist gegnum jólasölu og kertagerð renna til íslenskra barna. Berglind Rós Karlsdóttir frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom og tók á móti söfnunarfénu kr.50.000,-. Berglind er forstöðukona Ungmennadeildar Rauða krossins í Reykjavík og hefur hún umsjón með námskeiðum sem kallast Mannúð og menning, sem börnum á aldrinum 7-9 ára og 10-12 ára verður boðið að taka þátt í í sumar. Þátttaka á námskeiðin er ókeypis svo hér mun söfnunarféð nýtast sem framlag til námskeiðahaldsins. Mynd frá afhendingu gjafarinnar Námskeiðin miða að því að draga úr einangrun barna, auka hópefli og útiveru, börnin munu fræðast um starfsemi Rauða krossins, fá kennslu í skyndihjálp, fræðast um fjölmenningu og fordóma o.fl.
Nánar ...
05.maí 2009

Stjórnarformaður kvaddur

Jóhann Óli Guðmundsson hefur látið af störfum sem stjórnarformaður Öldungs hf. Jóhann Óli hefur verið aðaleigandi Öldungs hf., frá stofnun félagsins sem var stofnað árið 2000. Markmiðið var að taka þátt í útboðsverkefni heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins um ,,Hjúkrunarheimili – einkaframkvæmd”, byggingu og rekstur í 25 ár. Félagið hefur rekið hjúkrunarheimilið Sóltún samkvæmt þjónustusamningi við ríkið síðan í ársbyrjun 2002 og hefur starfsemin verið farsæl. Stjórnendur og starfsfólk Sóltúns þakka Jóhanni Óla fyrir merkt brautryðjendastarf og traust og gott samstarf í þágu aldraðra.
Nánar ...
17.apr. 2009

Glæsilegur vorfagnaður

Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk skemmti sér vel á vorfagnaði Sóltúns 16.apríl. Þema vorfagnaðar var ,,hattaþema" og kom fólk saman í móttöku í miðju hússins kl. 18 þar sem boðið var uppá gleði í glasi og gott í munni. Síðan var borin fram kvöldverður á vegum Sótúnseldhússins í 12 borðstofum hússins og voru 160 manns í mat. Ítalska tríóið skemmti í samkomusalnum með frábærum söng og gamanmálum. Veittar voru viðurkenningar fyrir flottustu hattana.
Nánar ...
16.apr. 2009

Utankjörstaðakosning til Alþingis í Sóltúni

Í dag var utankjörstaðakosning á vegum Sýslumannsins í Reykjavík til Alþingiskosninga í Sóltúni. Góð þátttaka var og mældist hún 40%. Þjónusta embættisins er til fyrirmyndar og gerir íbúum hjúkrunarheimila kleift að nota kosningarétt sinn og taka þar með þátt í mótun samfélagins til framtíðar.
Nánar ...
30.mar. 2009

Kosningabaráttan hafin- Framsókn í heimsókn

Tveir fulltrúar Framsóknarflokksins í Reykjavík komu í Sóltún í hádeginu og heilsuðu uppá íbúa og starfsfólk. Menn voru mishrifnir af heimsókninni og mættu stjórnmálamennirnir ýmist glaðværð eða voru ekki virtir viðlits. Síðan var gert grein fyrir stefnumálum með framsögu í hádegishléi starfsfólks og var henni varpað út í sjónvörp hússins.
Nánar ...
23.mar. 2009

Mikil aðsókn í sumarvinnu

Eins og áður er mikill áhugi hjá nemendum í heilbrigðisgreinum að ráða sig í sumarafleysingar í Sóltún. Ráðið hefur verið í allar stöður fyrir sumarið. Velkomið er þó að setja inn umsókn ef fólk vill vera á biðlista.
Nánar ...
22.mar. 2009

Útivist

Góð tíð að undanförnu hefur örvað íbúa og starfsfólk til daglegrar útivistar. Farnar eru gönguferðir í Sóltúnsgarðinum, eða skroppið í bíltúr á bílnum okkar. Vinsælt er að fara í ökuferðir og skreppa á tónleika. Nýlega fóru á annan tug íbúa á hádegistónleika í Hafnarborg þar sem Sigrún Hjálmtýsdóttir söng.
Nánar ...
17.mar. 2009

Heimsókn frá Pace University, New York

Í dag heimsóttu 14 nemendur í hjúkrunar- sem og í framhaldsnámi frá Pace Univeristy New York, Sóltún. Fyrir hópnum fóru hjúkrunarfræðingarnir David Ekstrom PhD, RN og Susan Gordon PdD,RN.Áhugi hópsins beindist að því að kynna sér öldrunarhjúkrun, notkun upplýsingatækni í starfi, hugmyndafræði og stjórnun. Anna Birna Jensdóttir hélt fyrirlestur um Sóltúns módelið og hjúkrunarstjórarnir Marta Jónsdóttir, Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir og Guðrún Björg Guðmundsdóttir fræddu þau um starfsemina.
Nánar ...
17.mar. 2009

Innheimta greiðsluþátttöku fyrir Tryggingastofnun

Villandi frétt birtist á mbl.is 16.03.2009. Dvalarkostnaður á hjúkrunarheimilum er greiddur með daggjöldum sem ákveðin eru af heilbrigðisráðuneytinu og félags- og tryggingaráðuneytinu hverju sinni. Daggjöldin eru greidd af Tryggingastofnun ríkisins til hjúkrunarheimila.Þátttaka vistmanna í dvalarkostnaði er tekjutengd og óháð því hjúkrunarheimili sem viðkomandi býr á. Ef mánaðartekjur vistmanns eru að jafnaði 65.005 kr. eða meira eftir skatta (greiðslur frá Tryggingstofnun ekki meðtaldar) tekur hann þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem eru umfram það. Greiðsluþátttaka vistmanna verður þó aldrei hærri en 262.313 kr. á mánuði. Tryggingastofnun greiðir fullt daggjald til heimilisins. Ef vistmaður á að taka þátt í dvalarkostnaði innheimtir heimilið hans hlut og endurgreiðir hann til Tryggingastofnunar. Hjúkrunarheimili hirða því ekki fé af vistmönnum eða fjölskyldum þeirra eins og blaðamaðurinn komst að orði, heldur annast innheimtuþjónustu fyrir hið opinbera.
Nánar ...
04.mar. 2009

Heimsókn frá þingkonu Evrópuþingsins

Catherine Stihler þingkona sem situr fyrir Skotland á Evrópuþinginu heimsótti Sóltún ásamt dr. Catriona Burness ráðgjafa. Með þeim voru Rúna Magnúsdóttir og Claudia Vennemann frá alþjóðanefnd FKA. Gestirnir höfðu sérstakan áhuga á að kynna sér hugmyndafræði og nýsköpun í starfsemi hjúkrunarheimilisins. Heimsóknin var ánægjuleg og tóku íbúar sérstaklega vel á móti gestunum m.a. með söng.
Nánar ...
01.mar. 2009

Þemamánuður ,,Mögnuð þjónusta" (Magnet)

Þema marsmánaðar verður ,,Mögnuð þjónusta" sem byggir á aðferðafræðinni ,,The Pathway to Excellence" og ,,Magnet hugmyndafræðinni". Hjúkrunarheimilið stefnir að því að útfæra aðferðafræðina enn frekar með skipulögðum hætti á næstu þremur árum og tryggja hjúkrunarheimilinu þar með þann sess að vera í fremstu röð í þjónustu. Haldnir verða vikulegir fræðslufundir í mars til undirbúnings. Verkefnið er mjög spennandi og hafa hjúkrunarstjórnendur sótt viðbótarþekkingu til the American Nursing Credentialing Center (ANCC) Magnet Program til undirbúnings.
Nánar ...
05.feb. 2009

Vel heppnað þorrablót

Árlegt þorrablót heppnaðist vel að venju. Íbúa- og vinaráðið skipulagði þorrablótið. Borðhald var í 12 borðstofum heimilisins og hófst kl 18. Íbúar buðu til sín alls 64 ættingjum og vinum að þessu sinni. Boðið var uppá ljúfan þorramat frá Kjarnafæði og SS, sem rennt var niður með pilsner og brennivínssnapsi. Eftir kvöldmatinn safnaðist fólk saman í samkomusalnum þar sem Júliana Sigurveig Guðjónsdóttir stýrði blótinu fram eftir kvöldi. Ólafur Ólafsson harmonikuleikari og söngvari skemmti og stýrði fjöldasöng. Þórdís S. Hannesdóttir fór með minni karla og Jón Jóhannsson með minni kvenna.
Nánar ...
10.jan. 2009

Ný bók um hjúkrunarheimili komin út

HJÚKRUNARHEIMILI. Leiðbeiningar og fróðleikur fyrir fjölskyldur á tímamótum.Í bókinni er fjallað um mismunandi hliðar á þjónustu við aldraða í heimahúsi og gert grein fyrir hvernig best sé að snúa sér, ef til þess kemur að sækja þurfi um búsetu á hjúkrunarheimili og hvernig æskilegast sé að standa að vali á heimili. Sagt er frá heilsufari og daglegu lífi íbúa á hjúkrunarheimilum og hlut fjölskyldu þeirra í umönnun.Sögu öldrunarheimila, uppbyggingu þeirra og rekstri eru gerð skil í bókinni og eins eru lífsgæða íbúa skoðuð frá ýmsum sjónarhornum.mynd af bókinni Höfundar bókarinnar eru sjö hjúkrunarfræðingar og er bókin byggð á rannsókna- og þróunarvinnu þeirra á þessum vettvangi. Í viðauka bókarinnar kynna margar stofnanir fyrir aldraða starfsemi sína. Bókin fæst í helstu bókaverslunum og einnig í móttöku hjúkrunarheimilisins Sóltúns.
Nánar ...
24.des. 2008

Sóltúni færður altarisdúkur á aðfangadegi jóla

Í guðsþjónustunni í dag var helgaður altarisdúkur við hátíðlega athöfn. Altarisdúkurinn er gjöf frá Aðalheiði Friðbertsdóttur til minningar um eiginmann sinn Óskar Kristjánsson sem lést þann 29.október 2005 og sem virðing og þökk fyrir samfélag og samstarf. Dúkurinn er einstakt listaverk handunnið af Aðalheiði. Að framan er hekluð blúnda með táknum kross og kaleiks. Blúndan er fest á hörkennt efni sem tónar vel við Ölbu djáknans.Aðalheiði eru færðar innilegustu þakkir fyrir góðan hug og höfðinglega gjöf. Megi góður Guð blessa Aðalheiði, fjölskyldu hennar og minningu ástkærs eiginmanns. Einnig eru Hildi Þráinsdóttur færðar bestu þakkir fyrir stuðning við lokafrágang þessa listaverks.
Nánar ...
12.des. 2008

Mannauðurinn er auðlind starfseminnar í Sóltúni

Á aðventunni á hverju ári kemur samstarfsfólkið í Sóltún saman á aðventunni. Flestir vinna vaktavinnu í mismunandi starfshlutfalli,ýmist á morgunvöktum, kvöldvöktum, nætur-og/eða helgarvöktum. Það er því glatt á hjalla þegar á annað hundrað samstarfsmenn hittast. Þá eru veittar starfsaldurviðurkenningar og viðurkenningar fyrir námsgráður sem sérstaklega nýtast í þágu íbúanna hér í Sóltúni. Mannauðurinn er mesta auðlind starfseminnar í Sóltúni. Sóltúnseldhúsið á allan heiður skilið fyrir frábærar veitingar, sem endranær.
Nánar ...
06.nóv. 2008

Leiksýningin Aðventa

Minningasjóður Sóltúns bauð íbúum, ættingjum og starfsfólki á leiksýningu Möguleikhússins ,,Aðventa" eftir Gunnar Gunnarsson í samkomusal Sóltúns 6. nóvember. Pétur Eggerz leikari sagði frá svaðilförum Fjalla-Bensa á Mýrdalsöræfum með miklum tilhrifum. Sagan er klassísk og fjallar um náungakærleika og fórnfýsi.Það er mikilvægt tækifæri að eiga þess kost að fá ferðaleiksýningu á hjúkrunarheimilið.
Nánar ...
30.okt. 2008

Glæsilegur haustfagnaður

Íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk naut þess að koma saman til hátíðarkvöldverðar að hætti Sóltúns eldhússins og hlusta á ógleymanlegan söng og ljóðaflutning Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur í samkomusalnum. Íbúa-og vinaráð Sóltúns skipulagði fagnaðinn.
Nánar ...
24.okt. 2008

Djáknanemar í starfsþjálfun í Sóltúni

Allt frá opnun Sóltúns hafa nemar verið úr hinum ýmsum fag-og starfsgreinum. Nú á haustönn bregður svo við að það eru þrír djáknanemar í einu sem allir hafa lokið 30 eininga framhaldsnámi í djáknafræðum. Þær eru Ingigerður Konráðsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Ásdís Pétursdóttir Blöndal, leikskólakennari og Margrét Gunnarsdóttir, framhaldskólakennari. Hluti af námi í djáknafræðum er að ljúka starfsþjálfun undir handleiðslu valinna djákna í starfi og í nokkrum tilvikum presta. Starfsþjálfun felst í að djáknanemar kynnist og taki þátt í starfi djáknans og kynnist starfsumhverfi hans, verkefnum og samstarfsaðilum. Þær Ingigerður, Ásdís og Margrét hafa meðal annars kynnt sér hugmyndafræði Sóltúns, tekið þátt í teymisvinnu, átt samtöl við íbúa, ástvini og starfsfólk. Þær hafa verið viðstaddar minningarstundir, tekið þátt í guðsþjónustu og leitt helgi- og samverustundir. Einnig kynna þær sér hinar ýmsu fag- og starfsgreinar í Sóltúni. Það er alltaf fengur fyrir okkur hér í Sóltúni að fá nema, þeim fylgir ferskur andi, starf okkar hér í Sóltúni, fagleg þekking þeirra frá námi og reynslu mætast og speglast í verklegri þjálfun. Við fáum að njóta nærveru og krafta þeirra fram í byrjun aðventu, fyrir það erum við þakklát.
Nánar ...
23.okt. 2008

