Iðjuþjálfun

Markmið iðjuþjálfunar er að viðhalda og bæta líkamlega, félagslega og vitsmunalega getu íbúa með markvissri íhlutun. Lögð er áhersla á að efla sjálfshjálp íbúa við eigin umsjá og að skapa þeim tækifæri til að takast á við verk og viðfangsefni sem vekja áhuga og veita gleði og lífsfyllingu. Boðið er upp á þjálfun á færni til iðju á einstaklingsbundinn hátt, þannig að samspil sé milli íbúans, iðjunnar og umhverfisins. Einstaklingsmeðferð sem og hóptómstundaiðja er í boði í iðjuþjálfunarsal og í sambýlum. Þar er möguleiki á að fást við handíðir, bókband, vélprjón, léttar smíðar, spilamennsku og málun. Ennfremur eru skipulagðar ferðir utan heimilisins.

 

Margvíslegir klúbbar og hópaþjálfun er starfrækt fyrir íbúa Sóltúns,tímar eru samkvæmt stundaskrá:

Handverkshópar

Í iðjuþjálfun eru að jafnaði starfræktir 3 vikulegir handverkshópar. Tímar eru samkvæmt stundaskrá.

Markmið hópanna er að mæta þörfum íbúa Sóltúns við að taka virkan þátt í fjölbreyttri iðju til að viðhalda færni sinni, veita tækifæri til að takast á við ný eða gömul hlutverk, upplifa sigra og ánægjulegar stundir í félagsskap við aðra íbúa og samstarfsfólk. Í hópunum er boðið er upp á handverk af ýmsu tagi sem hefur verið aðlagað að færni og áhuga íbúa. Það sem helst hefur vakið áhuga er málun á tau, pappír, gler, silki, keramik og tré. Einnig smíða/fullklára ýmsa trémuni eða sauma hluti sem hafa notagildi fyrir íbúa, aðstandendur, Sóltúnsheimilið eða árlegu jólasöluna. Þeir íbúar sem ekki hafa færni/áhuga á handverki en njóta félagslegrar samveru eru einnig velkomnir.

 • Handverk
 • Kertagerð
 • Viðgerðahópur

        

 

Prjónaklúbbur

Markmið klúbbsins er að bjóða upp á samveru í rólegu umhverfi á eftirmiðdögum við prjón, málun á tau, pappír eða annað sem hæfir hverjum og einum. Í hópnum er boðið upp á einstaklingsmiðaða aðstoð við þau verk sem hver og einn velur sér eftir áhuga og getu. Margir fallegir og nytsamlegir hlutir hafa orðið til í þessum tímum, má þar nefna prjónuð leikföng, peysur, skór og málaðar svuntur.

Prjónaklúbburinn er í handverkstímum eftir áhuga hvers og eins. Þarna skapast oft næði til félagslegrar samveru og gott andrúmsloft sem bæði er verkhvetjandi og færnisaukandi. Nokkrir þátttakenda sinna áfram prjónaskap utan klúbbsins, en koma svo á klúbbdögum og fá efni, leiðbeiningar og stuðning hver frá annarri.

Dagblaðalestur og umfjöllun, upplestur úr bókum, framhaldsögur.

Fer fram samkvæmt stundaskrá.

Ljóða- og kvæðamannahópur

Tilgangurinn með ljóðahóp er að gefa íbúum Sóltúns sem unna ljóðlist og kveðskap tækifæri til að koma saman og takast á við efnið.Tímar fara þannig fram að höfundur kvæða er kynntur í upphafi og jafnvel þær kringumstæður/sögusviðsem á við efnistök, þá skiptast menn á að lesa ljóðið upphátt yfir, ræða um skilning sinn á innihaldinu og bragarháttur/ljóðaform greint. Starfsemi klúbbsins hefur legið niðri, þar sem eftirpurn hefur vantað.

Sælkeraklúbbur

Upphaflegt markmið með klúbbnum var að bjóða áhugafólki um mat að koma að matargerð með einum og öðrum hætti og snæða saman. Þá hittist fólk yfir sameiginlegu áhugamáli sem hefur þýðingu, fær stuðning og tækifæri til að sýsla við matargerð, tilbreytingu/félagsskap við að njóta matarins saman sem og þau voru þátttakendur í að velja Starfsemi klúbbsins hefur legið niðri, þar sem eftirpurn hefur vantað.

Boccia-klúbbur

Markmið bocciahóps er að veita þeim íbúum sem áhuga hafa á íþróttum tækifæri til þátttöku, efla liðsheild og viðhalda jákvæðum keppnisanda. Auk ávinnings gegnum félagstengsl, stuðlar þátttaka að bættri einbeitingu og samhæfingu hreyfinga.

