Gæðastaðlar

Gæðastaðlar hjúkrunar

Dysss´is (The Dynamic Standard Setting System) gæðastaðlar byggðir á hugmynda- og aðferðafræði Avedis Donabedians og Dr. Alison Kitson eru settir fram um lykilatriði í hjúkrun aldraðra s.s. geðheilbrigði, næringu, útskilnað, verkjameðferð, lyfjanotkun, notkun öryggisútbúnaðar, persónulega hirðingu, tannvernd, húðheilsu, hreyfingu, afþreyingu, og öryggi í eigin íbúð. Gæðastaðlarnir innihalda markmiðslýsingu þ.e. að hverju er stefnt, uppbyggingarviðmið þ.e. hvað þarf til að staðli sé náð, framkvæmdarviðmið þ.e. hvað þarf gera til að staðli sé náð, og árangursviðmið sem lýsa þeim árangri sem ná á, á mælanlegan hátt. Gæðastaðlarnir eru unnir af starfsfólki sem nota þá síðan sem leiðarljós í starfi, þeir eru skráðir og eru liður í aðlögun nýrra starfsmanna sem og til innra eftirlits á gæðum þjónustunnar.

Gæðastaðlar þjálfunar

Sjúkraþjálfarar hafa lögverndað starfsheiti frá heilbrigðisráðherra og starfa samkvæmt Evrópskum stöðlum um sjúkraþjálfun sem unnir voru af Evrópudeild heimssambands sjúkraþjálfara og samþykktir á aðalfundi þess í maí 2002. Í Evrópsku stöðlunum er fjallað um samvinnu og þagnarskyldu við sjúkling, skoðun og meðferð sjúkraþjálfara, greiningu sjúkraþjálfara á vandamáli sjúklings, meðferðaráætlun og framkvæmd hennar, mat á meðferð sjúkraþjálfara, samskipti við umönnunaraðlila og annað fagfólk, skráningu sjúkraþjálfunar, öryggi sjúklings, og símenntun sjúkraþjálfarans.

Útbúið er sérstakt gæðaeftirlit sjúkraþjálfunar s.s.varðandi einstaklingsmeðferðir og hópleikfimi þar sem skrá er haldin svo meta megi gildi og árangur þjálfunarinnar.

Samskonar gæðakerfi er svo meta megi árangur iðjumeðferðar af hálfu iðjuþjálfunar. Mat er m.a. birt í skorkorti. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfi eru virkir þátttakendur í þverfaglegri gæðateymisvinnu. 

Gæðakerfi læknisþjónustu

Við samning um læknisþjónustu er sértaklega gætt að gæðakerfi hennar sé lýst í samningnum svo meta megi árangur læknisþjónustunnar. Gæði læknisþjónustunnar verða einnig metin út frá niðurstöðum gæðavísa. Samningur er við Heilsugæsluna Höfða um læknisþjónustu.

Verksvið læknis á hjúkrunarheimili er lýst í grein í Læknablaðinu

 

Lyfjagæðahandbók Sóltúns

Sóltún var fyrsta heilbrigðisstofnunin hérlendis til að setja fram stefnu í lyfjamálum. Meginatriði stefnunnar er að lyfjameðferð sé gagnleg, örugg og hagkvæm. Sett var fram lyfjahandbók sem skilgreinir vinnuferla um reglubundið mat á árangri lyfjameðferðar

Lyfjagæðahandbók

Reglulega er fylgst með niðurstöðum lyfjagæðavísa hjá Embætti landlæknis. Þar kemur fram að þar sem munur milli hjúkrunar- og dvalarheimila getur verið nokkur þegar kemur að sjúkdómatíðni og ekki síst áherslum í lyfjameðferð og forvörnum er ekkert eitt viðmið sem gildir. Með því að fylgjast með þessum gæðavísum reglulega verða til viðmið sem eiga við um aðstæður á hjúkrunar- og dvalarheimilum hér á landi. Mjög mikilvægt er að upplýsingar frá einstökum stofnunum séu samanburðarhæfar og því er nákvæm lýsing á því hvaða ATC-númer eru notuð og hvernig þau eru notuð við að kalla fram upplýsingar um hvern gæðavísi. Þetta er t.d. mikilvægt þegar verið er að skoða notkun á heilum flokki lyfja eins og geðrofslyfjum og svefn- og róandi lyfjum.
Ítrekað skal að gerð lyfjagæðavísa er enn á frumstigi hérlendis og að viðmið sem gefin eru eða skýringar eru ekki leiðbeiningar um notkun lyfjanna né eftirlit með notkun þeirra heldur það sem sammælst hefur verið um að séu lágmarkskröfur.

Upplýsingasíða frá Embætti landlæknis um lyfjagæðavísa