Ræktunarfréttir 2003- seinni hluti

12.11.2003 11:01

21. julí. Stillt veður, en rigning allan daginn og kom hún á góðum tíma því að ekki hafði rignt í marga daga. En sólfar verið mikið og mjög hlýtt. Kartöflugrösin orðin með því besta,sem gerist,en rófur og kál ekki eins þroskamikið. 31. júlí Hvass suðaustan, rigning öruhverju síðari hluta dagsins og kaldara en undanfarna daga. Síðara hluta dagsins lægði vindinn,en nokkur blóm við húsið höfðu brotnað og lagst útaf. Fyrir nokkrum dögum vakti athygli að blöð á einni káltegundinni í garðinum höfðu tekið á sig rauðbleikan lit og sum þeirra lágu flöt á jörðinni og virtust visnuð Sérfræðiþekkingu vantar til að vita hvað veldur. 1.ágúst. Breytileg vindátt,léttskýjað og sólskin frameftir degi, mjög hlýtt. Júlímánuður hefur verið mjög hlýr, oftast hæglætisveður, en flesta daga hefur rignt lítilsáttar. Oft hafa þó verið góðar sólskinsstundir. 2. ágúst. Hægviðri og léttskýjað, sólskin til hádegis, en spáð síðdegisskúrum.Nokkur ribsber voru sjáanleg. Að kvöldi sama dags.Sólin er búin að skína allan daginn, dökk skúraský eru á austurhimninum, en skúrirnar hafa ekki náð til okkar.Sólskin mældist í 13 klst. 3.ágúst. Vakin var athygli á hinum fölnuðu kálblöðum og var helst talið að þurrki væri um að kenna.Tóku konur til sinna ráða. Báru nokkrar könnur af vatni og vökvuðu beðin. 6. ágúst Farin var skoðunarferð að matjurtagarðinum og reyndist það vera blómkálið sem fölnað hafði. Allt blómkálið var skorið af rótinni, 6 af 8 hausum var hent. Þeir voru óætir, en 2 hausar hirtir og farið með þá í eldhúsið ásamt dálitlu af salati, grænkáli og graslauk, hluti af gulrófu fylgdi með. Hinn hlutinn hafði verið snæddur á staðnum. Álitið var að tími væri komin til að skera upp rabbarbaran. Forvitnilegt væri að fara að skoða kartöfluvöxtinn. Ef veður helst hlýtt áfram er ráðlegt að bíða með aðal uppskeruna. 7. ágúst. Í dag er skýjað og úrlit fyrir rigningu seinni partin. Í garðskálanum höfðu kóngulær numið land og skift um veiðistað nokkrum sinum. Nú síðast hafði ein spunnið vef í dyrunum og var sú mikil vexti og skaut fólki skelk í bringu. Nauðug var hún flutt út fyrir lóðamörkin, en virtist ekki kunna skil á landamerkjum. 13. ágúst. Sólskin og hiti allan daginn, breytileg vindátt, en stillt veður. Undanfarnadaga hefur rignt mikið og ætti gróðurinn að hafa fengið næga vökvun. 14. ágúst . Í morgun var farið í matjurtagarðinn og mestur hluti rabbarbarans skorin upp, en leggirnir þóttu í grennra lagi, þess ber þó að gæta að þetta er vínrabbarbari,en álitið var að meiri áburð hefði þurft. Farið var með uppskeruna heim að kaffiteríu , þar sem hún var vegin og reyndist vera 700 gr. Leggirnir voru brytjaðir, en verkið gekk seint því að ekki voru hentugir hnífar fyrir hendi. Ákveðið var að útvega betri hnífa fyrir næstu uppskeru. Eftir töluvert erfiði var soðin grautur úr afurðinni og snæddur samstundis af þeim sem viðstaddir voru, eða höfðu tekið þátt í athöfninni.Okkur var gefinn rjómi út á grautinn og var þetta hið mesta lostæti. 