Í boði Laugarnessafnaðar

07.11.2005 11:41

Allt frá því að Sóltún opnaði hefur Lauganessöfnuður boðið íbúum Sóltúns og fjölskyldum þeirra í guðsþjónustu í Lauganeskirkju á Allra heilagra messu og í kaffiveitingar á eftir. Það var engin undantekning á því þetta árið, um fimmtíu manns voru samankomir við fallega athöfn í Laugarneskirkju, þar sem framkvæmdarstjóri safnaðarins, Sigurbjörn Þorkelsson bauð fólk velkomið og leiddi upphafsbæn. Sóknarpresturinn, sr. Bjarni Karlsson predíkaði og þjónaði fyrir altari ásamt Jóni Jóhannssyni, djákna Sóltúns, félagar úr kirkjukór Laugarneskirkju leiddu söng. Að lokinni guðsþjónustu var haldið sem leið lá út á Grand hótel, þar sem biðu okkar kaffiveitingar. Þar áttum við notalega stund við samræður yfir veitingum og ekki skemmdi fyrir, að sr. Bjarni af sinni alkunnu snild fór á kostum með skemmtilegum frásögum og bröndurum. Í lokin kom sr. Bjarni inn á hið góða samstarf og vináttu, sem verið hefur á milli Laugarneskirkju og Sóltúns allt frá upphafi. Var það einlæg von hans að þannig mætti það vera áfram um ókomna tíð. Fyrir hönd Sóltúns steig Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri í pontu og þakkaði fyrir yndislega stund, bæði í kirkjunni og á Grand hóteli. Einnig færði Anna Birna, Eggerti Thorarensen bestu þakkir fyrir að útvega leigubíl, sem flutti okkur á milli staða.< Í lokin vil ég þakka íbúum, fjölskyldum þeirra og starfsfólki fyrir góða þátttöku.Jón Jóhannsson djákni.

til baka