Sláturgerð í Sóltúni

Fyrir hádegi þann 23. október tóku íbúar Sóltúns slátur. Unnið var í iðjuþjálfunarsalnum og boðið upp á dýrindis sherry og góða tónlist á meðan á framkvæmdinni stóð. Eldhúsdömurnar höfðu daginn áður saumað vambir af miklum dugnaði og um morguninn skorið niður mör og hrært hráefninu saman. Því var lítið annað að gera en að troða í vambirnar og sauma fyrir. Margir lögðu leið sína í sláturgerðina, ýmist til að taka þátt eða fylgjast með því sem um var að vera. Tengjast haustverkunum, finna lyktina, rifja upp gamla og góða tíma og njóta samverunnar. Starfsmenn og íbúar Sóltúns lögðust á eitt við verkin. Máltækið ,,ungur nemur gamall temur” átti vel við í sláturgerðinni því íbúarnir voru sumir hverjir komnir í kennsluhlutverk við að kenna þeim sem ekki kunnu til verka réttu handtökin. myndir
Nánar ...
10.okt. 2008

Efnahagsmálin rædd

Anna Birna Jensdóttir hélt í morgun fund með íbúum og starfsfólki um efnahagskreppuna og starfsemina í Sóltúni. Sóltún er með samning við íslenska ríkið til 2027 um reksturinn. Starfsemi og stefna er alveg skýr, þó ráðdeildar sé þörf sem aldrei fyrr. Sóltún hefur verið afar lánsamt í starfsmannamálum og er það verðmætasti fjársjóðurinn þegar tryggja á gæði þjónustunnar. Við erfiðar aðstæður skiptir máli að starfsfólk, íbúar og ættingjar þjappi sér saman og standi vörð um líðan og hag fólks. Þó breytinga sé ekki að vænta í Sóltúni, getur bjátað á í fjölskyldum íbúa og starfsfólks sem valdið getur kvíða. Sóltún býður því uppá stuðningsviðtöl hjá djákna og hjúkrunarfræðingum.
Nánar ...
03.okt. 2008

Háþrýstidæla bræddi úr sér

Brunavarnakerfi Sóltúns gerði viðvart í nótt. Við athugun reyndist reykur í kjallara sem kom frá háþrýstidælu sem bræddi úr sér í lokuðu þvottarými. Slökkvilið kom á staðinn og reykræsti. Íbúum og starfsfólki varð ekki meint af.
Nánar ...
19.sep. 2008

Heimsókn frá Gotland kommun, Svíþjóð

Forráðamenn öldrunar-og félagsþjónustu Gotland kommune í Svíþjóð komu í heimsókn í Sóltún. Frá Félagsmálaráði þau Gustaf Hoffstedt formaður, Anna-Karin Hellström og Sonja Landin ásamt Mariann G. Luthman (alderomsorgchef), Lena Lager (socialdirektör)og Hanna Hallegard. Unnið er að endurskipulagningu á hugmyndafræði og framtíðaruppbyggingu í sveitarfélaginu. Fengu þau kynningu hjá Mörtu Jónsdóttur hjúkrunarstjóra um uppbyggingu og starfsemi Sóltúns, stefnu- og skorkort og árangur í þjónustu og mannauðsmálum.
Nánar ...
02.sep. 2008

Dagskrá símenntunar fyrir haustið 2008

Fræðslunefnd hefur gefið út dagskrá fyrir símenntun starfsfólks, íbúa og aðstandenda haustið 2008. Þetta er 12 dagskráin sem gefin er út frá opnun Sóltúns 2002. Símenntun er mikilvægur liður í því lærdómsumhverfi sem Sóltún er
Nánar ...
12.ágú. 2008

Biðlisti eftir störfum í Sóltúni

Mikil eftirspurn er eftir störfum í Sóltúni eins og svo oft áður. Búið er að ráða í allar stöður fyrir veturinn, en áhugasamir geta fyllt út atvinnuumsókn sem fer þá á biðlista ef einhverjar vaktir skyldu losna.
Nánar ...
05.ágú. 2008

Frábært sumarstarfsfólk

Veðrið hefur leikið við íbúa og starfsfólk Sóltúns í sumar. Fólk hefur notið útiveru og fallega skjólsæla garðsins umhverfis Sóltún. Svalir hafa einnig verið vel nýttar til sólbaða og útivistar. Grillveislur hafa verið reglulega og í öll skiptin hefur verið snætt úti. Heimilið hefur verið svo lánsamt að hafa fengið til liðs frábært ungt fólk í sumarafleysingar. Flest þeirra eru að mennta sig í heilbrigðisgreinum eða í framhaldsskóla. Störf þeirra, framkoma og virðing hefur verið til fyrirmyndar og munu sum þeirra starfa með okkur í vetur með námi.
Nánar ...
07.júl. 2008

Tónlistarskemmtun

Tónlistarmaðurinn Sverrir Norland kom í heimsókn í Sóltún mánudaginn 7. júlí og flutti íbúum og starfsfólki frumsamin lög og texta. Spilaði hann bæði á gítar og munnhörpu. Sverrir er þátttakandi í verkefninu ,,Skapandi sumarstarf" á vegum Hins hússins og kallar hann sig hirðskáld Hins hússins.Það var ánægjulegt að fá Sverri í heimsókn.
Nánar ...
20.maí 2008

Írskir þemadagar í Sóltúni

Sóltún hefur staðið fyrir þemadögum undanfarin ár, þar sem ákveðið land hefur orðið fyrir valinu hverju sinni. Dagskrá er skipulögð með tilliti til menningar og lista, matarhefðar og húsið skreytt. Góðir gestir eru fengnir í heimsókn. Að þessu sinni verða írskir dagar 21.-22.maí og mun m.a., ræðismaður íra á Íslandi Davíð Sch. Thorsteinsson heiðra Sóltún með heimsókn sinni og Pauline Mc Carthy syngja keltnesk lög.
Nánar ...
18.apr. 2008

Vel heppnuð vorgleði

Vorgleðin í gærkvöldi heppnaðist sérlega vel, auk 92 íbúa heimilisins tóku þátt 69 gestir þeirra og starfsfólk. Klukkan 18 kom sparibúin hópur saman í fordrykk í miðjusvæði hússins. Þar var einnig boðið uppá kokteilbita. Síðan var sest að borðum í öllum 12 borðstofum heimilisins. Eldhús Sóltúns fékk mikið hrós fyrir púrtvínslegið lambafille sem borið var fram með dijonsósu, léttsteiktu grænmeti á saltbeði og kartöflum. Í eftirrétt var karamellu-súkkulaðipíramídi og kaffi. Að loknum kvöldverði skemmtu þau Ragnheiður Hauksdóttir söngkona og Kristinn Valdimarsson í samkomusalnum.
Nánar ...
01.apr. 2008

Skiptinemar frá Danmörku í námsdvöl í Sóltúni

Þrír skiptinemar frá Danmörku verða hér í Sóltúni frá 1. apríl til 1. maí. Þetta er samstarfsverkefni sjúkraliðabrautar Fjölbrautaskólans við Ármúla og Humanica, Social- og Sundhedsuddannelserne, styrkt af menntaáætlun Evrópusambandsins (Leonardo da Vinci, college of basic social and health training programmes). Ákveðnir sjúkraliðar heimilisins fylgja nemunum eftir og gefa svo viðkomandi umsögn í lok tímabilsins en námsdvölin er metin til eininga.
Nánar ...
31.mar. 2008

Skroppið í Blómaval

Hópur íbúa á 1. hæð skrapp á Sóltúnsbílnum í Blómaval í Skútuvogi. Tilhlökkun lá í loftinu, þar sem fregnir voru af því að búið væri að setja fram fermingar- og páskaskreytingar. Nauðsynlegt er að fylgjast með tískunni í þessum efnum og tíðarandanum. Heldur kalt var í veðri en loðhúfur og góðar kápur björguðu málum. Það var glatt fólk sem kom til baka og höfðu sumir verslað til að punta inni hjá sér.
Nánar ...
25.mar. 2008

Söngveisla í Sóltúni

Það var sannkölluð söngveisla í Sóltúni þriðjudaginn 25.mars. Þá streymdi að prúðbúin söngsveit karla og kvenna úr Óperukór Hafnarfjarðar. Elín Ósk Óskarsdóttir söngkona stjórnaði kórnum á upplífgandi hátt undir píanóleik Peter Máté. Verndari kórsins frá upphafi er Þuríður Pálsdóttir. Íbúar, gestir þeirra og starfsfólk þakka kærlega fyrir yndislega og gefandi heimsókn snilldar tónlistarfólks.
Nánar ...
15.mar. 2008

Minningasjóður kaupir skutlur

Minningasjóður Sóltúns hefur það að lykilmarkmiði að bæta aðbúnað íbúa og vinnuumhverfi starfsfólks. Nýlega færði sjóðurinn heimilinu þjár skutlur, eina fyrir hverja hæð. Skutlurnar nýtast íbúum vel við að komast milli staða í húsinu og létta umönnun starfsfólks. Skutlurnar voru keyptar hjá Fastus.
Nánar ...
11.mar. 2008

Hjúkrunarstjórnendur frá Noregi í námsheimsókn

Tólf hjúkrunarstjórnendur frá hjúkrunarheimilunum Okern og Lilleborg í Osló Noregi komu í heimsókn þann 11. mars 2008. Markmið heimsóknarinnar var að skoða heimilið og kynnast uppbyggingu starfseminar og fræðast um árangur okkar í starfi (m.a. í starfsmannamálum). Þau voru mjög áhugasöm um Vigil hjúkrunarvöktunarkerfið ekki síst m.t.t. þeirra sem þjást af heilabilun. Þau lýstu ánægðju með heimsóknina og höfðu á orði að þau hefðu fengið góðar hugmyndir með sér heim.
Nánar ...
08.feb. 2008

Gjöf í minningu Guðnýjar Kristrúnar Níelsdóttur

Börn Guðnýjar Kristrúnar Níelsdóttur, þau Páll Ólafur Stefánsson, Hildur Stefánsdóttir og Soffía Stefánsdóttir færðu sambýlum á 2. hæð Sóltúni tvo glæsilega leður hægindastóla í minningu hennar. Stólarnir hafa heldur betur slegið í gegn enda eru þeir ákaflega þægilegir að sitja eða halla sér í og eru í miklu uppáhaldi hjá íbúum. Er fjölskyldunni færðar kærar þakkir fyrir þessa rausnarlegu gjöf frá íbúum og starfsfólki heimilisins.<
Nánar ...
25.jan. 2008

Þorrinn blótaður á bóndadaginn

Íbúar,aðstandendur og starfsfólk skemmtu sér á þorrablóti 25.janúar síðastliðinn. Í hádeginu var snæddur gómsætur þorramatur og hákarlinn smakkaðist vel með brennivínsstaupinu.Ólafur Ólafsson harmonikkuleikari spilaði og Ingibjörg Ólafsdóttir söngkona tók nokkur lög. Sigurjón Guðnason og Sigurður Elí Haraldsson leiddu fjöldasöng, Jón Jóhannsson fór með minni kvenna og Þórdís S. Hannesdóttir fór með minni karla.<
Nánar ...
18.jan. 2008

Vel heppnuð ráðstefna Sóltúns

Um 80 manns sóttu ráðstefnu Sóltúns um gæðavísa og gæðaumbætur í öldrunarþjónustu í gær þrátt fyrir ófærð og afleitt veður. Í framahaldi af fundinum hefur Sóltún ákveðið að birta niðurstöður gæðavísa á heimilinu og er fyrst íslenskra hjúkrunarheimila sem það gerir.
Nánar ...
16.nóv. 2007

Dagur íslenskrar tungu

Fyrir nokkru fengum við í heimsókn föngulegan hóp barna frá leikskólanum Dvergasteini. Þau hafa verið að æfa íslensk lög í tilefni íslenskrar tungu sem þau táknuðu einnig með af mikilli leikni og innilfun. Undirleikari var Ragnheiður Baldursdóttir starfsmaður hér í Sóltúni sem spilaði undir á gítar.Þau sungu í salnum við áheyrn fjöld íbúa, einnig fylgdust fjölmargir með útsendingu í innanhúss sjónvarpskerfi Sóltúns.
Nánar ...
13.nóv. 2007

Íbúaþing haldið 6. starfsárið í röð

Góð mæting var á 6.íbúaþing Sóltúns sem haldið var í samkomusal Sóltúns í dag. Fjölmargir fylgdust einnig með útsendingu af þinginu í innanhúss sjónvarpskerfinu. Stjórnendur Sóltúns; Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri, hjúkrunarstjórarnir; Marta Jónsdóttir, Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir og Guðrún Björg Guðmundsdóttir og Aðalbjörg Íris Ólafsóttir frá sjúkraþjálfun, Hildur Þráinsdóttir frá iðjuþjálfun, Jón Jóhannsson fyrir sálgæslu og Þórdís S. Hannesdóttir fyrir húsumsjón, ræstingu og eldhús greindu frá upplýsingum um þjónustu, mannauð, gæða- og umbótaverkefni og fjármálarekstur í starfseminni. Farið var yfir þau mál sem eru í deiglunni s.s. framtíðaruppbyggingu, viðhald, þróunarverkefni, stefnumörkun, skipulag fram að áramótum, þátt íbúa- og vinaráðs og fleira. Íbúar tóku einnig til máls og komu með ábendingu og færðu þakkir fyrir góða þjónustu.
Nánar ...
09.nóv. 2007

