11.okt. 2002

Íbúar og starfsmenn í Sóltúni hafa undanfarnar vikur notið haustverka. Kartöfluuppskeran var góð, og er búið að taka frá í útsæði fyrir næsta vor. Nýuppteknar karföflur með hýði þóttu afbragð með matnum. Vinsælt var að gera rabbabarasultu úr rabbabaranum og þurfti að fá viðbótarrabbabara frá velunnurum til að mæta eftirspurn meðal íbúa. Sultukrukkur voru skreyttar og merktar. Annað grænmeti úr matjurtargarði Sóltúns hefur einnig smakkast vel. Íbúar Sóltúns hafa þessa dagana verið í sláturgerð þar sem reyndar hendur hafa töfrað fram slátur eins og það gerist best. Haustið er einnig tími menningar og lista. Nýlega fór hópur að sjá Gestinn í Borgarleikhúsinu. Aðstaða leikhússins til að taka á móti íbúum heimilisins er til fyrirmyndar. Upplestur bóka er reglulegur viðburður og nýtur það vinsælda að fá höfunda þeirra bóka sem lesið er uppúr í heimsókn til að spjalla við íbúa. Höfundar hafa tekið því vel og eru þeim færðar þakkir fyrir. Sóltúnsbíllinn er sem áður afar vinsæll og fór nýverið hópur héðan í Skálholt. Haustlaukar verða settir niður á næstu dögum og haustfagnaður er í undirbúningi.

til baka