Spilað er vikulega og hefur fastur kjarni hóps myndast. Íbúar eru skráðir í hópinn og mæta þeir að jafnaði.

Myndaðir hafa verið tveir bocciahópar, hraður og hægur. Skilyrði til þátttöku í hraðari hópnum er að menn þekki leikreglur og hafi líkamlega færni til að kasta sandbolta ákveðna vegalengd. Leikreglur í hægari hópnum hafa verið aðlagaðar að minni líkamlegri/vitrænni færni íbúa.

Haft hefur verið samband við önnur hjúkrunarheimili og starfsfólk þar hvatt til að taka upp boccialeiki og mynda lið á sinni starfsstöð. Skilyrði er að þátttakendur í báðum liðum hafi svipaða færni og iðki íþróttina sitjandi. Ekkert lið hefur enn gefið kost á sér sem mótherjar. 

Boccialið íbúa keppir árlega við sérvalið lið starfsfólks í Sóltúni. 

Sönghópur

Markmið með sönghópnum er að skapa tækifæri fyrir minnisskerta íbúa til þátttöku í söngstund í félagsskap við aðra söngelska. Að þátttakendur nái í gegnum sönginn að:

Að styrkja og efla trú á eigin getu

Að upplifa gleði

Að efla félagslega samveru

Að miðla af þekkingu sinni

Hópurinn hittist vikulega allt árið um kring, utan þess er stjórnendur hópsins taka sumarfrí. Í hverjum tíma er sungið linnulaust í um 40 mínútur, oftast gömul og þekkt sönglög af textablöðum sem þau hafa oftast verið með í að velja. Stöku sinnum er brugðið upp á sýningartjald tónlistarviðburðum af myndböndum/-diskum.

Viðgerðarhópur

Viðgerðarhópur hefur starfað í Sóltúni frá árinu 2002. Þátttakendur auk iðjuþjálfa eru íbúar Sóltúns sem áhuga hafa á því að starfa í þágu annarra.

Markmið með viðgerðarhópnum er að gefa íbúum kost á að sinna störfum sem höfðar til áhuga þeirra og fyrri hlutverka og um leið að koma heimilinu að gagni. Ýmis verk hafa verið unnin gegnum tíðina, léttar viðgerðir á starfsmannafatnaði, lagfæringar á gardínum í íbúðum íbúa, hönnun og “framleiðsla” á hjálpartækjum eins og grjónapokum, hlífum við rúmgrindur o.fl.

Spilaklúbbur

Markmið klúbbsins er að bjóða þeim íbúum sem áhuga hafa á að spila sér til dægrastyttingar upp á aðstöðu í næði og góðu andrúmslofti. Spilahópurinn stuðlar jafnframt að því að efla samskipti íbúa innanhús. Þarna hafa þátttakendur tækifæri til að nýta fyrri þekkingu/færni og viðhalda keppnisandanum. Spilað er a.m.k.einu sinni í viku, spiluð er vist, bridges og jafnvel skák.

Gróðurklúbbur

Gróðurhópur hefur starfað í Sóltúni frá vormánuðum 2002.

Markmið með hópnum er að veita íbúum Sóltúns tækifæri til þátttöku í garð- og gróðurvinnu með einum og öðrum hætti. Þátttaka getur falist í að miðla af reynslu sinni, viðhalda fyrri hlutverkum við matjurta- og trjáræktun, endurvekja ný áhugamál, koma öðrum að gagni með starfi sínu.

Hópstarfið felst helst í því að sinna ræktun matjurta (sá, uppskera, hlú að jarðvegi), sinna plöntum í gróðurskála, fylgjast með lífríkinu í Sóltúnsgarðinum og heimsækja aðra garða. Einnig hefur hópurinn nytjað/nýtt afurðirnar, sultað berin og rabarbarann, soðið grauta, snætt safarík eplin, o.fl.

Gróðurhópurinn hefur notið góðs af heimsóknum grunnskólabarna úr Laugarnesskóla, sérstaklega við að sá og uppskera kartöflur.

Starfið er virkast frá vormánuðum og fram eftir hausti, en yfir kalda og dimma vetrarmánuðina hvílir hópurinn og safnar orku.

Endurminningarhópar

Í Sóltúni eru starfræktir tveir endurminningarhópar, og hittist hver þeirra vikulega. Markmið hópanna er að veita íbúum tækifæri til upplifa jákvæðar tilfinningar á líðandi stundu sem og upprifjun á fyrri hlutverkum, lífshlaupi og áhugamálum. Íbúarnir skiptast á að bjóða þátttakendum inn í sína íbúð. Fundirnir stuðla að því að efla hlýja félagslega samveru og rjúfa einangrun.