Ráðuneytisstjóri HTR heimsækir Sóltún

Berglind Ásgeirsdóttir nýr ráðuneytissjtóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu heimsótti Sóltún í dag. Hitti hún Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra og Jóhann Óla Guðmundsson stjórnarformann og fór yfir starfsemi og árangur í starfi heimilisins. Í framhaldi af því heilsaði hún uppá íbúa og starfsfólk á 1.hæð.
Nánar ...
07.nóv. 2007

Hjúkrunarfræðingar í diplomanámi við Háskóla Íslands

Á annan tug hjúkrunarfræðinga í diplomanámi í öldrunarhjúkrun við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands heimsóttu Sóltún í dag. Heimsóknin hófst með því að snæða saman í glæsilegri kaffiteríu heimsilins í hádeginu. Síðan heimsóttu nemendur sambýlin og kynntu sér hjúkrunarþjónustuna, árangursstjórnun gengum skorkort Sóltúns og rafræna sjúkraskráningu. Athyglisvert var að sjá að nemendur höfðu í fórum sínum matstæki ,,Sjáanlegar vísbendingar um gæði öldrunarhjúkrunar" sem Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarforstjóri Sóltúns og Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri þjónustu við minnisskerta íbúa Sóltúns þýddu og staðfærðu fyrir allnokkrum árum ásamt Ingibjörgu Hjaltadóttur og Hlíf Guðmundsdóttur forsvarsmönnnum hjúkrunar á öldrunarsviði LSH. Áhugavert verður að sjá niðurstöður þeirra. Hópurinn endaði heimsókn sína með því að hlýða á framsögu í fræðslusal með starfsfólki, íbúum og aðstandendum á vikulegum símenntunardegi i Sóltúni.
Nánar ...
03.nóv. 2007

Árshátíð starfsfólks heppnaðist vel

Árshátíð starfsmanna var haldin laugardaginn 3/11, 2007 á hótel Loftleiðum. 116 veislugestir voru skráðir til leiks og nutu yndislegrar kvöldstundar. Veislustjórar voru þeir Stefán Íslandi, Davíð Ólafsson og Helgi Hannesson spilaði á píanó. Það var samdóma álit veislugesta að þeir hefðu hreinlega farið á kostum.
Happdrættið var á sínum stað. Mjög margir og veglegir vinningar voru í boði. Þær Guðrún Ruth Jósepsdóttir, verkefnastjóri og Kolbrún Ólafsdóttir á 2. hæð auk Guðlínar Óskar Bragadóttur, móttökustjóra sáu til þess að svo væri. Þær höfðu samband við 49 fyrirtæki sem gáfu 85 flotta og nytsama vinninga. Var þeim stöllum veitt sérstök viðurkenning fyrir þetta afrek á fjölmennum starfsmannafundi 8/11 2007. Í tilefni af árshátíð starfsmanna var sérstaklega gott að borða fyrir íbúa og starfsmenn í vinnu þetta kvöld.
Nánar ...
01.nóv. 2007

Hádegistónleikar í Hafnarborg

Íbúar og starfsfólk (alla 9 manns) fóru héðan frá Sóltúni á hádegistónleika Í Hafnarborg fimmtudaginn 1.nóvember.Elín Ósk Óskarsdóttir sópransöngkona var gestur Antoníu á þessum tónleikum, á efnisskrá voru þýsk verk.Hafnarborg, hefur frá í ágúst 2003 staðið fyrir tónleikum í hádegi fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði. Frá upphafi hefur Antonía Hevesi píanóleikari verið listrænn stjórnandi þessara tónleikaraðar og hafa íbúar Sóltúns farðið héðan í litlum hópum á svo til flesta tónleika.
Nánar ...
25.okt. 2007

Aldrei fleiri á haustfagnaði

Fimmtudagskvöldið 25. október var árlegur haustfagnaður í Sóltúni. Um 200 manns; íbúar, ættingjar þeirra og starfsfólk gæddu sér á bláberjakryddlegnu og steiktu lambafille með villibráðasósu og tilheyrandi meðlæti í aðalrétt og skyrtertu með berjum, púrtvíni og kaffi í eftirrétt. Kvöldverðurinn fór fram í öllum 12 borðstofum heimilisins frá kl. 18-19:30. Eftir það var boðið uppá tónleika í samkomusalnum þar sem Hulda Björk Garðarsdóttir óperusöngkona söng við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur píanóleikara. Síðan bættust nokkrar söngsystur úr röðum starfsfólks í Sóltúni við og leiddu þær fjöldasöng fram eftir kveldi. Kvöldið var afar vel heppnað.
Nánar ...
19.okt. 2007

Hátíðarstund í Sóltúni

Það var fagnaðar- og hátíðarblær yfir október guðsþjónustunni okkar hér í Sóltúni. Ekki einungis fengum við að fagna góðum gesti, sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur, sem í byrjum október tók við prestsembætti í Dómkirkjunni. Því þennan sama dag var einnig fagnað nýrri þýðingu Biblíunnar með hátíðarstund í Dómkirkjunni kl 11:00 þar sem forseta Íslands og öðrum í æðstu embættum þjóðfélagsins var afhent fyrstu eintök Biblíunnar. Kl 14:00 var svo guðsþjónusta hér í Sótúni þar sem við á sérstakan hátt með þátttöku íbúa, aðstandenda og starfsfólks fögnuðum og tókum í notkun hina nýju útgáfu Biblíunnar. Tónlist var í umsjá Gunnars Gunnarssonar og Þorvaldar Þorvaldssonar, fluttu þeir meðal annars sálminn fallega “Góður engill Guðs oss leiðir” við lag eftir Ísólf Pálsson, afa sr.Önnu Sigríðar.
Almenn og góð þátttaka var í guðsþjónustunni og má geta þess að í umræðum í messukaffinu á eftir kom meðal annars fram að fólki fannst sá texti Biblíunnar, sem lesinn var í stundinni áheyrilegur og kallaði á að lesið yrði meira úr hinni helgu bók.
Telja má nokkuð víst, að við hér í Sóltúni höfum verið fyrst til að fagna hinni nýju Biblíuútgáfu með guðsþjónustu.
Öllum, sem á einn eða annan hátt tóku þátt í undirbúningi að umgjörð og framkvæmd guðsþjónustunnar eru færðar alúðar þakkir. Jón Jóhannsson djákni
Nánar ...
15.okt. 2007

Skokkhópur starfsfólks

Frá 1. október sl. hefur verið starfræktur skokkhópur starfsmanna Sóltúns. Hópurinn hefur það að markmiði að byrjendur geti skokkað 5 km samfellt eftir 10 vikna þjálfun. Hópurinn hittist alla mánudaga og miðvikudaga kl. 16:10 við Laugardalslaug. Skokkað er í Laugardalnum og æfingu lýkur kl. 16:50.
Nánar ...
01.okt. 2007

Ný standgrind í sjúkraþjálfun

Minningarsjóður Sóltúns keypti nýlega standgrind (Easystand Ovation Strap stand)til notkunar í sjúkraþjálfun. Innflutningsaðili er STS hf.Standgrindin kemur fyrst og fremst til góða fyrir þá íbúa hjúkrunarheimilisins sem bundnir eru hjólastól, en það á við um ríflega helming íbúa. Standgrindin gerir fólki sem ekki getur staðið sjálft, kleift að standa upprétt. Ávinningur þess að geta staðið vinnur á móti kreppum í mjöðmum, hjám og ökklum. Það vinnur ennfremur á móti vöðvastífni (spasma)og beinþynningu. Það hefur jákvæð áhrif á blóðrásina, öndun og styrkir bolvöðva.
Nánar ...
26.sep. 2007

Vel sóttur námsdagur starfsfólks

Fræðslunefnd Sóltúns stóð fyrir árlegum fræðsludegi fyrir starfsmenn 26. september 2007. Dagarnir hafa verið sannkölluð næring fyrir líkama og sál. Þema dagsins að þessu sinni var hugurinn, sterkasta aflið. Fyrirlesari var Jóhann Thoroddsen, sálfræðingur. Fjallað var m.a. um afstöðu hugarfarsins og heilbrigði, hvað mótar hugsun fólks og hvers vegna neikvæðar hugsanir hafa svo mikil áhrif.Að loknum fyrirlestrum var boðið upp á veisluborð að hætti Sóltúns. Einnig voru viðurkenningarskjöl fyrir þátttöku í fræðslu síðastliðinn vetur afhent.
Nánar ...
20.sep. 2007

Kartöflu- og rófuuppskera

Börn úr Laugarnesskóla komu 20. september og hjálpuðu íbúum og starfsfólki að taka upp kartöflur og rófur úr matjurtagarðinum. Kalt var í veðri, en hópurinn lét það ekki á sig fá. Boðið var uppá heitt kakó á eftir. Samvinnan milli kynslóðanna er ómetanleg.
Nánar ...
20.sep. 2007

Söngleikurinn Ást

Tuttugu manna hópur, íbúar, aðstandendur og starfsfólk fór að sjá söngleikinn ,,Ást" í Borgarleikhúsinu þann 20.september. Anna Kristín frá Borgarleikhúsinu sá til þess að allir fengju góð sæti og vel færi um fólk. Borgarleikhúsinu og Landsbankanum eru færðar kærar þakkir fyrir að bjóða eldri borgurum að gera sér glaðan dag með söng og gleði ásamt kaffi og kleinum í hléinu. Boðið var uppá sérstakt afsláttarverð og frían akstur. Allir skemmtu sér vel.
Nánar ...
18.sep. 2007

Hjúkrunarforstjórar funda um RAI mat

Hjúkrunarforstjórar hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu funduðu í dag um RAI mat. Farið var yfir forsendur þyngdarstuðlaútreikninga og ræddar leiðir við framkvæmd matsins.
Nánar ...
01.ágú. 2007

Félagsmálaráðherra heimsótti Sóltún

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heimsótti Sóltún í dag ásamt Ragnhildi Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra og Hrannari B. Arnarsyni aðstoðarmanni sínum. Þau kynntu sér starfsemi heimilisins og heilsuðu uppá á íbúa og starfsfólk.
Nánar ...
22.júl. 2007

Starfsmannafélagið í fjölskylduferð

Þann 22. september sl. bauð Öldungur starfsfólki ásamt fjölskyldum í árlega fjölskylduferð. Ferðinni var heitið á Sólheima í Grímsnesi og í dýragarðinn Slakka í Laugaási. Ferðin heppnaðist í alla staði mjög vel og 65 manns tóku þátt í henni. Á Sólheimum var vel tekið á móti hópnum og naut hann leiðsagnar um staðinn. Á heimleiðinni var svo komið við í Slakka þar sem STÖLD grillaði pylsur og börnin nutu þess að skoða dýrin.
Nánar ...
14.júl. 2007

Stjórnmálaflokkar kynna stefnuskrár

Utankjörfundaatkvæðagreiðsla vegna Alþingiskosninga verður í Sóltúni 2. maí kl. 16-18. Stjórnmálaflokkar kynna stefnuskrá sína og heilsa uppá íbúa og starfsfólk sem hér segir: 11. apríl kl. 11 Frambjóðendur Framsóknarflokksins 17. apríl kl. 11 Frambjóðendur Vinstri grænna
25. apríl kl. 11 Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins 30. apríl kl. 11 Frambjóðendur Samfylkingar
Nánar ...
13.jún. 2007

Kvennahlaup ÍSÍ og Sóltúns 2007

Konur í Sóltúni tóku í annað sinn þátt í kvennahlaupi ÍSÍ. Formlega voru 38 skráðir til þátttöku en 74 fóru hins vegar hlaupið, og að sjálfsögðu var heimilishundurinn Stemma með. Elsti þátttakandinn var 97 ára og langömmubarn hennar 5 ára var sú yngsta. Þær voru báðar að fara hlaupið í fyrsta sinn. Starfsfólk og ættingjar óku þeim sem voru í hjólastólum. Karlar tóku á móti og afhentu verðlaunapening fyrir þátttökuna.Í samkomusalnum tróð síðan upp Jazzkvintettinn Tepokar. Þetta var frábær dagur.
Nánar ...
18.maí 2007

Norskir þemadagar í Sóltúni 16-17.maí 2007

Sóltún stóð fyrir norskum dögum 16.-17.maí. Húsið var skreytt að norskum hætti og norska fánanum flaggað.Garðar Cortes og óperukórinn söng með íbúum í samkomusalnum.Norski sendiherrann Guttorm Vik heiðraði íbúa Sóltúns með því að koma við og taka lagið með fólkinu.Á uppstigningardag og þjóðhátíðardegi Norðmanna var norsk/íslensk guðþjónusta í samkomusalnum. Sr.Björgvin Snorrason þjónaði ásamt Jóni Jóhannssyni djákna.Einsöngvari var Elva Lind Þorsteinsdóttir og undirleikari Katrín Brynjólfsdóttir. Guðjón Snorri Björgvinsson flutti ritningalestur.
Boðið var uppá hefðbundinn norskan matseðil þar sem í morgunverð var geitaostur, mysingur og hrökkbrauð til viðbótar hinu hefðbundna.Fyrri daginn var soðinn þorskur í smjörsósu, kartöflur og grænmeti að hætti norðmanna og grænertusúpa í eftirrétt. Lefsur á norska vísu voru með kaffinu í samkomusal og í borðstofum og í kvöldmat Får í kål–Lambakjöt soðið í hvítkáli borið fram með kartöflum og Römmegröt–norskur mjólkurgrautur var í eftirrétt. Seinni daginn var hangikjöt,kartöflur í jafningi og rauðkál og ís í eftirrétt.Í messukaffinu var boðið uppá möndluhnetuköku með rjóma, jarðaberjum og hindberjum.Kvöldverðurinn samanstóð af soðnum laxi, kartöflum, agúrkurm, smjöri og ferskum ávöxtum.
Nánar ...
04.maí 2007

