Danskir þemadagar í Sóltúni

10.11.2005 10:54

Síðastliðinn þriðjudag héldum við starfsfólk og íbúar danskan dag.Tilgangurinn var að breyta til, skemmta okkur og auka á lífsgleði okkar allra. Skreytt var með danska fánanum. Við byrjuðum daginn með að fá rúnstykki með spægipylsu. Síðan var ýmislegt á dagskránni s.s. hlustað á danska tónlist og sungið. Einnig var ýmiss upplestur, fróðleikur um Danmörk, ævintýri um HC Andersen að ógleymdu spjalli um konungsfjölskylduna. Áður en sest var að snæðingi las Jón djákni borðbæn á dönsku ,,Herre, velsign os og disse gaver som vi skal modtage af Din milde godhed ved Kristus vor Herre. Amen.Hann fór líka með passíusálm sem þýddur var á dönsku af Birni Sigurbjörnssyni ,,Gud fader, vær med fader sind, i Jesu navn min fader, led mig ved hånden ud og ind, så synden aldrig skader." Á matseðlinum var ekta danskt hlaðborð; Síld, frikkadellur, hönsesalat,Rauðkál, rauðbeður, kartöflusalat og gróft brauð. Með því drukkið pilsner og Gammel dansk. Í lokin var horft á danska bíómynd. Í kaffinu voru sérbökuð vínabrauð – að hætti Dana og kvöldverðurinn samanstóð af steiktri rauðspretta með remólaði, salati og kartöflum. Kaldur búðingur var í eftirrétt. Öllum ber saman um að vel hafi tekist til. Íbúar létu í ljós mikla ánægju með þessa tilbreytni og mátti sjá einstaka íbúa stíga dans undir ljúfum tónum Kim Larsen.

til baka