16. ágúst. Eins og oft áður freistaði matjurtagarðurinn. Rófu var kippt upp og fengu nokkrir að bragða. Lostætið fékkk óspart lof. 18. ágúst. Afmælisdagur Reykjavíkur. Þau tíðindi gerðust að í tilefni afmælisins heiðraði Borgin Sóltún með viðurkenningu á fallegum garði umhverfis húsið og smekklegu gróðurvali. Að sjálfsögðu vöktu tíðindin gleði hjá íbúum og starfsfólki hússins. Haft var á orði að þörf væri á að snyrta beðin og reita arfa. 21. ágúst. Að aflokinni sjúkraþjálfun bauð þjálfarinn sjúklingnum í gönguferð um garðinn. Eins og gera má ráð fyrir gekk sjúklingurinn ekki langt, en þjálfarinn tók á sig erfiðið og ók honum langan veg. Ekki var staðar numið fyrr en við matjurtagarðinn. Sá gamli í stólnum var samur við sig og að hans áeggjan var einni rófu kippt upp og farið með hana heim í hús, en segja má að farin hafi verið sneipuför því að rófan reyndist sýkt og var óæt. Þegar hún var skorin í sundur kom í ljós að hún var dökk og morkin að innan. Ráðgert var að fara aðra ferð seinna. 10.september. Sóltúnskartöflur. Grænmeti og fiskréttur í matinn um hádegi. Í hvassviðri eftir hádegið fór foringi gróðurhópsins ein síns liðs að reitinum sem kartöflur höfðu verið teknar úr daginn áður. Hún jafnaði moldina í reitnum og kom þar fyrir potti með græðlingi af sólberjarunna úr Skipasundi. Slæmt að hún skildi þurfa að vera ein að verki. 11.september. Ber af 10 metra háu reynitré í Skipasundi voru tínd af greinum sem klipptar höfðu verið af trénu. Eftir að berin höfðu verið tínd af greinunum voru þau marin svo að opið væri inn að aldininu og síðan var berjunum dreift yfir mold í bakka.Vikursandi var síðan dreift yfir og bakkanum komið fyrir í garðskálanum. 15.september Ákveðið var að hittast kl. 14.00 við matjurtagarðin og taka upp kartöflur. Ekki mættu þó margir vinnufærir á staðinn og hvíldi mestöll vinnan á einni konu. Tekið var upp úr rúmlega einu beði og var þyngd uppskerunnar áætluð 20 kg. Þar af voru 4 kg úsæði tekin frá. 16. september. Góðviljuð kona ók einum gamlingjanum hringferð í garðinum. Að venju var staðnæmst við rófnabeðið, einni kippt upp og farið með hana heim í hús og fengu nokkrir bita. 25. september. Árla dags hófu tvær áhugasamar konur störf við uppskeru á því sem eftir var. Kartöflurnar voru áætlaðar 30 kg. Og af því voru teknar frá nokkrar útsæðiskartöflur til viðbótar því sem áður var búið að taka frá. Alls mun kartöfluuppskeran hafa verið 64 kg. Það sem eftir var af rófunum og mætti áætla að það hafi verið 5 kg. Áhorfendur voru nokkrir og skemmtu sér við að horfa á aðra vinna. Nokkrir kálhausar voru einnig skornir upp. Farið var með uppskeruna í eldhúsið í kjallaranum. Eftir nokkra daga fengum við Sóltúnskartöflur í matinn. Sumarið sem nú er að enda hefur verið sérstaklega hlýtt og hagstætt fyrir allan gróður. 30. september. Einum gamlingjanum barst gjöf frá kokkunum í eldhúsinu.Var það kartafla svo undarlega vaxin að líkja mætti við myndastyttu. En tæplega er hún í samræmi við vöxt kvennanna í eldhúsinu. Fyrir hönd gróðurhópsins Sigurjón

til baka