Óvissuferð starfsfólks 4.maí

Starfsmannafélagið STÖLD stóð fyrir óvissuferð í framhaldi af aðalfundi þann 4.maí síðastliðinn. Þema ferðarinnar var rautt. Hitað var upp með danskennslu og síðan haldið í siglingu um sundin blá. Heilsað var uppá birgja sem tóku vel á móti hópnum með fræðslu og veitingum. Sóltún bauð síðan upp á grillveislu í Garðaholti. Þar var spáð í fólk, sungið og skemmt sér vel fram á nótt.
Nánar ...
01.maí 2007

Sóltún rannsóknarefni erlends háskóla

Hugmyndafræði og mannauðsstjórnun í Sóltúni hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Tveir prófessorar í hjúkrun þær Ann Bossen og Janet Specht hafa heimsótt Sóltún í tvígang, fyrst árið 2006 og aftur 2007. Í framhaldi af því ákvaðu þær í samstarfi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Sóltún að vinna rannsóknarverkefni um efnið, þar sem þær telja að það eigi erindi til annarra.
Nánar ...
10.feb. 2007

Íbúar Sóltúns styrkja ABC barnahjálpina

Handverkshópur iðjuþjálfunardeildar í Sóltúni gaf ABC barnahjálp ágóða af jólasölu handverksmuna síðastliðinna tveggja ára. Upphæðin nam 40.000.- kr.og valdi hópurinn að framlagið skyldi notað til uppbyggingar á heimavist og kojum fyrir 4 stúlkur í Úganda, en þar eru ungar stúlkur sem ekki hafa öruggt skjól í mikilli áhættu að smitast af alnæmi.
Handverkshópurinn bauð Guðrúnu Margréti Pálsdóttur forstöðukonu og stofnanda barnahjálparinnar í heimsókn til að veita gjöfinni móttöku og fræða hópinn um starfsemina ABC barnahjálp var stofnað 1988 með það meginmarkmið að efla og styrkja aðgang barna að menntun og fræðslu. Starfið hefur vaxið ört og í dag styrkir barnahjálpin um 5600 fátæk og umkomulaus börn með skólagöngu, læknishjálp, fæði og klæði. Um 2200 þeirra fá fulla framfærslu og húsaskjól á heimilum ABC.
Nánar ...
09.feb. 2007

Hreinlæti og öryggi haldast í hendur-þemavika

Yfirskrift árlegrar þemaviku í Sóltúni sem hefst um helgina er ,,Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur".Unnið verður með fræðslu og vitunareflingu um mikilvægi forvarna í daglegu starfi. Á hverjum degi verður lögð áhersla á mikilvægi ákveðinna þátta s.s. handþvottar, byltuvarna, umgengni við lyf og öryggi í lyfjagjöf, sýkingavarnir og umgengni við matvæli.
Nánar ...
08.jan. 2007

5. ára starfsafmæli fagnað í Sóltúni

Þann 7. janúar fögnuðu íbúar, aðstandendur og starfsfólk 5 ára starfsafmæli Sóltúns. Yfir eitt hundrað manns komu saman til hátíðarguðþjónustu í samkomusalnum. Þeir sem veikir voru og treystu sér ekki í salinn nutu stundarinnar með því að fylgjast með í innra sjónvarpskerfi hússins.Biskup Íslands Karl Sigurbjörnsson predikaði og þjónaði fyrir altari ásamt prófasti Jóni Dalbú Hrjóbjartsyni, sóknarpresti Hildi Eir Bolladóttur og Jóni Jóhannssyni djákna Sóltúns. Ávarp flutti Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri Sóltúns.Kvartett Þorvaldar Þorvaldssonar söng undir píanóleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Í framhaldi af altarisgöngu var boðið til afmæliskaffisamsætis.<
Nánar ...
23.okt. 2006

Slátur tekið í 5.sinn í Sóltúni

Að taka slátur er gamall siður sem við er haldið í Sóltúni.Allt frá því að Sóltún opnaði árið 2002 hefur verið tekið slátur þar sem íbúar og starfsfólk vinna saman í sláturgerðinni.
Nánar ...
19.okt. 2006

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra í heimsókn

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra heimsótti Sóltún ásamt Vilborgu Ingólfsdóttur skrifstofustjóra öldrunarmála í heilbrigðisráðuneytinu. Áttu þær fund með Jóhanni Óla Guðmundssyni stjórnarformanni og Önnu Birnu Jensdóttur framkvæmdastjóra. Jafnframt heilsuðu þær upp á íbúa og starfsfólk og kynntu sér aðbúnað.
Nánar ...
14.sep. 2006

Heimsókn frá Euro-diakonia samtökunum

Í dag, heimsótti Sóltún, Heidi Paakjaer Martinussen framkvæmdastjóri evrópsku kærleikssamtakanna Eurodiakonia.
Heidi er hér á ferð í boði Djáknafélags Íslands. En Djáknafélagið í samstarfi við Guðfræðideild Háskóla Íslands og Biskupsstofu standa fyrir málþingi á morgun föstudag 15. september, sem ber heitið "Kærleiksþjónustan og kirkjan í dag" þingið sem er öllum opið, er haldið í hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands.
Þinginu er ætlað að koma af stað virkri og faglegri umræðu um kærleiksþjónustuna.

Heidi fræddist um starf djákna og almennt um lífið og starfið hér í Sóltúni, auk þess heimsótti hún einn íbúa og áttu þær spjall saman. Heidi fannst afar heimilislegt og notalegt að koma hingað auk þess sem hún hreyfst af hugmyndafræði Sóltúns og starfinu almennt. Hún var afar þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma hingað í heimsókn og biður heimilinu Guðs blessunar.
Nánar ...
05.sep. 2006

Norðmenn í námsheimsókn í Sóltúni

Tveir hópar norðmanna voru í heimsókn í Sóltúni í vikunni. Frá Sandness kommune komu hjúkrunarfræðingar frá hjúkrunarheimilum og heimahjúkrun að kynna sér hugmyndafræði og starfssemi Sóltúns. Ennfremur komu tveir hjúkrunarfræðingar frá Félagi öldrunarhjúkrunarfræðinga í Noregi.
Nánar ...
23.ágú. 2006

Fyrsti uppskerudagur

Í okkar fallega garði hefur gróðurinn í sumar sprottið sem aldrei fyrr og er 1.uppskerudagur fyrirhugaður á morgun fimmtudag 24.ágúst (ef veður leyfir). Fyrir hádegi reynum við að ná inn sem mestu af rifsberjum/rababara. Allir sem vettlingi geta valdið eru velkomnir til aðstoðar, því af nógu er að taka. Eftir hádegi reiknum við með að vinna úr uppskerunni (sulta) í kaffiteríunni og enn óskum við eftir áhugasömum, jafnvel þótt aðeins sé til að dást að uppskerunni.
Nánar ...
20.júl. 2006

Garðveisla í Sóltúni

Sóltúnsgarðurinn býður upp á góða aðstöðu til útiveru. Í góða veðrinu var slegið upp garðveislu með litlum fyrirvara. Grillað og snætt úti. Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilaði á píanóið og stjórnaði söng.
Nánar ...
08.jún. 2006

40 konur tóku þátt í kvennahlaupi

40 konur á aldursbilinu, yngst 9 ára og elst 98 ára fóru kvennahlaup ÍSÍ og Sóltúns í ágætu veðri í dag. Á leiðarenda biðu herrar sem afhentu stoltum konum viðurkenningarpening hlaupsins.
Nánar ...
15.mar. 2006

Breskur þemadagur í Sóltúni

Íbúar, starfsfólk og aðstandendur gerðu sér glaðan dag þann 15.mars. Húsið var skreytt með bresku fánalitunum og ýmsu sem tengist breskri menningu. Breska sendiráðið lagði á ráðin með okkur um matseðil dagsins. Í morgunverð var ristað brauð með osti og marmelaði, beikon, hrærð egg og pylsur(Toast with chees and marmelade, bacon, scrambled eggs and sausages). Klukkan 11 kom Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari sem stjórnaði fjöldasöng í samkomusalnum. Sungið var m.a. ,,My Bonny is over the ocean", ,,Kvöldið er fagurt" enskt þjóðlag með texta Ingólfs Þorsteinssonar og ,,Í sal hans hátignar". Í hádeginu gæddi fólk sér á steiktu lambalæri með brúnni sósu, gulrótum og steiktum kartöflum. Sítirónubúðingur var í eftirrétt (Roasted lamb with brown gravy, carrots, roasted potatoes and lemmon pudding). Milli klukkan 14:30-16:00 var ,,Afternoon tee" í samkomusalnum þar sem boðið var upp á te, kaffi,enskar skonsur með sultu og rjóma og gúrkusamlokur (scones and cucumber sandwithes). Vinabandið kom frá Gerðubergi og skemmti með söng og spili. Þórhallur Guttormsson íbúi í Sóltúni flutti ljóð eftir John Keets bæði á ensku og í íslenskri þýðingu.Síðan heiðraði breski sendiherran Alp Mehmet okkur með heimsókn sinni og lék atriði úr Oliver Twist. Helga Dögg þroskaþjálfanemi flutti ýmsan fróðleik um englendinga og ensk spakmæli.Úr varð hin mesta skemmtun og naut fólks samverunnar. Í kvöldverð var síðan steikt rauðspretta með remolaði og frönskum kartöflum. Ferskir ávextir voru í eftirrétt (Fish and chips, fresh fruites).
Nánar ...
25.feb. 2006

Píanónemendur úr Suzuki skólanum

Ungir píanónemendur frá Suzuki skólanum komu í Sóltún og spiluðu fyrir íbúa og starfsfólk þann 24.febrúar. Börnin stóðu sig mjög vel og er þeim þakkað kærlega fyrir heimsóknina.
Nánar ...
21.jan. 2006

Glæsilegt þorrablót í Sóltúni

Á bóndadaginn var haldið glæsilegt þorrablót í Sóltúni. Íbúar og gestir þeirra nutu þorramatar sem borin var fram í trogum ásamt hákarli og brennivíni að íslenslum sið. Boðið var uppá innanhúss skemmtiatriði og fór Þórhallur Guttormsson þar fremstur í flokki. Signý Sæmundsdóttir sópransöngkona ásamt Þóru Fríðu Sæmundsdóttur píanóleikara héldu tónleika í samkomusalnum að borðhaldi loknu og stjórnuðu samsöng. Kvöldið var 5 stjörnu að mati þátttakenda.
Nánar ...
12.jan. 2006

Fríðuhúskórinn í heimsókn

Kór dvalargesta í Fríðuhúsi heimsóttu íbúa Sóltúns fimmtudaginn 12.janúar. Skemmtu þeir íbúum með söng og píanóleik í samkomusalnum og eru þeim færðar kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
09.jan. 2006

Þingflokksmenn í Framsókn heimsækja Sóltún

Nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins kynntu sér starfsemi Sóltúns í dag og heilsuð upp á íbúa og starfsfólk. Í hópnum voru Guðni Ágústsson landbúnaðráðherra og þingmennirnir Magnús Stefánsson, Dagný Jónsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson.
Nánar ...
07.jan. 2006

Sóltún fagnar 4 ára starfsafmæli

Þann 7. janúar 2002 opnaði hjúkrunarheimilið Sóltún og hefur því starfað í 4 ár. Starfsemin hefur einkennst af mikilli uppbyggingu á innra starfi og góðum árangri. Gæðateymi eru starfandi í öllum helstu viðfangsefnum hjúkrunar og þjálfunar, góður árangur hefur náðst af því starfi. Stöðugleiki er í öflugum hópi starfsfólks og er það lykillinn að góðum árangri. Eftirspurn eftir þjónustu er sífellt vaxandi og mikil þörf eftir að komast í hjúkrunarrými. Sóltún hefur því lagt fram umsókn um rekstrarleyfi til heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis fyrir 109 hjúkrunarrýmum til viðbótar á lóðinni Sóltún 2-4.
Nánar ...
23.des. 2005

Teppi gefin í Sóltún

Helga Helgadóttir og Guðrún Jónsdóttir úr Gerðubergi komu færandi hendi þegar þær gáfu heimilinu hekluð teppi og mynd. Ekki er vafi á að teppin munu ylja og gleðja heimilisfólkið.
Nánar ...
10.nóv. 2005

Danskir þemadagar í Sóltúni

Síðastliðinn þriðjudag héldum við starfsfólk og íbúar danskan dag.Tilgangurinn var að breyta til, skemmta okkur og auka á lífsgleði okkar allra. Skreytt var með danska fánanum. Við byrjuðum daginn með að fá rúnstykki með spægipylsu. Síðan var ýmislegt á dagskránni s.s. hlustað á danska tónlist og sungið. Einnig var ýmiss upplestur, fróðleikur um Danmörk, ævintýri um HC Andersen að ógleymdu spjalli um konungsfjölskylduna. Áður en sest var að snæðingi las Jón djákni borðbæn á dönsku ,,Herre, velsign os og disse gaver som vi skal modtage af Din milde godhed ved Kristus vor Herre. Amen.Hann fór líka með passíusálm sem þýddur var á dönsku af Birni Sigurbjörnssyni ,,Gud fader, vær med fader sind, i Jesu navn min fader, led mig ved hånden ud og ind, så synden aldrig skader." Á matseðlinum var ekta danskt hlaðborð; Síld, frikkadellur, hönsesalat,Rauðkál, rauðbeður, kartöflusalat og gróft brauð. Með því drukkið pilsner og Gammel dansk. Í lokin var horft á danska bíómynd. Í kaffinu voru sérbökuð vínabrauð – að hætti Dana og kvöldverðurinn samanstóð af steiktri rauðspretta með remólaði, salati og kartöflum. Kaldur búðingur var í eftirrétt. Öllum ber saman um að vel hafi tekist til. Íbúar létu í ljós mikla ánægju með þessa tilbreytni og mátti sjá einstaka íbúa stíga dans undir ljúfum tónum Kim Larsen.
Nánar ...
07.nóv. 2005

