Ítalskir þemadagar í Sóltúni

27.04.2005 11:31

Ítölsk stemning sveif yfir 1. hæðinni dagana 19. og 20. apríl síðastliðinn og var öll hæðin skreytt af þessu tilefni. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtu heimilismenn og starfsfólk sér mjög vel. Meðal annars var boðið var upp á upplestur á ítölskum smásögum, sýndar bíómyndir frá Ítalíu, hlustað á tónlist og að sjálfsögðu var maturinn ættaður frá Ítalíu. Fyrri daginn kom Michele Rebora frá Genova og sagði frá heimalandi sínu, en hann hefur verið búsettur hér í nokkur ár. Hafði hann frá mörgu að segja og voru íbúar almennt mjög ánægðir með heimsókn þessa. Seinni daginn komu nokkrar hressar konur úr Léttsveit Reykjavíkur ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur stjórnanda og Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara og sungu og skemmtu fólki með ítölskum lögum sem endaði í allsherjar fjöldasöng. Samstilltur hópur starfsmanna 1. hæðar og frábært starfsfólk eldhúss gerði það kleift að halda þessa hátíð. Þakklæti og gleði yfir velheppnuðum dögum eru efst í huga íbúa og starfsfólks sem bíða spenntir eftir næstu þemadögum. Þess má að lokum geta að áður hafa verið haldnir danskir og amerískir dagar í Sóltúni.

til baka