Þátttaka í meðferðar prógrömmum iðjuþjálfunar:

 

Þegar nýr íbúi flyst í Sóltún framkvæmir iðjuþjálfi mat á færni, óskum og væntingum viðkomandi til þátttöku í hvers konar iðjuþjálfun í samræmi við þjónustusamning ríkisins við hjúkrunarheimilið. Samráð er um það verklag við lækna Sóltúns.  Iðjuþjálfi og íbúi setja saman áætlun um þátttöku og leggur iðjuþjálfi reglulega mat á ávinningi.  Iðjuþjálfun getur verið einstaklingsmeðferð og/eða þátttaka í hópa- og/eða klúbbastarfi. Niðurstaða og framvindumat er skráð í sjúkraskrá.  Iðjuþjálfi færir mætingar í þjálfun í mætingarkladda. Reglulega yfir árið tekir iðjuþjálfi saman fjölda mínútna í þjálfun og dagafjölda undangenginnar viku og færir til bókar í þann hluta sjúkraskrárinnar sem heitir gagnasafn um heilsufar og hjúkrunarþörf íbúa á hjúkrunarheimilinu.

 

Tilfallandi tímar:

Stuðningur til að viðhalda færni við eigin umsjá, ferlimál, tölvunotkun og útvegun hjálpartækja, þátttöku í heimilishaldi og góðri vinnuaðstöðu.

Ferðir utanhúss, til dæmis um nágrennið, kaffihús, ökuferðir, tónleikar, listasöfn, leikhús og fleira sem gefur íbúum Sóltúns tækifæri til að takast á við gömul/ný hlutverk, upplifa sigra og ánægjulegar stundir.

Tölvu

notkun:

Markmið með tölvukennslu er að veita íbúum tækifæri til að kynnast og takast á við nýja tækni og færa sér hana í nyt. Bæði til dægrastyttingar og efla samskipti íbúa innanhús sem utanhús.

Í tölvukennslu er boðið upp á einstaklingsbundna kennslu einu sinni í viku, tíminn sem hver og einn fær er frá 30 til 60 mínútur. Reynt er að hafa kennsluleiðbeiningar og efnistök sem mest við hæfi hvers og eins.

Útvegun hjálpartækja

Iðjuþjálfi útvegar, sér um aðlögun og eftirlit á hjólastólum til einkaafnota fyrir íbúa Sóltúns:

 • að fenginni beiðni um hjólastól kannar iðjuþjálfi færni íbúans og óskir hans/aðstandenda um gerð hjólastóls þ.e. léttur stóll knúinn með eigin/annarra handafli, rafmagnsstóll eða hægindahjólastóll. Mæld eru líkamshlutföll notanda, handleggja- og bolvöðvastyrkur, könnuð vitræn geta o.fl.,

 • þar til gerð eyðublöð eru útfyllt og send til Tryggingarstofnunar ríkisins (T.r.) til afgreiðslu/samþykktar,

 • fylgihlutir s.s.hliðarstuðningur, bakpúðar, gerð fótafjala, hjólastólasessur eru sérvaldar eftir þörfum, t.d. ef bæta þarf setstöðu, minnka líkur á þrýstingssárum,

 • við afhendingu stóls er þess gætt að hann sé rétt stilltur og aðlagaður að þörfum/líkamshlutföllum íbúans,

 • eftirlit/endurmat á þörf fyrir breytingum stóls/nýjum stól eru gerðar eftir þörfum.

  Auk þessa sinnir iðjuþjálfi léttari viðgerðum og breytingum á hjólastólum, en sendir þá til Hjálpartækjamiðstöðvar T.r. ef um stærri breytingar/viðgerðir er aðræða.

  Að meðaltali síðustu ár  nota 45-55%  íbúa hjólastól að staðaldri og 8-10  að auki til að fara lengri vegalengdir.  Það hefur mikla þýðingu að velja “réttan” stól fyrir hvern íbúa. Fylgja þarf líkamshlutföllum hans, velja stól sem styður við/eflir færni hans, t.d.huga að hæð á stól/borði við að matast, hæð frá gólfi/sessu við að aka sjálfur, sessa til varnar þrýstingssárum, stuðningur við bol/háls. Þyngd stóls skiptir máli ef íbúi ekur stólnum sjálfur; hægindahjólastólar geta stutt við aukin félagstengsl og fleira í þessum dúr þarf að huga vel að.

Yfirmaður iðjuþjálfunar í  Sóltúni er Guðrún Hildur Einarsdóttir, sími 590 6111. Tölvupóstur: gudrunhe (hja) soltun.is

null