Í boði Laugarnessafnaðar

Allt frá því að Sóltún opnaði hefur Lauganessöfnuður boðið íbúum Sóltúns og fjölskyldum þeirra í guðsþjónustu í Lauganeskirkju á Allra heilagra messu og í kaffiveitingar á eftir. Það var engin undantekning á því þetta árið, um fimmtíu manns voru samankomir við fallega athöfn í Laugarneskirkju, þar sem framkvæmdarstjóri safnaðarins, Sigurbjörn Þorkelsson bauð fólk velkomið og leiddi upphafsbæn. Sóknarpresturinn, sr. Bjarni Karlsson predíkaði og þjónaði fyrir altari ásamt Jóni Jóhannssyni, djákna Sóltúns, félagar úr kirkjukór Laugarneskirkju leiddu söng. Að lokinni guðsþjónustu var haldið sem leið lá út á Grand hótel, þar sem biðu okkar kaffiveitingar. Þar áttum við notalega stund við samræður yfir veitingum og ekki skemmdi fyrir, að sr. Bjarni af sinni alkunnu snild fór á kostum með skemmtilegum frásögum og bröndurum. Í lokin kom sr. Bjarni inn á hið góða samstarf og vináttu, sem verið hefur á milli Laugarneskirkju og Sóltúns allt frá upphafi. Var það einlæg von hans að þannig mætti það vera áfram um ókomna tíð. Fyrir hönd Sóltúns steig Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri í pontu og þakkaði fyrir yndislega stund, bæði í kirkjunni og á Grand hóteli. Einnig færði Anna Birna, Eggerti Thorarensen bestu þakkir fyrir að útvega leigubíl, sem flutti okkur á milli staða.< Í lokin vil ég þakka íbúum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki fyrir góða þátttöku.Jón Jóhannsson djákni.
Nánar ...
05.okt. 2005

Flutningur foreldra með heilabilun á hjúkrunarheimili

Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri á 2.hæð Sóltúns varði í gær meistararitgerð sína við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.Heiti ritgerðarinnar er: Reynsla dætra af flutningi foreldra sem þjást af heilabilun á hjúkrunarheimili.Rannsóknin var framkvæmd á fimm hjúkrunarheimilum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og var Sóltún undanskilið þar sem J.Sigurveig starfar hér. Öldungur hf., óskar Júlíönu Sigurveigu til hamingju með áfangann.
Nánar ...
01.okt. 2005

Gjöf frá Thorvaldsensfélaginu

Þann 29. september komu félagskonur í Thorvaldsenfélaginu og kynntu sér starfsemi hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Færðu þær heimilinu óskir um farsælt starf og gáfu íbúum málverkið ,,Berjaaldan" að gjöf.
Nánar ...
27.ágú. 2005

Fjölskyldudagur starfsmannafélagsins

Starfsmannafélagið STÖLD stóð fyrir fjölskyldudegi laugardaginn 27.08.2005. Ferðin hófst með því að tveggja hæða strætisvagn sótti hópinn í Sóltún og fór með hann í skoðunarferð um Reykjavík. Veðrið var sérstaklega gott og leiðsögnin fróðleg. Síðan var haldið í Nauthólsvík þar sem fólk naut veðurblíðunnar við að svamla í volgu vatninu, leika sér og spjalla saman. Grillaðir voru hamborgarar og pylsur.
Nánar ...
14.jún. 2005

Grillveisla í sólskinsveðri

Þann 2.júní var voru sumarblómin gróðursett í Sóltúni. Síðan var slegið upp grillveislu í hádeginu. Á matseðlinum var marínerað lambakjöt með kartöflugratíni, kaldri sósu og hrásalati.Íspinni var í eftirrétt. Þorvaldur Björnsson harmonikkuleikari spilaði og Guðmunda Steingrímsdóttir stjórnaði fjöldasöng.
Nánar ...
07.jún. 2005

Kartöfluútsæðið sett niður

Gróðurhópurinn setti niður kartöflur í Sóltúnsgarðinum með góðri aðstoð barna úr Laugarnesskóla. Boðið var upp á grillaðar pylsur á eftir.
Nánar ...
27.apr. 2005

Ítalskir þemadagar í Sóltúni

Ítölsk stemning sveif yfir 1. hæðinni dagana 19. og 20. apríl síðastliðinn og var öll hæðin skreytt af þessu tilefni. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtu heimilismenn og starfsfólk sér mjög vel. Meðal annars var boðið var upp á upplestur á ítölskum smásögum, sýndar bíómyndir frá Ítalíu, hlustað á tónlist og að sjálfsögðu var maturinn ættaður frá Ítalíu. Fyrri daginn kom Michele Rebora frá Genova og sagði frá heimalandi sínu, en hann hefur verið búsettur hér í nokkur ár. Hafði hann frá mörgu að segja og voru íbúar almennt mjög ánægðir með heimsókn þessa. Seinni daginn komu nokkrar hressar konur úr Léttsveit Reykjavíkur ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur stjórnanda og Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara og sungu og skemmtu fólki með ítölskum lögum sem endaði í allsherjar fjöldasöng. Samstilltur hópur starfsmanna 1. hæðar og frábært starfsfólk eldhúss gerði það kleift að halda þessa hátíð. Þakklæti og gleði yfir velheppnuðum dögum eru efst í huga íbúa og starfsfólks sem bíða spenntir eftir næstu þemadögum. Þess má að lokum geta að áður hafa verið haldnir danskir og amerískir dagar í Sóltúni.
Nánar ...
18.apr. 2005

Vorfagnaður í Sóltúni

Íbúar og gestir þeirra fögnuðu vorkomunni ásamt starfsfólki Sóltúns fimmtudagskvöldið 14.apríl. Á matseðlinum var kalkúnn með heslihnetusósu og kartöflugratin og ómótstæðileg súkkulaðiterta með rjómatoppi og jarðaberjum í eftirrétt. Ólafur B. Ólafsson skemmti með harmonikkuspili, söng og píanaóundirleik. Hildur Vala Einarsdóttir idol stjarna kom og söng sig inn í hjörtu fólks. Þema kvöldsins voru hattar eða höfuðföt að eigin vali og kenndi þar margra skemmtilegra höfuðfata.
Nánar ...
12.apr. 2005

Nýtt rafmagnshjól í sjúkraþjálfun

Sóltún hefur keypt nýtt og mjög tæknivætt rafmagnshjól Motomed Viva til notkunar í sjúkraþjálfun. Tækið eykur möguleika þeirra sem ekki geta notað hefðbundið hjól til þjálfunar og hentar því vel t.d. minnisskertu fólki og þeim sem ekki geta stýrt hjóli sjálfir. Hjólið vinnur gegn stífni (spasma) í vöðvum, samhæfir vöðvakraft og mælir árangur þjálfunar. Tækið nær einnig að þjálfa veikustu vöðvana og hefur sjálfvirkan öryggisstoppara. Tækið hefur hlotið góðar viðtökur hjá íbúum. Söluaðili er Eirberg.
Nánar ...
23.mar. 2005

Höfuðbeina- og spjaldhryggjajöfnun

Í febrúar var byrjað að bjóða íbúum Sóltúns upp á höfuðbeina- og spjaldhryggjajöfnun. Tilgangur meðferðarinnar er að losa spennu sem veldur verkjum og kvíða og stuðla að betri líðan og jafnvægi. Meðferðin hefur mælst vel fyrir af íbúum og er komin biðlisti. Helga Björg Helgadóttir hjúkrunarfræðingur og höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnari veitir meðferðina.
Nánar ...
23.mar. 2005

Tónlistarmeðferð

Tónlistarmeðferð íbúa með heilabilun hefur verið virkur þáttur í þjónustu Sóltúns. Tilgangur tónlistarmeðferðar er að vinna gegn einmanaleika, vonleysi og aðgerðaleysi. Draga úr kvíða og óróleika, örva mál og efla hæfni einstaklings til að velja. Stuðla að betri líðan og jafnvægi,og efla félagslega samveru og lífsgæði.Tónlist höfðar mjög til fólks með minnissjúkdóma, sérstaklega þegar hún er í samræmi við tónlistarsmekk viðkomandi. Guðríður Björnsdóttir þroskaþjálfi hefur umsjón með meðferðinni.
Nánar ...
04.feb. 2005

52 starfsmenn fá starfsaldursviðurkennningu

Í kaffisamsæti 3. febrúar færði Sóltún þeim starfsmönnum sem hafa starfað frá opnun Sóltúns s.l. 3 ár, viðurkenningu. Stöðugleiki í starfsmannahaldi hefur mikla þýðingu fyrir gæði þjónustunnar og hefur heimilið verið lánsamt í þeim efnum. Starfsmannavelta var 13% árið 2003 og 18% árið 2004.
Nánar ...
02.feb. 2005

Gerðubergskórinn með tónleika

Gerðubergskórinn heimsótti Sóltún 1.febrúar og gladdi íbúa og starfsfólk með söng sínum. Gott samstarf hefur verið með eldri borgurum í Gerðubergi allt frá því að unnið var að opnun heimilisins. Reglulega njótum við heimsókna þeirra okkur til skemmtunar. Boðið var upp á nýbakaðar vöfflur með kaffinu.
Nánar ...
26.jan. 2005

Kb-banki með málverkasýningu í Sóltúni

Kb-banki styður við starfið í Sóltúni með málverkasýningu. Sýnd eru listaverk eftir íslenska listamenn. Almenn ánægja er með framtakið hjá íbúum og starfsfólki og fær Kb-banki kærar þakkir fyrir.
Nánar ...
17.des. 2004

Viðurkenningar veittar í jólaboði starfsfólks

Nú líður að því að fjórða starfsár Sóltúns hefjist þann 7. janúar 2005. Sjötíu starfsmenn hafa starfað í Sóltúni frá opnun og tíu til viðbótar sem hófu störf við undirbúning að opnun heimilisins seinustu mánuði ársins 2001. Í árlegu jólaboði starfsfólks þann 17.desember voru þeim veittar viðurkenningar. Fjórir starfsmenn luku námi þann 17. desember; þær Valdís Oddgeirsdóttir og Guðmunda Steingrímsdóttir luku framhaldsnámi fyrir sjúkraliða í öldrunarhjúkrun. Aðalbjörg Karlsdóttir lauk sjúkraliðanámi og Jóhannes S. Soffíuson matartækninámi.
Nánar ...
08.nóv. 2004

Íbúar Sóltúns í Laugarneskirkju

Íbúar í Sóltúni, aðstandendur þeirra og starfsfólk (yfir 50 manns) sótti sóknarkirkjuna í Laugarnesi heim á allra heilagra messu sunnudaginn 7. nóvember. Stefán Birnir Stefánsson fermingadrengur úr Grafarvogskirkjusókn spilaði forspil og eftirspil. Sóknarpresturinn séra Bjarni Karlsson ásam djáknum Sóltúns, þeim Jóhönnu K. Guðmundsdóttur og Jóni Jóhannssyni þjónuðu fyrir altari.
Nánar ...
03.nóv. 2004

Árshátíð starfsfólks í Skíðaskálanum 30. október

Á árshátíðina mættu 110 manns og skemmtu sér hið besta. Umsjón var í höndum starfsfólks á 1. hæð. Öldungur hf. bauð upp á fordrykk í Sóltúni og síðan var haldið með rútum í Skíðaskálann. Veislustjóri var Jóhannes Kristjánsson skemmtikraftur og hjómsveit hússinns spilaði undir dansi. Söngmeyjar úr Graduale Nobili hrifu alla með söng, en tvær þeirra starfa í Sóltúni. Glæsilegir happdrættisvinningar völdu lukku. Matseðillinn státaði af sjávarréttasúpu, heilsteiktu lambalæri með rjómapiparsósu og í eftirrétt var heit súkkulaðiterta með vanilluís.Glæsilegur hópur árshátíðargesta dansaði fram á rauða nótt.
Nánar ...
20.okt. 2004

Haustfagnaður haldin með myndarbrag

Íbúar, aðstandendur og starfsfólk fagnaði hausti með fagnaði þann 14. október síðastliðinn. Eitt hundrað og sjötíu manns tóku þátt í borðhaldi þar sem kjúklingabringur með furuhnetusveppasósu og volg eplakaka með þeyttum rjóma léku aðalhlutverkið. Á eftir flutti Vilborg Tryggvadóttir sannsögla frásögn og kvæði. Ingibjörg Marteinsdóttir söngkona flutti söngprógram ásamt Einari píanóleikara og söngvara. Vinabandið stýrði síðan söng og dansi.
Nánar ...
24.sep. 2004

Fyrsta golfmót starfsmanna Sóltúns

Golf nýtur vaxandi vinsælda og tóku nokkrir starfsmenn í Sóltúni sig saman og héldu golfmót á Bakkakotsvelli þann 13. september. Þrátt fyrir nokkra háforgjafarmenn tókst mótið vel og spilað var í blíðskapar veðri. Ákveðið hefur verið að halda tvö mót á næsta ári.
Nánar ...
08.sep. 2004

Finnar í námsheimsókn í Sóltúni

Helstu forsvarsmenn hjúkrunarheimila sem rekin eru af City of Helsinki, Social Services & Health Department komu í námsheimsókn í Sóltún ásamt verkefnastjórum frá finnsku rannóknarstofnuninni STAKES. Finnar hafa unnið að innleiðslu RAI matskerfisins og komu til að kynna sér notkun þess í daglegu starfi hjúkrunarheimilisins. Þeir höfðu sérstakan áhuga á notkun gæðavísa, og mælingum á árangri í hjúkrun.
Nánar ...
07.sep. 2004

Norðmenn í námsheimsókn í Sóltúni

Á vegum KPL tryggingafélagsins í Noregi komu 58 forsvarsmenn í öldrunar- og annarri heilbrigðisþjónustu víðs vegar í Noregi í námsheimsókn í Sóltún. Hópurinn kynnti sér sérstaklega gæðakerfi Sóltúns, notkun á RAI-mælitækinu, gæðavísum og hvernig unnið er að gæðaumbótum. Ennfremur kynnti hópurinn sér stefnumiðað árangursmat heimilisins og notkun skorkorts til að ná árangursmarmkiðum Sóltúns. Þátttakendur: 1. Helge Gabrielsen Øyane Sykehjem Daglig leder 2. Astrid Husberg Øyane Sykehjem Kontorsjef 3. Geir Andersen Blidensol Sykehjem Daglig leder 4. Signe Rødland Blidensol Sykehjem Regnskap og lønnsansvarlig 5. Ellinor Rørvik Betanien Hospital Sekretær 6. Reidun Fosse Betanien Hospital Førstekonsulent 7. Arnulf Myklebust Frogner Menighetshjem Institusjonssjef 8. Dag Terje Finnbakk Cathinka Guldbergs Sykehjem Direktør 9. Tom Sletner Martina Hansens Hospital Økonomidirektør 10. Lene Tallakstad Andebu Døvblindesenter Kontorleder 11. Karina Hetlesæther Andebu Døvblindesenter Lønns- og personalansvarlig 12. Ann Sissel Erga Jæren Distriktspsykiatrisle Senter Konsulent, regnskap 13. Turid Backer Jæren Distriktspsykiatrisle Senter Førstekonsulent, lønn 14. Egil Skåra Jæren Distriktspsykiatrisle Senter Økonomi/personalsjef 15. Oddrun Korsmo Trasoppklinikken Økonomikonsulent 16. Reidun Skjold St. Johannes Sykehjem Styrer 17. Solveig Andersen Høyenhall bo og rehab. Sted Økonomikonsulent 18. Kjetil Gjærde Høyenhall bo og rehab. Sted Institusjonssjef 19. Arvid Reindal Nordtun Helserehab Daglig leder 20. Guri Haarr Moe Stavanger Sparekasses Aldershjem Styrer 21. Olena Urstad Stavanger Sparekasses Aldershjem Styrerassistent 22. Gunnlaug Nordtvedt Askøy Blå Kors Klinikk Avdelingsleder adm/øk. 23. Britt Stenshol Norsk Luftambulanse AS Regnskapssjef 24. Trine Kveim Norsk Luftambulanse AS Personalrådgiver 25. Iselin Marstrander Valnesfjord Helsesportssenter Direktør 26. Svein Kostveit Attføringssenteret i Rauland Direktør 27. Maths Johansson Herness Institutt Daglig leder 28. Elisabeth Fossum Betania Sparbu Institusjonssjef 29. Oddbjørg S. Gangås M.S. Senteret Hakadal Daglig leder 30. Hilde Uteng M.S. Senteret Hakadal Kontorsjef 31. Joar Aarenes Glittreklinikken AS Administrasjonssjef 32. Gunvor Sagstad Ask Bo- og Omsorgssenter Økonomikonsulent 33. Axel Bugge Diakonhjemmets Sykehus Rådgiver 34. Ellen Skancke Frambu 35. Geir Andreassen Frambu Økonomi- og adm.sjef 36. Håkon Michelsen Metodistkirkens Alders- og Sykehjem Økonomileder 37. Reidun Møller Metodistkirkens Alders- og Sykehjem Faglig leder 38. Liv Berit Pilskog Metodistkirkens Alders- og Sykehjem Administrativ leder 39. Mary Hammer Lukas Stiftelsen Økonomisekretær 40. Edel Ingdal Lukas Stiftelsen Økonomisekretær 41. Otto Kr. Lauritzen Hamar Røde Kors Ambulansetjeneste Daglig leder 42. Geir Hval Hamar Røde Kors Ambulansetjeneste Forretningsfører 43. Ingfrid Beate Titlestad Innovest Personal og økonomileder 44. Oddrun Gjerde Nordberghjemmet Regnskapssjef 45. Gry Berge Nordberghjemmet Fagsjef 46. Mette Karine Rønning Østbytunet Behanlingssenter Personalleder 47. Annemari E. Bysveen Østbytunet Behanlingssenter Daglig leder 48. Berit Baklid Modum Bad Økonomisjef 49. Synnøve Lernes Kystad Sykehus 50. Johanne Stavnås Kystad Sykehus Avd. sykepleier 51. Per Andreassen Tasta Sykehjem Daglig leder 52. Bjørg Hansvoll Nøkkelbo Økonomikonsulent 53. Kari Gran Nøkkelbo Økonomikonsulent 54. Jarle Laastad KLP Forsikring Direktør 55. Rune Rosberg KLP Forsikring Bedriftsrådgiver 56. Merethe Thunestvedt KLP Forsikring Bedriftsrådgiver 57. Geir Bergflødt KLP Forsikring Bedriftsrådgiver 58. Harald R. Hagen KLP Forsikring Bedriftsrådgiver
Nánar ...
02.sep. 2004

Dagskrá fræðslufunda haust og vetur 2004

Fræðslunefnd hefur sent frá sér áætlun um fræðslufundi fyrir haustið og veturinn 2004. Fræðslan er alla miðvikudaga kl. 13.30 í fræðslusal og er hún ætluð starfsfólki, íbúum og aðstandendum.
Nánar ...
09.ágú. 2004

Námsheimsókn frá Hawai eyju á Kyrrahafi

Prófesor Charon A. Pierson frá Department of Geriatric Medicine, Univeristy of Honululu, Hawai heimsótti Sóltún ásamt föruneyti í fylgd Dr. Margrétar Gústafsdóttur dósents við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.Hópurinn kynnti sér sérstaklega hvernig húsnæði er hannað til að mæta hugmyndafræði Sóltúns og þróunar mönnunarmódels til að ná hámarksárangri í þjónustu við íbúa.
Nánar ...
08.jún. 2004

Finnar í námsheimsókn

Stjórnendahópur frá Folkhalsan, Finnlandi kom í námsheimsókn til Sóltúns. Folkhalsan rekur heilbrigðis- og félagsþjónustu víðs vegar í sænskumælandi hluta Finnlands. Hópurinn kynnti sér starfssemi Sóltúns og sérstaklega notkun RAI mælitækisins og gæðakerfi. Þátttakendur: Stefan Mutanen, VD för Samfundet Folkhälsan, Ekonomidirektör Christer Holmström,
Administrativa direktören Marianne Österberg,
Gun Eklund, VD för Folkhälsan Mittnyland Ab,
Sture Erickson, VD för Folkhälsan Raseborg Ab,
Stig Moss, VD för Norrvalla Folkhälsan Ab
Viveca Hagmark, förbundsdirektör för Folkhälsans förbund Marianna Blom VD Stefan Mutanens och ledningsgruppens sekreterare.
Nánar ...
18.maí 2004

Samvinna við leikskólann Hof

Í vetur fór af stað þróunarverkefni milli Sóltúns og leikskólans Hofs í Laugarneshverfi. Þetta verkefni fólst í því að börnin heimsóttu íbúa 2. hæðar Sóltúns. Markmiðið með samstarfinu var að brúa kynslóðarbil, mynda tengsl, fræða yngri kynslóðina um daglegt líf inni á hjúkrunarheimili en síðast en ekki síst var tilgangurinn að auka lífsgæði íbúanna með leik og söng barnanna.Framkvæmdin var með þeim hætti að börnin komu hálfsmánaðarlega c.a 12 í hóp og heimsóttu tvö sambýli í einu. Alls hafa þau komið 12 sinnum, þ.m.t fyrir jólin þar sem um 50 börn komu og sungu fyrir alla íbúa Sóltúns og þáðu að launum kakó og piparkökur. Þar voru allir sammála um að vel hefði til tekist með veturinn og ákveðið var að halda samstarfinu áfram næsta haust. Starfinu lauk svo, nú í maí, með grillveislu í boði Sóltúns þar sem öllum börnum leikskólans sem höfðu heimsótt okkur í vetur, var boðið upp á grillaðar pylsur og ís, ásamt íbúum og starfsfólki 2. hæðar.
Nánar ...
12.maí 2004

Vorgleði

Vorgleði Sóltúns var haldin síðastliðið fimmtudagskvöld. Vinabandið, sönghópurinn Blikandi stjörnur og Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmtu. Guðrúnu Jóhannsdóttur var veitt viðurkenning Öldrunarráðs Íslands og Sóltúns fyrir sjálfboðin störf.
Nánar ...
02.apr. 2004

Góugleði

Haldin var góugleði í Sóltúni 25.mars síðastliðinn. Hátíðakvöldverð snæddu 180 manns, íbúar og gestir þeirra, starfsfólk og sjálfboðaliðar. Á matseðlinum var íslenskt lambalæri með kartöflugratín og grænmeti. Á eftir var borin ostakaka og kaffi. Samkoma var í salnum á eftir þar sem Vinabandið spilaði fyrir dansi og söng. Vinabandið fékk viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands og Sóltúns fyrir sjálfboðin störf í þágu aldraðra í Sóltúni 2002-2004 en hljómsveitin kemur reglulega og gleður fólk með söng og hljómslist. Söngkonurnar og systurnar Guðrún Árný Karsdóttir og Soffía Sigríður Karlsdóttir sungu við góðar undirtektir. Ómar Ragnarsson og Haukur Hreiðar undirleikari skemmtu.
Nánar ...
06.jan. 2004

Jólaball STÖLD

Starfsmannafélag Sóltúns-Stöld hélt glæsilegt jólaball fyrir börn starfsfólks þann 5. jan s.l. Um 70 manns komu og skemmtu sér við að ganga í kringum jólatré og syngja jólasöngva. Veitingum úr Sóltúnseldhúsinu voru gerð góð skil og að sjálfsögðu fengum við jólasvein í heimsókn með gott í poka.
Nánar ...
08.des. 2003

Hæstaréttadómur hjúkrunarfræðingum í vil

Hæstiréttur dæmdi þann 4. desember 2003, í máli Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga gegn hjúkrunarfræðingi í Sóltúni. Forsaga málsins er sú að héraðsdómur viðurkenndi 11. maí 2003, rétt hjúkrunarfræðingsins til að greiða í Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga eftir að hafa ráðið sig til Öldungs hf. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar, sem kvað upp sinn dóm í gær um það að dómur héraðsdóms frá 11. maí 2003 skuli standa. Ennfremur má geta þess að, 5. desember, lagði fjármálaráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögnum nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, með síðari breytingum. Verði frumvarpið að lögum mun það þýða að lokað verði fyrir nýja launagreiðendur í sjóðinn.
Nánar ...
12.nóv. 2003

Ræktunarfréttir 2003- seinni hluti

21. julí. Stillt veður, en rigning allan daginn og kom hún á góðum tíma því að ekki hafði rignt í marga daga. En sólfar verið mikið og mjög hlýtt. Kartöflugrösin orðin með því besta,sem gerist,en rófur og kál ekki eins þroskamikið. 31. júlí Hvass suðaustan, rigning öruhverju síðari hluta dagsins og kaldara en undanfarna daga. Síðara hluta dagsins lægði vindinn,en nokkur blóm við húsið höfðu brotnað og lagst útaf. Fyrir nokkrum dögum vakti athygli að blöð á einni káltegundinni í garðinum höfðu tekið á sig rauðbleikan lit og sum þeirra lágu flöt á jörðinni og virtust visnuð Sérfræðiþekkingu vantar til að vita hvað veldur. 1.ágúst. Breytileg vindátt,léttskýjað og sólskin frameftir degi, mjög hlýtt. Júlímánuður hefur verið mjög hlýr, oftast hæglætisveður, en flesta daga hefur rignt lítilsáttar. Oft hafa þó verið góðar sólskinsstundir. 2. ágúst. Hægviðri og léttskýjað, sólskin til hádegis, en spáð síðdegisskúrum.Nokkur ribsber voru sjáanleg. Að kvöldi sama dags.Sólin er búin að skína allan daginn, dökk skúraský eru á austurhimninum, en skúrirnar hafa ekki náð til okkar.Sólskin mældist í 13 klst. 3.ágúst. Vakin var athygli á hinum fölnuðu kálblöðum og var helst talið að þurrki væri um að kenna.Tóku konur til sinna ráða. Báru nokkrar könnur af vatni og vökvuðu beðin. 6. ágúst Farin var skoðunarferð að matjurtagarðinum og reyndist það vera blómkálið sem fölnað hafði. Allt blómkálið var skorið af rótinni, 6 af 8 hausum var hent. Þeir voru óætir, en 2 hausar hirtir og farið með þá í eldhúsið ásamt dálitlu af salati, grænkáli og graslauk, hluti af gulrófu fylgdi með. Hinn hlutinn hafði verið snæddur á staðnum. Álitið var að tími væri komin til að skera upp rabbarbaran. Forvitnilegt væri að fara að skoða kartöfluvöxtinn. Ef veður helst hlýtt áfram er ráðlegt að bíða með aðal uppskeruna. 7. ágúst. Í dag er skýjað og úrlit fyrir rigningu seinni partin. Í garðskálanum höfðu kóngulær numið land og skift um veiðistað nokkrum sinum. Nú síðast hafði ein spunnið vef í dyrunum og var sú mikil vexti og skaut fólki skelk í bringu. Nauðug var hún flutt út fyrir lóðamörkin, en virtist ekki kunna skil á landamerkjum. 13. ágúst. Sólskin og hiti allan daginn, breytileg vindátt, en stillt veður. Undanfarnadaga hefur rignt mikið og ætti gróðurinn að hafa fengið næga vökvun. 14. ágúst . Í morgun var farið í matjurtagarðinn og mestur hluti rabbarbarans skorin upp, en leggirnir þóttu í grennra lagi, þess ber þó að gæta að þetta er vínrabbarbari,en álitið var að meiri áburð hefði þurft. Farið var með uppskeruna heim að kaffiteríu , þar sem hún var vegin og reyndist vera 700 gr. Leggirnir voru brytjaðir, en verkið gekk seint því að ekki voru hentugir hnífar fyrir hendi. Ákveðið var að útvega betri hnífa fyrir næstu uppskeru. Eftir töluvert erfiði var soðin grautur úr afurðinni og snæddur samstundis af þeim sem viðstaddir voru, eða höfðu tekið þátt í athöfninni.Okkur var gefinn rjómi út á grautinn og var þetta hið mesta lostæti. 16. ágúst. Eins og oft áður freistaði matjurtagarðurinn. Rófu var kippt upp og fengu nokkrir að bragða. Lostætið fékkk óspart lof. 18. ágúst. Afmælisdagur Reykjavíkur. Þau tíðindi gerðust að í tilefni afmælisins heiðraði Borgin Sóltún með viðurkenningu á fallegum garði umhverfis húsið og smekklegu gróðurvali. Að sjálfsögðu vöktu tíðindin gleði hjá íbúum og starfsfólki hússins. Haft var á orði að þörf væri á að snyrta beðin og reita arfa. 21. ágúst. Að aflokinni sjúkraþjálfun bauð þjálfarinn sjúklingnum í gönguferð um garðinn. Eins og gera má ráð fyrir gekk sjúklingurinn ekki langt, en þjálfarinn tók á sig erfiðið og ók honum langan veg. Ekki var staðar numið fyrr en við matjurtagarðinn. Sá gamli í stólnum var samur við sig og að hans áeggjan var einni rófu kippt upp og farið með hana heim í hús, en segja má að farin hafi verið sneipuför því að rófan reyndist sýkt og var óæt. Þegar hún var skorin í sundur kom í ljós að hún var dökk og morkin að innan. Ráðgert var að fara aðra ferð seinna. 10.september. Sóltúnskartöflur. Grænmeti og fiskréttur í matinn um hádegi. Í hvassviðri eftir hádegið fór foringi gróðurhópsins ein síns liðs að reitinum sem kartöflur höfðu verið teknar úr daginn áður. Hún jafnaði moldina í reitnum og kom þar fyrir potti með græðlingi af sólberjarunna úr Skipasundi. Slæmt að hún skildi þurfa að vera ein að verki. 11.september. Ber af 10 metra háu reynitré í Skipasundi voru tínd af greinum sem klipptar höfðu verið af trénu. Eftir að berin höfðu verið tínd af greinunum voru þau marin svo að opið væri inn að aldininu og síðan var berjunum dreift yfir mold í bakka.Vikursandi var síðan dreift yfir og bakkanum komið fyrir í garðskálanum. 15.september Ákveðið var að hittast kl. 14.00 við matjurtagarðin og taka upp kartöflur. Ekki mættu þó margir vinnufærir á staðinn og hvíldi mestöll vinnan á einni konu. Tekið var upp úr rúmlega einu beði og var þyngd uppskerunnar áætluð 20 kg. Þar af voru 4 kg úsæði tekin frá. 16. september. Góðviljuð kona ók einum gamlingjanum hringferð í garðinum. Að venju var staðnæmst við rófnabeðið, einni kippt upp og farið með hana heim í hús og fengu nokkrir bita. 25. september. Árla dags hófu tvær áhugasamar konur störf við uppskeru á því sem eftir var. Kartöflurnar voru áætlaðar 30 kg. Og af því voru teknar frá nokkrar útsæðiskartöflur til viðbótar því sem áður var búið að taka frá. Alls mun kartöfluuppskeran hafa verið 64 kg. Það sem eftir var af rófunum og mætti áætla að það hafi verið 5 kg. Áhorfendur voru nokkrir og skemmtu sér við að horfa á aðra vinna. Nokkrir kálhausar voru einnig skornir upp. Farið var með uppskeruna í eldhúsið í kjallaranum. Eftir nokkra daga fengum við Sóltúnskartöflur í matinn. Sumarið sem nú er að enda hefur verið sérstaklega hlýtt og hagstætt fyrir allan gróður. 30. september. Einum gamlingjanum barst gjöf frá kokkunum í eldhúsinu.Var það kartafla svo undarlega vaxin að líkja mætti við myndastyttu. En tæplega er hún í samræmi við vöxt kvennanna í eldhúsinu. Fyrir hönd gróðurhópsins Sigurjón
Nánar ...
28.okt. 2003

Starfsfólk Sóltúns í námsferð til Danmerkur

Hópur starfsfólks sem starfar að þjónustu við minnisskerta íbúa Sóltúns hélt nýverið í árangursríka námsferð til Danmerkur. Heimsóttu þau m.a. Pilehuset, Lotte hjemmet og Absalons hus. Vel var tekið á móti íslenska hópnum og var hann með kynningu fyrir íbúa og starfsfólk Sóltúns þegar heim kom. Á þessu heimilum voru íbúarnir í hávegum og lögðust allir starfsmenn á eitt óháð stétt um að veita þeim sem besta þjónustu.
Nánar ...
17.sep. 2003

Málþing um missi og aðlögun að breyttum aðstæðum

Sóltún stóð fyrir málþingi um missi og aðlögun að breyttum aðstæðum 17.september. Málþingið var sérstaklega ætlað aðstandendum og starfsfólki. Rúmlega 20 manns sóttu fundinn. Jón Jóhannsson djákni fjallaði um missi, Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri kynnti rannsóknir um stuðningshópa og áhrif þeirra, Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir djákni sagði frá reynslu af stuðningshópastarfi fyrir aðstandendur minnissjúkra íbúa í Sóltúni. Gestur fundarins var Guðrún Kristín Þórsdóttir djákni í Áskirkju. Guðrún kynnti stuðningsstarf kirkjunnar og fór sérstaklega í 12 spora kerfið.
Nánar ...
05.sep. 2003

Gjafir frá vinum Sóltúns í Gerðubergi

Í tilefni af Breiðholtsdeginum sem er í dag 5.september komu vinir Sóltúns í Gerðubergi færandi hendi í Sóltún er þeir færðu heimilinu 13 jólasokka. Einn fyrir hvert sambýli með nafni Sóltúns saumað í. Vinatengsl "Vinir Sóltúns frá Gerðubergi" er þróunarstarf sem á eftir að eflast og styrkjast á komandi tímum og verða öðrum fyrirmynd sagði í kveðjunni frá þeim. Vinir Sóltúns aðstoða okkur við guðþjónustur, skemmtanir og aðrar uppákomur. Þeir hjálpa íbúum að komast til og frá samkomusalnum, sitja hjá þeim í messum og í borðhaldi þegar hátíðarkvöldverðir eru eru þeim félagar. Hjálpin frá þeim er veitt af manngæsku og þörfinni fyrir að verða að liði og láta gott af sér leiða. Þessi auka liðsauki er starfsfólki mikilvægur þegar stærri viðburðir eru í Sóltúni.
Nánar ...
17.júl. 2003

Ræktunarfréttir frá garðyrkjuhópnum

15.apríl - Sendar voru í Sóltún, útsæðiskartöflur, sem geymdar höfðu verið í Skipasundi 45 um veturinn. Kartöflurnar voru orðnar mjög spíraðar, of heitt hafði verið í geymslunni, vegna hlýinda um veturinn. Kartöflurnar voru látnar í kæli í Sóltúni. 8.maí - Voru kartöflurnar teknar úr kælinum en þar hafði spíruvöxturin stöðvast. Samkvæmt ráðleggingu var mestur hluti spíranna klipptur af, aðeins skildir eftir 2-3 sm. Síðan var kartöflunum raðað í pappakassa og látnar vera í birtu. 22.maí - Kartöflum sáð í tvö beð í matjurtagarðinum, einnig sáð í tvo reiti við suðurálmur hússins. Fjölment var við athöfnina og létt yfir mannskapnum. Spáð var góðri uppskeru. Sama dag var þörungamjöli dreift yfir matjurtagarðin og vökvað yfir. 2.júní - Blákorni dreift yfir beðin. 5.júní -Nokkur kartöflugrös komin upp. Einnig þar, sem ekki voru settar kartöflur. 1.beð: Sett niður: Rabbabarahnaus, blómkálsplöntur, hvítkál, grænkál, steinselja og salat 2 teg 2. beð: Rauðrófur, gulrófur og blaðsalat. Þrífósfati dreift yfir. Síðan var dúkur breiddur yfir beðin. 18.júní - Dúkurinn tekinn af beðunum. 21.júní - Kartöflugrösin orðin 5-15 sm.há. Kartöflur sem höfðu orðið eftir í garðinum síðastliðið haust og frostið ekki náð til, voru einnig búnar að skjóta upp grösum. Rababari, rófur og kál voru í góðum vexti. Veðrið hefur veriö sérstaklega hlýtt síðan sáð var, en nokkuð hefur rignt öðru hverju, sólar hefur oft notið þess á milli. 24.júní - All hvass austan, 7 m/sek. Hvernig skyldi matjurtunum reiða af? 26.júní - Gengið að matjurtagarðinum. Ekki sjáanlegt tjón af hvassviðrinu. Nokkrar arfaklær voru tíndar úr beðunum. Tveir ungir Akureyringar veittu okkur lið. 30.júní - Heitasti júnímánuður í 60 ár. Kartöflugrösin orðin allt að 30 sm.há. Rabbabarinn farinn að blómstra, kál og rófur í góðum vexti. 3. júlí - Gengið að matjurtagarðinum og litið á vöxtinn. Kálið orðið vel vaxið, salatið í rýrara lagi og rófurnar ekki áhugaverðar, ekki gildari en blýantur. 10.júlí - Rófurnar höfðu vaxið svo, að við sem á staðnum voru stóðumst ekki freistinguna, kipptum einni upp og fórum með hana heim í hús, skárum hana í bita og gáfum fólki að smakka. Fljótlega var farið og annarri kippt upp og farið með hana eins og þá fyrri. Kartöflur voru einnig skoðaðar, en þær voru nokkuð smáar. Tekin voru upp 2 grös og farið með þessar smáu kartöflur í eldhúsið og soðnar í flýti. Smökkuðust þær vel eins og jafnan er um nýja upskeru. Síðar um daginn vakti athygli að nokkrar konur voru að grúska í matjurtagarðinum. Fljótlega vaknaði grunur um að erindi þeirra í garðinn væri að ná sér í gómsætan jarðarávöxt. Eftir stutta viðdvöl yfirgáfu konurnar garðinn og gengu í hóp heim að húsinu. Með snarræði tókst konu í húsinu að festa á filmu þá sem fremst fór og hélt á rófu í hendinni. Síðar kom fram í samtali við eina úr hópnum að þeim hafði verið sagt að fara og fá sér rófu!!! 16.júlí - Náungi einn, sem boðið hafði verið í ökuferð á umhverfisvænu farartæki, notaði ferðina til að krækja sér í rófu og var staðinn að verki. ......meira síðar, Gróðurhópurinn
Nánar ...
29.mar. 2003

Stofnaður hefur verið Minningasjóður Sóltúns

Sjóðnum er ætlað að bæta aðbúnað og afþreyingu íbúa í Sóltúni, veita styrki til námskeiðahalds, útgáfustarfsemi og annars sem tengist íbúum og hugmyndafræði Sóltúns á einn eða annan hátt. Móttaka hjúkrunarheimilisins Sóltúns annast afgreiðslu minningarkortanna í síma 590 6000.
Nánar ...
18.mar. 2003

Viðurkenning fyrir fallega lóð

Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurborgar hefur veitt hjúkrunarheimilinu Sóltúni viðurkenningu fyrir fallega og vel skipulagða lóð. Vandað hefur verið til við allan yfirborðsfrágang og gróðurval, sem myndar fallega og snyrtilega umgjörð um bygginguna. Útisvæði hjúkrunarheimilisins eru skjólsæl og nýtast vel segir í fréttatilkynningu frá borgaryfirvöldum.
Nánar ...
14.mar. 2003

Ljóðavika

Íbúa- og vinafélagið stóð nýlega fyrir ljóðaviku. Íbúar og starfsmenn völdu sér ljóð og fluttu þau í sínum sambýlum ákveðna stund á hverjum degi vikunnar. Ljóðskáld voru einnig fengin til að lesa ljóð sín. Ljóðin voru síðan rædd og krufin til mergjar. Í lok ljóðavikunnar voru úrvalsljóð vikunnar lesin í samkomusalnum. Á annað hundrað manns tóku þátt í ljóðavikunni sem þótti heppnast vel.
Nánar ...
28.okt. 2002

Haustfagnaður í Sóltúni

Íbúar,aðstandendur og starfsmenn kvöddu sumar og fögnuðu vetri föstudagskvöldið 25.október s.l. Um það bil 170 manns nutu kvöldverðar saman og skemmtu sér í samkomusalnum að honum loknum. Léttsveit Reykjavíkur söng sig inn í hjörtu fólks undir stjórn Jóhönnu Þórhallsdóttur við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur. Ungur trúbador Gunnar Örn Heimisson spilaði undir fjöldasöng og Þórður Jónsson flutti vísur eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
Nánar ...
11.okt. 2002

Haustverkin í Sóltúni

Íbúar og starfsmenn í Sóltúni hafa undanfarnar vikur notið haustverka. Kartöfluuppskeran var góð, og er búið að taka frá í útsæði fyrir næsta vor. Nýuppteknar karföflur með hýði þóttu afbragð með matnum. Vinsælt var að gera rabbabarasultu úr rabbabaranum og þurfti að fá viðbótarrabbabara frá velunnurum til að mæta eftirspurn meðal íbúa. Sultukrukkur voru skreyttar og merktar. Annað grænmeti úr matjurtargarði Sóltúns hefur einnig smakkast vel. Íbúar Sóltúns hafa þessa dagana verið í sláturgerð þar sem reyndar hendur hafa töfrað fram slátur eins og það gerist best. Haustið er einnig tími menningar og lista. Nýlega fór hópur að sjá Gestinn í Borgarleikhúsinu. Aðstaða leikhússins til að taka á móti íbúum heimilisins er til fyrirmyndar. Upplestur bóka er reglulegur viðburður og nýtur það vinsælda að fá höfunda þeirra bóka sem lesið er uppúr í heimsókn til að spjalla við íbúa. Höfundar hafa tekið því vel og eru þeim færðar þakkir fyrir. Sóltúnsbíllinn er sem áður afar vinsæll og fór nýverið hópur héðan í Skálholt. Haustlaukar verða settir niður á næstu dögum og haustfagnaður er í undirbúningi.
Nánar ...
22.sep. 2002

Símenntunardagskrá haustið 2002

Fræðslunefnd Sóltúns kynnti í dag fræðslufundi vetrarins. Á hverjum miðvikudegi kl. 14.30 eru fræðslufundir fyrir starfsfólk, íbúa og aðstandendur í fræðslusal Sóltúns á 1. hæð. Fræðslufundir eru ein af leiðum Sóltúns til að ná markmiði sínu að vera ávallt í fremstu röð meðal hjúkrunarheimila þar sem haldgóð þekking leiðir störf og þjónustu við íbúa.
Nánar ...
03.sep. 2002

Norræn fundur í Sóltúni

Dagana 4. til 6. september verður norrænn vinnufundur rannsakenda í öldrunarþjónustu á Íslandi. Fundurinn hefst 4. september með 15 manna vinnufundi í fræðslusal Sóltúns þar sem unnið er með rannsóknaverkefni RAI-í bráðaþjónustu, en það er þróun matstækis sem metur heilsufar og umönnunarþarfir aldraðra með bráð veikindi. Opinn Norrænn RAI fundur verður síðan haldinn fimmtudaginn 5. september kl. 09.00 – 15.00 á Hótel Loftleiðum. Haldin verða átta erindi, flutt af Norrænum rannsakendum um notkun RAI mælitækjanna á hjúkrunarheimilum, (þyngdarstuðlar – gæðavísar), heimaþjónustu, á bráðasjúkrahúsi og líknarþjónustu. Erindin eru flutt á ensku. Skráning þátttöku er hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í síma 5458700. Nú þegar hafa yfir 100 þátttakendur skrá sig. Norræni vinnufundurinn heldur síðan áfram á föstudaginn með 40 þátttakendum. Þar sem unnið verður með RAI-rannsóknarverkefnin sem í gangi á norðurlöndunum; þ.e. vegna íbúa á hjúkrunarheimilum, aldraðra sem njóta heimaþjónustu, líknarþjónustu og bráðaþjónustu, unnið verður að þróun hugbúnaðar, gæðavísa, þyngdarstuðla, og fjallað verður um ný verkefni.
Nánar ...
26.ágú. 2002

Samkeppni um störf í Sóltúni

Mikil eftirspurn er eftir störfum í Sóltúni og er biðlisti í öll störf. Þar á meðal eru 10 umsóknir hjúkrunarfræðinga, 1 frá sjúkraþjálfara, á annan tug í umönnun og nokkrar umsóknir í skrifstofustörf og eldhús.
Nánar ...
24.ágú. 2002

Íbúar Sóltúns

Íbúar í Sóltúni eru 92. Þeir koma langflestir frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Meðalaldur er yfir áttrætt og er elsti íbúinn 98 ára. Konur eru 67 og 25 karlar. Sex hjón búa í Sóltúni. Íbúar hafa aðlagast nýju heimili með ágætum, þrátt fyrir þá erfiðleika sem óhjákvæmilega eru við að flytja á nýtt heimili af heilsufarsástæðum. Margir þeirra eru mjög veikir og hafa nokkrir þeirra látist frá áramótum. Öðrum hefur farið mikið fram og náð að bæta heilsu og getu. Dæmi eru um að íbúar hafi getað sleppt hjólastól og náð göngugetu á ný. Mikil gróska er í félagsstarfi og eru áhugasvið margvísleg. Í spilaklúbbnum er spilað á þremur borðum vikulega. Gróðurklúbbur hefur sáð fræjum og plantað blómum. Settar hafa verið niður kartöflur og grænmeti og styttist í uppskeruhátíð. Viðgerðarklúbbur hefur verið settur á fót og annast hann minni háttar viðgerðir á starfsmannafatnaði. Aðrir klúbbar eru endurminningahópur, bocchia iðkendur, prjónaklúbbur og listklúbbur. Undanfarnar vikur hafa 2000 trjáplöntur verið gróðursettar á lóð Sóltúns. Íbúar hafa sett sumarblóm í ker og þannig fært lit í tilveruna utanhúss. Unnið er að uppsetningu á garðskála (pavilion) á hátíðarsvæði Sóltúns. Garðhúsgögn eru komin og nýta íbúar útiveru sér til hressingar og þjálfunar.
Nánar ...
24.ágú. 2002

Mikill áhugi fyrir Sóltúni

Mikill áhugi er fyrir hjúkrunarheimilinu Sóltúni meðal almennings og fagfólks í öldrunarþjónustu. Sóltún getur ekki tekið á móti gestum nema í samráði við íbúa þess, enda um heimili þeirra að ræða og brýnt að gæta persónuverndar og einkalífs þeirra. Heimsóknir stórra hópa getur verið mikið álag og hefur það verið markmið heimilisins að mæta óskum eftir aðstæðum hverju sinni. Helst er tekið á móti stórum hópum í fræðslusal og starfsemin kynnt í máli og myndum. Eftirtaldir hópar hafa komið í heimsókn: Sjúkraðliðanemar frá Fjölbraut í Ármúla, hjúkrunarfræðinemar frá Háskóla Íslands, starfsmenn frá Heilbrigðisstofnun Selfossi, deild forstöðumanna elli og hjúkrunarheimila í FSIÖ, hjúkrunarfræðingar á kjörári á LSH, starfsmenn endurhæfingardeildar LSH, Félagar í Félagi aðstandenda Alzheimersjúklinga, Félag sjúkraþjálfara í öldrunarþjónustu, fagdeild öldrunarhjúkrunarfræðinga í FÍH, eldri borgarar í félagsstarfi Neskirkju og Vesturgötu og starfsmenn heimahjúkrunar í Kópavogi. Tveir erlendir hópar hafa komið frá Svíþjóð og einn frá Danmörku, sem og hjúkrunarfræðingar frá USA og Svíþjóð í meistaranámi við Hí og háskólann í Iowa.
Nánar ...
07.ágú. 2002

Heimsókn frá Japan

Prófessor Kazuko Enomoto frá Japan heimsótti Sóltún í fylgd Hrafns Pálssonar hrá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Prófessor Kazuko er í vinasambandi við Íslendinga á sviði félags- og heilbrigðisvísinda.
Nánar ...
14.maí 2002

IM-skorkort í Sóltúni

Sóltún hjúkrunarheimili hefur tekið í notkun IM-Skorkort, og undirrituðu Ragnar Bjartmarz framkvæmdastjóri IM og Anna Birna Jensdóttir framkvæmdastjóri Öldungs hf. samning þess efnis í gær. Ætlunin með skorkortinu er að fylgja eftir stefnu hjúkrunarheimilisins með markvissum hætti. IM-Skorkort nýtist stjórnendum til að byggja upp og fylgja eftir stefnumótun og markmiðasetningu og veitir aðgengilegum sýn á mælanlegan árangur. Sóltún er fyrst aðila í íslenskri heilbrigðisþjónustu til að taka í notkun IM-Skorkort.Skorkort hefur verið í prufu vinnslu síðan haustið 2002.
Nánar ...
08.mar. 2002

Upplýsingatækninýjungar- fyrsta sólarhringsstofnunin með rafræna sjúkraskrá

Sóltún, hefur tekið í notkun viðamikil hugbúnaðarkerfi frá eMR hugbúnaði hf og Tölvumiðlun hf. eMR hugbúnaður leggur Sóltúni til rafræna sjúkra- og hjúkrunarskrárkerfið SÖGU og legudeildakerfið LEGU. Saman skapa SAGA og LEGA faglega fullkomin starfsskilyrði fyrir starfsfólk Sóltúns. Sóltún notar H-launaforritið og SFS2001 bókhaldskerfi frá Tölvumiðlun. eMR og Tölvumiðlun hafa með kerfunum náð að mæta þeim þörfum sem Sóltún hefur og þar með auka gæði þeirrar þjónustu sem viðskiptavinir heilbrigðisstofnana njóta. Sóltún er þar með fyrsta heilbrigðisstofnun landsins sem er með þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins sem notast einvörðungu við rafræna sjúkraskrá.
Nánar ...
07.jan. 2002

Opnun Sóltúns

ÖLDUNGUR hf. opnaði hjúkrunarheimilið Sóltún 7. janúar 2002 og rekur heimilið samkvæmt þjónustusamningi við ríkið. Íbúar heimilisins eru 92. Markmið Sóltúns er að veita þeim bestu hjúkrun og aðra þjónustu sem völ er á á hverjum tíma og vera aðlaðandi starfsvettvangur. Allir þættir varðandi hönnun húsnæðis og val á hús- og tækjabúnaði hefur miðast við það.
Nánar ...
12.des. 2001

Fyrsta erlenda námsheimsóknin

Sænskir hjúkrunarfræðingar undir forystu Jonas Allenbrant frá Nockeby hjúkrunarheimilinu, Stokkhólmi komu í heimsókn í Sóltún, þrátt fyrir að ekki væri búið að opna heimilið.
Nánar ...
25.ágú. 2001

Sóltún semur við Vaktaskipan um kaup á Time Care

Hjúkrunarheimilið Sóltún gerir samning við Vaktaskipan um kaup á hugbúnaði; Time Care. Hugbúnaðurinn byggir á þeirri hugmyndafræði að samræma þarfir fyrirtækja á að laga sig að breytingum í eftirspurn og óskir starfsfólks um eigin vinnutíma. Markmið Sóltúns að vera aðlaðandi vinnustaður næst m.a. með því að bjóða vinnuumhverfi þar sem tekið er tillit til þarfa einstaklingsins samhliða því markmiði að samræma mönnun og þjónustueftirspurn á hverjum tíma fyrir sig.Time Care er markaðsleiðandi í Svíþjóð og með sterka stöðu í Bretlandi en auk þess er kerfið notað í Hollandi, Noregi, Finnlandi og Belgíu. Útbreiðsla kerfisins hefur verið mikil undanfarin ár og eru nú skipulagðar í kerfinu yfir 90. milljónir klukkustunda árlega.Dæmin hafa sýnt ótvíræðan ávinning bæði fyrir starfsfólk og atvinnurekendur. Sem dæmi um félagslegan ávinning má nefna aukið jafnvægi milli starfs og einkalífs, aukin umráð og ábyrgð yfir eigin vinnutíma, minni streita, betri hópvinna og meiri starfsánægja. Efnahagslegur ávinningur skýrist einkum af meiri sveigjanleika, betri þjónustu við skjólstæðinga, auðveldara að halda og ráða starfsfólk, minni starfsmannavelta og síðast en ekki síst hafa dæmin sýnt mikla lækkun í kostnaði, þ.e fjarvistar-, yfirvinnu- og afleysingarkostnaði.
Nánar ...
22.ágú. 2001

Glæsilega hönnuð hjúkrunarrúm til Sóltúns

Sóltún hefur gert kaupsamning við Austurbakka h.f. um kaup á öllum hjúkrunarrúmum og tengdum búnaði fyrir heimilið. Framleiðandi þeirra er Hill-Rom, einn stærsti framleiðandi á sjúkra- og hjúkrunarrúmum í heiminum í dag. Hill-Rom er með verksmiðjur í Bandaríkjunum og Evrópu og framleiðir auk hjúkrunarrúma bæði sjúkra- og gjörgæslurúm. Rúm þau er Sóltún tekur í gagnið eru afar tæknilega fullkominn og hafa rúm þessarar gerðar ekki verið notuð hérlendis áður. Rúmin eru rafdrifinn með fjórskiptum rúmbotni og eru ýmsir nýjir möguleikar í stjórnun þeirra sem gera hjúkrun við aldraða aðgengilegri og auðveldari. Við hönnun rúmana er höfuðáhersla lögð á að einstaklingurinn haldi sjálfstæði sínu varðandi alla hreyfifærni í rúmi, þar með talið að komast í og úr því, þrátt fyrir hreyfiskerðingu vegna fötlunar. Stjórnborð er sérstaklega hannað fyrir þá sem búa við skynjunarvanda. Starfsfólk getur með góðu móti annast um einstaklinginn, á meðan það nýtir fótstýringar til að léttu undir með umönnuninni. Í alla staði er vellíðan notanda þ.e. bæði einstaklingsins og starfsfólks haft í huga svo að aðhlynning heppnist sem best. Hönnun er afar glæsileg og miðast að heimilislegu umhverfi. Rúmin eru úr birki og kirsuberjavið.
Nánar ...
28.apr. 2000

Samið við Öldung um einkaframkvæmd

Samið við Öldung um einkaframkvæmd - 92 hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík. Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur ásamt Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, undirritað samning við félagið Öldung hf. um að leggja til og reka hjúkrunaheimili fyrir aldraða í Sóltúni í Reykjavík. Hér er um að ræða þjónustu, sem felst í að leggja til og reka í a.m.k. 25 ár hjúkrunarheimili á grundvelli 18. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, ætlað 92 öldruðum einstaklingum með öllu því sem til þarf. Samningurinn er gerður undir merkjum einkaframkvæmdar og er til 27 ára frá undirritun, en hjúkrunarrýmum fyrir aldraða fjölgar um 92 í Reykjavík þegar heimilið verður að fullu tekið í notkun. Fyrstu íbúarnir flytjast inn í nóvember á næsta ári, en nokkrum mánuðum síðar verður heimilið í fullum rekstri. Samningurinn hljóðar upp á 11,8 milljarða króna miðað við 25 ára þjónustutíma
Nánar ...